Bollur með craquelin og pistasíu créme mousseline

Það sem til þarf er:

Ca. 10 stk.

Í bollur:

1.25 ml vatn

50 gr. smjör

Salt milli fingra

20 gr. sykur

75 gr. hveiti

2 egg

Í craquelin:

50 gr. hrásykur

50 gr. hveiti

45 gr. smjör

Grænn matarlitur, 1-2 dropar

Fyllingin:

1 skammtur La créme mousseline

100-140 gr. Pistasíu pralín 

Allt er vænt sem vel er grænt og græn er hún og líka væn.   Mér fannst mjög gaman að baka þessar bollur, með öllu tilstandnu sem því fylgdi.  Endilga prófaðu ef þú vilt fara aðeins út fyrir þægindarammann og gera eitthvað nýtt.  Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Craquelin: Ofninn er hitaður i 180°C. Bökunarplata með pappír er gerð klár. Það er gott að byrja á að gera sykurhraunið. Hrásykurinn, matarliturinn og smjörið er nuddað saman í skál með sleikju, síðan er hveitinu bætt útí svo úr verði mjúkur massi. Ein örk af bökunarpappír er sett á eldhúsborðið og massinn settur ofan á, önnur örk er svo sett ofan á massann og hann flattur út aðeins þykkari en krónupeningur. Hringur eða kökuskeri ca. 3 cm í þvermál er notaður til að skera út 10 hringi, ekki losa þá í sundur. Pappírinn er lagður aftur ofan á aftur og massinn geymdur í ísskáp þar til bolludeigið er tilbúið.

Bollur: Í meðalstórum potti er vatnið, smjör, sykur og salt, brætt og látið sjóða í 1-2 mín. Potturinn er tekinn af hitanum og hveitinu er hrært saman við vatnið, gott að gera það með sleikju. Þegar deigið er orðið samfellt er potturinn settur aftur á vægan hita og hrært í deiginu á meðan mesti rakinn gufar upp af því, 1-2 mín., gott viðmið er að þá fer að koma smá skán í botninn á pottinum. Deigið er sett í hrærivélina með spaðanum á og það er þeytt svo mesti hitinn gufi upp, einu eggi er þeytt vel út í og deigið látið samlagast vel, svo er hinu egginu þeytt saman við. Þeytt í svolítinn tíma, en þá er gott að stoppa í smá stund og skafa niður með hliðunum á skálinni og þeyta svo í smástund aftur. Deigið er sett í sprautupoka með víðum sléttum stút. Sprautað á plötuna með jöfnu millibili (ca. mandarínustærð). Fingur er vættur í vatni og totan á bollunni slétt niður. Þá er komið að craquelin-inu, einn hringur af því er lagður ofan á hverja bollu. Plötunni er stungið í ofninn og bakað í 30-35 mín. ATH. ALLS EKKI OPNA OFNINN FYRSTU 30 MÍN. Eftir 30 mín. má kíkja á bollurnar, ef þær eru ekki orðnar nokkuð gylltar og stökkar að utan þurfa þær að vera í 2-4 mín. í viðbót. Helstu mistökin sem ég hef gert er að opna ofninn of snemma og of lengi, eða að þær eru of ljósar þegar ég tek þær úr ofninum og eru þess vegna ekki nóg bakaðar og þurrar til að halda sér uppi. Þegar þú er viss um að þær séu fullkomnar eru þær teknar úr ofninum og settar á grind og kældar.

Fyllingin:  Það er nauðsynlegt að láta pralínið ná stofuhita um leið og  og mousseline kremið.  Þegar þú  býrð til mousseline kremið, bætið þú 100-140 gr. af pistasíu pralíninu, út í 150 gr. af mjúka smjörinu sem er þeytt upp í kremið eftir að það kólnar.  Bollurnar eru skorna í tvennt eftir endilöngu með beittum hníf.  Þegar kremið er tilbúið er það sett í sprautupoka og vænu skammti sprautað á neðri helming bollunnar, siðan er efri helmingurinn lagður varlega ofan á.

Verði þér að góðu :-)   

Fyrir hnetu unnandann 😍