Fullkomið 

Roast Beef

Það sem til þarf er:

Hér steikti ég 2 stk. 2.5 kg., innanlæris vöðva á hlaðborð, fyrir 30 manns, ásamt örðu kjöti, forrétti, sósum, brauði og salötum.  Það var akkúrat mátulegur afgangur af nauti, til að eiga í matinn daginn eftir.  Ég á tvær uppáhalds kryddblöndur sem ég nota til skiptis N. 1 og No. 2, báðar frábærar, en endilega prófaðu þig áfram, eða notaðu það sem þér finnst best. 

Nauta innanlæris vöðvi, sama aðferð virkar, sama  hversu þungur vöðvinn er.

Kryddblanda No. 1 = Dijon sinnep, Montreal Steak Seasoning, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Kryddblanda No. 2 = Dijon sinnep, El Toro Loco, frá Kryddhúsinu, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Kjötmælir

Roast Beef er alveg frábært, að mínu mati.  Það er hægt að gera svo margt við það, t.d. sem lúxus álegg á smörrebraud, með remúlaði, steiktum lauk og súrum gúrkum.  Það er fullkomið á hlaðborðið, með góðum salötum og sósum, eða nýsteikt með góðri Béarnaise sósu og frönskum, nota það í salat og margt fleira.  Mestu skiptir að vera með gott kjöt og að það sé rétt steikt.  Þessi aðferð sem ég nota, er áratuga reynd og klikkar ekki. Íslenskt nautakjöt er alltaf best, ég hef keypt vöðvana bæði í sérstökum kjötverslunum, Krónunni og í Costco og allir vöðvarnir hafa verið frábærir, svo ég á ekki uppáhald í þeim efnum.  Það skiptir máli að hafa auga á kjötmælinum, því steikingin tekur frekar stuttan tíma.  Þegar  mælirinn er að nálgast 53°C, tek ég ekki augun af honum, mínútur skipta máli.  Það er frábært að steikja vöðvann úr ísskápnum, kvöldinu áður en á að steikja vöðvann og láta hann standa á eldhúsborðinu þar til á að steikja hann.    Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Daginn áður en á að steikja vöðvann, er hann tekinn úr ísskápnum og látinn standa á borðinu þar til á að steikja hann.  Þegar þú ert tilbúin að steikja vöðvann, er ofninn hitaður í 180°C. Vöðvinn er þerraður vel með eldhúspappír og settur á þunna ofnplötu og smurður með góðu lagi af Dijon sinnepi og kryddaður, með því þurrkryddi sem þú velur að nota, saltaður vel og pipraður.  Vöðvanum er snúið við og allt endurtekið á hinni hliðinni.  Þegar ofninn er orðinn vel heitur, er kjötmæli stungið í miðjan vöðvann, þar sem hann er þykkastur.  Stungið í ofninn og klukka stillt á 15 mín., athugaðu hitann á mælinum þá, án þess að opna hann.  Haltu áfram að fylgjast með hitanum á 5-10 mín. fresti, þar til hann er kominn í 53-55°C, alls ekki meira, fyrir medium rare vöðva.  Það borgar sig að stara á mælinn síðustu gráðurnar, ég hef klikkað á því og gleymt mér í 5 mín., og kjötið orðið of steikt.... :(  Vöðvinn er tekinn úr ofninum og mælirinn tekinn úr honum.  Látinn standa og jafna sig í alla vega 20 mín. áður en hann er skorinn í sneiðar og boðinn á boð.  Ef þú ætlar að búa hann til fyrir fram og nota hann t.d. daginn eftir, er best að skera hann daginn sem á að borða hann, svo liturinn á kjötinu sé sem ferskakstur.  Ég geymi svo vöðvann á svalasta staðnum í eldhúsinu, við gluggann, með álpappír yfir, yfir nóttina.  Þegar vöðvinn er alveg kaldur, er hægt að pakka honum vel inn og frysta hann heilan, eða í sneiðum, eftir því sem passar best.  Geymist vel í frysti.

Verði þér að góðu :-)

Fullkomið, alltaf 👍