Súrdeigsvöfflur og pönnsur

Það sem til þarf er:

Grunnurinn, hefaður yfir nótt:

1bolli grunnur

1 bolli súrmjólk (AB mjólk eða Kefir)

1 bolli hveiti

1 msk. púðursykur

Deigið:

1 stórt egg, þeytt

1/4 bolli brætt smjör

1/2 tsk. vanilludropar

1/2 tsk. salt

1 tsk. matarsódi

Þegar maður "matar" súrdeigsgrunninn en bakar brauð sjaldan, fer alltaf töluvert af grunni í súginn, nema maður safni honum saman og nýti hann í eitthvað. T.d. er hægt að búa til súrdeigsvöfflur eða pönnsur, sem mér finnast hreint frábærar. Það er hægt að nota þær hvort sem er, með sætu áleggi eða sem matar vöfflur, með t.d. spældu eggi, sveppum og nautasteik, steiktri skinku eða baconi, reykjum laxi, þeyttum rjóma og sultu, ávöxtum eða með köldu smjöri og sírópi. Ef þú bakar pönnsur úr deiginu, eru þær dásamlegar með hunangs leginni melónu, hráskinku og kóríander. Svo er frábært að bæta söxuðum jarðarberjum eða bláberjum út í deigið og borða þær beint af pönnunni með sírópi og köldu smjöri, eða dusta flórsykri yfir. Hugmyndaflugið ræður hvar þú stoppar :-)

Svona gerir þú:

Súrdeigsgrunninum, súrmjólkinni, hveitinu og púðursykri er hrært saman í skál. Plast er sett yfir skálina og hún látin standa á eldhúsborðinu yfir nótt. Deigið hefast og verður mjög létt og fullt af lofti. Þegar þú ætlar að baka úr deiginu, er smjörið brætt og kælt lítilega. Eggið er þeytt í skál, ásamt vanilludropunum, salti, matarsóda og smjörinu svo hrært út í. Þessu er síðan hrært út í grunninn. Vöfflujárnið er hitað og smurt að innan og ausa af deigi sett í járnið og steikt þar til vafflan er gyllt og gegnum steikt. Deigið er þykkara en venjulegt vöffludeig, svo það flýtur ekki um járnið svo það þarf aðeins meira af því í hverja vöfflu, ég nota um eina súpuausu í hverja vöfflu. Ef þú klára ekki deigið, þá er allt í lagi að geyma það í ísskáp þar til daginn eftir. Annars bornar á borð sjóðandi heitar og stökkar.

Verði þér að góðu :-)

Dásamlegt ❤️