Siglufjarðarskarð, ferðasaga

Ferðalag yfir Siglufjarðarskarð og lýsing á umhverfinu

Lesbók Morgunblaðsins 27 ágúst 1944 – Grein skrifuð af Árna Óla.

Hluti greinar.... Samgöngur hafa nú mikið batnað um þessar slóðir. Bílvegur er kominn alla leið út að Hraunum í Fljótum og inn í Stíflu. Vjelbátur fer þrjár ferðir á viku frá Siglufirði til Haganesvíkur, og sömu daga fara langferðabílar þar á milli og Sauðárkróks.

Siglfirðingar og Fljótamenn geta Því að jafnaði fengið Reykjavíkurblöðin dagsgömul, og það er hægðarleikur að komast milli Siglufjarðar og Reykjavíkur á tveimur dögum. Fyrir Siglfirðinga og Fljótamenn eru þetta betri samgöngur heldur en þeir hafa nokkru sinni fyr átt við að búa. Og þó á að bæta þær enn. Hið nýja flugfjelag, Loftleiðir h.f., ætlar að hafa viðkomustað fyrir sjóflugvjel sína á Miklavatni í Fljótum, og hefir þar þegar verið sett upp leiðbeiningarmerki fyrir hana. Og svo er bílleiðin yfir Siglufjarðarskarð.

Akbraut er nú komin frá Siglufirði upp undir skarðið og verður unnið að því að fullgera hana í sumar og sprengja 10—12 metra djúpa geil í háskarðið. Þá verður og unnið í sumar að vegalagningu að vestan, frá Hraunum og inn Hraunsdal, nokkuð norðar en þar sem vegurinn hefir legið. Þegar bílvegurinn er kominn yfir skarðið, batna samgöngurnar enn. En sá vegur verður þó ekki fær vegna snjóa nema svo sem 2—3 mánuði á sumrin.

Þótt það sje stuttur tími ber þess að gæta að það er einmitt hábjargræðistíminn á Siglufirði, síldveiðitíminn, þegar alt er þar á „fljúgandi fartinni'' og unnið nótt og dag. Siglufjarðarskarði er svo lýst á einum stað í Þ.jóðsögum Jóns Árnasonar: „Siglufjarðarskarð liggur milli Fljóta og Siglufjarðar, yfir fjallgarð þann er sýslur skilur. Er það fjallgarður mikill og líðandi brattur að vestan, en forbrekki mikið að austan og brekkan sneidd krókagötum.

Fjallið að ofan er tindum vaxið og klettum helbláum. Brún þess hin efsta er svo þunn sein saumhögg. Gegn um eggina liggja sem dyr, auðsjáanlega höggnar af fornaldarmönnum, með standberg á báðar síður. Gegn um dyrnar eru hjer um bil 4 hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd. Yfir. skarði þessu hafði legið síðan í heiðni andi illkynjaður, er bitist í strokkmynduðum skýstólpa, er kom úr lofti niður yfir hvað helst sem undir varð, maður, hestur eða hundur og lá það dautt samstundis.

Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar í Múla í Þingeyjarsýslu (1724—1748). Þótti hann fyrir prestum á sinni tíð í Norðurlandi flestra hluta vegna. Hann var maður mikill vexti og tröllaukinn að manndómi, raddmaður mikill og mælskumaður, sterkorður og andheitur. Því var hann kjörinn af Steini biskupi til að vígja Siglufjarðarskarð.

Ferðaðist hann þangað með ráði biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn. Hann hlóð altari úr grjóti annars vegar í skarðinu og helt messugerð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum, og í skarð það eða hraungjá, er sunnar nokkru liggur í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt; hefir og nokkrum sinnum mönnum orðið þangað gengið í villu og bana beðið. Siglufjarðarskarð hefir aldrei síðan orðið mönnum að meini; mælti síra Þorleifur svo fyrir, að hver sem yfir skarðið færi skyldi gera bæn sína við altarið, og mundi þá vel duga. Sjer þessa altaris merki enn í dag" . 

Niðurlag þessarar frásagnar á ekki við nú. Altarið er horfið, og margir menn hafa orðið úti á Siglufjarðarskarði síðan það var vígt, eða farist þar með öðrum hætti. Átti jeg tal við mann á Siglufirði, sem kvaðst muna þrjá menn, er hafa farist þar. Einn þeirra tók vindkviða á loft og fleygði honum á vörðu svo að höfuðið fór í mola. Er þarna ákaflega byljasamt, oft hjarnfenni og svell í snarbröttum brekkunum- beggja megin niður úr skarðinu.

Sami maður sagði mjer að einu sinni hefði verið reknir niður staurar í verstu brekkuna, og lína strengd á milli þeirra til þess að menn gæti haldið sjer í hana. En sá útbúnaður lagðist fljótt niður, því að línunni var stolið jafnharðan og þótti það óvinnuverk. „Þó held jeg að mjer hefði einu sinni orðið það á að hnupla línunni", sagði þessi maður. Hann var þá að fara yfir skarðið um vetur, berhentur og staflaus, með hnakktösku undir hendinni. Svellbunki var í snarbrattri brekkunni og ofsastormur, og var ekki unt að komast upp á annan veg en klifra og klóra sig- áfram með berum höndunum. En báðar hendur þurfti hann að nota og þess vegna varð hann að bíta í hnakktöskuna og bera hana í munninum. „Jeg hygg, að þá hefði jeg hnuplað snærispotta til þess að binda töskuna á bakið", sagði hann — og lái honum það hver er vill.

Oft er grenjandi stórhríð á skarðinu þótt bjart og gott veður sje niðri í bygð. Ef menn eru þá á ferð og hitta ekki beint í skarðið, lenda menn oftast sunnan við það og í Afglapaskarð. En þar er hengiflug og hrapa menn þar oftast til bana. Þó hefir það komið fyrir að maður, sem hrapaði þar fram af, hefir komist lífs af. Mig hefir lengi langað til þess að sjá þetta marg umtalaða skarð, og einnig; langaði mig til þess að koma í Stíflu áður en hún verður lögð í auðn. Úr þessu varð núna í öndverðum júlí. Við lögðum þrjú á stað í bíl frá Siglufirði að morgni dags og átti bíllinn að bera okkur eins langt upp í skarðið og unt væri, en það vissu menn ógjörla. Mikill snjór var í skarðinu og hafði flokkur manna verið sendur þangað fyrir nokkru til að moka göng í gegn um skaflinn.

Giskað var á að vera myndi það um 300 dagsverk. því að skaflinn var sums staðar 5 metra þykkur. Vegurinn liggur í ýmsum krókum upp skarðið og er hvergi nærri jafn vondur nje brattur og búast mætti við. Bíllinn klifaði hærra og hærra og loks komum við upp í sótsvarta þoku. Og það stóðst á endum að bílstjórinn sagðist aldrei hafa ekið lengra áður. Var hann þó ótrauður að halda lengra, en sagði að verst væri, að hvergi væri hægt að snúa bílnum, og yrði hann því að aka aftur á bak niður skarðið. Þetta reyndist þó ekki rjett því að nokkuð ofar komum við á pall í hlíðinni, þar sem unt mun að snúa bílum við. Þar rjett fyrir ofan tóku snjógöngin við. Ókum við kippkorn eftir þeim og fossaði vatn niður á móti okkur.

Brátt komum við að snjóþröskuldi, sem verkamenn, höfðu skilið eftir, og ætluðu leysingarvatninu sýnilega að vinna bug á honum. Þarna urðum við að skilja við bílinn og lögðum nú á stað fótganandi upp snjógöngin, sem voru líkust gili eða gljúfri í þokunni. Vatnsagi var þar og krap, en við vorum illa skóuð til að mæta því gangfæri. Hafði verið illa spáð um fótabúnað okkar á Siglufirði, en við ekki sint því, en sáum nú að betra hefði vorið að hafa sæmilega fjallgönguskó. Litlu seinna sáum við einhverjar svartar og ólögulegar þústur í þokunni. Þarna voru þá fyrstu mokstrarmennirnir.

Við heilsuðum þeim glaðlega. en þeir horfðu alvörugefnir á fótabúnað okkar, en voru þó svo kurteisir að spyrja ekki hvaða afglapar það væru, sem ætluðu sjer að ganga yfir Siglufjarðarskarð þannig útbúnir. Lengra hjeldum við og urðum nú að klöngrast yfir fleiri þröskulda. Einnig hittum við fleiri verkamannahópa og mátti á svip þeirra sjá, að þeim leist öllum jafn ógiftusamlega á okkur. Svo komum við þar, sem efsti hópurinn var að vinnu utan í snarbrattri brekku. Snjóveggurinn forbrekkis var margra metra hár, en hinn miklu lægri og köstuðu verkamenn snjónum út yfir hann. Þarna urðum við að klöngrast upp á lægri barminn og þar stóðum við og leist nú ekki vænlega á.

Við vissum að skamt var upp á háskarðið, en þokan var svo dimm að ekki glórði nema fáa metra út í hana. Á aðra hönd okkar var snjógeilin en á hina snarbrattur skafl, og eflaust geisihár. Snjókögglarnir, sem verkamenn köstuðu frá sjer, hentust á fleygiferð niður brattann og hurfu út í þokuna og manni fanst sem þeir myndu ekki staðar nema fyr en í einhverju gljúfri. Snjórinn var meir og sleipur, en skósólarnir okkar hálir og það var því viðbúið að okkur skrikaði fótur og þá var ekki annað sýnna en að við myndum hendast niður brattann með sama hraða og; snjóköglarnir, og hvað tók þá við?

Okkur þótti víst skömm að því, að láta verkamennina sjá nokkurn beig í okkur og stauluðumst því eftir skaflegginni og síðan upp sniðbrattann. Jeg er nú ekki viss um það eftir á, að hættan hefði verið mjög mikil þótt við hefðum oltið niður skaflinn. Jeg hygg að verkamennirnir hefðu ekki slept okkur ef þeir hefðu óttast það, að við færum okkur að voða. En með- an á því stóð var þetta ferðalag ískyggilegt, að sniðskera hjarnfönnina sem var eins brött og húsþak. og sjá ekkert frá sjer fyrir þoku.

Okkur gekk þó að óskum, engu okkar varð fótaskortur og eftir stutta stund vorum við komin upp í háskarðið, sem er eins og því er áður lýst, aðeins fárra metra breitt hlið milli kletta, og því tók við brött hjarnfönn hinum megin niður í móti. Við gengum langan kafla á snjó og um það bil er hann þraut, fór þokunni ofurlítið að ljetta. En hún hafði þó haft af okkur alla útsýn af skarðinu og var það sannarlega leitt. Það er ekki nema svo sem klukku stundar gangur ofan úr háskarði og niður að Hraunum. ysta bæ í Fljótum, og er þangað svo að segja óslitin, en torfærulaus brekka.

Hraun var áður höfuðból og mikil hlunnindajörð, æðarvarp, silungsveiði, miklar slægjur og óþrjótandi útbeit og fjörubeit, svo að fje gekk þar svo að segja af þótt jarðlaust væri annars staðar í Fljótum, því að þau eru hin mesta snjóakista. Nú er sama sem engin búskapur á Hraunum, en mjólkurbú Siglufjarðar hefir mestar nytjar jarðarinnar á leigu, lætur nokkuð af kúm sínum ganga þar á sumrin og heyjar þar eftir þörfum. Nokkru sunnar en Hraun er bær sem heitir Lambanesreykir. Þar er jarðhiti og mikið heitt vatn og laugar marga Siglfirðinga að í það til þess að hita upp Siglufjarðarbæ.

Um þessar slóðir kom bíll á móti okkur frá Sauðárkróki. Hafði hann við illan leik komist yfir Brunastaðaá því að hún er óbrúuð og var nú í vexti eftir marga hitadaga á fjöllum. Betur gekk að komast yfir hana í bakaleið. Fljótunum er í daglegu tali skift í þrent, Austur-Fljót. Vestur-Fljót og Stíflu. Er þetta grösug og fögur sveit. Yst í henni og fram við sjó, svo að mjótt rif skilur aðeins á milli, er Miklavatn. Það er víða djúpt, alt að 40 metra.

Nokkuð vestur og fyrir minni Flókadals er annað vatn sem Hópsvatn heitir. Þar er einnig mjótt rif milli vatns og sjávar og liggur akvegurinn eftir því, Þar er kauptúnið Haganesvík, fáein hús og heldur ósjáleg og gróðursnautt umhverfis. Þó er nú verið að reisa þarna laglegt greiðasöluhús og er þess nú fyrst þörf á þessum stað, síðan samgöngur bötnuðu svo mjög, sem fyr segir, og sífeldur straumur ferðamanna fer um Haganesvík, að minsta kosti á sumrin. Flókadalur er, kendur við Hrafna-Flóka, sem gaf íslandi nafn, og átti þess kost að nema land hvar sem hann vildi, er hann kom hingað fyrst, en hvarf brátt aftur og lastaði landið mjög Kom svo aftur og nam Flókadal og bjó að Mói.

Þessi gein er lengri, en restinni sleppt hér.