Kókos terta

Það sem til þarf er:

Í botninn:

4 eggjahvítur

200 gr. sykur

200 gr. kókosmjöl

Í kremið:

4 eggjarauður

60 gr. flórsykur

50 gr. smjör

100 gr. suðusúkkulaði

Ofaná og með:

1/4 ferskur ananas

1 mangó

Brómber

Jarðarber

Bláber

Rifsber

1 peli rjómi

Ég man fyrst eftir þessari köku í kaffiboði heima hjá mömmu þegar ég var stelpa (örfá ár síðan ;-D) það var ást við fyrsta bita... Sú ást hefur verið stöðug og staðföst alla tíð síðan. Í DEN var kakan borin fram með frosnum rjóma ofaná, sem var æði. Mamma bakar þessa köku, ekki ég. Ég bið hana oft að baka hana fyrir mig, sem hún gerir alltaf, yndislegust. Mín breyting á kökunni er sú að setja fullt af exotískum ávöxtum ofaná hana og bera fram þeyttan rjóma með henni. Ef það er einhver möguleiki á að þessi kaka hafi farið fram hjá þér í gegnum árin, skaltu gera bragabót á því núna, hún er æði :-)

Svona gerir mamma:

Ofninn er hitaður í 160°C. Lausbotna form er smurt vel að innan. Eggjahvíturnar og sykurinn er þeytt mjög vel saman, kókos-mjölinu er hrært varlega útí. Bakað í 45 mín. Til að gera kremið eru eggjarauðurnar og flórsykurinn er hrært vel saman. Súkkulaðið og smjörið er brætt saman og hellt útí eggja-rauðurnar og hrært vel saman. Kreminu er hellt volgu ofaná kökuna í forminu. Passa að láta botninn kólna vel áður en hann er tekinn úr formin. Þegar kakan er borin fram er fallega skornum ávöxtunum raðað í hrúgu ofaná, ekki verra að rista nokkrar grófar kókosflögur og drussa yfir í restina. Rjóminn er þeyttur og settur í skál.

Verði þér að góðu :-)

OMG 🥥🍓🍍