Bláberja-hvítsúkkulaði múss pæ

Það sem til þarf er:

F. 8-10

Í botninn:

30 stk. vanillu kremkex, möluð mjög fínt í matvinnsluvél

5 msk. smjör, brætt

Í bláberja-hvítsúkkulaði mússina:

1 1/2 bolli bláber, fersk eða frosin  + aðeins meira til að skreyta með

2 msk. sítrónusafi (aðeins minna ef sítrónan er mjög súr)

2 tsk. fín rifinn sítrónubörkur

5 blöð matarlím

350 gr. hvítt súkkulaði

3 bollar rjómi, skipt

1/4 bolli flórsykur

Skraut:

1/2 bolli bláber

1 msk. sítrónusafi

1/4 bolli sykur

Þvílíkt berjasumar!!!  Ég er viss um að allar frystigeymslur landsmanna eru fullar af dásamlegum nýtýndum bláberjum.  Fátt er meira tilheyrandi á þessum árstíma, en að fá sér bláber í skál og hella vel yfir af rjóma og sykur ofan á.  Eða sulta.... namm namm og svo eru það allar bökurnar og kökurnar, svo frystir maður rest til að eiga þegar veturinn skellir á okkur.  En, það er alltaf gott að eiga góð vopn í vopnabúrinu.  Hér er ein viðbót, ein svakalega góð múss pæ, sem er auðvelt að búa til og algjör dásemd.  Það er hægt að gera hana tveggja daga fyrirvara, sem ég elska, svo er hún flott sem desert, eða hluti af kaffiborði.  Endilega prófaðu að nota bláberin þín í þessa um helgina.  Fjöllan á eftir að þakka þér fyrir.

Svona geri ég:

Botninn:  22 cm lausbotna form er gert klárt , með því að klæða það að innan með plastfilmu og sníða síðan bökunarpappír í botninn á því. Vanillukexið er sett í matavinnsluvél og malað fínt og smjörið brætt í potti.  Allt sett í stóra skál og blandað vel saman.  Mylsnunni er síðan hellt í formið og þjappað útí enda á því, jafnað út með glasi með flötum botni, kælt.

Mússin:  Bláberin eru sett í matvinnsluvél og maukuð og sítrónusafa og berki blandað útí.  Matarlímið er sett í skál með köldu vatni svo það fljóti vel yfir blöðin svo þau mýkjast vel.  Blöðin eru síðan tekin upp úr vatninu, látið leka vel af þeim.  Þau eru brædd yfir vatnsbaði þar til matarlímið er fljótandi. Bláberjamaukinu er helt yfir matarlímið og blandað mjög vel saman.  Súkkulaðið er brotið í mola og sett í stóra skál.  Suðan er látin koma upp á 1 bolli af rjóma, sem er hellt yfir súkkulaðið og hrært í þar til súkkulaðið er að mestu bráðið og svo blandað saman við berjamaukið, hrært í þar til súkkulaðið er alveg bráðið.  Skálinni stungið í ísskáp í 30 mín.  Restin af rjómanum er þeyttur með flórsykrinum, þar til hann er stífþeytttur.  1/2 bolla er blandað varlega saman við berja/súkkulaði blönduna, síðan er restinni blandað varlega saman við og hellt yfir botninn.  Forminu er stungið í kæli og látið standa óvarið í 1 klst.  Þá er plastfilma sett yfir og kælt í allavega 5 tíma eða í 2-3 daga.

Skraut:  Þegar þú ert tilbúin að bera pæið á borð, er gott að vera búin að setja smávegis af bláberjum í litla skál og velta þeim upp úr sítrónusafanum og síðan uppúr sykrinum.  Það er ágætt að leyfa berjunum aðeins að þorna svo sykurinn verði stökkur.  Pæið er tekið varlega úr forminu, plastið og pappírinn tekinn í burtu, sett á disk.  Ef þér finnst kanturinn á pæinu "hrukkóttur" eftir plastið, er gott að setja hníf með breiðu blaði undir heita vatnsbunu, í smátíma til að hita blaðið, þerra það og draga það síðan eftir kantinum, þá bráðnar mússin aðeins og jafnast út.  Skreytt með sykruðu bláberjunum og smávegis af fín rifnu hvítu súkkulaði.    

Verði þér að góðu :-)

Himneskt 🫐