Apabrauð

Það sem til þarf er:

F. 4-5 

Kanilsykurinn:

1/4 bolli púðursykur

1/4 bolli hrásykur

1 1/2 tsk. kanill

1/8 tsk. múskat

6 msk. smjör, brætt + meira til að smyrja formið með

Brauðið:

1/2 kg. tilbúið pizzadeig frá Shake&pizza (tæplega  tvö deig)

Glassúr:

1/3 bolli flórsykur

2 tsk. mjólk

Sumar á suðurlandi, þvílíkt stuð....... súld, rok og rigning, geggjað... og þið með krakkana eða barnabörnin í sumarfríi, kannski í sumarbústað einhversstaðar, tilbúin að njóta, en nei, heldur betur ekki.  Það getur verið áskorun að finna eitthvað skemmtilegt að gera, á þannig dögum, sérstaklega ef þeir koma  margir í röð.  Hér er á ferðinni apabrauð sem er mjög skemmtilegt að búa til, með litla fólkinu og hella sér svo yfir það og borða þegar það er ný bakað og enn volgt.  Snilldin við þetta apabrauð er, að það er búið til úr tilbúnu pizzadeigi, svo það minnkar fyrirhöfnina töluvert, bara það skemmtilega eftir.  Það þurfti svo sannarlega ekki að reka á eftir brauðbitunum ofan í litla fólkið, ekki heldur okkur eldra liðiðnu.   Sumir borðuðu brauðið með sínu sniði, eins og Eva Rut litla, 2 ára, sem vildi endilega hafa tómatsósu með sínum bitum, en, ég mæli ekki með því.. :D  Þau eldri, Andri Hrafnar 9 ára, Guðjón Feyr 7 ára og Eydís Líf 4 ára, slepptu því.   Endilega prófaðu að búa til apabrauð með litla fólkinu þínu, þú verður ekki fyrir vonbrigðum :-)

Svona geri ég:

Kanilsykurinn: Öllu hráefninu er blandað saman í flatbotna skál.

Brauðið:  Pizzadeigið er tekið úr ísskápnum 1-2 klst., áður en á að baka úr því.  20 cm form með háum köntum, er smurt vel að innan, með smjöri (ég á ekki þannig form, (þarf að fá mér það), heldur notaði ég spring form, en þá þarf að vera álpappír undir forminu á meðan bakað er, svo sykurinn leki ekki í botninn á ofninum og brenni þar).  Deigin eru unnin hvort í sínu lagi.  Þú byrjar á því að dusta af því eins mikið og þú getur af mjölinu, sem er í botninum á formin sem það kemur í.  Það er síðan togað út í 15 cm ferning, sem er klipptur með hreinum skærum í tvennt, síða er hver helmingur klipptur í 3 hluta, svo þú átt að vera með 6 lengjur.  Hver lengja er síðan klippt 6 jafna bita, svo þá ertu komin með 36 bita af deigi.  Hverjum bita er síðan velt upp úr brædda smjörinu og síðan upp úr kanilsykrinum.  Bitunum er raða þétt í formið.  Plast filma er sett yfir formi og brauðið látið hefast í 1 1/2 - 2 klst., á volgum stað.  Bakað í 180°C heitum ofni, í um 25 mín., eða þar til brauðið er ljós gyllt og fullbakað.  Tekið úr ofninum og látið kólna i 5 mín., ekki lengur, þá er brauðinu hvolft á disk og látið kólna í um 10 mín., síðan er glassúrinn látinn leka í röndum yfir brauðið.  Nú má hella sér yfir apabrauðið og borða það, meðan það er enn volgt.

Glassúr:  Flórsykri og mjólk er hrært saman í lítilli skál.

Verði þér að góðu :-)

Frábært að búa til með litla fólkinu og rosa gott að borða ❤️