Pink Lady eplakaka

Það sem til þarf er:

F. 8

130 gr. smjör, mjúkt

140 gr. sykur

3 stór egg

230 gr. hveiti

2 tsk. lyftiduft

0.8 dl mjólk

1 tsk. vanilludropar

3 stór Pink Lady epli, kjarnhreinsuð og skorin í um 2 cm báta

Sítrónu safi

3 msk. hrásykur

1/2 tsk. salt 

1 tsk. kanill

Borin fram með:

Þeyttur rjómi eða ís, ef kakan er borin fram volg

Klassísk eplakaka stendur alltaf fyrir sínu.  Þessi er með Pink Lady eplum, sem eru í uppáhaldi hjá mér.  Þau eru með svo ferskt og yndislegt bragð. Kakan er einsföld og dásamleg, svo endilega prófaðu ;-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 170°C20 cm lausbotna form er smurt vel að innan og bökunarpappír skorinn út og settur i botninn á forminu.  Það er gott að vera búin að vigta allt hráefnið í kökuna og skera eplin og velta þeim upp úr sítrónusafa svo þau dökkni ekki, áður en þú byrjar.  Mjúkt smjörið og sykurinn er sett í hrærivélaskál og hrært létt og ljóst.  Einu eggi er bætt út í í einu og hrært í vel á milli.  Það er gott að skafa niður skálina á milli meðan deigið hrærist saman. Hveiti, lyftidufti og salti er blandað saman í skál og blandað út í smjörhræruna og hrært vel í, síðan er mjólkinni og vanillunni bætt út í og látið hrærast þar til deigið er létt og áferðar slétt.  Deigið er skafið úr skálinni í formið og sléttað úr því, síðan er eplunum raðað fallega ofan á deigið og sneiðunum er þrýst létt ofan í deigið, með börkinn upp.  Kanilsykurinn er blandaður í litla skál og síðan er honum drussað yfir kökuna.  Formið er sett i miðjan ofninn g kakan bökuð í 40 mín.   Kakan er tilbúin þegar brúnirnar á henni hafa losnað frá kantinum á forminu og hún gefur létt eftir þegar þrýst er létt ofan á hana.  Kakan geymist í ísskáp í um 3 daga og frystist auðveldlega.  Hún er borin fram með þeyttum rjóma eða ís ef hún er borin fram volg, með góðum kaffibolla.

Verði þér að góðu ;-)

Klassík 🍎