Súkkulaði bananabrauð

Það sem til þarf er:

1 bolli hveiti

1/2 bolli kakó

1 tsk. matarsódi

1/ 2 tsk. salt

4 stórir brúnir bananar, maukaðir

1/4 bolli smjör, brætt og kælt aðeins

1/4 bolli kókosolía, brædd og kæld aðeins

3/4 bollar ljós púðrsykur

1 egg, stofuheitt

1 tsk. vanilludropar

1 poki dökkir súkkulaðidropar frá Síríus, skipt í hluta

Já, það eru sannarlega óvenjulegir tímar sem við erum að lifa núna. Covid-19 flensan er búin að setja allt líf okkar eins og við þekktum það á hliðina, um óðákveðinn tíma. Þess vegna verðum við að gera okkur glaðan dag, halda í húmorinn og gera vel við okkur eins og við getum. Bananar eru yndislegir, en eiga það til að gleymast á borðinu og verða brúnir og ógirnilegir. En, enginn banani á það skilið að koma flugleiðina til Íslands og vera hent í ruslið þar. Þess vegna pörum við hann við súkkulaði og bökum dásamlegt súkkulaði bananabrauð. Þú séð hvert þetta er að fara......Namm, dásemd!!

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 180°C. 23x14 cm form, er smurt mjög vel að innan. Hveiti, kakó, matarsódi og salt er sigtað saman í skál. Bananarnir eru maukaðir með gaffli og út í þá er hrært bræddu smjöri, bræddri kókosolíu, púðursykri, eggi og vanillu og hrært þar til maukið er kekkjalaust og slétt. Þurrefnunum er blandað saman við, þar til allt er blandað vel saman, en passa að ofhræra ekki. Þriðjungi af súkkulaðidropunum er blandað saman við deigið. Deiginu er hellt í formið og restinni af súkkulaðidropunum er dreift yfir. Formið er sett í miðjan ofninn og bakað í 50-60 mín., (ath. ofnar eru mis heitir) eða þar til prjónninn kemur nánast hreinn út þegar honum er stungið í brauðið. Látið kólna í forminu á grind í um 15 mín. Hníf er rennt meðfram forminu og brauðið tekið úr því, látið kólna á grind. Ef þú ætlar að frysta það er það kælt alveg og síðan pakkað vel í plast. Geymist á borði undir plasti í nokkra daga, ekki geyma í kæli. Dásamlegt að njóta á meðan brauðið er volgt með ís, rjóma og ferskum ávöxtum.....

Verði þér að góðu :-)

Splæstu í eitt í dag 🤗