Kjúklingaleggir með sítrónum og kartöflubátum

Það sem til þarf er:

F. 2

 2 sítrónur, óvaxaðar

1/2 kg. kjúklingaleggir

1/2 kr. nýjar kartöflur, þvegnar og skornar í báta

1 1/2 tsk. Herbes de Provence

1 1/2 tsk. salt

3/4 tsk. nýmalaður svartur pipar

3 msk. kaldpressuð  ólífuolía

Borið fram með:

Majónes

Tómatsósa 

Sterkt sinnep

Hversdags kjúllinn.  Þessi er algjör draumur, allt á eina ofnplötu, bakað og tilbúið á diskinn.  Meðlætið er ekki mikil fyrirhöfn, mæjó, tómatsósa og sinnep, sem er geggjað til að dýfa kartöflubátunum í.  Krakkarnir eiga eftir að elska þennan, þú líka.  Það sem gefur þessum aðeins meira en bara venjulegur  kjúlli með  kartöflum, er kryddir og bökuðu sítrónurnar, borðaðu þær með þær eru geggjaðar. Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 220°C.  Bökunarpappír er settur á ofnplötu.  Endarnir eru skornir af 1 sítrónu, sem er síðan skorin í tvennt eftir endilöngu, annar helmingurinn er skorinn í sneiðar og sneiðarnar síðan í tvennt svo þú sért með litla þríhyrninga, steinarnir hreinsaðir frá.   Restin af sítrónunni er skorin í báta til að kreist yfir allt í restina.  Hin sítrónan er skorin í báta til að bera fram með leggjunum.  Kjúklingaleggirnir, kartöflurnar og sítrónuþríhyrningarnir eru settir í stóra skál, ásamt olíu, kryddi, salti og pipar og öllu blandað vel saman með höndunum.  Leggirnir eru teknir upp úr og lagðir öðru megin á bökunarplötuna, kartöflum og sítrónuhornunum er dreift í einföldu lagi, hinu megin á plötuna.  Stungið í ofninn  og steikt í 20 mín., þá er kartöflunum snúið en kjúklingurinn látinn vera kyrr og steikt áfram í 15-20 mín., þar til allt er gegn steikt og stökkt.  Tekið úr ofninum og restin af sítrónunni kreist yfir og öllu velt upp úr safanum.  Sett á fat og borið fram með sítrónubátum og sósum.

Verði þér að góðu :-)

Jummmm...🍗🍽️