Gratíneruð hörpuskel

Það sem til þarf er:

F. 4

12 hörpudiskar

Gratínsósan:

25 gr. smjör

1 msk. hveiti

1 dl mjólk

2 msk. þurrt hvítvín

50 gr. Tindur, ostur rifinn

2 msk. fín rifinn Parmesan ostur

Meðlæti:

Ristað brauð með smjöri

Þessi uppskrift er dásamlega góð. Mjúkur og fínlegur hörpudiskurinn, passar ótrúlega vel við ostasósuna. Kalt hvítvín og ristað brauð með smjöri, fullkomna samsetninguna á þessum góða og einfalda forrétt. Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Hörpudiskurinn: Hörpudiskurinn er afþýddur og síðan er hann snögg steiktur í svolitlu smjöri, á mjög heitri pönnu í 1/2 - 1 mín., á hvorri hlið. Hann er klofinn i tvennt ef hann er mjög stór. Honum er skipt á milli 4 eldfastra lítilla gratíndiska eða ef þú átt hörpuskeljar, þá notar þú þær.

Gratínsósan: Smjörið er brætt í litlum potti, hveitinu bætt út í og hrært stöðugt í á meðan. Látið malla rólega í 2-3 mín., Mjólk og hvítvíni er bætt varlega saman við, hrært í stöðugt á meðan. Látið malla í 2-3 mín., Þá er rifna ostinum hrært út í, kryddað til með salti og pipar. Sósunni er hellt yfir hörpudiskana í skeljunum, síðan er Parmesanostinum drussað yfir sósuna. Skeljarnar eru settar á bökunarplötu og henni stungið undir heitt grillið í ofninum og grillað í 2 1/2 mín., þar til sósan búbblar og er byrjuð að taka á sig gylltan lit. Borið á borð með ristuðu brauði með smjöri og köldu hvítvíni.

Verði þér að góðu :-)

Gómsætt 💫🥂