Reykt laxamús með guacamole

Það sem til þarf er:

F. 4

170 gr. reyktur lax, + 4 litlar sneiðar til að skreyta með

70 gr. rjómaostur (sá gamli þykki)

100 gr. sýrður rjómi

1 lime, fín rifinn börkur af 1/2 og safinn úr 1/2 - 1

1 vel þroskað avokadó

Lítil lúka af kóríander, fín saxað

1/4 rautt chili, fínsaxað

Salt og pipar

Smjördeigsstangir:

1-2 plötur af smjördeigi, aðeins flattar út

1 egg, þeytt

Paprikuduft og gróft salt

Kremuð og mjúk, lúxus laxamús, með spicy guacamole og smjördeigsstöngum. Lauflétt að búa hana til, má gera daginn áður og ef þú átt afgang, má frysta hann. Smjördeigsstangirnar má gera viku áður og geyma í vel lokuðu boxi. Geggjað!

Svona geri ég:

Laxinn er maukaður fínt í blandara eða matvinnsluvél. Rjómaostinum, sýrða rjómanum, lime berkinum, svolitlum safa, salti og pipar er bætt út í og maukað vel í vélinni. Smakkað til með salti, pipar og limesafa. Sett í skál og stungið i ísskápinn og kælt. Steinninn er tekinn úr avokadóinu og kjötið er tekið úr því og maukað í blandara. Kryddað til með salti, pipar og lime safa, síðan er chili og kóríander hrært út í og maukað mjög vel. Plastfilma er lögð beint ofan á maukið til að dökkni ekki, kælt í ísskáp, þar til á að nota það.

Smjördeigsstangir: Ofninn er hitaður í 200°C og pappírsklædd ofnplata gerð klár. Deigið er lítillega flatt út, á hveitistráðu borði, deigið er smurt með þeyttu eggi og paprikudufti og grófu salti, er dreift yfir það. Mjóar lengjur eru skornar út, með beittum hníf, síðan er hver lengja tekin upp og snúið upp á hana og hún lögð á ofnplötuna, restin af deiginu er kláruð á sama hátt. Bakað í ofninum í um 15-20 mín., þar til stangirnar eru gylltar og fullbakaðar. Kældar og stungið í box með þéttu loki. Geymist í viku í boxinu.

Borið fram: Maukinu er skipt á milli fallegra kokteilglasa eða lítilla skála, guacamole er sett huggulega ofan á. Skreytt með lítilli sneið af reyktum laxi og kóríanderlaufi. Smjördeigsstangir eru settar á diskinn sem glasið er borið fram á, ásamt sítrónubát.

Verði þér að góðu :-)

Einföld og fínleg 🍋🥰