Flórentínur með súrum kirsuberjum, súkkulaði og salti

Það sem til þarf er:

ca. 25-30 stk.

75 gr. smjör

5 msk. hrásykur

3 msk. sýróp

3 msk. hveiti

150 gr. salthnetur, grófsaxaðar

50 gr. möndluflögur

40 gr. þurrkuð  súr kirsuber,  fínsöxuð

100 gr. hvítt rsúkkulaði

50 gr. suðusúkkkulaði

Gróft salt 

Flórentínan hefur alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér.  Það eru ýmsar sögur til um hvaðan þessi kaka er uppruninn.  Að hún sé frá  Flórens, hljómar sennilega, vegna nafnsins, en hún er ekki þaðan. Heimildir um hana er hvergi að finna í matreiðslubókum frá Toskana eða í rituðum heimildum sem til eru, um eftirrétti og kökur Flórens og héraðanna í kring.  Þær heimildir segja að kökur og sætabrauð héraðsins hafi verið frekar matarmikið, alls ekki fíngert og nett eins og þessar kökur.  Sú saga, að hún sé ættuð frá Frakklandi, er sjálfsagt líklegust.  Ef maður skoðar gerð kökunnar, fínleika hennar og hvað hún er sæt, rennir að enn frekari stoðum undir það ætterni.  Franska sagan segir að kökugerðar meistarinn, við hirð Lúðvíks 14, hafi búið til þessa köku fyrir konung, til heiðurs Medici ættarinnar frá Flórens, en þau heimsóttu konung í Versali. Medici ættin voru skyldmenni konungs, því Cathrine de´ Medici hafði verið gift Henry 2 Frakklands-konungi og voru því sterk tengsl milli Lúðvíks 14 og Medici ættarinnar. Sagan segir að kakan hafi verið skírð „Flórentína“  þeim til heiðurs.

En, að kökunni sjálfri, eins og ég sagði er hún fínleg og karamellan í henni er eins og handgert brúðarslör og hún er líka mjög sæt.  Hún er búin til úr nokkuð jöfnum hlutföllum af sykri, sírópi og smjöri með smá hveiti svo hún hangi saman.  Út í sykurmassann var bandað söxuðum hnetum, venjulega möndlum, þurrkuðum sítrusberki og kirsuberjum,  en á botninum var hún þakin súkkulaði.  Eins og heyrist á hráefnunum var það ekki á allra færi að bjóða upp á slíkan lúxus á 16 öld.  En, kakan lifði  góðu lífi og  enn þann dag í dag  þykir hún vera svolítill lúxus.  Það eru ýmsar skoðanir á því og sumar nokkuð ákveðnar, um hvaða hnetur á að nota eins hlutföllin af sykri og smjöri til að vera eins nærri upphaflegu kökunni og hægt er.  En, allt þróast með tímanum og smekkur sérhvers bakara ræður í hans eldhúsi, þegar hann býr til sína útgáfu af þessari undurgóðu köku.  

Nýjasta útgáfan mín af fransk ættuðu Flórentínunni, er að mestu leyti úr jarðhnetum, með svolitlu af möndluflögum og þurrkuðum súrum kiruberjum, með dökku- og hvítu súkkulaði og smávegis af grófu sjávarsalti, sem gefa kökunni dýpra bragð og skera svolítið í gegnum sætleikann.  

En svona baka ég flórentinurnar:

Ofninn er hitaður í 180°C.  Ofnplötur gerðar klárar með bökunarpappír á. Smjörið og sírópið er hitað í potti með sykrinum þangað til sykurinn er bráðinn.  Þá er hveiti, hnetum  og súru kirsuberjunum blandað saman við.  1/2 tsk. af deigi er dreift með góðu millibili (þær renna töluvert) á bökunarplötu og bakað í ca. 7 mín. (ath. hitann á þínum ofni, þær dökkna fljótt). Kökurnar eru látnar kólna smástund áður en þær eru teknar af plötunni og kældar á grind.  Fyrst bræði ég hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og drussað því yfir kökurnar með teskeið, síðan dökka súkkulaðinu og í lokin grófa saltinu. 

P.s.  

Ef þú ætlar að geyma þær er gott að hafa smjörpappír á milli laga í kökuboxinu.

Verði þér að góðu :-)

Hættulegar!!! 😯