Bakaðir tómatar með osti og eggi

Það sem til þarf er:

F. 4

4 stórir buff tómatar

1 1/2 bolli dags gamalt skorpulaust brauð, í litlum kubbum

90 gr. fín rifinn Grana Padano ostur eða Parmesan ostur

2 msk. fín söxuð steinselja

3 msk. kaldpressuð ólívu olía

2 tsk. oreganó

1 tsk. salt

Nýmalaður svartur pipar

4 egg

Lauflétt og ljúft, hvort sem er smáréttur eða léttur kvöldmatur, smellpassar á grænu og léttu dögunum, þegar við erum að spara við okkur kjötið.

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 180°C. Eldfast fat er smurt að innan með 1 msk. af ólívu olíu. Tómatarnir eru þvegnir og þerraðir vel. Toppurinn er skorinn ofan af þeim og settur til hliðar. Allur safi og kjöt er skafið innan úr tómötunum, með skeið, ofan í sigti, með skál undir. Síðan er eins mikill vökvi og hægt er, pressaður í gegnum sigtið og vökvinn settur til hliðar. Brauðmolarnir eru settir í aðra skál og helmingnum af ostinum, ásamt steinseljunni, 1 tsk. af oreganó, 2 msk. af ólívu olíunni, 1/2 tsk. salti og smávegis af svörtum pipar og blandað vel saman við þá. Tómatabotnarnir eru settir í formið og saltaðir að innan með restinni af saltinu. Brauðið er sett ofaní tómatana og þjappað niður í þá og mótuð dæld í miðjuna fyrir eggið, án þess að þeir rifni. Tómatsafanu er hellt í botninn á fatinu, ekki á tómatana. Álpappír er settur yfir fatið og bakað í ofninum í 15 mín. Þá er fatið tekið úr ofninum og egg brotið ofan í hvern tómat og restinni af ostinum og oreganóinu, dreift yfir þá. Fatinu er stungið í ofninn án þess að hafa álpappírinn á og bakað áfram þar til eggin eru bökuð, en eggjarauðan ennþá fljótandi, ca. 10 mín. Borið á borð heitt, með grænu salati með smá ólívu olíu- og edik slurk yfir.

Verði þér að góðu :-)

Létt og ljúft 🍅