Hrogn a la Ópal

Ekki hárfín mæling á hráefnum

Það sem til þarf er:

Réttur til að deila með 6-8 sem forrétti


1 stórar hrognabuxur

Í dressinguna á hrognin:

Um 1/2 bolli extra virginne ólífu olía

Um 3-5 hvítlauksrif, marin með hníf og söxuð smátt

Um 2 sítrónur, safinn og börkurinn fínt rifinn

Um 1/2 appelsína, safinn og börkurinn fínrifinn

Um 1/2 lúka af ferskri steinselju, söxuð

Ca. 1/2 þurrt rautt chili, fínsaxað

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Í salatið:

1 box Lambhaga salatblanda, grófsöxuð

1 rauð paprika, í strimlum

1 box smá tómatar, skornir í tvennt

1/2 rauðlaukur, skorinn í þunnarsneiðar

2-3 msk. capers

1/2 appelsína í þunnum sneiðum

2 greinar fersk steinselja, söxuð

Síðustu helgi fórum við Guðjón á helgarnámskeið í siglingum á skonnortunni Ópal, sem er með því skemmtilegra sem ég hef gert í seinni tíð, mæli eindregið með því. Eitt af því sem var á dagskránni hjá okkur var að veiða í matinn, fyrir laugardagskvöldið ætlunin var að búa til fiskisúpu. Mér fannst skemmtilegt að vera í svo nánum tenglum við forðabúrið, þaðan sem maturinn kemur, hvað þarf að hafa fyrir að fá eitthvað að borða.. Gott fyrir mig, sem er vön því að hafa búðir á næsta horni og getað keypt það sem mig langar nótt eða dag. Það veiddist svo sannarlega vel, 3 stórir þorskar (hrygnur), voru dregnir um borð, svo við vorum mjög kát með okkur. Það voru gerðir 2 réttir úr hluta af flökunum, en okkur fannst synd að gera ekkert við öll hrognin sem voru í hrygnunum. Einn af félögum okkar á námskeiðinu, hafði smakka rétt úr þorskhrognum í gömlu hafnarborginni Cadís, í Andalúsíu á Spáni. Honum þótti rétturinn mjög góður og var með mynd af honum á símanum sínum. Hann stakk uppá að ég reyndi að búa til réttinn, sem ég var alveg til í að reyna. Uppskrftin hér að ofan, er rétturinn sem ég bjó til. Hann sló í gegn hjá öllum áhafnarmeðlimum, þótt hann hafi verið fjarskyldur ættingi þess upphaflega. Tómt fat voru verðlaunin mín og ég varsvakalega ánægð með þau.

Svona gerði ég:

Hrognin eru soðin í saltvatn í stórum potti í um 25-30 mín. , vatninu er þá hellt af og látið leka vel af þeim. Öllu sem á að fara í dressinguna er blandað saman í skál og smakkað til. Það var ætlunin að skera hrognin í sneiðar þegar búið varað sjóða þau, en hrogna-buxurnar sprungu, svo ég ákvað að breyta útlitinu á réttinum og hafa hann "freestyle". Þannig að, salatið er gróft skrorið og sett á botninn á stóru fati. Á meðan hrognin eru enn vel volg er þeim ýtt í miðjuna á fatinu og öll himna sem er sjáanleg er skorin varlega af. Dressingunni er drussað jafnt yfir hrognin með skeið, og látið standa í 10-15 mín., svo kryddið og olían síist inní hrognin. Restinni af salalatefninu er síðan dreyft meðfram og yfir hrognin. Borin fram volg með ísköldu hvítvíni.

Verði þér að góðu :-)

Best af öllu!!