Ketó klattar

Það sem til þarf er:

Í 12 stk.

4 egg

1 lítil dós kotsæla

2 msk. Whole Phsyllium Husk

Kókosolía til að steikja úr

Þegar maður er að minnka kovetnin er oft erfitt að finna eitthvað fljótlegt og gott til að grípa í, í staðinn fyrir brauðið.  Mér finnast þessir klattar snilldin ein.  Þá er hægt að nota í allskonar samseningum, þeir geymast vel og það besta er, að þeir eru mjög ljúffengir einir sér eða með áleggi.  Persónulega finnst mér best að borð þá með reyktum laxi, smá sýrðum rjóma, söxuðum kryddjurtum og kreistu af sítrónusafa.  Tær snilld!

Svona geri ég:

Egg, kotasæla og Whole Phsyllium Husk er þeytt saman í skál og látið standa í 10-15 mín., svo trefjarnar þenjist út og blandan verði þykkari.   Kókosolía er brædd á pönnu við rúmlega meðalhita og 1 sósuausa af deigi, er notuð til að mæla í hverja köku.  Kökurnar eru steiktar, án þess að snúa þeim, þar til þær eru orðnar brúnaðar á jöðrunum, ekki vera óþolinmóð/ur.  Svo er þeim snúið og þær bakaðar á hinni hliðinni þar til þær eru gegnsteiktar.  Svo er haldið áfram þangað til deigið klárast.  Það þarf  að bæta kókosolíu við og við á pönnuna á meðan steikt er.  

Það er tilvalið að búa til fullan skammt og geyma í ísskáp í lokuðu boxi, með smá smjörpappír á milli klatta. Ég hef geymt þá þannig í rúma viku og stungið í þeim í örbylguna til að hita upp, eftir þörfum.  Þeir eru líka frábærir kaldir.

Verði þér að góðu :-)

Góðir hvenær sem er 🥞