Skinku hálfmánar

Það sem til þarf er:

Ca. 30 stk.

1.2 kg. smjördeig, afþýtt

Fyllingin:

50 gr. smjör

1/2 box skinku smurostur

2 skarlottulaukar, smátt skornir

300 gr. skinka, smátt skorin

1 steinseljubúnt, fínt saxað

1 1/2 tsk. Dijon sinnep

3 egg

Sjávarsalt og ný malaður svartur pipar

Ný rifin múskathneta

Ofan á:

1 egg, þeytt

Blátt birki

Sesamfræ

Kúmen

Ein af gömlu uppskriftunum, sem eru í handskrifuðu bókunum mínum frá því í den. En þó uppskriftin sé gömul breytir það því ekki að hún er gómsæt og líka einföld. Það þarf ekki að búa ti deigið, ég nota frosið smjördeig. Fyllingin er klassísk, skinka, sinnep, laukur og krydd, æði. Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C. Pappírsklæddar bökunarplötur eru gerðar klárar. Allt í fyllinguna er hrært saman í skál og kryddað til með salti, pipar og múskathnetu. Smjördeigið er rúllað út á hveitistráðu borði. Hringir um 8-9 cm í þvermál eru skornir út úr deiginu. 1 msk. af fyllingu er sett í miðjuna á hverjum deighring, síðan er hann lagður saman og kantarnir klipnir vel saman til að loka hálfmánunum alveg, svo fyllingin leki ekki úr í bakstri. Deigið og fyllingin er kláruð á sama hátt. Eggið er þeytt og hálfmánarnir eru penslaðir með eggi og þeim fræum sem þú vilt, birki, sesam fræum eða kúmeni er drussað yfir. Bakaðir í ofninum í um 15 mín., síðan teknir út úr ofninum og kældir lítillega á grind, áður en þeir eru bornir volgir á borð. Það er ekkert mál að gera hálfmánana daginn áður, en fullbaka þá ekki þá og klára þá daginn eftir.

Verði þér að góðu ;-)

Ómótstæðilegir 😉