Caviar og Búbblur

Það sem til þarf er:

F. 3-4

120 gr. 18% sýrður rjómi

3 vorlaukar, fínt saxaðir

1/4 tsk. nýmalaður svartur pipar

1/2 tsk. salt

3 egg, harðsoðin, grófsöxuð

8 sneiðar hvítt samlokubrauð

2-3 msk. mjúkt smjör

60 gr. svartur caviar í krukku

Um hávetur og í myrkri... þá er upplagt að gera vel við sig. Caviar og Búbblur eru toppurinn, ef þú ert hrifinn af caviar eins og ég. Ég á alltaf caviar í ísskápnum og finnst geggjað að para hann á klassíska háttinn með sýrðum rjóma og smá söxuðum lauk ofaná volga blini og glas af köldum búbblum í glasi. Er ekki upplagt að skella í svona lúxus samloku á vetrardegi. bara geggjað, endilega prófaðu?

Svona geri ég:

Sýrði rjóminn er hrærður upp í skál, söxuðum vorlauk er hrært saman við hann, ásamt salti og pipar. Eggin eru harðsoðin, skræld og gróft söxuð og sett á disk. Brauðið er ristað gyllt og smurt með mjúku smjöri á meðan það er heitt. Allar brauðsneiðarnar er smurðar með þykku lagi af sýrða rjómanum og eggjunum er síðan dreift ofan á 4 stk., síðan er caviarnum jafnað yfir eggin. Restin af smurðu sneiðunum eru lagar ofan á caviarinn, síðan er samlokunum þrýst létt saman, síðan eru þæ skáskornar í tvennt, settar á fat og bornar á borð með ísköldu freyðivíni.

Verði þér að góðu:-)

Dásamlegur lúxus 🥂🍾