Hákarla og Hvalveiðar

Ýmsar upplýsingar, fréttir og frásagnir.

Ýmsir gamlir fróðleiksmolar, fréttir, frásagnir og fleira tengt Siglufirði og að hluta frá Ólafsfirði – Endurskrifað frá www.timarit.is  Stór hluti tengt hákarla og hvalaveiðum, frá og í Ólafsfirði og Siglufirði / Siglunesi.

Blaðið Norðri 1853 – Heilsufar -Verðlag á verslunarvörum

Fremur er sagt kvillasamt vestra, einkum í Skagafirði og eins í Ólafsfirði. en annarstaðar hér niðra, að kalla, heilbrygði manna á meðal. 

Á Stykkishólmi: Eúgur7rbd., hvít ull 30 sk., tólg 18 sk. sykur 20 6k. og kaffi 22 sk.,rennivín 14 — 16 sk. — Sama verðlags var og vænt í Borðeyri. Á Skagaströnd og Hofsós hefur verið sagt líkt verðlag og hér, nema ullin á 30 sk., og á Siglufirði hvít ull 28—30sk., hákarlalýsi 1 tunna 24 rbd

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138313&pageId=2035539&lang=is&q

---------------------------------------------------

Blaðið Norðri 1853 - Hákarlaveiðar

Mikill hákarlsafli var sagður á Ströndum, sér í lagi við Gjögur á Reykjarfirði, Fljótum, Dölum, Siglufirði, Siglunesi, eins hjá þeim er hákallaskip eiga á Eyjafirði: á Böggustöðum, Hrísey, Hellu, Arnarnesi og Grenivík, hvar þeir er bestan hlut fékk 2 til 5 tunnur lýsis í hlut sinn og jafnvel Dalamenn, Baldvin á Siglunesi og Sigurbjörn á Grenivík meira. 

Á Grímsey urðu hlutir hæstir, eitthvað yfir 60, fimm potta kútar.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138306&pageId=2035489&lang=is&q

---------------------------------------------------

Norðri 1855 - Hákarlaveiðar

........... Það mun líka dæmalaust hér við land, eða opin þilfarslaus skip hafi farið til afla í regin haf 24-50 mílur undan landi, sem flest hákarlaskip hér af Eyjarfirði, Siglunesi, Siglufirði,..........

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138357&pageId=2035768&lang=  

---------------------------------------------------

Norðri 1856 - Hákarlaveiðar

 ..... Kaupmenn borga fyrr lýsistunnuna með 26 (27?) dölum, en á Siglufirði og öðrum vesturkaupstöðum með 28 dölum, en Íslendingar hér hafa þó ekki getað fært sér þetta vöruverð í nyt,..........

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138376&pageId=2035845&lang=is&q

 --------------------------------------------------

Norðanfari 1863 - Hákarlaveiðar

Mánudaginn 12. þ. m. hefir spurst hingað, að almennt hafi verið róið til hákalls af Siglunesi úr Siglufirði frá Dölum og úr Fljótum, en miðvikudaginn hinn 14 brast á vestanveður og síðan út norðan, svo að 4 eða 5 skipin hrakti í Fjörðu og Flatey á Skjálfandaflóa.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138698&pageId=2039340&lang=is&q

--------------------------------------------------

Norðanfari 30 maí 1865 – Hafís - Hvalreki

Nú eru hafísþökin sem hér voru úti fyrir að mestu horfin og sem ásamt ógæftunum hefir mjög tálmað hákarlsaflanum, svo etir því sem vér höfum frétt, eru hæstir hlutir um 80 kúta lifrar, eður 2 tunnur lýsis í hlut. 3. þ. m. rak 3 fertuga hvali undan ís í Ólafsfirði fyrir Brimneslandi, og er sagt að Kvíabekkjar kirkja hafi eignast 2/3 þeirra en landeigandi 1/3. 

Um sömu mundir, fundu Siglunesmenn tvítugan hval í ís, á svo nefndum Kollaboða, undan Reyðarár landsenda. Af hvalsölunni í Ólafsfirði getum vér það með

sanni sagt, að eigendurnir séra Stefán Ámason á Kvíabekk og óðalsbóndi og  snikkari Jón Jónsson á Hornbrekku, seldu almennt hverja vætt af spiki fyrir 2 rd.,rengi 1 rd., og þvesti 2 — 3 mörk eftir gæðum, og er eigi slík kjörkaup að fá sem þessi og sem jafnmargir njóti og hafi gott af, sem og oftast þá hvalir reka eða eru fluttir að landi.

Eigi að síður höfum vér heyrt ýmsa sem komu á hvalfjöruna í Ólafsfirði, kvarta yfir, að þeir hefði orðið útundan og lítið fengið; en aftur sumir, svo mikið sem þeir vildu og gátu flutt. Það hefði líka staðið svo lengi á hvalskurðum

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138748&pageId=2039555&lang=is&q

Meira er þarna sagt um hvalreka og deilur um skipti afurðanna 

--------------------------------------------------

Norðanfari 2/8 1869 - Hákarlaveiðar

.........Nú ganga hér norðanlands úr Fljótum, Siglufirði, kringum Eyjafjörð og af Tjörnesi 36 skip, sem öll að kalla eru þilfarsskip. Á hverju ári er verið að smíða ný skip, endurbyggja sum hin eldri að nýju, stækka þau ...........  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138849&pageId=2039907&lang=is&q

------------------------------------------------

Andvari 1 janúar 1901

Fiskirannsóknir 1900

Skýrsla til landshöfðingja. Eftir Bjarna Sœmundsson.

Hluti skýrslunnar:

............Um hvalgöngur á Skagafjörð er líkt að segja. Smáhveli eru alltíð þar, en stórhveli, sem voru þar mjög tíð fyrir um 20 árum, eru nú sjaldséð; eins er það í Fljótum.

Um 1890 komu hvalarar inn í fjörðinn og lögðu hvali á Selvík og á Siglufirði hafa þeir haft aukastöð um nokkur ár. Á Miðfjörð kemur töluvert af hvölum, jafnvel stórhvelum (sléttböku og hnúð) á sumrin, og eru þeir þar fram á haust; lögðust þeir heldur frá meðan aflaleysið var þar, en á síðari árum eru þeir nærri eins tíðir og áður. Við Vatnsnesið er töluvert af hvölum á haustin, einkum hnísu og háhyrnum, en stærri hvölunum þykir fækka.............

------------------------------------------------ 

Blaðið: FRAM, á Siglufirði 19. Maí 1917

Höfrungahlaup allstórt kom hér inn á fjörðinn í morgun, var farið bæði á vélbátum og árabátum til veiða, og lukkaðist bátunum loks í félagi að reka heilan hóp af skepnum þessum inn í fjarðarbotn og þar á grunn. Tók þá til skothríð allsvæsinn, er mun hafa líkst stórskotaliðsáhlaupi og linti ekki fyr en öll dýrin voru dauð. Hve mörg þau eru vitum vér ekki, því þetta gjörðist rétt áður en blaðið fór í pressuna. 

------------------------------------------------

FRAM 26. Maí 1917

Háhyrningarnir. Þess var getið í síðasta blaði að höfrungahlaup hefði komið hér inn á fjörðinn, og að tekist hefði að reka heilan hóp af þeim á land og drepa þá þar. — Var þetta að því leiti rangt, að þetta voru ekki höfrungar heldur háhyrningar. —

Skal hér nokkru nánar skýrt frá viðburði þessum. Um kl. 8 á laugardagsmorguninn tóku menn eftir því, að eitthvert hvalfiskavað var hér út á firðinum og álitu menn það höfrunga eða marsvín. Hugðu þá sumir hverjir gott til fanga, og tóku að útbúa sig til veiða.

Lögðu þeir bræður Helgi og Guðmundur Hafliðasynir á stað á vélbát O. Tynæsar, ásamt fleiri mönnum, með byssur og mikið af smágrjóti, en á meðan á þeim útbúnaði stóð, lögðu nokkrir árabátar á stað, einnig með byssur og grjót og urðu tveir af þeim fyrstir til að komast út fyrir hvalina.

Nokkru síðar fór annar vélbátur á stað, en byssulaus þó. Svo þegar allir þessir bátar voru komnir útfyrir torfuna, tóku þeir að gera tilraun, með grjótkasti og hljóðum, að reka þá inn fjörðinn, og tókst það betur en búast hefði mátt við. Héldu þeir alveg hópinn og flýðu undan grjótkasti og óhljóðum þeirra sem á bátunum voru.

Stöku sinnum gerðu þeir þó tilraun til að snúa við, en þá var jafnharðan ráðist framan að þeim af einhverjum bátanna, og snéru þeir þá altaf við aftur; virtust hræðast hljóðin meira en grjótkastið. Þegar svo innundir fjarðarbotninn kom, bættust afar margir árabátar við til hjálpar við að reka þá á land, enda varð þar allharður aðgangur, því þeir sóttu fast á að snúa við eftir að þeir kendu grinlsanna og skothríðin var byrjuð. Það enti þó með því að stórhveli þessi munu öll hafa verið yfirunnin, þau er inn voru rekin, rúm 70 að tölu en sagt er að annar stór hópur hafi verið kominn inn á fjörðinn, en farið út nærri strax aftur.

Nú þegar öll dýrin voru lögð að velli, kom til það atriðið, sem fáir munu hafa treyst sér til að leysa úr, n. 1.: Hverjum bar að sjá um hvali þessa, og hver á þá? Var því boðað til almenns fundar það sama kvöld kl. 7 til 8, til þess að taka ákvörðun um skiftinguna. — Var sá fundur all fjölmennur en ekki að sama skapi fjölvirkur.

Fundarstj. var kosinn, séra B. Þorsteinsson. Eftir nokkrar umræður, kom fram tillaga um að kjósa 9 manna nefnd var sú tillaga borinn upp og samþykt. Þá kom fram tillaga um að nefndin yrði kosin þannig, að fyrst yrði nefndur 1 maður, svo nefndi hann sér annan o. s. frv. Og virtist mörgum þessi hugmynd góð, en er þess var óskað að þessi aðferð við nefndarkosninguna væri borin upp til atkvæða, vildi fundarstj.

það ekki, hvað þess ekki þörf. Það virðist þó hafa verið útlátalaust, sérstaklega er um jafn óvanalega kosningaraðferð var að ræða. Var þá byrjað að kjósa nefndina og byrjaði Helgi Hafliðason með að tilnefna Hjalta Jónsson, hann nefndi svo Jón Guðmundsson, hann svo Flóvent Jóhannsson, en hann Guðm. Hafliðason, og hann Helga Hafliðason, og hann Þorst. Pétursson, og hann Jón Jóhannesson, og hann Sófus A. Blöndal, og hann séra Bjarna Þorsteinsson, og var þá nefndin fullkosin.

Verkefni nefndar þessara er fyrst og fremst það, að standa fyrir sölu á hvölum þessum og ákveða verð á þeim, svo og hitt, að ákveða — eða að minsta kosti gjöra tillögur um — hverjum beri sá hreini hagnaður af hvölunum, eða hvernig honum skuli varið. Verðið mun flestum vera kunnugt orðið: spik 0.60, megra 0,30, beinlaus bæxli 0,16, og bæxli með beinum 0,08 kílóið, og var alt uppselt á þriðjudagskvöldið.

Hve mikla peningaupphæð þessir hvalir gera, er ekki unt að segja ennþá, því t. d. fór nokkuð mikið til Reykjavíkur með Varanger, og ófrétt hve mikið það hefir gert; en kunnugir hafa fullyrt að upp undir 20 þús. kr. myndu verða afgangs kostnaði. En þó það ekki verði svona mikið, þá er þetta þó mikil upphæð, sem þannig hefir borist upp í hendur manna hér, og vafalaust á nefndin vandasamt verk fyrir höndum; það að ráðstafa þessum peningum á sem heppilegastann og réttlátlegastann hátt að unt er.

Manna á milli hafa gengið ýmsar getgátur um afdrif peninganna, hafa jafnvel sumir talið sjálfsagt að þeir sem fóru út á fjörðinn fengju þriðjung, já og jafnvel helming af öllu saman. En hvernig svo sem endirinn verður, er óhætt að fullyrða það, að ef það verður ofaná, að nota þetta lán, þessa sendingu forsjónarinnar, til þess að auðga einstöku menn, þá mun það fá harðan dóm alls almennings.

Annars munu menn bera fult traust til hinnar heiðruðu nefndar, að hún sýni fulla mannúð og réttsýni í gjörðum sínum, og hún sé upp yfir það hafin að láta hagsmuni einstakra manna hafa áhrif á sig. Á það bendir líka meðal annars það, að eitt af fyrstu gjörðum hennar var, að útbýta gefins til hvers einasta hreppsbúa, 10 pd. af rnegru og 5 pd. af spiki. 

----------------------------------------------- 

Fram 20. Október 1917

Hvalnefndin. I.

Nefnd sú, sem kosin var 19. maí s.l., til þess að koma í peninga og ráðstafa á annan hátt háhyrningum þeim, sem reknir voru hér á land þann sama dag, og sem alment er nefnd Hvalnefndin, er aðal umtalsefni bæjarbúa þessa dagana. Var þess getið í síðasta blaði að Hafnarbændur hefðu stefnt nefndinni fyrir það, að hún vildi ekki greiða þeim landshlut, einn þriðja verðs af 66 háhyrningum, sem þeir telja að unnir hafi verið á sinni lóð, og fluttir þaðan burtu að þeim óspurðum.

Sáttakærufundur var haldinn 16 þ. m., en alveg árangurslaust, komst þar engin sætt á, svo málið fer til dóms. Vér höfum fengið fjölda af fyrirspurnum um gjörðir nefndarinnar, og áskoranir um að birta í blaðinu einhverjar upplýsingar í málinu, en vér höfum því ver ekki getað neitt af þessu, því oss hefir verið jafnlítið kunnugt um nefndina og gjörðir hennar, sem almenningi.

Ítrekaðar tilraunir vorar til að fá upplýsingar hjá nefndarmönnunum, hafa litinn eða engan árangur borið, hafa þeir ýmist varist allra frétta, eða þá sagt sitt hver. það eina sem séðst hefir opinberlega frá nefndinni, er auglýsing sem fest var upp á götum bæjarins hér í sumar, þar sem allir er þátt tóku í innrekstri og landflutningi háhyrninganna, voru beðnir að gefa sig fram við einn nefndarmanninn.

Fyrir nokkru fór svo sú fregn — hvalfregn sögðu sumir — að berast út milli manna, að þeir sem eitthvað hefðu verið við hvalina riðnir, þyrftu ekki annað en fynna Jón Guðmundsson verzlunarstjóra, þá fengju þeir þetta frá 10 krónum og uppí 200 krónur eftir dugnaði og þátttöku. Ekki tilkynti nefndin þó þessa ákvörðun sína, hvorki með formlegum tilkynningum til hvers einstaks né heldur með auglýsingu, heldur lét sér nægja að hvísla því að kunningjum sínum, treystandi því líklega að þeir svo létu það »ganga um bæinn, frá manni til manns.

Vér höfum átt tal við þó nokkra, sem »sótt hafa gull í greypar Jóns,« og segjast þeir fá töluvert misjafna upphæð, þótt sama verkið hafi þeir unnið margir hverjir. En eftir því sem vér komumst næst af sögnum þeirra, þá er útborgunarreglan eitthvað á þessa leið. Þeir sem komu að sjá dýrðina, en urðu að ganga snökkklæddir með jakkann á handleggnum, vegna sólarhitans, fá 10 kr. Þeir sem réru háhyrningana í land og unnu eins og menn, fá 15 krónur.

Þeir sem urðu blautir í fæturnar, fá 20 kr. En hásetarnir á vélbátunum sem úteftir fóru, fá 200 kr. Þeir sem voru farþegar á vélbátunum fá að sögn ekki neitt, enda þótt þeir hljóðuðu eins og hinir og hentu grjóti af mikilli snild, — en fargjald sleppa þeir við að greiða. En hvað þeir fá sem á árabátunum fóru og sem réru alt skinn af höndum sér, vitum vér ekki.

Ýmsar fleiri ráðstafanir höfum vér heyrt nefndar, svo sem að Sjúkrasamlagið ætti að fá 500 kr. og Sjúkraskýlissjóður hreppsins stóra upphæð; en hvort þetta er satt eða logið getum vér ekki sagt um, því þó einn af nefndarmönnunum hafi fullyrt það, þá hefir annar neitað því.

------------------------------------------------

Fram 27. Október 1917

Hvalnefndin. II.

Hve mikið allir háhyrningarnir gerðu að krónutali samtals,vita menn ekki, — og nefndin veit það naumast sjálf. — Hve mikið búið er að borga út í verkalaun, skotfæri, kaðla og hnífa o. fl. vita menn heldur ekki og ekki hve miklu nemur úthlutun sú sem getið var í síðasta blaði, til þeirra er hjálpuðust að, að koma háhyrningunum á land.

Einn sjöundi allra háhyrninganna fór til Reykjavíkur, en þaðan eru engin reikningsskil komin, og fullyrða kunnugir menn, að þaðan komi aldrei neitt eða mjög lítið, því mikið af kjöti og spiki hafi orðið þar ónýtt. Ennfremur mun talsvert óinnheimt hjá einstökum mönnum bæði hér og annarsstaðar. Verður ekki betur séð en þetta sé ódugnaður í hæðsta máta.

Því ekki ætti það að vera ofvaxið 9 mönnum, að innkalla ekki fleiri þúsund en þetta er, á 5 mánuðum. En um söluna til Reykjavíkur er það að segja að vér viljum ekki fyr en vér megum til, trúa því, að nefndin hafi sent háhyrningana og látið þá liggja í Reykjavík á sína ábyrgð. En hafi svo ekki verið, hafi nefndin selt vöruna hér, og sent hana á ábyrgð kaupanda, eins og alment er í viðskiftalífinu, þá getur ekki komið til mála annað en Reykvíkingar borgi fulla upphæð, enda þótt alt hefði orðið ónýtt.

Annaðhvort hefir nefndin því selt vöruna á þann klaufalegasta hátt sem hægt var, eða hún hefir sýnt af sér einstakt ósjálfstæði gagnvart Reykvíkingum, og er hvorutveggja óverjandi. Þá er það álit margra, og það mikils meirihluta manna, að nefndin sé komin útfyrir starfsvið sitt, þar sem hún er farin að taka áhvarðanir um endanleg afdrif peninganna. Segja, að hún hafi til þess eins verið kosin, að standa fyrir sölu á þessari himnagjöf, og koma henni í »afl þeirra hluta sem gjöra skal.«

Vér skulum að svo komnu máli engan dóm á það leggja, til hvers nefndin var kosin og til hvers ekki. Sjálfsagt þykist nefndin hafa óskerta heimild til fullnaðar ráðstöfunar peninganna, annars væri hún ekki farin að borga 200 kr. »premíu« til einstakra manna, eða 100 kr. verðlaun fyrir skot, eða leyft sér að fara í mál við Hafnarbændur á kostnað háhyrninganna.

En hvort sem fullnaðarráðstöfun peninganna er hlutv. þessarar nefndar, eða nýrrar nefndar, þá er óhætt að fullyrða að ráðstöfun þeirra peninga, sem komnir eru inn fyrir jafn óvænt og sjaldgæft happ, sem hver einstakur virðist með svo mikilli sanngirni geta tileinkað sjálfum sér jafnt og öðrum, verður ekki látin afskiftalaus af almenningi. 

----------------------------------------------

Fram 3. Nóvember 1917

Hvalnefndin. III.

Vér höfum nýlega átt tal við einn af nefndarmönnunum — Flóvent Jóhannsson — um gjörðir hvalnefndarinnar. Staðfesti hann að mestu leyti frásögn vora um úthlutun til hinna einstöku manna, er þátt höfðu tekið í samanrekstri háhyrninganna, Ennfremur sagði hann, að búið væri að borga eigendum þeirra 2 mótorbáta sem úteftir fóru, 300 kr. hvorum í bátslán. Sjúkrasamlagið sagði hann að sig minti að ætti að fá 300 kr. en þorði þó ekki að fullyrða hvort það væri rétt, hvort það ætti að fá 300, 500 eða als ekkert.

(Til samanburðar má geta þess hér, að Þorst. Pétursson hefir sagt að það hafi verið samþykt og bókað, að samlagið fengi 500 kr., en Jón Guðmundsson segir að það hafi aldrei verið samþykt að samlagið fengi neitt.)

Vér spurðum hann um ýmislegt fleira, en hann vildi sem allra minst segja. Frá Reykjavík sagði hann að ekkert væri komið enn, en von um 1400 til 2000 kr. fljótlega, og er það þó vitanlega ekki helmingur þess er þangað fór. Engar upplýsingar gat hann gefið viðvíkjandi sölunni suður, eða með hvaða skilmálum varan hefði verið seld, sagði að séra Bjarni og Hjalti Jónsson hefðu staðið fyrir því, og að sér væri það atriði ókunnugt.

Ekki var Flóvent í neinum vafa um það, að nefndin hefði fult vald til allra ráðstafana viðvíkjandi háhyrningunum, jafnt síðast sem fyrst, og að ekki gæti því komið til mála að hún færi nokkurn tíma út fyrir starfsvið sitt.

Því, — hver á þessa peninga? — Er það almenningur, eða nefndin? Og þegar vér bentum honum á, að nefndin hefði þó verið kosin af almenningi, og á opinberum borgarafundi og það benti þó á að enginn einn maður, eða níu menn, væru eigendurnir, heldur allir, sagði hann að nefndin hefði als ekki verið kosin, það væri nú það fína við það. — Svona sagðist honum frá, og þegar vér skyldum við hann, var sigurbros á vörum hans. 

---------

Eins og sagt var frá hér í blaðinu í vor, var boðað til almenns fundar strax eftir að háhyrningarnir voru komnir á land. Var fundarstj. valinn séra Bjarni Þorsteinsson. Var þvínæst rætt um fyrst og fremst hvernig ætti að koma öllum þessum ósköpum í peninga, og svo hvaða verði ætti að selja það sem selt yrði.

Þá var og lítillega minst á hvað gera ætti við peningana, og hver eiginlega ætti þá; en af umræðunum yfirleitt var ekki annað að heyra en það mál væri ekki hér til umræðu, heldur aðeins það, hvernig koma mætti hvölunum í peninga, og það sem fyrst. Stungið var upp á að kjósa 9 manna nefnd, og bar fundarstjóri þá uppástungu upp til atkvæða, og var hún samþ. Þá var stungið upp á að nefndin skyldi ekki kosin, heldur tilnefndi einhver fyrst einn, og svo _sá tilnefndi annan og svo koll af kolli uns komnir voru níu. —

Var þá beðið um að bera þessa nýju útnefningaraðferð undir samþykki fundarins, en því neitaði  fundarstjóri. Nefndin var svo tilnefnd á þennan hátt og fundi slitið. Það verður ekki séð, hvað vakað hefir fyrir uppástungumanni þessarar nýju útnefningaraðferðar, og ekki verður heldur séð, hvað vakað hefir fyrir fundarstjóra, er hann synjaði um að bera aðferðina upp til atkvæða.

En undarlega lætur það í eyrum manna, þegar nefndin sjálf fer að hælast um yfir því, að hún hafi ekki verið kosin á fundinum, og að almenningur eigi engan þátt í tilveru hennar. Lítur það nærri því þannig út, sem nefndin þykist sjálf alt eiga og að hún hafi tilnefnt sig sjálf, og engum komi gjörðir hennar við. —

Það er líklega synd að, álíta að útnefningaraðferðin hafi verið viðhöfð að yfirlögðu ráði, til þess að geta tekið öll fjárforráðin í sínar hendur, og sagt svo á eftir — »við kusum okkur sjálfir og ráðum því öllu sjálfir; engum kemur þetta við nema okkur sjálfum.« — En það er auðvitað synd og þess vegna ætlum vér ekki að álíta að svo hafi verið. —

En, hversvegna var fundurinn boðaður í vor? Þetta er því miður alt sem vér getum sagt um nefndina að sinni, en það er eins og vér tókum fram í upphafi, bæði fátt og lítið. Alla þá, sem átt hafa von á mikilvægum upplýsingum frá oss, verðum vér að biðja afsökunar á vonbrigðunum. En jafnskjótt sem vér verðum einhvers vísari, er málið skiftir, munum vér leitast við að segja sem sannast og nákvæmast frá því. 

----------------------------------------------

Fram - 2. nóvember 1918 

2. árgangur 1918, 43. tölublað

Happið mikla.

Einn fagran dag í maímánuði í fyrra var uppi fótur og fit hér í Siglufirði, hvert mannsbarn er vetlingi gat valdið flýtti sér hér suður að höfninni, því stórt happ hafði hlotnast sveitinni, um 70 háhyrningar voru reknir á land og unnir. Það var ekki að undra þó gleðin skini á hverju andliti, því þessir háhyrningar voru feikna mikils virði, talið í tugum þúsunda manna á milli. Þegar búið var að bana háhyrningunum, var stofnað til fundar og kosnir níu menn — bestu menn sveitarinnar, einn var reyndar úr Rvík — til þess að ráðstafa þessari blessaðri björg, með öðrum orðum koma henni í peninga. Við að biskupa háhyrningunum til vann fjöldi manns af miklu kappi, og undir ágætri stjórn. Lá þar enginn á liði sínu. Þegar því var lokið var gengið að því að úthluta gefins 15 pundum af megru og 10 pundum af spiki á hvert nef í sveitinni. Það sem þá var eftir, sem ekki var neitt smáræði, var selt.

Komu menn hingað úr nærliggjandi sveitum og keyptu þar til alt var uppgengið. Nokkrir háhyrningar voru sendir til Reykjavíkur. Snemma fór að brydda á því, að menn voru ekki á einni skoðun um hverjir væru hinir réttu eigendur að þessum mikla feng. Var um það deilt manna á milli, en aldrei fanst hin rétta niðurstaða. Um það kom öllum saman að miklir peningar yrðu afgangs kostnaði og var ekki trútt um að menn biðu með óþreyju eftir að fá að vita hve miklir þeir yrðu. 

En því miður hefir almenningur ekki fengið að vita það enn. Nefnd sú hin mikla, sem kosin var, hefir ekki ennþá, svo lýðum sé ljóst, gert grein fyrir starfi sínu. Flestir munu þó líta svo á að það sé skylda hennar, því þó ágreiningur geti verið um hverjir eiga, eða áttu, að hafa ágóðann af þessu mikla happi, sem sveitinni hlotnaðist í háhyrningunum, þá mun allur þorri manna sammála um, að það var ekki nefndin.

Að sjálfsögðu hlýtur nefndin að hafa góðar og gildar ástæður fyrir þessum drætti, annars myndi hún ekki leyfa sér hann, en óneitanlega er hálf einkennilegt að hálft annað ár skuli þurfa að líða svo að almenningur fær ekki að vita um árangurinn af þessu mikla sveitarhappi.

s. m.

----------------------------------------------

Framtíðin 20. maí 1923

Dómur, uppkveðinn í Háhyrningamálinu.

Tildrög þessa máls, eru, sem kunnugt er þau, að 19. maí 1917 kom háhyrningavaður inn á Siglufjörð. Var safnað liði og hvalirnir reknir af miklum mannfjölda inn á höfn kaupstaðarins og inn að timburhólmanum (Anlæg) sem bygður er innst á höfninni, fram undan landi jarðarinnar Höfn. Voru 74 af hvölunum drepnir þar, ýmist lagðir eða skotnir, er þeir kendu grunns, eða hættu að geta neitt sunds.

Voru hinir drepnu hvalir síðan fluttir út á Siglufjarðareyri og skornir þar. — Eftir að búið var að drepa hvalina og flytja þá á land, var skotið á fundi meðal þeirra manna sem unnið höfðu að hvaladrápinu en það var sennil. mikill meiri hluti vinnufærra manna í bænum. Var á þessum fundi kosin 9 manna nefnd til þess að ráðstafa afurðunum og koma þeim í verð.

Nefnd þessi vann svo að þessu verki, uppskurði og sölu hvalanna. Innkallaði andvirðið og skilaði svo bæjarstjórn Siglufjarðar andvirðinu, sem var, að frádregnum öllum kostnaði, kr. 7622,52. Eigendur jarðarinnar Hafnar töldu flestalla hvalina vera drepna í Hafnarlandareign og kröfðust Iandshlutar af nefndinni, en sem hún neitaði að greiða.

Hófu þeir því mál gegn nefndinni, og var lögmaður Böðvar Bjarkan sækjandi málsins en Vald. heit. Thorarensen verjandi fyrir nefndarinnar hönd, meðan hann lifði, en síðan Jón Sveinsson bæjarstjóri. Málið var rekið á Akureyri, með því það byrjaði áður en Siglufjörður fékk bæjarrétttindi og bæjarfógeta og hefir Steingrímur bæjarfógeti nú kveðið upp dóm í málinu svohljóðandi:

Stefndu: Séra Bjarni Þorsteinsson, verslunarstjóri Jón Guðmundsson, kaupmaður Helgi Hafliðason, hreppstjóri Guðmundur Hafliðason, kaupmaður Sophus Blöndal, Flóvent Jóhannsson, fyrv. bóksali Jón Jóhannesson og veitingasali Þorsteinn Pétursson, allir til heimilis á Siglufirði, greiði stefnendunum þeim: læknir Helga Guðmundssyni, Rakel Pálsdóttir (nú dánarbúi hennar) og Páli Kr. Jóhannssyni, 2540 - tvö þúsund fimm hundruð og fjörutíu krónur 84 aura, ásamt 5% ársvöxtum af þeirri upphæð, frá 11. okt. 1917 að telja, þar til greitt er.

Svo greiði þeir og stefnendunum 300 — þrjú hundruð krónur í málskostnað. Dóminum að fullnægja innan 3ja sólarhringa frá löglegri birtingu hans að viðlagðri aðför að lögum.« 

----------------------------------------------

Náttúrufræðingurinn 1. ágúst 1933 - 

Hvaladrápið á Ólafsfirði

Eftirfarandi frjettabrjef hefir blaðinu borist: p. t. Ólafsfirði, 10. ág. 1933.

Í gærmorgun fóru nokkrir bátar til fiskjar að vanda. Var sjór þó allúfinn og nokkur gráði. — Tóku bátverjar á einum „trillu"-bátnum þá eftir gríðarmikilli marsvína torfu, sem ólmaðist í fjarðarmynninu. Báturinn var einn síns liðs, en þeir bátverjar brugðu við og sigldu bátnum fyrir torfuna og hugðust að reka „svínin" inn í fjörðinn, — með hávaða og ýmsum illum látum.

Tókst þetta vonum betur. Hvalirnir tóku á rás inn í fjörðinn og var nú tekið eftir þessum hamförum úr landi. Brugðu menn Við skjótt og hlupu í alla ,,trillu"-báta og mótorbáta, sem hægt var að koma af stað, og hafði hver með sjer það sem hendi var næst, til hávaðaauka og vígbúnaðar, svo sem byssur og barefli, grjót og Ijáblöð.

En aðalærslin gerðu karlarnir sjálfir, með því að æpa og grenja, alt hvað af tók, þegar út var komið. Komust nú allir bátarnir fyrir hvalatorfuna, skipuðu sjer í veg fyrir hana og ráku síðan á undan sjer inn eftir firðinum. Dýrin urðu trylt og reyndu hvað eftir annað að komast út, fram hjá bátunum, og tvisvar sýndist okkur, sem í landi stóðum, að þau vera að sleppa úr greipum veiðimannanna.

Í bæði skiftin tókst þó bátunum að komast fyrir þau aftur. Var þá stundum allægilegt að sjá aðfarirnar, því að margir voru bátarnir litlir og lentu sumir í miðri „svína"- þvögunni og gengu á ýmsum endum. Ein „trillan" varð t. d. eftir fyrir innan torfuna miðja, þegar hinir bátarnir voru komnir út fyrir. Varð þessi litla skel fyrir, þegar hvalirnir voru reknir til baka og ruddust þeir á hana og undir hana svo að hún tókst á loft hvað eftir annað, en ekki varð henni hvolft.

Þegar nær dróg landi fór reksturinn að ganga treglegar, en þá tóku nokkrir hvalirnir sig út úr hópnum, og brunuðu beint upp í sand, og strönduðu þar í flæðarmálinu. Var nú hert á hávaðanum og óhljóðunum og rekið fast á eftir og um klukkan ellefu f. h. voru allir hvalirnir strandaðir í sandinum, niður undan instu húsunum í þorpinu.

Ruddust nú þeir sem í landi voru fram, með byssur, barefli, ljái og sveðjur og óðu fram í þvöguna. Var það mesta mildi að ekki skyldi hljótast af meiðsli eða slys, því að nú rjeði vígahugurinn meiru en forsjálnin. Stóðu menn í þvögunni miðri, í sjó upp undir hendur, og lögðu til hvalanna með vopnum sínum á báða bóga. Vár bæði gaman og grátlegt að sjá aðfarirnar.

Einn náunginn var kominn dýpra en svo að hann treystist að bjarga sjer. Þreif hann þá í bægsli á einum hvalnum og hóf sig á bak og reið hvalnum klofvega, en hvalurinn stefndi til hafs. Eftir þessu var þó tekið í tíma og var reiðskjóti þessi rekinn á land með harðri hendi, og „knapann" sakaði ekki.

Öðrum manni varð fótaskortur, þar sem þó var stætt, og fór í kaf, en þegar hann var að reyna að ná jafnvæginu aftur, fekk hann hnykk af hvalsporði og keyrðist í kaf öðru sinni og fór svo þrisvar eða fjórum sinnum, og mun honum hafa verið farið að þykja nóg um, þegar honum varð loks bjargað. —

Þétta er fádæma mikils verður og merkilegur fengur, sem Ólafsfirðingum hefir fallið hjer í skaut, því að hvort tveggja, kjötið og spikið af þessum smáhvölum er afbragðs gott til manneldis. Komu þarna á land um 300 hvalir, frá 6—25 fet að lengd og giskað á að muni vega 500—2000 pund, og eru flestir af meðal stærð. —

Var símað hjeðan í næstu þorp og sveitir og sagt frá björginni og mönnum boðið að sækja hingað það sem þeir vildu, fyrir lítið verð. Er utansveitarmönnum seldur hvalurinn á 10—20 krónur, eftir stærð, og af handa hófi. En Ólafsfirðingarnir þurfa ekki annað fyrir að hafa en að helga sjer hver sinn hvalinn, hjálpast síðan að því að draga þá upp á malarkambinn og þar eru þeir skornir.

Hafa nú allir nægilegt kjöt til vetrarins og vel það — því að flestir salta það, og „súrsa" spikið,.— það sem ekki er notað nýtt. Síðari hluta dags í gær og gærkvöldi komu bátar úr ýmsum áttum til þess að sækja „svín" og er hjer margt manna í dag. Siglfirðingar, Svarfdælingar, Hríseyingar og Húsvíkingar.

Og er búist við að alt verði notað — og eru það ódýr matarkaup að fá t. d. 1000 pund af kjöti, sem líkast er nautakjöti af veturgömlu. fyrir 15 krónur, — og jafnvel ekki neitt.. — Hefir komið til orða að sénda skip til Reykjavíkur með eitthvað af þessari miklu björg, — svo að ekkert fari til spillis. Slys urðu engin og lítil meiðsli. 

Theódór Árnason. –  

Sama frásögn einnig í Morgunblaðinu síðar:> http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=103020&pageId=1224771&lang=is&q=hvalir

----------------------------------------------

Morgunblaðið 7. mars 1934

Hákarlamenn, Theódórs Friðrikssonar   - BÓKMENTIR

Jeg er einn þeirra fáu, gömlu hákarlaformanna, sem enn tóra hjer norðanlands. Reyndar er nú allmikið farið að halla undan fæti fyrir mjer, og spölurinn tekinn að styttast til grafarbakkans, því jeg er nú orðinn 77 ára. En á svipuðum aldri eru flestir hákarlaformennirnir frá minni samtíð.

Hjer í Siglufirði erum við nú þrír eftir: Þeir Jón Jóhannesson, Barði Barðason og jeg. Um daginn hvarf Þorleifur Þorleifsson úr hópnum, en hann var okkar yngstur. Jeg skal ekki leyna því, að mjer var talsverð forvitni á að sjá bók Theodórs, og þeim mun meiri, að jeg vissi, að Menningarsjóður hafði kostað útgáfuna og tekið bókina góða og gilda, sem heimild um horfinn atvinnuveg og menningu og lífsviðhorf þeirra er stunduðu hann.

Jeg vissi, að bókin átti að vera lýsing á æfistarfi okkar hákarlamannanna, lýsing og saga horfinnar atvinnugreinar og um leið allverulegur þáttur úr útgerðarsögu Norðlendinga — og eigi hinn veigaminsti. Nú hefði jeg mátt vænta þess, að Theodór hefði byrjað á því, að rekja sögu þessa veiðiskapar aftur í tímann, svo langt, er heimildir gáfu efni til, og getið þeirra manna fyrst og fremst, er öndvegismenn hafa reynst um þessa karlmannlegu atvinnugrein og borið hana uppi, uns vjelamenningin kom á makraðaðri sjósókn og aðbúðarbetri, og meira var að fá í aðra hönd með minni áreynslu.

Hvorugt þetta hefir Theodór gert til nokkurrar hlítar og þess vegna finst mjer bókin lítið annað en óverulegt hrafl, krafsað af handahófi út úr miklum efnisbirgðum. Bókin er því í rauninni hvorki fugl nje fiskur og allsendis ónóg sem heimildarrit um jafnmikilsverðan þátt úr atvinnusögu þjóðarinnar og hákarlaveiðarnar eru. Það er því langur vegur frá því að bókin sje samboðin Menningarsjóði og því hlutverki. er henni er ætlað að vinna. Auk þess tel jeg, að Theodór lýsi okkur eigi allskostar rjett. —

Jú, mjer er óhætt að fullyrða, að þar skortir mikið á, því að jeg hálfblygðast mín er jeg hugsa til þess; ef þetta rit á ef til vill. um ókomna tíma. að verða aðalheimild um siðmenning okkar hákarlamannanna. Enda þótt jeg sje mentunarsnauður maður og fjarri því, að vera bær til að dæma ritverk manna alment, verð jeg þó að álíta, að jeg sje færari til að dæma um þessa bók, en margir þeirra manna, er um hana hafa fjallað áður en hún kom út og um hana hafa skrifað eftir útkomu hennar.

Þó er óánægja mín með bókina eigi þess valdandi að jeg rjeðist í að skrifa þessar línur, heldur hitt, að  Theódór fer að allverulegu leyti rangt með heimildir þær er hann fekk frá mjer. Á jeg þar við síðustu frásögnina í bókinni og hann kallar „Sjóhrakningur".

Jeg sje því eigi annað ráð vænna en að biðja Morgunblaðið fyrir þessar línur, sem eru í raun eigi annað en leiðrjetting og um leið endursögn á tjeðum kafla í bókinni, því mjer þykir miklu máli skifta að eftirkomendur mínir álíti mig eigi svo mannúðarlausan, að jeg hafi lagst fyrir hákarl, með dauðvona mann innanborðs, er hrakist hafði 16 sólarhringa í opnum báti norður í Ishafi, og var svo nærri ekið, að þurfa að nærast á holdi látins fjelaga til þess að halda lífi fyrir hungurssakir.

En annað verður eigi ráðið af frásögn Theódórs, en að mjer hafi farist lítilmannlega. Og enn hefir Theódór brjálað frásögn mína um fleiri atriði. Mun- jeg nú segja söguna hjer rjetta.- 

Það var árið 1883. Jeg var þá formaður á hákarlaskipinu „Stormur", sem var 30 smálestir að stærð og sterkbygt skip og vandað eftir því, er þá gerðist. Alls voru 12 menn á skipinu. Eigendur þess voru þeir bræður Magnás og Jón úr Fagraskógi, en afli var látinn á land á Akureyri. Við vorum að leggja út i legu seint í maí.

Leiði var óhagstætt og vorum við marga daga að komast norður að Kolbeinsey. Er þangað kom, gerði stillilogn. Strákar stungu þá upp á því við mig, að leifði leyfði þeim að ganga á eyna eftir eggjum, en þá var Kolbeinsey  eins og oftar þakin eggjum, svo varla varð stigið niður fæti og- fuglamergðin gífurleg. Sú trú var meðal hákarlaformanna til forna, og eifði eftir af henni eigi alllítið en, er þetta skeði, að tæki hákarlamenn egg í Kolbeinsey á útsiglingu á legu, mundi alt illa ganga, eða að minsta kosti eitthvað ógeðfelt koma fyrir á legunni.

Enda þótt eigi mætti kalla að jeg legði mikinn trúnað á þessa bábilju, var mjer um og ó að leyfa þetta. Auk þess var varasamt að ganga á eyna, því eigi má mikið ókyrrast sjór svo ófært sje að lenda þar, en áhættumikið, að menn yrðu eftir á slíku eyðiskeri fyrir jafnlitla nauðsyn. En með því að veður var hið besta og útlit gott, en strákar þrábeiðnir, Ijet jeg tilleiðast. að gefa þeim leyfið.

Eftir stutta stund komu þeir aftur til skips með 1200 egg- og hafði alt gengið að óskum. Skömmu síðar kom á austankul og var þá tjaldað því er til var og siglt áleiðis til Strandagrunns, en þar taldi jeg helst hákarlavon. Er þar var komið er hákarlamenn kölluðu Miðslæður, en það er um 80 sjómílur í hánorður af Eyjafirði, ákvað jeg að bera niður. Jeg var í reiða því þokusúld var á, og sá jeg þá óljóst grilla i þústu nokkra skamt frá skipinu.

Ljet jeg nú beygja að þessu, og kom þá í ljós, að þetta var allstór bátur. Bar allur útbúnaður bátsins þess vott að hann væri frá bresku hvalveiðaskipi. Enda var svo. Skip þetta hafði verið að hvalveiðum norður í höfum og sent frá sjer báta til hvalskutlunar, eins og siður var þá. Í þetta skifti hafði það sent frá sjer þrjá báta og var fimm manna áhöfn á hverjum. Hafði þá skyndilega skollið á norðanhríðargarður. -

Týndi skipið bátunum öllum og komst víst enginn þessara fimtán manna lífs af nema þessi eini maður er hjer verður frá sagt, og mátti þó með sanni segja, að munaði mjóu að honum yrði bjargað. Slitur af breska fánanum hekk á lítilli stöng í skut bátsins, en maður lá yfir eina þóftuna og varð eigi sjeð í fyrstu hvort hann var með lífsmarki eða ekki.

En er „Stormur" var kominn svo nálægt að skugga af skrokk og seglum bar yfir bátinn heyrðum við að maður gaf frá sjer veikt hljóð. Var nú öllu hraðað sem mest, báturinn dreginn að skipshliðinni en fjórir af hásetum mínum stukku niður í hann og lyftu manninum varlega upp í „Storm", en jafnvel þótt gætt væri allrar varúðar, veinaði maðurinn sárt.

Eigi skildum við neitt er maðurinn sagði, því að enginn var á „Stormi" er skildi enska tungu. Þó skildum við orðið „water", eða þóttumst skilja það. Stígvjel og sokka urðum við að rista af fótum mannsins, því þeir voru orðnir svo þrútnir, og bláir og kaldir. Auðsjeð var, að maðurinn var aðfram kominn af hungri, þorsta og vosbúð.

Galt jeg varhuga við að láta hann eigi fá stóra skamta í einu, enda þótt jeg tæki nærri mjer að neita honum, því löngunin var mikil og meiri en svo, að hann hefði stjórn á að ætla sjer af. Nú vildi svo óheppilega til, að á kom stillilogn og þoka. Lagðist jeg þá við stjóra svo straumur bæri eigi skipið afleiðis. Leyfði jeg hásetum að renna vöðum sínum, en sagði þeim jafnframt að þeir yrðu að vera við því búnir að hafa upp jafnskjótt og nokkurt leiði kæmi, hvernig sem á stæði.

Svona lágum við sex tíma, en þá kom austanleiði dágott.Var þá samstundis leyst þrátt fyrir það þótt þá væri kominn nógur hákarl undir, og siglt eins og komist varð áleiðis til lands. Bátinn tókum við með, en hann (reyndist örðugur í drætti og fylti fljótt svo við hjuggum hann frá okkur. Eftir sólarhrings stöðuga siglingu náðum við Siglufjarðarmynni, en þá gerði blæjalogn. Var þá í snatri settur út skipsbáturinn og róið með hinn veika mann til Siglufjarðareyrar, en þaðan var hann samdægurs fluttur til Akureyrar þar sem teknir voru af honum báðir fætur ofan við hnje.

Alla stund í land ukust kvalirnar í fótum hins þjáða manns, enda var drep hlaupið í báða fætur. Maður þessi var 25 ára og hið mesta hraustmenni, enda hefði hann annars eigi lifað af aðrar eins hörmungar. Hann sagði svo frá þegar hann hafði tal af þeim er skildu hann, að á 8. eða 9. sólarhring hafi tveir af fjelögum sínum brjálast og stungið sjer útbyrðis til þess að gera skjótan enda á hörmungum sínum.

Nokkra síðar ljest hinn þriðji. Voru þeir þá löngu þrotnir að vatni og vistum, sem þeir höfðu haft af skornum skamti til slíkra hrakninga, enda eigi við slíku búist er lagt var frá skipinu. — Tóku þeir fjelagar það þá til ráðs, að skera allstóran vöðvabita úr líki hins látna og blóði því er seytlaði úr sárinu blönduðu þeir saman við sjó og drukku.

Vörpuðu þeir svo líkinu útbyrðis, en nærðust á kjötinu síðustu sólarhringana, en loks dó síðasti fjelaginn. Var þá hinn ungi maður svo þrotinn að kröftum, að hann varð að beita allri orku og hörku er hann átti til, til þess að velta líkinu útbyrðis. Lagðist hann svo fyrir og ætlaði að bíða dauða síns. En skömmu síðar bar okkur að. —

Kjötleifarnar sáum við í bátnum. 

Er við komum inn úr legunni til Akureyrar heimsóttum við Englendinginn, þar sem hann lá í sjúkrahúsinu. Leið honum þá vel og var mikið til gróinn sára sinna og hafði náð sjer furðanlega vel. Var hann hinn hressasti eftir atvikum. Síðar um sumarið hjelt hann heimleiðis. Svona er nú saga þessi rjett sögð.

Og enda þótt jeg segi ekki jafn skemtilega frá og Theódór, vil jeg þó heldur að ættingjar mínir og aðrir, er lesa rit Theódórs eigi líka þess kost, að fá vitneskju um það, að Jóhanni gamla frá Sauðanesi þótti ekki svo vænt um hákarlinn, að hann metti eigi mannslífið meira. 

Jóhann Gunnlaugsson, frá Sauðanesi.  

---------------------------------------------- 

„Tímaritið“ Blanda, 1. janúar 1936 Skýringar um skip og formenn, nefnd í formannavísum Hafliða Finnbogasonar, frá 1873 >

Mikill fróðleikur um skipsskaða fyrri tíma og fleira tengt Siglufirði og víðar. Mörg þekkt skipsnöfn, nöfn hákarlaformanna og annarra skipstjórnarmanna og margt fleira. 

Mjög fróðleg, og verðug lesning:  > http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=312286&pageId=4815412&lang=is&q=h%E1karla  

----------------------------------------------

Morgunblaðið 1. apríl 1936

Kastið ekki skrápnum

Leiðbeiningar um hákarlaveiði. Eftir Sveinbjörn Egilson.

Kafli sá, sem hjer fer á eftir, er tekinn úr grein, sem prentuð er í október hefti „Ægis" 1917. í 9. tbl. IX. árgangs Ægis er minst á hákarlaveiði með lóð og að Norðmenn sjeu byrjaðir á þeirri veiðiaðferð og þess getið, að þeir beiti sjálfum hákarlinum. Það var árið 1916 og höfðu þeir þá markað fyrir alt af skepnunni, fyrir lifur, fiskinn eða kjötið og skrápinn.

Fari nú svo að hákarlaveiði verði hjer stunduð framvegis, hvort heldur með gamla laginu eða með lóðum, þá mega menn ekki fleygja því, sem verðmætt er. Þær upplýsingar, sem fengist hafa, benda á að skrápur sje dýr vara, því auk þess sem hann er hafður til bókbands, eru úr honum gerðar peningapyngjur, veski og kventöskur; sem þykja mesta gersemi.

Um hákarlskjöt og markað fyrir það, hefir engin vissa fengist, enda afar örðugt að fá ábyggileg svör, þótt spurt sje um þessar mundir og eins og nú er ástatt. Kunnugur maður skýrir svo frá, að best sje að fara með hákarlsskráp eins og gærur til útsendingar, salta hann lítið eitt, vefja saman og binda utan um.

Ekki hjelt hann að belgurinn þyrfti að vera í heilu lagi, þar eð hann að eins væri notaður í smágjörva hluti. Þetta er skrifað og á þetta bent fyrir 19 árum og margt hefir breyst síðan; eru fránefndum tíma 2—3 greinar í Ægi um hákarlaveiði og á síðustu árum hefir heyrst, að á Þýskalandi væri markaður fyrir hákarlskjöt. Í skýrslu sinni til Fiskifjelagsins, um ferð í Bandaríkjunum 1918, segir hr. Matthías Ólafsson svo frá:

Hákarl og skrápur

„Af skýrslum Fiskveiðaumsjónarmannsins í Bandaríkjunum má sjá, að notkun hákarls til manneldis og skráps til sútunar, fer mjög í vöxt. Hefi jeg gert mjer mjög mikið far um, að komast eftir, hvernig farið er með þessa vöru, en hefi ekki enn getað komist eftir því. Býst helst við, að jeg mundi þurfa að fara vestur að Kyrrahafi til að kynnast því. Háfur hefir ekki verrið etinn hjer til skams tíma, en nú er farið að selja hann niðursoðinn. (Ægir 3.—4. tbl. 1918.). 

Eins Og sjest af þessu voru menn fyrir 18-19 árum að leita upplýsinga um, hvernig auðið væri að fá sem mest fyrir hákarlinn. Lýsið er ávalt í sínu gildi, en fleira mátti nota af skepnunni; það vissu menn, en voru í efa um hvert á markaði það skyldi sendast og hvernig umbúið, en þegar áhugi var mestur, datt í dúnalogn og lítið hefur síðan heyrst talað um hákarl, þar til þessa síðustu daga, að skip eru lögð á hákarlaveiðar og talið nýmæli. 

Sá, sem fyrstur manna ljet reyna lóð til hákarlaveiða hjer við land, var síldarútgerðarmaður, Söbstad á Siglufirði, duglegur og áræðinn atorkumaður.

Árið 1917 leigði hann nýtt mótorskip, sem hlutafjelag á Akureyri hafði keypt frá Danmörku árinu á undan. Skömmu eftir nýár tók hann skipið á leigu til þess að halda því .úti á hákarlaveiðum með lóð. Skipið er enn við lýði og heitir „Sjöstjarnan" E. A. 365, 55 brúttólestir að stærð.

Formaður var Jón Björnsson, meðeigandi skipsins, en formaður við veiðarnar var Sæmundur Sæmundsson ráðinn, vanur hákarlaveiðum og formensku á fiskiskipum. — Hann hafði aflað sjer upplýsinga hjá Norðmönnum um þessa veiðiaðferð.

Skipið lagði út síðustu daga febrúarmánaðar 1917 og var á veiðum þar til í byrjun júní, og fengust alls 217 tunnur lifrar. Ýmislegt tafði í byrjun, sem mest kom af ókunnugleik og óvana við lóðirnar, en út í það verður ekki farið hjer. Þó má geta þess, að skipverjar töldu, að þeir hefðu fengið mun fleiri hákarla, hefðu þeir haft með sjer skutla, því oft bar við að Þeir eltu er lóðin var dregin og hákarlar fastir á önglunum; komu þeir þannig oft að skipshlið og var þá besta tækifæri til að skutla þá.

Sveinbjörn Egilsson. 

----------------------------------------------

Bókin Mistur eftir Theodór Friðriksson, segir frá ýmsu í sambandi við líf sjómanna í Vestmannaheyjum og á Siglufirði. Sagt frá því í Alþýðublaðinu 13. maí 1936

----------------------------------------------

Siglfirðingur 1. ágúst 1936 – Hluti langar greinar um atvinnumál á Siglufirði, var  birt í fjórum eintökum blaðsins.

Hákarlaveiðar

Siglufjörður var eitt sinn ein hin mesta og frægasta hákarlaveiðistöð Norðurlands. Og héðan hafa allt fram á seinustu ár verið gerðar tilraunir til hákarlaveiða. Síðastliðinn vetur fóru Siglnesingar í hákarlalegu á opnum trillubátum og öfluðu sæmilega; mátti þó eigi kalla að veiðin væri stunduð, heldur rétt, sem kallað er, reynt.

Fyrir tveimur áratugum og fyr um ómunatíð, mátti svo að orði kveða að hákarlaveiðar væru ein arðmesta atvinnugreinin hér í Eyjafjarðarsýslu og víðar, og margir hákarlaformenn og reyndar hásetar líka, gátu sér frægðarorð. Á mörgum — fjöldamörgum heimilum voru tekjurnar af hákarlaveiðunum drýgstu tekjurnar.

Það hefur tjáð mér gamall hákarlamaður, að húsbóndi sinn hafi eitt sumar fengið eitt þúsund krónur fyrir sinn lifrarhlut. Það var fyrir fjörtíu árum. Það þætti góður hlutur nú eftir sumarið, sem jafngilti þeirri upphæð, þegar tekið er tillit til verðgildis peninganna þá og nú. En nú er þess að gæta, að þá var ekkert hirt afhákarlinum nema lifrin, að minnsta kosti ekki svo teljandi væri.

Nú mundi verðgildi fisksins sjálfs og skrápsins, vera verðmeira en lifrin. Nú er hákarl orðin lúxusvara, sem kostar allt upp í 3 kr. pr. kíló. Og skrápurinn eitt hið dýrmæta skinn og til margra dýrra hluta nytsamlegt. Úr brjóski hákarlsins er unnið eitt af undralyfjum nútímans, og eigi skyldi það koma mér á óvart, þótt það ætti eftir að koma upp úr kafinu, að í fiskinum sjálfum, eins og hann hefir verið tilreiddur til matar hér á íslandi, leyndist ein öruggasta vörnin gegn berklaveikinni.

Er þeim er þessar línur skrifar, af skiljanlegum ástæðum, erfitt um að sanna þessa tilgátu, eða gera hana að staðreynd að svo komnu máli, en hann byggir þó þessa skoðun sína á allmiklum rökum, — mætti gjarnan segja dálítilli reynslu — og margra ára athugun og eftirtekt leikmannsins. Væri ekki úr vegi fyrir þá, er þess eru um megnugir að rannsaka þetta mál vísindalega, og engu væri spillt þó þetta væri nákvæmlega athugað.

Skal svo útrætt um þessa hlið málsins að sinni. Víst er um það, að hákarlaveiðar, væru þær reknar af dugnaði og viti, og reynsla hinna gömlu hákarlaveiðimanna, sem ennþá eru á lífi, hagnýtt og lögð til grundvallar. mundi .reynast einn hinn arðvænlegasti atvinnuvegur. Ætti það að vera metnaðarmál Siglfirðinga, að endurreisa þennan gamla arðsama atvinnuveg og gera hann arðvænlegan fyrir íbúa bæjarins.

Sumir halda því fram, að nú sé orðið svo lítið um hákarl, að veiðin svari eigi kostnaði. Því er til þessa að svara, að á seinni árum hafa hákarlaveiðarnar veríð kák eitt, og lítil líkindi eru til þess, að hákarlinum hafi farið fækkandi, því svo má segja að hann hafi nú veríð friðaður á íslenzkum miðum um áratugi, Þá benda og aðrir til þess, að hákarlaveiðar Norðmanna hafi ekki svarað kostnaði og þeir því hætt við þær.

Norðmenn stunduðu þessar veiðar sínar af lítilli þekkingu og engri reynslu. Og því fór sem fór. Í öðru lagi hirtu þeir ekkert nema lifrina og veiðiaðferðin þannig, að betur mundi hafa verið fallin til þorskveiða. Ef Siglfirðingar skyldu nú snúa sér að þessum veiðiskap, er ráðlegt fyrir þá að notfæra sér reynslu, þekkingu og ráð gömlu hákarlamannanna. Þeir eru nú óðum að hverfa af sjónarsviði lífsins, en þeir fáu sem enn eru eftir, mundu fúsir að leiðbeina yngri kynslóðinni og miðla henni af þekkingu sinni og. reynslu.

Það er engum vafa undirorpið, að hákarlaveiðin gæti orðið, ef vel væri á haldið, stórmikil atvinnugrein fyrir þennan bæ, sem færði fjölda manna tekjur og björg í búið. Það væri gaman að heyra álit einhvers gamlahákarlamannsins um þetta mál. Siglfirðingur tekur með þökkum slíkum upplýsingum, og yfirleitt öllum greinum og góðum tillögum, er stuðla mættu að fleiri og fjölþættari atvinnumöguleikum fyrir íbúa Siglufjarðar.