Rækju- og lúðupaté

Það sem til þarf er:

 F. 6

200 gr. smálúða eða rauðspretta, bein- og roðlaus

300 gr. rækjur

100 gr. kalt smjör, í bitum

2 egg

1/2 meðalstór laukur, í sneiðum

1 búnt steinselja, söxuð

1/2 sítróna, safinn

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Nýrifin múskathneta

4 blöð matarlím

Meðlæti:

Chantilly sósa

Ristað brauð og smjör

Þetta rækju- og lúðupaté var í miklu uppáhaldi fyrir margt löngu.  Það var alltaf búið til fyrir hátíðar, svo það hélt sérstöðu sinni í gegnum árin.  En eins og gengur,  kemur alltaf eitthvað nýtt inn og það gamla gleymist og dettur út og svo fór með þetta paté.  En, sem betur fer, fór ég að hugsa um það um daginn og fór að leita að uppskriftinni af því.  Ég fann hana sem betur fer og gerði eina uppskrift til að rifja upp, hvort paté-ið væri jafn gott og mig minnti.  Það var það, heldur betur, hvort það var.  Svo hér er gamla góða uppskriftin af rækju- og lúðupaté.

Svona geri ég:

Laukurinn er skorinn í sneiðar og settur í botninn á litlum potti,  Lúðuflakið er roð- og beinhreinsað og skorið í bita, saltað og síðan eru bitarnir lagðir ofan á laukinn og sítrónusafanum hellt yfir fiskinn.  Lokið er sett á pottinn og fiskurinn soðinn í um 5 mín. Þá er honum hellt í sigti, sem er yfir skál og vökvinn látinn leka vell af, vökvinn er geymdur.  Fiskurinn og laukurinn er settur í matvinnsluvél, ásamt smjörinu í bitum og blandað vel saman, þar til smjörið er bráðnað.  Látið í skál og kælt.  Steinseljan og rækjurnar eru maukuð í vélinni, í sitt hvoru lagi. Eggin eru þeytt saman í skál og síðan blandað saman við fiskmaukið.  Matarlímið er bleytt upp í köldu vatni, þar til það er mjúkt.  Þá er það tekið úr vatninu og leyst upp yfir vatnsbaði í 2 msk. af fiskisoðinu.  Þegar matarlímið er orðið fljótandi eru 2 msk. af maukinu hrært út í það, síðan er því hellt, í restina af maukinu og  blandað vel saman.  Maukinu er skipt í 2 hluta, annar má vera aðeins stærri en hinn.  Maukuðu rækjunum er blandað saman við minni hlutann og steinseljunni saman við stærri hlutann.  Græna hlutanum er hellt i lítið form, sem er plast klætt og látið stirðna aðeins í ísskápnum.  Þá er formið tekið úr ísskápnum og heilu rækunum raðað í miðjuna á græna hlutanum, síðan er maukinu með rækunum bætt við varlega, svo heilu rækjurnar fari ekki á flakk, best að setja það í formið, með skeið og þrýsta því á sinn stað um og yfir heilu rækjurnar og slétta síðan yfir botninn með henni.  Plastfilman er lögð yfir paté-ið og forminu stungið í ísskápinn, í nokkra tíma, eða yfir nótt.  Þegar á að bera paté-ið á borð, getur þú annað hvort sett það á skreytt fat, eða skorið paté-ið í sneiðar og sett á skreytta diska fyrir hvern og einn.  Það er nauðsynlegt að hafa Chantilly sósu og ristað brauð með smjöri með. Má gera daginn áður.

Verði þér að góðu :-)

Minnigin sveik sko ekki 😋🥂💛