Árið 1950 - Karfi SR + Elliði
Bæjarstjórn hefur skorað á Síldarverksmiðjur ríkisins, að hefja karfavinnslu í stórum stíl.
Einherji 10. október 1950
A fundi Togaranefndarinnar þ.10. f.m. var samþykkt að senda b/v. Elliða á karfaveiðar og selja aflann Síldarverksmiðjum ríkisins. Þessum tíðindum var almennt fagnað í bænum.
Ákvörðunin um að selja aflann S.R., en ekki Rauðku, sem þó hefði verið eðlilegra, var tekinn fyrst og fremst af því, að nægilegt dýpi fyrir Elliða var ekki við Rauðkubryggjurnar, svo og var því treyst að S.R. myndi fá fleiri togara hingað til karfaveiða og hefði í því sambandi betri aðstæður en Rauðka.
Elliði SI 1 - Ljósmynd: Hinrik Anrésson
Í framhaldi af þessum ráðstöfunum Togaranefndarinnar, samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar á fundi 14. september svohljóðandi áskorun til Síldarverksmiðja ríkisins:
"Bæjarstjórn samþykkir að skora á Síldarverksmiðjur ríkisins að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að flýta því að karfavinnsla í stórum stíl hefjist í verksmiðjum þeirra í Siglufirði."
Þetta var SR tilkynnt 15. september Þar sem afdrif máls þessa er þýðingarmikið fyrir Siglfirðinga, hefur Einherji spurst fyrir um hvað liði máli þessu.
Það sem gerst hefur í málinu er í stuttu máli þetta: Viðskiptaframkvæmdastjóri SR. mun hafa rætt við framkvæmdastjóra togarafélaganna í Vestmannaeyjum og Ísafirði en án árangurs.
Á fundi í stjórn S.R. þann 29. f.m. lagði Jón Kjartansson fram svohljóðandi tillögu:
"Stjórn S.R. samþykkir að fela viðskiptaframkvæmdastjóra að kanna til fulls, hvort togarar Ísafjarðar, Vestmannaeyja og Neskaupstaðar eru fáanlegir til að stunda karfaveiðar í haust og leggja aflann upp hjá S.R. á Siglufirði. Reynist ófáanlegt að fá togarana á karfaveiðar fyrir það verð, sem nú er greitt fyrir karfa hjá S.R. felur stjórn S.R. viðskiptaframkvæmdastjóra að rannsaka, hvort togararnir fáist leigðir til karfaveiða í einn til tvo mánuði, og þá með hvaða kjörum"
Tillaga þessi hefur ekki fengist samþykkt í stjórninni og formaður stjórnar S.R. hefur lýst því yfir, að meirihluti verksmiðjustjórnar, Sveinn Benediktsson, Sigurður Ágústsson og Erlendur Þorsteinsson séu tillögunni andvígir.
Hefði tillaga Jóns Kjartanssonar verið samþykkt í verksmiðjustjórn fyrir tæpum hálfum mánuði, væri mál þetta sennilega komið lengra en nú er og verður að segja, að afstaða meirihluta stjórn ar S.R. er vægast sagt furðuleg