Limoncello ostakaka

Það sem til þarf er:

f. 6-8

Í botninn:

200 gr. hafrakex

100 gr. heslihnetur

150 gr. bráðið smjör

Ostakremið:

4 blöð matarlím

500 gr. mascarpone ostur

1 dl Limoncello líkjör

1 vanillustöng

100 gr. sykur

Fínrig-finn börkur af 1/2 sítrónu

2 1/2 dl rjómi, þeyttur

Kandíseraðar sítrónusneiðar:

1 lífræn sítróna í mjög þunnum sneiðum

1/2 -1 dl sykur

Fullorðins og fersk ostakaka með heslihnetum í botninum og kandíseruðum sítrónusneiðum ofaná. Svooo dásamlegur eftirréttur, kannski með frosnu staupi af Limoncello, eða með kaffinu um helgina.

Svona geri ég:

Smelluform er klætt í botninn með bökunarpappír. Hafrakexið og heslihneturnar eru muldar í fína mylsnu í matvinnsluvél og blandað saman við brædda smjörið. Mylsnunni er svo jafnað yfir botninn á forminu og þrýst vel niður og útí ysta jaðarinn. Matarlímið er lagt í bleyti í kalt vatn. Mascarponeinn er þeyttur í hrærivél þar til hann er mjúkur, þá er kornunum úr vanillustönginni, sykri, sítrónuberki og limoncelloinu hært vel samanvið. Matarlímið er brætt yfir vatnsbaði, tekið af hitanum og 1-2 msk. af ostakreminu hrært útí skálina með matarlíminu til að kæla það aðeins. Síðan er því þeytt útí kremið og að lokum er rjómanum hrært útí. Hellt yfir botninn og kælt í minnst 2 tíma. Sítrónan er þvegin vandlega og skorin í mjög þunnar sneiðar, sem eru settar í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma rólega upp og sneiðarnar látnar malla í dálitla stund, eða þar til þær eru meyrar og aðeins farnar að taka á sig gylltan lit. Ef sýrópið er mjög þykkt er ágætt að setja 1-2 msk. af vatni útí það. Kakan er svo skreytt með sítrónusneiðunum og sýrópinu hellt yfir þær. Það skemmir ekki að bera fram glas af frosnu Limoncello með kökunni.

Verð þér að góðu :-)

P.S.

Ef þig langar að búa til þitt eigið Limoncello finnur þú uppskrift af því Hér

Fullorðins og fersk 🍋