Kanildúllur með súkkulaði

Það sem til þarf er:

Ca. 18-20 stk.

180 gr. hveiti

1 tsk. cream of tartar

1/2 tsk. matarsódi

1/4 tsk. salt

140 gr. smjör, mjúkt

150 gr. sykur + 2 msk.

1 stórt egg

1/2 tsk. vanilludropar

1 msk. kanill

100 gr. suðusúkkulaði

1 msk. rjómi

Þessar eru algjörir dúllurassar ;D Rosalega góðar smákökur, sem eru ættaðar frá USA eins og svo margar góðar smákökur en, með al-íslenskum útúrdúrum. Það er lítið mál að búa þær til og enn minna mál að gúffa þeim í sig. Prófaðu bara ;-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 190°C. Í meðalstórri skál er hveiti, matarsóda cream of tartre og salti blandað saman. Smjör og 150 gr. af sykri, er hrært létt og ljóst í hrærivél, gott að skafa niður með hliðunum á skálinni. Eggið er þeytt vel út í ásamt vanilludropunum, halda áfram að skafa niður með hliðunum á skálinni á meðan. Þurrefnunum er hrært varlega í smjörblönduna á lágum hraða þar til allt er vel blandað saman. Restinni af sykrinum, 2 msk. og kanilnum er blandað saman í litla skál. Bökunarplötur eru klæddar með bökunarpappír og kúlur á stærð við golfkúlur eru rúllaðar í lófanum og síðan velt upp úr kanilsykrinum og settar með jöfnu millibili (3-4 cm) á bökunarplöturnar. Bakað í ofninum í 10-12 mín., passa að ofbaka þær ekki. Þegar kökurnar koma úr ofninum, er skaftinu á sleif stundið varlega ofan í miðja köku, til að búa til holu fyrir súkkulaðið. Bökunarpappírinn með kökunum er dreginn af plötunni og kökurnar látnar kólna þar aðeins, áður en þær eru teknar af honum og látnar kólna alveg á grind. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði og rjómanum hrært út í þegar það er bráðið. Súkkulaðinu er leyft að kólna aðeins, síðan er holan fyllt með súkkulaði, gott að gera það með teskeið. Kökurnar eru látnar standa á grind þar til súkkulaðið er stirnað. Settar í box með loki.

Verði þér að góðu :-)

Dúllurassar 🥰