Saltkaramellu súkkulaðimúss

Það sem til þarf er:

F. 4

Í saltkaramelluna:

8 Medjool döðlur, steinninn tekin úr

60 ml kókosmjólk

1 tsk. vanilludropar

1 msk. hlynsýróp

1/2 tsk. salt

Í súkkulaðimússina:

150 gr. suðusúkkulaði

2 dl kókosmjólk (ekki Light)

1 msk. kakóduft

1 msk. hlynsýróp

1 tsk. vanilludropar

Á toppinn:

Ginger Nuts kex, mulið í gróft duft

Gróft sjávarsalt

Þekkir þú einhvern sem elskar ekki súkkulaðimúss?  Allavega ekki  ég ;-)  Í þessari uppskrift er mjúkri saltkaramellu bætt við súkkulaðimússina og útkoman verður þessi líka geggjaði desert.  Þú getur gert hana fyrir fram, hún er einföld  og svo er hún vegan, sem mörgum finnst kostur.  Upplagt að eiga svona í ísskápnum þegar fjöllan eða vinahópurinn kemur í mat.  Þú átt eftir að elska þessa ;-)

Svona geri ég:

Steinninn er tekinn úr döðlunum og þær settar í skál og sjóðandi vatni hellt yfir þær og látnar standa í smá stund til að mýkja þær. Súkkulaðið er brotið í skál. Kókosmjólkin er hituð á meðalhita og suðan látin koma rólega upp.  Heitri mjólkinni er hellt yfir súkkulaðið, látið standa í smá stund síðan er hrært vel í mjólkinni.  Þá er kakóduftinu, sírópinu og vanillunni hrært út í og það geymt.  Döðlurnar eru settar í blandara ásamt kókosmjólkinni, vanilludropunum, sírópinu og saltinu og blandað þar til allt er maukað og flauelsslétt. Döðlumaukið er sett jafnt í botninn á 4 llitlum skálum eða glösum og síðan er súkkulaðimauk sett ofan á.  Látið kólna, síðan er sett plastfilma yfir skálarnar og þær settar í ísskápinn þar til á að nota á mússina, allavega í 2 tíma.   Þegar á að bera mússina á borð eru engiferkökurnar muldar fínt og mylsnunni stráð yfir ásamt smávegis af grófu salti.  Geymist í ísskáp í allt að 5 daga.  Skemmir ekki að bera fram þeyttan rjóma eða vegan rjóma með.

Verði þér að góðu :-)

So yummi 🍮