Créme brulée
Það sem til þarf er:
F. 6
4.2 dl rjómi
1 dl mjólk, ekki létt mjólk
1 vanillustöng
5 stórar eggjarauður, eggjahvíturnar eru geymdar og notaðar seinna eða frystar
50 gr. hrásykur, eða Golden granulated sugar
Ég held að Créme brulée sé uppáhalds eftirréttur mjög margra. Hann er það allavega hjá mjög mörgum í minni fjölskyldu. Ég hef verið að gera þessa uppskrift í mörg ár og veit þess vegna hvað hún er einföld og alveg skotheld. Ef þú hefur einhverjar efasemdir, finnst svona eftirréttur flókinn, þá segi ég bara þetta við þig, hún er mjög einföld og þægileg, sláðu til, þú sérð ekki eftir því. Eitt til að hafa í huga, ég hef eftirrétti sem eru í einstaklingskömmtum alltaf í minni kantinum, reikna frekar með að einhverjir fái sér tvo minni skammta og sumir bara einn, fer eftir því hversu þungur maturinn var á undan maður borðaði mikið af honum. Svo er annað skálar eru misstórar, ég geri 1 1/2 uppskrift fyrir mitt fólk og við erum 12 fullorðnir og það magn fer í 14 litlar skálar, en þú skoðar hvað á við hjá þér :-)
Svona geri ég:
Undirbúningur: Ofninn er hitaður í 160°C. 6 eldfastar skalar sem taka rúman 1 dl hver, eru komið fyrir í djúpu steikarfati eða eldföstu fati með háum köntum. Rjóma og mjólk er hellt i rúmgóðan pott. Vanillustöngin er klofin eftir endilöngu og kornin skafin út með bakhliðinni á hnífsblaði og sett í pottinn ásamt stönginni sjálfri. Eggjarauðurnar og sykurinn er sett í hrærivélarskál og þeytt létt og ljóst, á frekar litlum hraða. Rjómablandið er hitað að suðu, um leið og þú sérð loftbólur í rjómanum er potturinn tekinn af hitanum og hann látinn standa í smástund til að leyfa vanillunni að trekkja vel í heita rjómanum. Honum er hellt í þeyttu eggjarauðurnar og þeytt í á meðan með handpísk, en ekki alltof öflugt, svo það myndist ekki miklar loftbólur í leginum, öll fræin eru skafin úr pottinum í rjómann. Stór skál með góðum stút til að hella úr, er gerð klár með fínu sigti yfir. Rjómablöndunni er hellt í gegnum sigtið og skafið vel úr skálinni. Froðan sem myndast efst á blöndunni er skafin af, með stórri skeið og sett til hliðar (ég lít á þetta sem mín verðlaun :-) síðan er hrært rólaga í blöndunni. Blöndunni er hellt í skálarnar í fatinu, næstum því alveg upp að efstu brún (hún sígur aðeins niður við eldun). Síðan er álpappír settur yfir hverja skál og hnifsoddi stungið 2-3 í hann til að mynda loftgöt.
Bakstur: Stór kanna fyllt með sjóðandi vatni úr krananum, er gerð klár. Fatinu er stungið í ofninn og vatninu er hellt í það, það mikið að það nái allavega nærri 2 cm uppá skálarnar, passa að hella ekki á skálarnar sjálfar. Bakað í ofninum í 30-40 mín., þar til blandan er bökuð, en enn mjúk og hlaupkennd ef þú hristir eina skál varlega. Tekið úr ofninum og skálarnar teknar upp úr fatinu með góðum töngum og látnar kólna á bökunargrind. Þegar þær eru algera kaldar, eru þær settar óvarðar í ísskápinn og látnar kólna alveg. Ef þú setur plast ofan á skálarnar, á meðan það er einhver ylur í þeim, svitnar yfirborðið og þá er erfitt að fá sykurinn til að bráðna og brúnast og meiri hætta á að hann bráðni eða linist upp, áður en skálarnar fara á borðið. Þegar þær eru alveg kaldar, er plast filma sett yfir þær og geymdar þar til á að nota þær. Þetta má gera 1-2 dögum áður en á að bera þær á borð.
Framsetning: Þegar kemur að því að brenna sykurinn, er lang best að nota Golden granuleted sugar, hann fæst í Hagkaupum. Það er mjög lítill vökvi í honum svo hann brúnast vel og helst harður lengur en hvítur sykur, sem ég mundi alls ekki nota, frekar hrásykur. Passaður að hafa logsuðutækið á hreyfingu á meðan þú brennir, svo það komi ekki brunablettir í yfirborðið. Þegar búið er að brenna sykurinn, má ekki breiða yfir skálarnar plast. Borið á borð og notið í botn. Gleðilega hátíð