Ólöf Bessadóttir

Ólöf Bessadóttir

Ólöf Bessadóttir frá Siglufirði Fædd 4. ágúst 1899 - Dáin 10. maí 1988  -

Ólöf Bessadóttir frá Siglufirði er öll. Hún lést á ofanverðu 89. aldursári, fædd árinu fyrir aldamótin. 

Hún var því af aldamótakynslóðinni, þeirri kynslóð sem lifði meiri framfarir í tæknivæðingu samfélagsins en nokkur önnur.

Það þurfti óbrenglaða skynsemi til að fylgja þessari þróun. Ólöf hafði hana til að bera og færði sér tæknina í nyt meðan hún fékk notið sjálfstæðs lífs. Ólöf hafði auk þess tilfinningu fyrir lífinu og lystisemdunum, sem það hefir upp á að bjóða. Hún vissi því hve gæðum lífsins er oft misskipt. Það var stundum eins og hún skammaðist sín fyrir að hafa vinnuþrek og vit til þess að geta unnið sig áfram í lífinu. A.m.k. var það snar þáttur í lífi hennar, að láta aðra njóta hennar eigin dugnaðar. Þannig urðu margir aðnjótandi gjafmildi Löllu Bessa.

Ólöf var yngst sjö systkina. Á unglingsárunum var hún ærslafengin og stríðin, átti til hina ýmsu pretti, fjölskyldunni og samfélaginu til armæðu. Jafnframt blundaði í henni víðsýn listamannsþrá, þrá til þess að skapa eitthvað áþreifanlegt úr hugarsmíð sinni. Fyrir aldamóta kynslóðina var hins vegar hvorki mikið svigrúm né fé til að láta draumana rætast.

Hún giftist Júlíus Jóhannsson aðeins nítján ára gömul, tvítug var hún orðin móðir og 24 ára stóð hún uppi sem ekkja, eftir að hafa horft á skip eiginmanns síns farast skammt fyrir utan innsiglinguna í Siglufjörð.

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hversu mikil áhrif slík reynsla hafði á unga konu aldamótakynslóðarinnar. Ólöf lét þó ekki bugast og lifði lífinu áfram upprétt og stælt með litla dóttur sér við hlið. Ólöf var glæsileg kona og ósérhlífin, kona sem var trú yfir því, sem lífið lagði henni á herðar, og hafði kenningar kristinnar trúar að leiðarljósi.

Fljótlega giftist hún aftur manni, sem varð hennar lífsförunautur. Þau byggðu sér hús við Hlíðarveg í Siglufirði og undu þar sinn aldur. Með síðari manni sínum eignaðist hún tvær dætur, hina síðari 25 árum eftir að hún ól sitt fyrsta barn, þá orðin 45 ára að aldri. Ólöf lifði því hvort tveggja að vera ung móðir og gömul. Hvorttveggja bar hún með þreki þess sem hefir trú á tilgang lífsins.

Ólöf lifði síldarævintýrið á Siglufirði og tók þátt í því af lífi og sál. Margar ánægjulegustu minningar hennar voru tengdar síldarsöltun á plani með iðandi mannlífi og erfiðisvinnu, þar sem allir voru jafnir, vinnugleðin var allsráðandi, glettnar og tvíræðar setningar voru látnar fjúka og hver uppskar laun síns erfiðis svo sem hann lagði sig fram.

Símon Márusson, f. 3.11. 1902, d. 1985, maður Ólafar, vann sem kyndari í síldarverksmiðjunum á Siglufirði ein 40 ár, og hún þekkti því einnig mjöl- og lýsishlið síldarævintýrisins.

Ólöf átti sér lítið ríki í Siglufirði, þar sem var heimili hennar, húsið og garðurinn. Litla húsið á Hlíðarvegi 23 var einstaklega snyrtilegt og notalegt. Þar voru allir aufúsugestir. Ólöf var létt á fæti og snör í snúningum, það var oft unun að sjá hversu kvik hún var við húsverkin.

Þau Símon áttu dálitla lóð í kringum húsið sitt. Þau ræktuðu þau tré, og er mörgum minnisstætt hve reynitrén þeirra döfnuðu vel. Í blómabeðinu undi Ólöf marga sumarnóttina við að snyrta og fegra umhverfi sitt.

Þegar Ólöf varð að yfirgefa Siglufjörð sakir heilsubrests á áttugasta aldursári má segja að hún hafi lokið lífsbaráttu sinni. Hún fann sig aldrei heima hér sunnan heiða. Hugurinn dvaldi við minninguna um Siglufjörð, iðandi af at hafnalífi síldarsumranna eða á kafi í snjó í svörtu skammdegi.

Nú höfum við kvatt Ólöfu hinsta sinni fullviss þess að hún fái notið ávaxta lífs síns og þeirrar um hyggju sem hún ávallt sýndi þeim sem minna mega sín.

Góður Guð geymi minninguna um Ólöfu Bessa.

Atli Dagbjartsson

-------------------------------------------------------------

Ólöf Bessadóttir frá Siglufirði Fædd 4. ágúst 1900 (1899) Dáin 10. maí 1988 -- 

Í dag er kvödd í hinsta sinn, frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði, amma mín, Ólöf Bessadóttir frá Siglufirði. Er ég sest niður með penna og blað, þá rifjast upp margar bjartar minningar. Virðing og þakklæti er mér efst í huga við fráfall hennar. Þegar ég minnist áranna norður á Siglufirði, þá verður nafn ömmu og afa ætíð efst í huga mínum.

Ung að árum kynntist amma 

Júlíus Jóhannsson, giftu þau sig þann 20. október 1918. Ekki varð þeirra samvera löng, því Júlíus drukknaði í aftakaveðri 3. september 1923, þegar hann var í sandflutningum á Siglufirði.

Þau eignuðust saman eina dóttur, 

Katrín Júlíusdóttir, sem er móðir mín. (undidirrituð)

Seinna kynntist amma ungum manni sem átti eftir að verða hennar lífsförunautur og eiginmaður, 

Símon Márusson frá Haganesvík, mikill drengskaparmaður.

Gengu þau í hjónaband 28. júlí 1928.

Með eljusemi og þrotlausum dugnaði komu þau sér upp myndarlegu heimili á Hlíðarvegi 23. 

Afi starfaði mestan hluta ævi sinnar hjá Síldarverksmiðjum ríkisins Siglufirði, og þá lengst af sem kyndari. Vann hann sitt starf af stakri trúmennsku, var traustur og ábyggilegur, þannig var afi alla tíð.

Þau eignuðust tvær dætur,

Afi lést 22. október 1985, rúmlega 83 ára gamall. Samband þeirra ömmu og afa var ætíð mjög gott, báru þau virðingu hvort fyrir öðru og gagnkvæm væntumþykja einkenndi líf þeirra beggja. Heimili þeirra bar vott um smekkvísi og snyrtimennsku þeirra hjóna. Blómagarðurinn við húsvegginn sem amma ræktaði og hlúði að, vitnaði best um þær hendur sem um gróðurinn fóru.

Amma var hreinskilin, heiðarleg og réttsýn, þoldi illa hverskyns yfirgang og yfirdrepsskap. Hún gat verið hvöss þegar því var að skipta og þess þurfti með, kom hún jafnan til dyranna eins og hún var klædd.

Já, það var alltaf gott að koma til afa og ömmu í heimsókn, þar var ekki í kot vísað. En það voru oft ekki bara heimsóknir, því æðioft dvöldum við systkinin hjá þeim í lengri eða skemmri tíma, vegna veikinda móður okkar á tímabili. 

Amma var einstaklega góð við alla þá sem minna máttu sín, og rétti ófáum hjálparhönd þegar þess þurfti með. Á jólum sameinaðist fjölskyldan ævinlega heima hjá afa og ömmu, eru minningar mínar um jólin hjá þeim í huga mínum sem perlur.

Afi og amma fluttu suður árið 1979, áður hafði amma orðið fyrir því óláni að lærbrotna, náði hún sér aldrei fyllilega eftir það. Síðustu æviárin dvöldu þau í skjóli dætra sinna, og þar leið þeim vel. Alla tíð bar amma virðingu fyrir orði Guðs, og trúði hún á mátt bænarinnar. Amma dvaldi síðustu 15 mánuðina í Hátúni 10b, á öldrunardeild. Hennar dagsverki er lokið hér á jörð, eftir lifir minning um góða konu, megi hún hvíla í friði.

Valgeir Matthíasson.