Súrdeigsbrauð

Það sem til þarf er:

1 stórt brauð

1 kg. hveiti (eða þá mjölblöndu sem þú vilt)

1msk. kúmen (ef þú vilt)

8 dl vel volgt vatn

200 gr. tilbúinn súrdeigs grunnur

25 gr. fínt salt

Það þarf ekki að hnoða þetta brauð, það er hrært.  

Vinkona mín gaf mér smá slurk af súrdeigsgrunni, sem henni hafi verið gefið og þessa uppskrift af súrdeigsbrauði fyrir mörgum, mörgum árum síðan.  Ég átti grunninn lengi, "mataði" hann og hugsaði vel um hann.  Bakaði úr honum fjöldann allan af brauðum, en.....  svo gaf ég mér ekki tíma til að hugsa um hann og segjum bara að útförin hafi farið fram í kyrrþey.  En, ég gleymdi aldrei hvað brauðin sem hann gaf mér voru góð, miklu betri en flest öll önnur brauð. Svo, ég tók mig til í andlitinu í samkomubanninu og bjó mér til súrdeigsgrunn sjálf. Ég er búin að vera að föndra við hann síðan, baka úr honum bauð og vöfflur og er alveg himinlifandi með árangurinn.  Ég er búin að lofa mér að gera betur i þetta sinn og hugsa vel um þann sem gefur mér svona val af sér.;-)

Svona gerir þú:

Það er nauðsynlegt að gera flotpróf á grunninum, með því að fylla glas af vatni og fleyta 1 tsk. af grunni í vatninu.  Ef hann flýtur er hann tilbúinn til að baka úr annars þarftu að "mata" hann aftur og gera aðra prufu.

Mjölið og kúmenið, ef þú notar það, er vigtað í mjög stóra skál.  Vatnið þarf að vera rúmlega ylvolgt.  Því er hellt út í hveitið og hrært vel í því svo allt sé vel blandað saman. Ég veit ekki hvort það er munur á hveiti, eða rakastigið úti og inni skipti máli, en mér finnst stundum eins og deigið geti verið svolítið þurrt.  Ef svo er, set ég svolítið meira vatn út í, mér finnst ekki gott ef deigið er þurrt. Ég nota SKAFTIÐ á sleifinni þegar ég hræri í brauðinu, alveg satt, prufaðu, það klýfur deigið miklu betur en breiðari endinn  og er þess vegna auðveldara fyrir hendur og axlir. Þá er súrdeiginu hellt ofan á og því blandað vel saman við.  Plastfilma er sett yfir skálina, klukka stillt á 1 klst. og hún látin standa á eldhúsboðinu.   Þegar klukkan hringir, er deigið hrært vel upp með sleifarskaftinu, filman sett aftur á skálina og þetta endurtekið.  Í þriðja skiptið er saltinu dreift yfir í 2-3 atrennum og hrært vel í deiginu svo saltið blandist vel saman við.  Klukkan er stillt einu sinni enn og í lok þess klukkutíma er hrært upp í deiginu í fjórða og síðasta sinn.  Það á að vera orðið loftmikið, teygjanlegt og lifandi.  Plastið er sett yfir og skálinni stungið í ísskápinn og geymt þar yfir nótt.  Það borgar sig að hafa skálina stóra, því  stundum er mikið líf í deiginu og það stækkað mikið.

Deigið er tekið úr ísskápnum um 30 mín. áður en þú ætlar að baka.  Ofninn er hitaður í 250°C. Um leið og þú kveikir á ofninum, er krukka með vatni sett innst í hornið á honum og steypujárnspottur með loki, eða hitaþolin panna, sem hefur verið nudduð að innan með hveiti, sett inn í ofninn og hituð með ofninum.  Hveitið brennur aðeins, en mér finnst það gefa gott bragð, svipað og úr pizzaofni, en þú getur sleppt því, það er smekksatriði.  Þú færð aðeins mismunandi útlits útkomu á brauðinu eftir því hvort þú notar pott með loki eða ekki, en hvort tveggja virkar vel.  Þegar ofninn er heitur, tekur þú pottinn út og hellir deiginu í hann og stráir smá heiti yfir það og setur lokið á pottinn og bakar brauðið í 30 mín..  Þá er lokið tekið af og bakað áfram í 15 mín.  Tekið  úr pottinum og kælt á grind.  Best er að geyma brauðið á milli daga, undir hreinu taustykki með skurðsárið niður.  Tilvalið að frysta.  

Verði þér að góðu :-)

Klikkað gott 🤪