Pistasíu pralín

Það sem til þarf er:

2 miðlungsstórar krukkur

250 gr. pistasíukjarnar, ekki saltaðar

125 gr. sykur

35 gr. vatn

60 gr. möndlur, malaðar fínt

5 dropar möndludropar

1 msk. bragðlítil olía, kannski aðeins meira (sólblómaolía)

Ég ákvað að skora mig á hólm og prófa franska uppskrift af vatnsdeigsbollum með pistasíum mousseline kremi og craquelin hjúp ofan á bollunum. Ef þú hefur skoðað útstillingarnar í bakaríunum í París, hefur þú örugglega komið auga á þessa fögru og gómsætu dásemd. Hér á landi er ekki hægt að kaupa pistasíu praline, mér vitanlega, svo ég fór að stúdera uppskriftir af því og fann nokkrar sem ég pældi í og setti svo saman, það sem mér fannst koma best út og gerlegt að búa til, án alltof mikillar fyrirhafnar. Eina sem er nauðsynlegt að eiga er sykurhitamælir. Þetta var skemmtilegt verkefni, sem ég var rosalega stolt af að hafa komist í gegnum, það var reyndar ekkert rosalega erfitt ;) Endilega skoraðu þig á hólm, ef þú ert hrifin af pistasíum :-)

Svona gerði ég:

Ofninn er hitaður í 150°C. Pistasíurnar eru settar á pappírsklædda ofnplötu. og bakaðar í ofninum í 15 mín., kældar. Geymdu plötuna með pappírnum til að nota aftur. Vatn og sykur er hitað þar ti sykurmælirinn sýnir 120°C, án þess að hræra í því. Hnetunum er bætt út í og hrært í þar til sykurinn hefur bráðnað aðeins og þornað á hnetunum, hellt á plötuna með pappírnum og aðeins dreift úr þeim með tréspaða eða sleif, kælt. Þegar hneturnar eru kaldar eru þær brotnar aðeins upp og stungið í matvinnsluvél eða sterkan blandara, ásamt möluðu möndlunum og möndludropunum og maukað þar til olían í hnetunum fer að pressast úr þeim og gera maukið mjúkt, má bæta aðeins að olíu út í til að hjálpa til við vinnsluna. Þú gætir þurft að stoppa blandarann á milli, ef hann fer að hitna, þetta tekur smá stund. Sett í glerkrukkur og geymt í ísskáp þar til á að nota það. Pralinið er hægt að nota i mousseline krem á vatnsdeigsbollur eða blanda því u í þeyttan rjóma til að búa til gott krem á köku, eða út á ís.

Verði þér að góðu :-)

Bravo 💚🙌🏻