Sveppa steikarsósa
Það sem til þarf er:
F. 4
250 gr. kastaníu sveppir, þvegnir og skornir í sneiðar
3 msk. smjör
1 skarlottulaukur, saxaður mjög fínt
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
1/2 tsk. þurrkað timían
1 msk. tómat mau
1 tsk. nautakrafts duft frá Oskar
1 tsk. hreindýrakraftur í dufti frá Oskar
1/2 bolli vatn
1/3 bolli Marsala vín
3 msk. rjómi
2 msk. fínt söxuð steinselja
Frábær með öllum steikum
Þessi er frábær, skal ég segja þér. Gamla góða rjómasveppasósan er mjög góð, enginn a setja hana niður, ennnn... þessi er allt önnur Ella. Hún passar frábærlega með góðri steik, nauta eða lamba. Endilega prófaðu sósuna þú verður ekki fyrir vonbrigðum ;-)
Svona geri ég:
Það er best að gera sósuna í tveim þrepum. Fyrst eru sveppirnir, síðan eru steikurnar steiktar í sömu pönnu, síðan er sósan kláruð á meðan steikurnar eru hvíldar.
Sveppirnir eru steiktir á góðum hita, í smjörinu, síðan eru þeir teknir af og steikurnar steiktar á pönnunni. Síðan er skarlottulaukurinn brúnaður létt á pönnunni, það má bæta smjöri á pönnuna ef hún er of þurr. Síðan er sveppunum ásamt öllum safa af þeim bætt á pönnuna og öllu blandað saman. Saltað, piprað og timíaninu bætt við. Tómatmaukinu er bætt á pönnuna og því leyft að steikjast aðeins, áður en því er blandað við sveppablönduna. Síðan er kjötkraftinum bætt út á ásamt vatninu og víninu og látið sjóða saman, þar til þykknar. Þá er rjómanum bætt út í og steinseljan sett út í, í lokin. Borin heit á borðið með steikunum.