Þorláksmessu Skatan

Það sem til þarf er:

Kæst og söltuð skata

Rauðar kartöflur

Hamsatólg

Meðlæti:

Aalbor Jubilæums Akavit, geyma það í frysti og bera fram frosið í frosnu glasi

Jólabjór

Jedúdda mía!!! Ég bíð eftir þessum degi með barnalegri tilhlökkun, næstum allt árið. Ég veit ekki hvort þú ert sammála mér, ég held að maður þurfi jafnvel að vera alinn upp við að borða skötu, til að kunna að meta hana. Ég var það, það var oft elduð skata heima, ekki bara á Þorlaksmessu, enda ættuð vestan af fjörðum. Þá var ég alltaf mætt í mat, borðaði mikið og naut hvers bita, sem ég löðraði með miklum brúnuðum hömsum, elska þá. Á seinni tímum höfum við GM oft farið í Hlégarð og boðað skötu með bæjarbúum í hádeginu á Þorláksmessu og notið söngs og píanóundirleiks á meðan. Það er hátíðleg og skemmtileg stund, gaman að kasta jólakveðjum á bæjrbúasem ru að njóta líka. Ég blæs á þá sem fussa og sveia á lyktina, opnum bara glugga í stað þess að skemma gleðina :-)

Svona geri ég:

Kartöflurnar eru þvegnar og settar í pott með söltu vatni og soðnar í um 15-20 mín., eftir stærð. Stór pottur er hálffylltur af vatni og suðan látin koma upp. Skatan er sett í pottinn og þegar suðan kemur upp, er froðunni sem myndast, fleytt ofan af og hent, látin sjóða í um 20 mín. Hamsarnir eru settir í pott og látnir bráðna á meðalhita, þar til þeir eru alveg bráðnaðir. Þeir eru látnir byrja að brúnast aðeins, en passaðu að þeir brenni ekki, þeir gera það auðveldlega, haldið heitum. Suðuvatninu er hellt af kartöflunum og þeim haldið heitum á meðan þú tekur skötuna upp úr suðuvatninu með fiskispaða og setur hana á disk. Skatan er látin standa í smástund á disknum, á meðan auka vatnið lekur af henni, síðan er hún færð á hreinan þurran disk og borin strax á borð með kartöflunum, sjóðandi hömsunum, ísköldum jólabjór og frosnu Ákavíti.

Verði þér að góðu :-)

Hallelúja, hvað ég hlakka til 😇💫