Blanda 1911 - 1914

Norðri - 10. júní 1911 

Tvær verksmiðjur er nú byrjað að byggja á Siglufirði, sem eiga að vinna lýsi úr síld og þurka og mala hana síðan til fóðurmjöls, svo mun önnur og jafnhliða eiga að vinna fóðurmjöl og áburð úr öllum fiskiúrgangi, enda búist við að sú verksmiðja kosti yfir 200 þús. krónur.

---------------------------------------------------------------------

Vísir - 16. júní 1911 

Síldarbræðsluverksmiðja á Siglufirði.

Með skipinu »Castor«, sem hingað kom nú í stað »Floru« hafði komið efni í stóra verksmiðjubyggingu til Siglufjarðar.

Er sagt að bygging þessi eigi að verða 30 X 50 al. að stærð, og á þar bæði að bræða síld og búa til úr henni fóðurmjöl o.fl. á svo að vinna »Guano« úr síldarúrgangi, þorskhausum og og öðrum fiskúrgangi. 

Það eru Norðmenn, sem koma þessari verksmiðju á fót og eiga hana. Er enginn efi á því, að þetta verður til mikilla hagsmuna fyrir síldveiðarnar, þar sem þarna fæst markaður fyrir alla þá síld, sem nokkuð er skemd og ekki er boðleg  verzlunarvara með annari meðferð. Og þegar svo stendur á eins og nú er, og oft kemur fyrir að markaðsverð síldarinnar er svo lágt, að ekki borgar sig að salta hana til útflutnings kemur þessi aðferð að góðu haldi.

--------------------------------------------------------------------

Gjallarhorn - 1911 

5. árgangur 1911-1912, 28. tölublað, Blaðsíða 92

Vatnsleiðsla á Siglufirði.

Altaf fjölgar þeim bæjum og kauptúnum hér á landi, er leggja hjá sér vatnsleiðslu, og er í því menning ekki all-lítil. Sérstaklega er það nauðsynlegt á þeim stöðum, er skip koma mikið á, og þar sem þau geta lagst að hafnarbryggjum, að þau eigi þar einnig kost á vatni. Er Akureyri enn þá ábótavant í því efni, þó hér séu bæði hafskipabryggjur og vatnsleiðsla um bæinn.

Nú í vor hafa Siglfirðingar komið á hjá sér vatnsleiðslu, og hefir Sigtryggur Jóhannesson kaupmaður á Akureyri annast um það fyrir þá, útvegað vatnspípurnar o. s. frv.— Ráðgert er að fyrirtækið kosti alls um 12 þús. kr., og verði þá vatnsleiðslan mjög fullkomin, þegar alt er komið í lag, meðal annars að vatnsæðarnar verði lagðar fram á bryggjusporða, svo að skip geti fengið vatn úr þeim.

D
------------------------------------------------------------------

Norðri - 30. júní 1911 

Siglufjörður.

Fyrirfarandi ár hafa mátt heita kyrstöðuár hér norðanlands, að vísu hefir landbúnaðinum þokað fremur áfram og túnrækt víða verið aukin. Sjávarútvegurinn hefir og heldur aukist og lagast að því leyti, að útgerðamenn og fiskimenn eru betur og betur að læra að hagnýta sér vélabátana, sem keyptir voru fyrir nokkrum árum. Vöruvöndun hefir og tekið nokkrum framförum einkum á fiski og kjöti. 

Hvergi hér norðan lands er þó framfaravísinn jafn auðsær og á Siglufirði, auk þeirra bráðu framfara, sem kauptúnið tók þar, er hin mikla síldveiði hófst þar á sumrum fyrir nokkrum árum, eru einmitt nú á þessu ári að rísa þar upp meiri háttar atvinnu og framleiðslufyrirtæki, sem geta haft mikil áhrif fyrir fjörðinn og allan Norðlendingafjórðung, ef þau fá staðið og svara kostnaði. 

Siglufjörður hefir lengi verið bezta hákarlastöð landsins, og er sú einasta, þaðan sem sá útvegur er rekinn með nokkrum þrótti, þar var sett upp gufubræðsla í vor fyrir hákarlalyfur, og er það framför í vöruvöndunaráttina, enda fæst með því ódýrari bræðsla.

En Siglufjörður liggur jafnhliða ágætlega fyrir þorskaveiði á sumrum, bezta höfn er þar fyrir vélabáta og skemra að fara þaðan á djúpmið en úr veiðistöðvunum við Eyjafjörð. Nú í vor hafa sótt þaðan 22 mótorbátar, og hafa fengið til jafnaðar síðan 12. þ. m. undir 20 skippund hver bátur. Auk þess hafa haldið þar til í vor 5 mótorskip, sem fiskað er frá á svonefndar »doríur». 

Þrjár fastar verzlanir eru nú á Siglufirði, og fleiri á sumrum, því að þar eru tvær eða þrjár selstöðuverzanir frá Akureyri, sem lokaðar eru á vetrum. Það sem þó á þessu vori mest þykir horfa til framfara þar í firðinum, er að farið er að reisa þar verksmiðju mikla, til þess að vinna lýsi og fóðurmjöl og áburðarefni úr síld svo og að vinna mjöl úr þorskhausum og dálkum. 

Er verið að byggja verksmiðjuhúsið austan megin fjarðarins, inn og yfir af Siglufjarðareyri, sem kauptúnið stendur á. Húsið er 50 álnir á lengd og 20 álnir á breidd, tvílyft með háu porti. Á verksmiðja þessi að vera hin fullkomnasta og mun kosta fram undir hálfa miljón króna með öllum útbúnaði. Evanger heitir sá er fyrir þessu fyrirtæki stendur, og er ungur Norðmaður. Alt féð sem til þessa verður varið er frá útlöndum og standa Norðmenn fyrir þessari verksmiðjustofnun. 

Tefja mun það fyrir að verksmiðja þessi verði fullger og geti tekið til starfa, að skip sem hafði efni til hennar fórst í hafísnum fyrir Austurlandi í vor, svo fórst og sumt efni til hennar með »Fanney« á dögunum. Það má geta nærri að slík verksmiðja og hér er stofnað til veitir mikla atvinnu og verzlun á Siglufirði, ef hún fær nóg að gera, sem varla er hætt við öðru mikinn hluta sumarsins meðan síldveiðin er mest fyrir Norðurlandi. Það eru um 400 tunnur af síld, sem slík verksmiðja getur tekið við á morgnana og skilað aftur að kvöldi, sem lýsi í tunnum og þurkuðu fóðurmjöli í pokum. 

Sá sem þetta skrifar átti nýlega tal við herra Evanger um þetta fyrirtæki, og var hann hinn vonbezti um að það mundi heppnast vel. Eg spurði hann hvort hann mundi eigi reyna við hákarlinn þeirra Siglfirðinganna að vinna úr honum fóðurmjöl, Kvaðst hann hafa hug á því, en verkfæri til þess væru dýr. Hann hélt að lítil feiti væri í hákarlakjötinu, en næringarefni, sem væri milli fisks og kjöts, bygði hann þetta álit sitt á lauslegri ransókn. 

Norskur síldarútvegsmaður, Bakkevig að nafni, sem um nokkur ár hefir rekið síldveiði af Siglufirði, er og að setja upp litla síldarvinsluverksmiðju í húsum sínum í kauptúninu, á hún að vera svo fullkomin. að hún geti bæði fengið hreint lýsi úr síldinni og þurkað hana svo og gert hana að fóðurmjöli. Verkstjóri hans sagði mér, að í þeirri verksmiðju mundi mega vinna úr 60 tn. (tunnur) á dag. 

Sagði hann að vandameira væri að vinna úr nýrri síld en saltaðri. Auk þessara tveggja verksmiðja til síldarvinslu, sem hér er skýrt frá, er norskt félag með peningum frá Bergen, að setja upp síldarvinsluverksmiðju mikla í stóru skipi, sem ætlar að taka móti síldinni hjá veiðiskipunum út á hafi og vinna hana þar.

Danskt félag er og að koma upp slíkri fljótandi verksmiðju, en í miklu minni stíl. Norðmenn segja að það sé enginn vandi að fá markað erlendis fyrir síldarfóðurmjöl og áburðarmjöl. En þá kemur jafnframt til álita, hvort vér Íslendingar mundum eigi hafa hag af því að kaupa þessa vöru. Það er eigi lítið, sem keypt er af kornvöru til gripafóðurs hér á landi, og það verður hér dýrara en erlendis sakir flutnings. Síldarfóðurmjöl sem framleitt væri hér á landi ætti fremur að verða ódýrara hér norðanlands en erlendis. 

Sé þessi vara eftirsótt erlendis ætti hún að geta orðið notadrjúg hér, þar sem alt kraftfóður handa búfé er innflutt, og hér því dýrara en erlendis, nema ef til vill hvalmjöl, en kraftfóður telja margir nauðsynlegt handa gripum einkum með léttu eða hröktu heyi. Þessar verksmiðjustofnanir gera því fyrst og fremst það gagn, að innleiða framleiðslu á útgengilegum varningi, sem unnin er úr hrávöru, sem venjulegast er verðlítil og oft og einatt verðlaus (því slíkar verksmiðjur geta unnið úr síldinni, þótt hún sé eigi hæf til útflutnings), og í öðru lagi að framleiða vörur,sem allar líkur eru til að verði nothæfar og notadrjúgar í landinu til eflingar kvikfjárræktinni. Sama er að segja um áburðarefnið, sem verksmiðjur þessar ætla að framleiða, líklega mest úr fiskbeinum, það er eigi ólíklegt að nokkuð yrði notað af því hér á landi, og sumir fengju það til að létta fyrir sér grasrækt og garðrækt.

Borgi það sig fyrir Norðmenn að kaupa slík áburðarefni til jarðyrkju, á það eins að geta borgað sig fyrir íslendinga þegar þá skortir áburð. Það er rúmgott kaupstaðarstæði á Siglufjarðareyri og fallegt þar á sumrum, en á einu hefir þar verið tilfinnanlegur skortur, á góðu neyzluvatni. Nú eru þeir að leggja vandaða vatnsleiðslu ofan úr fjalli, sem áætlað er að kosti 12000 kr., taka þeir vatnið úr uppsprettulynd er aldrei þrýtur. 

Er þetta hið þarfasta fyrirtæki fyrir kauptúnið og auðsær hagnaður að selja þeim mörgu skipum vatn, sem þar koma eða hafast við á sumrum. Landbúnaður og túnrækt hefir litlum framförum tekið á Siglufirði, hugir fjarðarbúa hafa stefnt út á sjóinn. Sauðfé er vænt í firðinum og sumstaðar létt á fóðrum t. d. á Siglunesi. 

Mjólk er dýr á Siglufirði og fæst eigi, þegar þar ofan á hefir nú" bæzt skortur á góðu vatni, þarf engan að undra, þótt Siglfirðingar og aðrir er þar vinna á sumrum, oft nótt og dag, erfiða vinnu við síldina, drekki drjúgum hið ljúfenga  norska öl, sem hægt er einhvernvegin að fá þar á sumrum, þykir það bæði hressandi og svalandi, og svo úr garði gert að það skemmist ekki þótt geymt sá í vikur og mánuði, eins og nauðsynlegt er. Bót er það í máli að vatnsleiðslan kemst á í sumar, ef aðflutningsbannið færi að amast við ölinu. þeirra fyrir þá einu sök, að það skemmist eigi, þótt það geymist nokkrar vikur.

----------------------------------------------------------------------








Svo má spyrja: Eru þessi laun í góðu eða slæmu hlutfalli við laun þingmanna á þessum tíma, og eða í dag ! 2018 ???

Lögrétta - 23. ágúst 1911 

Uppivöðslur og óspektir.

Útlendingar við Norðnrland. Ekkert strandgæsluskip. Það er mikið kvartað nú yfir uppivöðslum útlendinga innan landhelgi við Norðurland. Bæði frá bæjarfógetanum á Akureyri og sýslumanninum á Húsavík hafa komið til stjórnarráðsins kvartanir yfir þessu og beiðnir um, að „Fálkinn" kæmi norður. En hann er hvergi nærri nú, hefur verið suður við Færeyja r um alllangan tíma undanfarandi og kemur ekki hingað til lands fyr en einhverntíma í september.

Á mánudaginn var urðu óspektir á Siglufirði og var þar alt í uppnámi. 300 Norðmenn, fullir og vitlausir, veittust að íslendingum, en þeir lokuðu sig inni, báru á hurðir og ljetu húsin hlífa sjer. Var hver rúða brotin í húsunum. Lögreglustjórinn á Siglufirði símaði til Akureyrar og bað um aðstoðarlið og rifla. Fjarvera varðskipsins er afarill um þetta leyti. 

En framkoma flokksins með mörgu nöfnunum á síðustu þingum gerir allar átölur um slíkt ónýtar. Þeir Rúðu-Skúli, Jón skjalari, viðskiftadrellirinn frá Vogi, guðsorðabelgurinn í Gullbringusýslu og önnur slík föðurlandsdufl verja fyrir okkur landhelgina á pappírnum og í þinghúsinu. Og það verða sjómennirnir okkar að láta sjer nægja.

Ríki - 25. ágúst 1911   

Laglegur ritháttur. Í Lögrjettu á miðvikudaginn stendur grein umrúðubrot, skemdir og óspektir útlendinga á Siglufirði og er kvartað yfir því, að Fálkinn sje hvergi nærri til leiðrjettingar og lagfærslu.

Ekki er þó kvartað yfir að þetta sje Dönum að kenna. Það er gefið í skyn að allt aðrir menn eigi sök á því með þessum orðum: »Þeir Rúðu-Skúli, Jón skjalari, viðskiptadrellirinn frá Vogi, guðsorðabelgurinn í Gullbringusýslu og önnur slík föðurlands dufl, verja fyrir okkur landhelgina á pappírnum og í þinghúsinu«. 

Þetta mun eiga að vera uppnefni á einhverjum landvarnarþingmönnum. En hvar ver Þorsteinn landhelgina? Jeg segi Þorsteinn, ekki af því að nafn neins Þorsteins sje undir greininni heldur sökum þess, að jeg hef heyrt tilnefnda 3 menn, sem muni hafa ritað greinina og heitir hver þeirra Þorsteinn, Þorsteinn mörlandi, Þorsteinn matur og Þorsteinn leppur.

V.

Gjallarhorn - 1911 

Erlendur veiðiþjófur sektaður.

 Síðan Björn Líndal var lögreglustjóri á Siglufirði, sumarið 1907, og sektaði útlenda veiðiþjófa og lögbrjóta hópum saman, hafa þeir víst að mestu haft frið fyrir lögreglunni þar, þangað til nú í sumar. Aðfaranótt 16. þ. m. fékk Vigfús Einarsson lögreglustjóri á Siglufirði botnvörpunginn »Marz« úr Reykjavík til þess að fara með sig þar út fyrir, í veiðiþjófaleit. 

Fóru þeir víða, bæði austur með landi og vestur, en komust ekki í færi við neinn, fyr en þeir komu óvörum að einum vestur á Haganesvík, er »Thorgrim« heitir, frá Noregi. Var hann svo nærri landi og svo augljóslega í landhelgi, að veiðum, að enginn vafi gat verið á. Tók lögreglustjóri hann þegar og hafði með sér til Siglufjarðar og kvað þar upp dóm. 

Gerði hann veiðarfæri og veiðina (ca. 400 tn. af síld) upptækt, og auk þess að gjalda 600 kr. sekt í landssjóð. ' Nokkru síðar náði V. E. í skipshöfn af öðru norsku eimskipi, er »Hernö« heitir, og grunur var á um landhelgisbrot. Játaði skipstjórinn það á sig eftir nokkrar vöflur og bætti fyrir með 200 kr. sekt í landssjóð. Vonandi er að V. E. haldi svo áfram sem hann er byrjaður.

Austri - 26. ágúst 1911 

Óspektir giøðj Norðmenn á Siglufirði s. L. - sunnudag. Voru þeir um 200 saman, allir ölvaðir, er børðust og gerðu ýmsan óskunda. Vildi lögreglustjóri þá með hóp manna skakka leikinn, en þá sóttu Norðmenn að honum, varð þá snarpur bardagi og margir urðu sárir, því Norðmenn børðu með flöskum; þó tókst að taka höndum verstu fantana og voru þeir settir í handjárn. 

Fálkinn, sem eptirlit á að hafa með útlendum fiskiskipum, var hvergi nærri, enda hefir ekki látið sjá sig hér við land um langan tíma, kvað vera i Færeyjum. Er sannarlega ástæða til að lasta slíka vanræsklu á landhelgisvørninni. 

----------------------------------------------------------------------

Norðri - 26. ágúst 1911 

Óspektir á Siglufirði.

Talsvert er af því látið, að norskir sjómenn hafi haft í frammi ofbeldi við lögregluna og ýmsar óspektir á Siglufirði síðastliðið. sunnudagskvöld. Til þess að taka af allar missagnir um þetta efni hefir Norðri fengið leyfi til að birta ágrip af skýrslu aðstoðarlögreglustjórans um óspektirnar.

«Sunnudaginn 20. ágúst s. l. var fjöldi Norðmanna af skipum þeim, er liggja á Siglufjarðarhöfn, í landi. Höfðu ýmsir þeirra leigt stóra stofu í húsi N. N. á Siglufirði til þess að dansa í um kvöldið. Voru margir Norðmenn orðnir alldrukknir er á leið daginn og höfðu meðal annars nokkrir strákar af seglskipinu «Sylvia» á sér genever flöskur, er þeir kváðust hafa haft með sér frá England. 

En er löggæzlumaður tilkynti þeim, að þeim bæri að borga toll af flöskunum, þeim, er þeir flyttu í land, svöruðu þeir skætingi og neituðu að borga tollinn. Gat löggæzlumaður eigi sint því frekar, og varð við svo búið að sitja, þar eð strákarnir hlupu brott án þess hann næði nöfnum þeirra Og þar eð eigi var hægt að taka þá til þess að krefja nöfn þeirra. 

Drykkjulætin uxu er á daginn leið og um kvöldið, eftir að dansinn hafði varað nokkurn tíma var komið talsvert af fólki umhverfis hús N. N. Löggæzlumaður skipaði þeim er drukknir voru og búast mátti við ólátum af að hafa sig út á skip sín, en þeir svöruðu skömmum og skætingi til og hlýddu eigi.

Fékk löggæzlumaður sér þá nokkra menn, og ætlaði að taka höndum þá er ósvífnastir voru. En þá réðist strax nokkuð af skríl þeim, er í kring var að, og vildi taka af löggæzlumanni þann er tekinn var. Fóru menn löggæzlumanns með einn inn í ganginn bakdyramegin á húsi N. N. og ætluðu að setja á hann handjárn. Hann gjörði eigi mótstöðu eftir að hann var kominn inn svo eigi þurfti járnanna við. En aftur á móti réðist skríll sá, er úti var að löggæzlumanni og mönnum hans með barsmíði og hótunum. 

Létu Iögreglumenn undan síga upp á tröppur húsins og vörðust þaðan um stund. Flöskukassar margir voru við skúr húsins á hlið við tröppurnar. Tóku þeir er að sóttu þá einn kassann og brutu hann svo að flöskurnar dreifðust úr honum. Tóku einhverjir flöskur og slöngvuðu að löggæzlumanni og mönnum hans á tröppunum. Hitti ein flaskan N. N. á ennið og særði hann talsvert um leið og hún brotnaði í smámola. Dreifðust brotin út yfir þá er í kring stóðu. Sá löggæzlumaður þá eigi annað vænna en að hopa undan inn í húsið með menn sína og lét loka dyrunum og menn liggja á þeim. 

Byrjuðu þá þeir er úti voru að kasta flöskum í glugga hússins, og brotnuðu fljótt flestar rúður. Kom ein flaskan í stóran lampa er hékk í veitingastofunni næst bakdyrunum og brotnaði glas og hjálmur lampans. Stökk löggæzlumaður þegar að, og fékk slökt á lampanum, áður en næsta flaska kom. Skipaði hann þegar að slökkva alla lampa vegna brunahættu þeirrar, er stafað gat af þeim, og vegna þess, að þá var eigi hægt að sigta á þá er inni voru. Var skipun hans þegar hlýtt og hætti skríllinn eftir nokkurn tíma flöskukastinu. 

Reyndi nú löggæzlumaður að koma á ró inni í salnum, en það varaði lengi, þangað til hann fékk menn til að fara út í fylkingu. Fékk hann þó loks safnað mönnum saman um sig til að fara út um dyr þær, er liggja austur úr stóru dansstofunni. Gekk hann út fyrstur og hinir á eftir í röð. Var þá eigi ráðist á þá er út kom og dreifðist skrílhópurinn smámsaman. . . . Fólk það er í kringum húsið var, hefir líklega verið á að gizka 200, en eigi sótti nema nokkur hluti þeirra að húsinu. 

En þar er búast mátti við, að alt færi í bál og brand, ef lögreglan gerði árás, og eigi var lið nægilegt fyrir af hennar hendi, tók löggæzlumaður það ráð, að verjast aðeins höggunum, en lét ekki menn sína ráðast á hina, eins og hann líka skipaði, þegar hann loks fékk menn til að ráðast út úr húsinu, að eigi skyldi ráðið á skríl þann, er úti var að fyrra bragði, og að eigi mætti nota nein vopn, hvorki hnífa né annað þó árás yrði gjörð.

Á húsinu varð mikil skemd, sem eigandi heimtar skaðabætur fyrir, ef náist í sökudólgana. Flestar rúður voru úr því öðru megin og lampar brotnir og gluggatjöld skemd og rifinn niður. N. N. heimtar 50 króna skaðabætur fyrir meiðsli og andlitsskemdir.«

Rannsókn er byrjuð út af þessum óeyrðum og það er t. d. þegar sannað, að um leið og Norðmennirnir náðu flöskunum og byrjuðu að kasta þeim í lögreglumennina orguðu þeir: «Nu dræber vi dem«, auk fleiru sviplíks, er berlega sýnir huga og tilgang skrílsins. Nokkru áður en þetta kom fyrir höfðu sýslumenn Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna og aðstoðarlögreglustjórinn á Siglufirði skýrt stjórnarráðinu frá, að brýn nauðsyn væri á því að fá varðskipið hingað eins og að undanförnu. Þeir álitu, að veiðar útlendinga í landhelgi væri með freklegasta móti. 

Þeir fengu allir sama svarið: »FáIkinn er í Færeyjum, kemur eigi fyrst um sinn«. Lögreglustjórarnir hér buðust til þess að fara út í veiðistöðvarnar til þess að reyna í öllu falli að fæla landhelgisþjófana en vildu fá loforð stjórnarráðsins um að gufuskipin, sem til boða stóðu, fengju kostnað sinn endurgoldinn. Því var strax svarað á þann veg, að til slíks væri ekki fé veitt á fjárlögunum. Og þar sem hér er ekki völ á verulega hraðskreiðum gufuskipum, og þá því síður notfærum vopnum, mátti altaf búast við, að með þeim tækjum yrðu fáir eða engir af þjófunum teknir. —

Svo féll það niður, nema hvað sunnlenzkt veiðiskip hjálpaði aðstoðarlögreglustj. á Siglufirði til að handsama ofurlitla norska »grútarsleif», sem var fast upp í landsteinum að »snurpa«. En þótt þessar landhelgisveiðar útlendinga séu óþolandi, þá er hitt þó verra, ef menn hafa ekki lífs grið og eigna fyrir þessum útlenda skríl. Um undanfarin 3 ár — síðan óspektirnar 1907 — hafa dátar af varðskipinu verið notaðir til aðstoðar lögreglu í landi á Siglufirði, þegar þess hefir verið þörf.— 

Alloftast hefir skríllinn látið undan síga, ef hann vissi af »Fálkanum<- annaðhvort á Siglufirði eða hér, og að eins tvívegis hefir það komið fyrir, að þurft hefir að kalla vopnaðan flokk í land. Nú þegar varðskipið er hvergi nærri, vaða þessi illmenni uppi, í því trausti að alt sé vopna og verjulaust fyrir. Landvarnarráðaneytið danska hefir kvatt »Fálkann« burt frá landhelgisvörnum hér,og sent hann til Færeyja til að leggja þar sæsíma. Það er svar ráðaneytisins gegn ályktun alþingis um skifting sektanna fyrir brot á landhelginni.

Síðasta alþingi ber þess vegna ábyrgðina á þessu. Það hefir svipt burtu allri landhelgisvörn hér fyrir Norðurlandi, og svipt burtu vernd fyrir lífi og eignum á Siglufirði, sem er um sumartíman mjög fjölment hérað ; það hefir flæmt í burtu varðskipið og ekki sett neitt i staðinn. Geta má nærri, hvað afl 2 löggæzlumenn á Siglufirði, hreppstjóri og aðstoðarlögreglustjóri, hafa gegn útlendum sjómannaskríl, sem skiftir þúsundum. Engum dettur í hug að mæla bót þessum aðgjörðum hins danska landvarnarráðaneytis. 

Það er til stórrar minkunar fyrir hið vopnaða ríkisvald, að láta einn hluta ríkisins standa varnarlausan gegn slíkum yfirgangi, hvað svo ilt, sem segja má um skamsýni alþingis. Og örþrifaráð er það, að vopna landslýðinn til nauðvarnar. — Það verður þó til þess að grípa, en slíkt ástand er bæði óþolandi og hættulegt. Skotvopn nokkur hafa þegar verið send til Siglufjarðar. 

G. G 

----------------------------------------------------------------------

Norðurland - 26. ágúst 1911 

Merkileg atvinnunýung. Fjórar síldarverksmiðjur á Siglufirði.

Víst er enginn fær um að segja, hve mikið mætti veiða hér norðanlands árlega af síld, ef útbúnaður væri til þess nægilegur og ekki þyrfti um annað að hugsa, en að veiða sem mest. í langflestum árum eru það ógrynnin öll. Svo mikið er talið af síldinni hér í sjónum, að ekki sjái högg á vatni, nærri hve mikið sem veitt er. 

Og víst er um það, að þrátt fyrir afarmikla veiði, tiltölulega, undanfarin ár, verður enginn þess var, að síldin fari þverrandi. Síldin hefir að vísu ekki gengið hér í fjörðinn, teljandi, um allmörg ár, og kenna margir það stygð þeirri, er kemur að síldinni við veiðiaðferðir þær, er nú tíðkast, en út á hafinu er hér ógrynni af síld á hverju sumri. Þrátt fyrir mikla veiði, oft og tíðum, hafa útgerðarmenn þó lítið auðgast af síldveiðunum og sumir beðið stórtjón. 

Sumpart hefir varan reynst vond, en auk þess hefir veiðin orðið svo mikil, að örðugt hefir reynst að fá fyrir hana markað erlendis, svo sú hefir verið helzta von útgerðarmanna, ár eftir ár, að síldveiðarnar yrðu minni þetta sumarið, en sumarið næst á undan. Þetta hefir verið fullkomið vandræðaástand. Menn hafa orðið að hætta veiðum, þrátt fyrir nægan síldarafla og menn hafa kastað dauðri síldinni aftur í sjóinn, svo þúsundum tunna skifti, mest vegna skorts á mannafla og hæfilegum tækjum til þess að gera sér eitthvað úr henni. Nú virðast góðar horfur á, að eitthvað verulega fari að rakna fram úr þessu. 

Verði ekki meira saltað árlega til manneldis en hægt er að fá sæmilegt verð fyrir, er mikið á unnið, enda vonandi að smátt og smátt megi selja meira og meira, ef varan gæti fengið orð á sig. En sé hægt að fá hæfilegt verð fyrir það, sem ekki svarar kostnaði að salta, er ef til vill enn meira um það vert. Síldarverksmiðjurnar eiga að ráða bót á þessu og nú eru þær 4 starfræktar á Siglufirði. í síldinni eru 9% fituefni, en 15% eggjahvítuefni. Hitt er vatn, nema hvað í henni er 1½% af saltefnum. Fituefnið er mjög mikið, þó sumar fisktegundir, svo sem lax og einkum áll hafi enn meira af því. 

Fyrir nær 40 árum síðan var síldarlýsi orðið verzlunarvara í Vesturheimi. Það var sjálfrunnið lýsi, sem rann úr síldarbingjunum. Vélarekstur lengi framan af nær því enginn og enn eru aðeins fá ár síðan að síldarverksmiðjur komust á fót í Noregi, en eru nú 40 talsins. Þykir sú fullkomnust, er sett var á fót í fyrra í Vesteraalen. Með góðum vélarekstri má ná úr síldinni nær því allri fitunni, en ekki hefir enn tekist að gera hana svo úr garði, að hún verði notuð til matar. Úr henni er unnið mikið stearin, en mest kvað hún vera notuð til að bera hana á vélar, og er þá blönduð öðrum olíuni. Verð lýsisins mun vera nokkuð hærra en á hákarlalýsi. 

Eggjahvítuefni síldarinnar er álíka verðmætt setn fituefnið. Er það notað á tvennan hátt. Annaðhvort eru búnar til úr því fóðurmjölskökur, sem síðan eru malaðar til skepnufóðurs, eða það er blandað öðrum efnum og því breytt í áburð. Þótti sú aðferðin arðvænlegri í fyrra sumar, hvort sem sú verður reyndin á framvegis. Aðeins ein af síldarverksmiðjum þessum á Siglufirði er á lóð kauptúnsins, og er hún minst þeirra allra. Hana á Thormod Bakkevig, norskur maður. Vinnur hún úr 150 máltunnum af síld á 24 klukkutímum. Vinnur hún úr síldinni lýsi og fóðurmjölskökur. 

Austanmegin fjarðarins, móti Siglufjarðareyri, stendur verksmiðja Evangers. Er hún mikið hús, en að ýmsu leyti ennþá í smíðum og verður ekki fullger fyr en í vetur. Hefir verið lagt í hana mikið fé, og er áætlað, að hún kosti fullger hátt á annað hundrað þúsunda kr. Þýzkur auðmaður, Morgan að nafni, hefir lagt til hennar mikið fé og dvaldi hann á Siglufirði um síðustu helgi. Sú verksmiðja átti þá að taka til starfa á mánudaginn var, og var talið að hún ynni úr 500 máltunnum síldar á sólarhring. 

Hinar verksmiðjurnar eru á sjó úti, í skipum á höfninni. Aðra þessa verksmiðju á danskt hlutafélag, er nefnist: »Arktisk Fiskeoliefabrik«. Starfar það á skipinu »AIpha«, og er Goos síldarkaupmaður framkvæmdarstjóri þess félags. Hin verksmiðjan á sjó úti er eign hlutafélagsins »Ægir«, er vinnur með norsku og ameríksku fé. Verksmiðjuskipið heitir »Evreka«, og hefir það stóran dall, aflóga, við hlið sér til geymslu. Stjórnendurnir heita Schrezemeier og Fredriksen. Á skipi þessu starfa um 40 manna og getur verksmiðjan unnið úr 2000 máltunnum síldar á sólarhring.

Á skipinu eru heljarmiklir kassar, er taka alls um 1700 máltunnur síldar. Úr þeim flyttur vélarenna síldina aftur um mitt skipið og steypist hún þar niður um op á þilfarinu, niður í suðuvélina, en skurðarhjól í þilfarinu brytjar hana sundur á leiðinni þangað. Suðuvélin er 30 feta langur hólkur úr járnþynnum, um 3 fet í þvermál. Inni í þessum hólk er síldin soðin við gufu og soðnar í mauk. Gengur maukið úr hólknum jafnfljótt og sýður, en lyftivél flytur það aftur upp á þilfarið. Er þar þrýst úr síldinni lýsi og vatni í keilumynduðum járnhólk, sem er alsettur götum. 

Er lýsið síðan látið renna aftur niður í skipið og hreinsað þar í stórum járnkössum. Er það fyrst látið standa, svo fíngert fiskefni botnfellist. Síðan er það soðið að nýju og strokkað með skófluhjólum og að lokum látið renna í stóra safnkassa, er standa fremst í lestinni. Síldarlýsi er gulrautt að lit, tært og fljótandi sem vatn. Liturinn stafar frá átunni í síldinni. Hefir það þægilegan ilm og bragðið ekki óviðfeldið. Fiskmaukið úr Iýsispressunni berst með flutningsvél aftur á skipið. Er það pressað þar á ný, svo það verður nokkurnveginn þurt, sýrt svo það geymist betur og síðan látið í poka.

Á að flytja það til Vesturheims, sem efni í áburð. Um síðastliðna helgi var síldaraflinn á Siglufirði orðinn um 100,000 tunnur, en af því hafði aðeins verið saltað um 40,000 tunnur. Hitt hafði gengið til verksmiðjanna og voru þar stórir síldarbingir, er salti var stráð yfir og ekki sem geðslegastir. Verksmiðjurnar höfðu þá tekið við nálega helmingnum af öllum síldaraflanum, því alls var aflinn hér nyrðra þá orðinn um 130 þúsund tunnur, og er auðsætt, hve mikla þýðingu þetta hefir fyrir allan þenna atvinnurekstur.

Líklega verður ekki saltað til manneldis mikið minna hér nyrðra en undanfarin ár, en vonandi að síldin reynist betri en áður á Siglufirði, þegar hægt er að fá nokkurt verð fyrir lakari síld. Verksmiðjurnar hafa gefið 3 — 4 kr. fyrir máltunnuna. Af síldarlýsinu á landssjóður að fá 30 aura fyrir hverja tunnu og getur það numið nokkru fé. Æskilegt væri, að kaupmenn hér á Akureyri fengju nokkuð af fóðurmjöli og áburði til útsölu. Bændur þurfa að sjálfsögðu að gera tilraunir með þessa nýju vöru. En einna æskilegast væri það líklega, að síldarverksmiðja yrði stofnsett hér á Akureyri á næsta sumri. Það mál þyrftu útgerðarmenn hér innra að taka til rækilegrar meðferðar.

----------------------------------------------------------------------

Norðurland - 26. ágúst 1911 

Frá Siglufirði.

Fólksfjöldi. Nú er talið, að um 3000 manns haldi til á Siglufirði, meðan á veiðunum stendur, að bæjarbúum meðtöldum. Um síldveiðitímann er því Siglufjörður næstur Reykjavík að fólksfjölda, allra íslenzkra bæja og kauptúna. Síldarmatsmaðurinn á Siglufirði, Jakob Björnsson, fær þar almennings lof, jafnt útlendra sem innlendra. 

Af gömlum vana?

Þrátt fyrir 4 síldarverksmiðjur var þó nokkuð af úrgangssíld látið falla í sjóinn fram af bryggjunum, og var það alt annað en viðfeldin sjón, að nýtnin skuli enn ekki vera orðin meiri en þetta. Vonandi að útgerðarmenn og síldarverksmiðjur sjái um að koma þeim óvana af sem allra bráðast.

----------------------------------------------------------------------

Reykjavík - 26. ágúst 1911 

Óspektir Norðmanna á Siglufirði. Oft hafa Norðmenn gert sig seka um óspektir á Siglufirði, en aldrei hefir kveðið jafnmikið að uppivöðslu þeirra, eins og síðastliðinn mánudag. Þá veittust 300 Norðmenn, fullir og vitlausir, að íslendingum, og ljetu allófriðlega. Lenti víða í áflogum og ryskingum, en er ekki varð við neitt ráðið, tóku íslendingar að lokum það ráð, að loka sig inni og láta húsin hlífa sjer. En Norðmenn hjeldu áfram óspektum sinum og spellvirkjum. 

Brutu þeir flestallar rúður í þorpinu, girðingagrindur og alt annað, er þeir unnu á. Lögreglustjórinn á Siglufirði símað til Akureyrar, og bað um aðstoðarlið og rifla. — Vart hefir orðið við raddir hjer, er vilja kenna eftirlitsleysi varðskipsins „Islands Falk" um óspektir þessar, en þeir, sem þá meinloku hafa smíðað, ætlast þó varla til þess, að Danir hafi hjer líka lögreglueftirlit á landi.

-------------------

„Islands Falk" hefir verið við Færeyjar um tíma að annast um flutning sæsímans þar. Fyrverandi ráðherra, Björn Jónsson, og flokksmenn hans töluðu á þingi í vetur mjög um sæsímaskemdirnar við Færeyjar. og töldu þær næga sönnun fyrir því, að sæsíma mætti aldrei leggja til Vestmanneyja: það stæði svo líkt á við Færeyjar og Vestmanneyjar, straumur mikill og hraun i botni á báðum stöðum, að full vissa væri fyrir því, að sæsími til Vestmanneyja yrði ávallt að slitna, eins og við í Færeyjar. En nú er komið í ljós, að orsakirnar til símabilunarinnar í Færeyjum eru allt aðrar, heldur en þeir töldu; það eru kola og koparlög í botninum, sem hafa haft efnafræðisleg eyðandi áhrif á símann þar, og þess vegna var nú verið að taka hann upp og leggja hann á öðrum stað

----------------------------------------------------------------------


Gjallarhorn - 1911 

Óspektir á Siglufirði hafa verið talsverðar undanfarið.

Eru það fullir Norðmenn, er hafa valdið þeim, og hefir lögreglustjórinn þar, Vigfús Einarsson, átt fult í fangi með að halda þeim í skefjum. Fyrir rúmri viku síðan varð talsverður »slagur«. Stóðu útlendir sjómenn utan við glugga á dansskála einum og horfðu á blómarósirnar, varð þeim svo heitt um hjartaræturnar, að þeir vildu komast inn og í nánari viðkynning við þær. Það vildu ekki þeir, er inni voru, og meinuðu aðgang. Urðu svo úr því illindi og síðan »slagsmál«. 

Var Iögreglustjóra hótað lífláti, en hann og menn hans vörðust vel og báru hærra hlut að lokum. Nokkrum dögum síðar var Guðmundur Guðlaugsson (bæjarfógeta Guð- mundssonar) sendur til Siglufjarðar að tilhlutun stjórnarráðsins og verður hann þar um tíma Vigfúsi lögreglustjóra til aðstoðar. Er hann kappi mikill og vanur orustum á Siglufirði. Það er nú síðast að frétta af Siglufjarðaróspektunum, að fjórir ungir, fullir Norðmenn gerðu innbrot hjá Páli kaupmanni Halldórssyni í fyrri nótt. 

Varð þeirra vart meðan þeir voru að starfa að því, og lögreglustjóra gert aðvart. Fór hann og fékk menn og fór síðan að bófunum. Skrifaði hann upp nöfn þeirra og rak þá síðan um borð í skip þeirra. Er þýðingarlaust að taka menn fasta á Siglufirði, því ekkert er þar »tukthúsið« til að geyma menn í.

==========

Vínsölusektir. Eitt af veitingahúsunum á Siglufirði var sektað í gær um 100 kr., fyrir óleyfilega vínsölu

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 2. september 1911 

Drykkjulætin á Siglufirði.

Barnaleg árás á löggjafarvaldið. Ónýt lögreglustjórn.

Illmælin um Norðmenn.

Bæjarfógetinn Guðlaugur Guðmundsson skrifar í síðasta Norðra um drykkjulætin á Siglufirði fyrir 2 vikum síðan, þau sem getið var um hér í blaðinu síðast. Fyrst er »ágrip« af skýrslu aðstoðarlögreglustjórans um drykkjulætin og óspektkirnar, eftir sjálfan yfirlögreglustjórann.

Fjöldi drukkinna Norðmanna hópast saman fyrir framan dansskála. »Löggæzlumaður skipar þeim, er druknir voru og búast mátti við ólátum af (Auðkent af Nl.) að hafa sig út á skip sín, en þeir svöruðu skömmum og skætingi til og hlýddu eigi.« Sjálf skýrslan segir frá. Þetta eru upptök óspeklanna. Það skal látið ósagt hér hvort löggæzlumaður hafi rétt til þess að skipa mönnum, sem ekki gera annað ilt af sér en safnast saman utan um dansskála, að fara út á skip, en fremur sýnist það ósennilegt.

Í öllu falli sýnist fyrirskipunin dálítið óvenjuleg og ekki sem allra heppilegust, þegar litið er til þess að öðrumegin er hópur drukkinna sjómanna, sem fyrirsjáanlega hafa hvorki vit né vilja til þess að hlýða, en hinumegin lögregla, sem ekki er fullfær til þess að afstýra vandræðum, ef þörf væri á.

En löggæzlumaður unir ekki óhlýðninni, safnar mönnum og ætlar að taka þá fasta »er ósvífnastir voru«. En druknu mennirnir eru Iiðfleiri, þeir ráðast »að Iöggæzlumanni og mönnum hans með barsmíð og hótunum«. Löggæzlumennirnir verða að hopa, fyrst upp á tröppur hússins, svo inn í húsið og loks slökkva þeir öll Ijós í húsinu og þá hætta óspektirnar bráðlega sjálfkrafa. En meðan á þessu stóð hefir einn af löggæzlumönnum orðið fyrir áverka, sem hann vill fá bættan með 50 kr. 

Tómri Hansaí-ölfiosku var kastað framan í hann og hún brotnar á enninu. Fleiri tómum Hansa?-flöskum er kastað, af birgðunum fyrir utan húsið, þar á meðal í rúðurnar á framhlið hússins, svo þær brotna flestar, ein lendir á lampanum inni í húsinu, svo hann brotnar líka og eitthvað fleira skemmist. Þegar spekt er á komin úti fyrir, ráðast löggæzlumennirnir út um bakdyr hússins í halarófu. Var þeim þá ekki mein gert. »Skríllinn« dreifðist smámsaman. 

Má um það segja eins og kveðið var: Síðan fóru seggir heim til sinna kofa; flestir voru fúsir af þeim að fara að sofa. Því er bætt við skýrsluna að löggæzlumaður hafi fyrirskipað að eigi skyldi ráðist á druknu sjómennina aftur að fyrra bragði »og að eigi mætti nota nein vopn, hvorki hnffa né annað, þó árás yrði gerð.« Manni léttir eitthvað svo notalega þegar »ágripið« er á enda, yfir því að lögreglan hafðist þó ekki meira né fleira að. 

En svo fer yfirlögreglustjórinn að »filosofera« út af þessum voðalega viðburði, og óneitanlega gerir hann það bæði einkennilega og skemtilega eins og hans var von og vísa. Fyrst segir hann þó sögu af sjálfum sér og stjórnarráðinu. Hún er svona: »Lögreglustjórarnir hér buðust til þess að fara út á veiðistöðvarnar, til þess að reyna í öllu falli að fæla landhelgisþjófana, en vildu tá loforð stjórnarráðsins um að gufuskipin, sem til boða stóðu, fengju kostnað sinn endurgoldinn. 

Því var strax svarað á þann veg, að til slíks væri ekki fé veitt á fjárlögunum. Og þar sem hér er ekki völ á verulega hraðskreiðum gufuskipum og þá því síður notfærum vopnum, mátti altaf búast við, að með þeim tækjum yrðu fáir eða engir af þjófunum teknir. — Svo féll það niður, nema hvað sunnlenzkt veiðiskip hjálpaði aðstoðarlögreglustj. á Siglufirði til að handsama ofurlitla norska »grútarsleif«, sem var fast upp í landsteinum að »snurpa«. Við þetta er ýmislegt að athuga. 

Reynslan hefir sýnt það undanfarið, að hægt er að komast hér út fyrir landsteinana til eftirlits, með tiltölulega litlum kostnaði. Innlendir skipstjórar hafa verið fúsir til að taka lögregluna með sér kauplaust, enda það orðið að góðu gagni, þegar það hefir verið notað. Auk þess hefir stjórnarráðið áður borgað reikninga yfir kostnað til slíkra eftirlitsferða, líka kostnað fyrir skipaleigu, svo þetta er einhver undarleg nýlunda, ef satt er frá sagt. Fáum kemur víst til hugar að það væri vænlegast til að ná brotlegum veiðimönnum, að lögreglustjóri færi að valsa út um sjóinn á »hraðskreið- um gufuskipum með vopnagný. 

Slík hræða yrði víst fremur til aðhláturs en gagns. Þá er það einkennilegt- hve óvirðulega yfirlögreglustjórinn talar um hið drengilega bragð aðstoðarlögreglustjórans, er hann fer út á sjóinn til að líta eftir lögbrotum. Talar um að hann handsami eina »grútarsleif«. Réttast sýnist fyrir hann að láta það óátalið, þangað til hann sjálfur hefir náð annari stærri. Það er eins og hér kenni dálítillar öfundar. En svo er hugsanaferill yfirlögreglusrjórans í þessari grein ekki að öllu leyti sem beinastur, ekki alveg ósvipaður því sem hann gæti orðið hjá manni, sem nýbúinn er að tæma nokkrar flöskur af Hansaöli. Hann vill koma ábyrgðinni af þessum drykkjulátum á síðasta þing. Það  hafi ekki viljað láta Dani hafa 2/3 af botnvörpusektunum, eins og þeir hafi heimtað og þetta séu afleiðingarnar! 

Hér er að ræða um viðburð, sem óneitanlega hefir komið æði oft fyrir í heiminum, að druknir menn hlýða ekki lögreglunni og snúast til varnar, þegar á þá er leitað. Sá atburður getur jafnt komið fyrir fram til dala sem út við sjó, ef mennirnir eru druknir. Hvergi annarstaðar hefir þess heyrst getið, að hann væri beint settur í samband við neitt botnvörpusektamál og hann kemur alveg eins fyrir í þeim löndum þar sem ekkert botnvörpusektamál er til og hann gerðist líka meira að segja á sjálfum Siglufirði, meðan Danir höfðu 2/3 af botnvörpusektunum. 

Þó einhverjum hefði dottið í hug að setja þetta tvent í samband, drykkjulætin og botnvörpusektirnar, þá má þó telja það víst, að langflestir hefðu ályktað eitthvað líkt því sem hér er gert, ef þeir væru nokkurnveginn allsgáðir um hvað þeir létu frá sér fara. Ástæðan til drykkjulátanna er alstaðar sú sama: að mennirnir eru druknir. Þetta veit lögreglustjórinn vel af langri lífsreynslu. Vilji hann fara að bera á móti þessu, þá er hann líklega eini lögreglustjórinn í heiminum, sem það gerir. 

En hvernig verða allir þessir menn druknir á Siglufirði? Þar er þó bönnuð áfengissala. Óhugsandi að stór flokkur manna fari um með drykkjulæti, ef þeir drekka ekki annað en það, sem þar er leyfilegt að selja. Hefði það ekki legið beinna við að lögreglustjórinn hefði íhugað þessa hlið málsins? Þetta kemur honum meira við en öllum öðrum, lögreglustjóra héraðsins. Ef hann hefði gert það, þá má líka telja það víst að ályktanir hans hefðu orðið miklu nær heilbrigðu viti.

Og nú vita það allir að til nokkurra staða hér nyrðra er flutt allmikið af vínföngum, sem seljendur selja í fullu lagaleysi. Akureyri er einn þessara staða og fer sú óregla vaxandi árlega. En hvergi á landinu eru víst meiri brögð að þessu en á Siglufirði. Þangað eru fluttar á ári hverju, ekki aðeins hundruð hundraða, heldur hundruð þúsunda af flöskum, sem þar eru seldar dag eftir dag og ár eftir ár, þótt þær eflaust að langmestu leyti hafi inni að halda áfengisvörur, sem óleyfilegt er að hafa á boðstólum. 

Sú áfengissala fer fram til stórskaða fyrir þá menn, er hafa Iagaheimild til áfengissölunnar og greiða fyrir það árlega hátt gjald, til stórfeldrar siðspillingar fyrir þjóðina, og stórskammar fyrir landið. Hverjum er þetta fyrst og fremst að kenna? Er alþingi um að kenna? Er botnvörpusektunum um að kenna? Getur nokkrum heilvita manni blandast hugur um það, að hér er fyrst og fremst um að kenna óhæfilega ónýtri lögreglustjórn ? Það er henni fyrst og fremst og reyndar engum öðrum, sem Siglfirðingar eiga það að þakka, ef þeir »hafa ekki lífsgrið og eigna« fyrir druknum útlendingum. 

Til þess að halda þeim í skefjum þarf það eitt, að yfirvöldin sjái um að áfengislöggjöfinni sé hlýtt. Hér er það orðinn of ríkur siður að tala um þessi útlendu, umkomulausu grey eins og hunda og illmenni, af því þeir í einstæðingsskapnum láta ginnast af eitrinu, sem óleyfilega er að þeim haldið, eða gerast óðir, þegar þeir eru ölvaðir og þeir lenda í illdeilum við lögregluna. Svo gerir lögreglustjórinn og í grein sinni. Og þó eru þetta frændur okkar og sjálfsagt ekki mjög ólíkir okkur að eðlisfari. 

Þetta eru þakkirnar til norsku þjóðarinnar fyrir hina alkunnu gestrisni og góðvild við íslendinga. Ódruknir eru þessir menn spaklátir. Okkur væri sæmra að gera vel til þeirra, eftir því sem við getum og þá fyrst og fremst verja þá fyrir áfenginu. Í stað þess á nú að fara að sýna þeim skotvopnin. Með þeim vinnum við oss áreiðanlega hvorki gagn né sóma.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 2. september 1911 

Hansaølið. Løgreglan.

Um langan undanfarinn tíma hefir það verið kunnugt hér í bæ, að leynisala á áfengi hefir átt sér stað og jafnframt hefir legið sterkur grunur á, að áfengis-tollsvik væru samfara þessari leynisölu. Ýmislegt hefir verið gert af hálfu einstakra manna, einkum ýmsra templara, til þess að fá lögreglustjórann til þess að sinna þessu fyrir alvöru og reyna að uppræta þessa ósiði. Þetta hefir þó borið nauðalítinn árangur. 

Einstaka sinnum hefir lögreglustjóri þó sektað fyrir tollsvik og óleyfilega sölu, en þá hafa sektirnar verið svo lágar að flesta furðaði á. Hinsvegar hefir lögreglustjóri oftsinnis stungið undir stól munnlegum og skriflegum kærum um brot á áfengislöggjöfinni, svo flestir munu hafa talið það árangurslaust, að leita framar liðsinnis hans til verndar áfengislöggjöfinni. 

Eitt af brotunum hér á þessari löggjöf, sem menn hafa veitt mikla eftirtekt, er sala á ýmsum öltegundum frá Hansaölgerðarhúsi í Björgvin. Sala á þessu öli mun hafa byrjað fyrir alvöru árið 1908, bæði hér í bænum, á Siglufirði og víðar, og hefir farið vaxandi hröðum fetum, ár frá ári. Hingað til bæjarins var t. d. í fyrra sumar flutt af þessu öli með einu skipi frá Noregi 17,750 flöskur, alt til manna, sem ekkert vínsöluleyfi hafa. Náttúrlega hefir líka mikið verið flutt á öðrum skipum, ef ekki mikið meira, og þó er þetta eflaust smáræði hjá því, sem flutt er til Siglufjarðar. 

Fáum hefir dutist, að flestallar öltegundir þessa ölgerðarhúss, sem hingað hafa fluzt, hafa verið áfengar, miklu áfengari en leyfilegt er að selja af öðrum en löglegum áfengissölum. Margsinnis hefir athygli lögreglustjórans verið leitt að þessari ölsölu, og hann spurður um, hvort honum þætti eigi ástæða til þess að láta rannsaka ölið. Alt tal um þetta við lögreglustjórann varð þó árangurslaust, og þegar ekkert útlit var lengur fyrir, að nein framkvæmd yrði í málinu af hálfu yfirvaldsins, þá tók umdæmisæðstitemplar Vilhelm Knudsen, fyrir hönd umdæmisstúkunnar hér á staðnum, sig fram um það, að láta rannsaka styrkleik hinna ýmsu öltegunda frá Hansaölgerðarhúsinu. 

Fékk hann 5 tegundir af ölinu hjá tveimur mönnum hér í bæ, sem ekki hafa vínsöluleyfi, en selja þetta öl, og sendi það stórtemplar til frekari framkvæmda í málinu, Ölið var sent með »Botniu«, sem fór héðan 14. ág. En 28. þ. m. fékk Knudsen svolátandi símskeyti:

Rannsókn á Hansabryggeri-öltegundum frá Norsk-íslansk Handelskompagni sýnir eftirfarandi rúmmáls-áfengismagn:

          Stórtemplar.

Flestar þessar öltegundir hafa þá fult eins mikinn áfengis-styrkleika einsog hið sterka Carlsberg-öI.og jafnvel til muna meiri, og er því vitanlega óheimilt að selja þær, eða líða að selja þær, öðrum en þeim, sem hafa keypt leyfi til að verzla með áfengi. Eftir að rannsókn þessi hafði farið fram, skýrði stórstúkan stjórnarráðinu frá styrkleika ölsins og gerði fyrirspurn um, hvaða ráðstafanir stjórnarráðið vildi gera út af því. Landritari gaf það svar, að hann hafi í vor gefið lögreglustjóranum á Akureyri fyrirskipun um, að haga sér gagnvart Hansaöli sem öðru áfengi og lofaði að ítreka þessa fyrirskipun. Vonandi að úr þessu standi þó hnífurinn ekki lengi í kúnni.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 2. september 1911 

Réttarhöld eru nú mjög tíð á Siglufirði út af óspektum drukkinna Norðmanna.

Við þau réttarhöld hefir það orðið upplýst, að Norðmennirnir kaupa áfengið sem þeir fylla sig í hjá óleyfilegum vínsölum þar á staðnum.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 2. september 1911 

11. árgangur 1911, 38. tölublað, Blaðsíða 140

Sektir fyrir ólöglega veiði. Eftir óspektirnar um daginn á Siglufirði, varð það að samkomulagi milli lögreglustjóra hér og stjórnarráðsins að senda Guðmund Guðlaugsson héðan af Akureyri til aðstoðar lögreglustjóra á Siglufirði.

Vitanlega er fé ekki veitt til þess í fjárlögum og sýnir það að stjórnarráðið telur sér skylt að halda uppi reglu, hvað sem lögreglustjóri hér hefir eftir því um það mál. Hinsvegar má fullyrða að þetta var vel ráðið, því Guðmundur er ötull og ódeigur til framgöngu.

-------------------------------------------------------------

Vestri - 2. september 1911 

10. árgangur 1910-1911, 37. tölublað, Blaðsíða 146

Sektir fyrir landhelgisbrot. 

Vigfús Einarsson (frá Kirkjubæ) hinn nýi lögreglustj. á Siglufirði virðist gera sér far um það, að hefta sem mest ásælni erlendra ránfugla á landhelgi vora. 16. f. m. hafði hann farið á botnv. >Mars< til þess að svipast eftir sökudólgum og hitti í þeirri för norskt skip, er >Thorgrim< heitir, að veiðum á Haganesvík. Var hann sektaður um 600 kr. og afli (c: 400 tnr. af síld) og veiðarfæri gert upptækt. 

Nokkru síðar náði hann og í skipverja af skipi sem >Hernö< heitir, og grunað var um landhelgisbrot; játaði skipstjóri það ef tir nokkra vafninga og var sektaður um 200 kr. Þess er vert að geta, að >Valurinn< hefir að sögn engu látið sig skifta yfirgang þennan, — hefur verið kvaddur brott af utar.ríkisráðuneytinu danska.  („Valurinn“ mun ver danskt varðskip) 

-------------------------------------------------------------

Ísafold - 6. september 1911 

38. árgangur 1911, 54. tölublað, Blaðsíða 214

Áfengissala á Siglufirði. Lögreglustjórinn á Siglufirði, Vigfús Einarsson, hefir gengið röggsamlega fram gegn ólöglegri áfengissölu þar í kaupstaðnum. Hann hefir nýlega sektað Þorvald Atlason um 100 kr., auk málskostnaðar fyrir ólöglega áfengissölu. 

Ennfremur hefir hann sektað brytann á Watnesskipinu »Courier« um 300 kr. fyrir ólöglega áfengissölu. 3 aðrir eru undir ákæru sömuleiðis fyrir ólöglega áfengissölu. Nokkrir menn grunaðir um tollsvik. (Eftir símskeyti)

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 9. september 1911 

11. árgangur 1911, 39. tölublað, Blaðsíða 143

Herferð Jörundar.

Þó »ekkert fé sé veitt til þess f fjárlögum«, var flóabáturinn »Jörundur« sendur héðan einn daginn, til þess að líta eftir brotlegum fiskimönnum í landhelgi. Skipið tók á Siglufirði þá Vigfús Einarsson lögreglustjóra og aðstoðarmann hans, Guðmund Guðlaugsson. Lagði skipið svo út og hugði á bráð. 

En brotlegir veiðimenn sáust hvergi og kom skipið heim við svo búið. Langsennilegast að frétt um þetta hafi verið komin til Siglufjarðar á undan skipinu, því hér var þetta á vitorði margra manna áður, hvað til stóð. Má af þessu læra, að ekki nægir að hafa »hraðskreið skip« eða »nýtileg vopn«, heldur þarf líka dálítið af fyrirhyggju.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 23. september 1911 

11. árgangur 1911, 42. tölublað, Blaðsíða 153

Síldveiðarnar í sumar. Sú síld er söltuð var á Siglufirði í sumar var 1/3 minni en síldin sem söltuð var í fyrra; en von er líka um betra verð erlendis en þá. Á fimtudaginn var hafði tvípundið af síldinni verið selt í Noregi á 20 aura og leit út fyrir að verðið færi hækkandi. Betur að sú yrði reyndin á.

Veiðarfærin af „Herlö" seldust á uppboði á Siglufirði á 1433 kr. 25 aura.

Óleyfileg áfengissala sektuð á Siglufirði. Þess var getið f næst síðasta blaði að Þorvaldur Atlason veitingamaður á Siglufirði neitaði að ganga að sekt fyrir ólöglega vínsölu þar og var þá mál byrjað gegn honum. En þegar til kom kaus hann heldur sektina og var hún ákveðin 175 kr. Þá hefir Friðbjörn Níelsson skó- smiður verið sektaður fyrir óleyfilega áfengisveitingu um 60 kr.

Fleiri slíkar sektir eru að sögn enn í vændum þar á Siglufirði.

-------------------------------------------------------------

Ísafold - 27. september 1911 

38. árgangur 1911, 59. tölublað, Blaðsíða 233

Strand á Siglufirði.

Aðfaranótt sunnudags var afskapa veður á Siglufirði. Síldbræðsluskip Goos síldarkaupmanns, sem lá úti á firðinum rak þá upp og sömuleiðis skonnortu, sem þar var. Björgunarskipið Geir fór norður á mánudagsmorguninn til hjálpar.

Ólöglegar veiðar og ofbeldi er mikið um á Siglufirði í sumar. Guðmundur Guðlaugsson hefir verið þar til aðstoðar lögreglustjóranum undanfarið. Á einu lögbrotsskipanna lenti í svo hörðu milli hans og eiganda skipsins, Evanger síldarbræðslumanns, að Guðmundur Guðlaugsson hafði skammbyssu á lofti framan í andliti hans, meðan nótinni var skipað niður í bátinn. 

Skip þetta (Herlö) fekk 1200 kr. sekt. Annað skip (Albion) hafði fengið 500 kr. sekt.

-------------------------------------------------------------

Lögrétta - 30. september 1911 

6. árgangur 1911, 48. tölublað, Blaðsíða 187

Strand á Siglufirði.

Aðfaranótt síðastl. sunnudags rak þar upp síldarbræðsluskip, sem lá úti á firðinum, eign Goos síldarkaupmanns, og einnig rak þar upp seglskip í sama veðri.

-------------------------------------------------------------

Norðri - 8. nóvember 1912 

7. árgangur 1912, 35. tölublað, Blaðsíða 135

 ÞAKKARÁVARP.

Öllum þeim, er réttu mér hjálparhönd síðastliðið sumar, er eg varð fyrir því slysi að, detta ofan í Iest á skipi því á Siglufirði, er eg vann í við síldarsöltun, votta eg undirrituð hér með innilegasta hjartans þakklæti.

En sérstaklega þakka eg Helga lækni á Siglufirði alla hans góðu hjálp, sem hann gaf mér að öllu leyti, ásamt frú Indíönu Tynæs, presti Norðmanna og Jóni Brandsyni, er öll örfuðu góða menn að rétta mér hjálparhönd í peningalegu tilliti.

Öllu þessu heiðursfólki bið eg algóðan guð að launa fyrir mig, og af hjarta óska eg að í þeirra skaut falli þessi orð frelsarans: Það sem þér gjörið einum af mínum minstu bræðrum, það gjörið þér mér.

Lækjarbakka við Litlárskógssand 24.okt. 1912. Guðrún Guðjónsdóttir

---------------------------------------

Norðurland - 23. mars 1912 

12. árgangur 1912, 13. tölublað, Blaðsíða 48

Hreppsnefndin í Hvanneyrarhreppi sótti um leyfi til að taka 5000 króna viðbótarlán til að koma á vatnsleiðslu um Siglufjarðareyri, og veitti sýslunefnd það

------------

Hörmulegt slys, Fyrir nokkrum dögum voru 3 menn á ieið yfir Siglufjarðarskarð á skíðum. Þeir rendu sér norður af skarðinu, allbratta brekku, en einn þeirra fór nokkuð aðra leið niður brekkuna en hinir. Þegar hinir tveir komu niður á jafnsléttu, sáu þeir hvergi samferðamann sinn. Fóru þeir þá að leita hans, og fundu hann við grjótvörðu í brekkunni miðri. Lágu þar skíðin brotin og maðurinn örendur með gat á höfuðkúpunni. Hefir hann ekki gáð að vörðunni og rekist á hana á flugferð. Maðurinn hét Þorlákur Þorkelsson af Siglunesi, mannvænlegur maður um tvítugt.

--------------

Hreppsnefndin í Hvanneyrarhreppi fekk leyfi sýslunefndar til þess að verja nokkru fé úr hreppssjóði til þess að undirbúa raflýsingu f Siglufjarðarkauptúni og gera áætlun um kostnað við það fyrirtæki.

--------------

Sýslunefndin veitti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps, samkv. beiðni hennar, leyfi til að verja á þessu ári alt að 100 kr. úr hreppssjóði til þess að stofna hreppsbókasafn og lestrarfélag.

-------------------

Hreppsnefndin í Hvanneyrarhreppi bað um leyfi að taka viðbótarlán, alt að 3000 kr. til þess að framlengja vatnsleiðsluna um Siglufjarðarkauptún suður á Hafnarbakka. Sýslunefndin veitti leyfið.

-------------------------------------------------------------

Ísafold - 4. maí 1912 

39. árgangur 1912, 29. tölublað, Blaðsíða 103

15. marz sl. varð eitt líflátsslysið á Siglufjarskarði í glaðasólskyni og annars inndælu veðri. Þrír menn af Siglunesi ætluðu inn yfir Skarð, inn í Sléttuhlíð, að finna frændfólk sitt og foreldra. Voru það alt ungir menn og frískir, fullorðnir, og einn unglingur. Gekk ferðalagið vel alla leið inn yfir Skarðið og niður í Göngudal svonefndan innan við það. Þá rendu þeir sér, annar fullorðni maðurinn og unglingurinn fram úr Göngudal og urðu einskis. 

En þegar þeir koma niður á jafnsléttu og stansa, sjá þeir ekkert til félaga síns. Doka þeir við ofurlitla stund, en hann kemur ekki. Snúa þeir þá við til að svipast að honum og finna hann nokkuð upp í brekkunni örendan. Hafði hann rent sér ofurlítið aðra leið en þeir, lent á vörðu og brotið gat á höfuðið. 

Maður þessi hét Þorlákur og var Þorkelsson 23 ára, frá Lónkoti í Sléttuhlíð, efnilegur piltur ókvæntur; var hann vetrarmaður á Siglunesi í vetur, og var nú á leið til að finna foreldra sína. Það sem einkennilegast er við slys þetta er það, að brekkan er stutt ofan að vörðunni, og hvergi misslétta á henni og vel skíðafyllingur af snjó — ekki hægt að hugsa sór betra skíðafæri; og svo hafði maðurinn með skíðunum tekist í loft 4½ faðm frá vörðunni, snúist við í loftinu og lent með vinstri vangann á vörðunni. 

En sunnan við vörðuna hafði hann farið og þá átt að lenda með hægri vangann á vörðunni, hefði hann ekki snúist við. —

Hefir óhug miklum slegið á alþýðu manna yfir þessum slysum á Siglufjarðarskarði — svona hverju á eftir öðru, með litlu millibili. En alt hefir sínar eðlilegu orsakir og »enginn kemst fyrir sitt endadægur«. 

-------------------------------------------------------------

Ingólfur - 9. maí 1912 

10. árgangur 1912, 18. tölublað, Blaðsíða 70

Einkennilegt slys vildi til á Siglufjarðarskarði 15. mars síðastl. Þrír ungir og frískir menn ætluðu frá Siglufirði inn í Sléttuhlíð að hitta foreldra sína. Gekk ferðin vel yfir skarðið og inn í Göngudal, rendu þeir sér fram úr dalnum og niður á jafnsléttu, en er þar kom vantaði einn þeirra félaga. Dokuðu hinir þá við ofurlitla stund, en hann kom ekki. Sneru þeir þá við og fundu hann örendan [upp í brekkunni. 

Hafði hann rent sér ofurlítið aðra leið en þeir og lent á vörðu og brotið gat á höfuðið. En það sem einkennilegast er við slys þetta, er að brekkan er stutt og slétt ofan að vörðunni, og ágætis skíðafæri, en 4½ faðm frá vörðunni hafði hann tekist á loft með skíðunum og snúist við í loftinu og lent með vinstri vangann á vörðunni. 

Eftir stefnu þeirri er hann hafði, hefði hann átt að fara sunnanmegin við vörðuna og lenda með hægri vangann á henni, ef hann hefði ekki snúist við.

Maður þessi hét Þorlákur (fæddur 379 1887,) sonur Þorkels bónda í Línkoti í Sléttuhlíð Dagssonar á Karlstöðum Bjarnasonur á Karlstöðum Sigfússonar á Skeggjabrekku Bjarnasonar og Sigríðar Þorláksdóttur á Unastöðum Einarssonar.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 1. júní 1912 

12. árgangur 1912, 24. tölublað, Blaðsíða 88

Siglufjörður. Mannkvæmt mun þar verða í sumar, með mesta móti, eftir því sem horfir. Talið að þangað muni sækja fleiri Norðmenn en nokkru sinni áður. Síldarbræðslunni verður haldið áfram og verksmiðja Evangers stækkuð. Auk hans bræða þar síld bæði Bakkevig og Söbstad. 

Þeir kaupmennirnir Snorri Jónsson og Ásgeir Pétursson eru að byggja þar stór verzlunarhús. Verzlun Sig. Sigurðssonar ætlar að hafa þar útibú, sem að undanförnu og ef til vill fleiri Akureyrarkaupmenn. Þá er og verið að byggja þar 5 íbúðarhús. — 

Enn fremur er þar í smíðum tugthús, sem vöntun hefir þótt á undanfarið.

-------------------------------------------------------------

Reykjavík - 27. júlí 1912 

13. árgangur 1912, 30. tölublað, Blaðsíða 117

Löggæzla við síldveiðar.

Herra Guðmundur Guðlaugsson, sem einatt hefir verið aðstoðarmaður Iögreglustjóra á Siglufirði við eftirlit með síldveiðimönnum, og reynst þar duglegur maður, hefir boðið stjórnarráðinu að gera út á sinn kostnað gufuskip, til að lita eftir síldveiðiskipum útlend um, sem eru að síldveiðum í landhelgi. Hann ætlast ekki til að hafa lögregluvald til að taka skipin og teyma þau inn á Siglufjörð, enda eru þau öll neydd til að koma þar inn, með því að þau hafa alla útgerð sína og afgreiðslu þar og verða að hleypa inn í hvert sinn, er þau hafa veitt, til að leggja upp síldina til verkunar og söltunar. 

En hann býðst til að útvega sannanir fyrir brotunum, móti því að fá tiltekinn hluta af sektarfé þeirra skipa, er dæmd verða eftir tilvísun hans og sönnunum. Þetta sýnist næsta álitlegt tilboð, þar sem landsjóður þarf engum eyri til að kosta öðru en tilteknum hluta af upphæð þeirra sekta, sem uppljóstrarmaðurinn  aflar landsjóði. Margir ætluðu nú, að Stjórnarráðið mundi þiggja þetta fegins hendi. 

En — þar kom dálítið stryk í reikninginn. Stjórnarráðið kvað sig skorta lagaheimild til að veita uppljóstrarmanni nokkurn hluta af sektum. Svo var málið lagt fyrir þing, en þó ekki í frumvarpsformi, heldur sem þingsályktunartillaga, að skora á stjórnina að gera eitthvað til að efla eftirlitið með síldveiðum í landhelgi. Og nú sefur málið í nefnd; en norski bróðir fiskar væntanlega daglega í landhelgi þessa daga. Skipið, sem Guðmundur átti kost á, liggur tilbúið til taks hér á höfninni, ef þinginu skyldi þóknast að gera eitthvað við þessa málaleitun. 

Auðvitað væru sérstök lög eina lögfulla heildin fyrir stjórnina til þessa samnings; en ef þingið samþykti tillöguna sem þingsályktunartillögu að því viðbættu, að þingdeildirnar hétu því á næsta þingi að gefa stjórninni heimild með lögum til þessara ráðstöfunar, þá væri það sjálfsagt ábyrgðrarlaust fyrir ráðherra að taka boðinu.

-------------------------------------------------------------

Austri - 24. ágúst 1912 

22. árgangur 1912, 34. tölublað, Blaðsíða 124

Óleyfileg vínsala. . Vigfús Einarsson lögreglustjóri á Siglufirði hefir nú nýverið sektað einn kaffisalann á Siglufirði, Tynes að nafni, um 50 krónur fyrir óleyfilega vínsölu. 

Fjögur eru alls kaffihúsin á Siglufirði, voru þrjú sektuð í fyrrasumar, en þetta slapp þá hjá lagavendinum. — 

„Víða er nú pottur brotinn"

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 24. ágúst 1912 

12. árgangur 1912, 36. tölublað, Blaðsíða 137 

Islands Falk er kominn úr Grænlandsleiðangri sínum fyrir nokkru og tekinn hér aftur við landhelgisvörn. En lítið hefir hann »varið« fiskimiðin síðan.

Hann fór frá Reykjavík til Ísafjarðar, lá þar um vikutíma, sigldi svo til Siglufjarðar; þá sigldi hann svo djúpt fyrir, að hann sá ekki til lands, en sagt er að þann hinn sama dag hafi tvö skip verið að ólöglegri veiði við Skaga.

Á Siglufirði lá »Fálkinn« í nokkra daga, en fór aldrei út.

Hingað kom hann fyrir viku og hefir ekki hreyft sig enn.

Mikill styrkur er oss að »vernd« hans hér!

Landhelsisbrot.

Tvö síldveiðaskip voru kærð hér nýlega fyrir landhelgisbrot, bæði af Íslendingum, en »lslands Falk« kom með annað þeirra af Hjalteyri hingað, samkvæmt tilvísun, er hann kominn hingað fyrir nokkrum dögum.

Annað skipið var sektað um 300 krónur en hitt um 100 krónur. Gera Norðmenn á Siglufirði ekki annað en að hlæja að þessu, að sögn, og hafa við orð, að þeir muni reyna að fiska sem mest í landhelgi, fyrst það kosti ekki meira, því að þá borgi það sig vel! Þessar sektir eru meira en hlægilega lága.

-------------------------------------------------------------

Austri - 14. september 1912 

22. árgangur 1912, 37. tölublað, Blaðsíða 137

Skip sektuð.

Tvö síldveiðaskip sænsk voru nýskeð sektuð á Siglufirði um 200 kr. hvort, fyrir óleyfilega veiði í landhelgi.

-------------------------------------------------------------

Gjallarhorn - 1912 

7. árgangur 1912, 3. tölublað, Blaðsíða 10

Á Siglufirði og Sauðárkróki gekk svo mikil flóðbylgja á land að kjallara fylti undir mörgum húsum í báðum stöðunum, og urðu ýmsar skemdir við það, matvæli eyðilögðust og eldiviður blotnaði og skemdist.

Ekki vita menn til, enn þá, að mannskaði hafi orðið í veðrinu.

--------------------------------------------------------------

Austri - 16. nóvember 1912 

22. árgangur 1912, 46. tölublað, Blaðsíða 169

Ofsaveður. Stórflóð. Skipströnd. Óveðrið, sem geysaði hér um s. l. helgi mun hafa gengið yfir allt Austur og Norðurland og ollað miklu tjóni. Frá Ákureyri var oss sagt í símanum, að þar hafi veðrið verið afskaplega mikið. Flæddi þá yfir mikinn hluta af Oddeyrinni og gjörði usla og skemmdir.

Í Krossanesbótinni, rétt fyrir utan Oddeyrina, þar sem skip liggja opt í vetrarlagi, strönduðu þrjú skip. Hulkurinn, „Lína," eign síldarbræðslufélags Melbos, rak í land og brotnaði, Kuttarinn „Samson" eign Ásgeirs kaupm. Péturssooar, stærsta fiskiskipið á Eyjafirði, Søkk, og kúttarinn „Fremad", eign Snorra Jónssonar, rakst á sker og brotnnði í spón.

Tveir mótorbátar og margir smábátar brotnuðu einnig. Á Siglufirði gjörði svo mikinn sjávargang og stórflói, að fólkið flýðí úr einu húsi, og gólf brotnuðu úr tveimur Norðmannahúsum. Á Sauðárkrók hafði og flóðið orðið svo mikið, að vart var fært húsa á milli.

-------------------------------------------------------------

Norðurland - 16. nóvember 1912 

12. árgangur 1912, 49. tölublað, Blaðsíða 186

Skaðar af ofviðri.

Fyrra laugardagskvöld brast á hin fyrsta stórhríð á vetrinum með ofviðri og hörkufrosti og hélzt hún fram á mánudagsnótt. Olli það veður víða skaða. I Krossanesbótinni, hér utan við Eyrina, lágu allmörg skip eins og jafnan áður á vetrum, og fórust 3 þeirra með öllu: Samson, fiskiskip Ásgeirs Péturssonar kaupm. Fremad, eign Sn. kaupm. Jónssonsr og Lina, eign erl. félags. Bryggja, nýlega bygð og vönduð, sem Sn. Jónsson átt á Bjargi, brotnaði og eyðilagðist: 

Tvær bryggjur brotnuðu á Siglufirði fyrir Söbstad útgerðarmanni og ýmsar smáskemdir urðu auk þess á fleiri bryggjum þar. Stórstreymt var og gekk sjórinn þar mjög á land, eyðilagði kofa einn og fór inn í kjallara í sumum húsum. Ekkert af skipunum (né af bryggjunum) mun hafa verið vátrygt nema Samson. Hann var trygður í samábyrgðinni fyrir 9 þús. krónur.

----------------------------------------------------------

Norðri - 19. nóvember 1912 

7. árgangur 1912, 36. tölublað, Blaðsíða 137

Norðan-stórveður geysaði yfir norður- og austurland uni fyrri helgi. Var þá óvanalega mikið flóð, sem gerði skaða á einum bæ á Langanesi og ef til vill víðar: í Krossanesbót hér fyrir norðan Oddeyrina láu nokkur þilskip, sem áttu að liggja þar í vetur. Þrjú af þessum skipum fórust í veðrinu.

 1. Þilskipið »Lína«, eign síldarbræðslufélagsins í Krossanesi. Skip þetta var stórt uppgjafahafskip, sem um nokkur ár hafði legið á Siglufirði og Eyjafirði og var notað til síldarsöltunar á sumrum.

 2. »Samson«, stór fiskiveiðakúttari, eign Ásgeirs kaupmanns Péturssonar. Hann rakst á annað skip og brotnaði svo að hann sökk. »Samson« var með stærri fiskiskipunum hér á Eyjafirði og hafði Ásgeir látið reka á honum fiskiveiðar með dugnaði nokkur ár og oft fengið á hann ágætan afla. Í fyrra vetur sendi hann Samson suður fyrir land til fiskiveiða. Skipið var í ábyrgð fyrir 9 þús. kr.

 3. skipið hét »Fremad« fiskiveiðakúttari sem Snorri kaupmaður Jónsson átti. Hafði það skip mest verið haft til flutninga síðustu ár. Skipið var óvátryggt í veðrinu varð og Snorri Jónsson fyrir nokkrum skaða á hafskipabryggju, sem hann á hér út með firðinum þar sem heitir á Bjargi. Sumstaðar höfðu orðin skaðar á bátum hér við fjörðinn.

»Gjaliarhorn« skýrir svo frá skemdum á Siglufirði og Sauðárkrók: »Þar gekk svo mikil flóðbylgja á land að kjallara fylti undir mörgum húsum í báðum stöðum og urðu ýmsar skemdir við það, matvæli eyðilögðust og eldiviður blotnaði og skemdist.

« Á Langanesi mun þó mestur skaði hafa orðið af flóðbelgingnum. frá þeim skemdum skýrir Gjallarhorn þannig:

»Á Læknastöðum á Langanesi gekk brimið svo hátt, að það braut og sópaði burtu fjósi með 3 kúm, (en ein þeirra náðist aftur lifandi) helming af heyhlöðu með töðu, íshúsi og smiðju.

 Í Þórshöfn flæddi sjórinn kring um húsin og tók þar tvo mikla uppskipunarbáta og fjóra fiskibáta.

Í Gunnólfsvík tók út 30 kindur og á Bakkafirði 20 kindur. — Elstu menn á Langanesi segjast eigi muna annað eins veður áður eða slíkt brimrót.

« Á Seyðisfirði fauk ljósmyndaskúr og brotnaði í spón. Hann var eign Brynjúlfs Sveinssonar ljósmyndara, ýms ljósmyndaáhöld sem í skúrnum voru eyðilögðust meira og minna. Á Austfjörðum varð veðrið fyrir sunnan Seyðisfjörð ekki eins ofsalegt og hér nyrðra, enda urðu þar engar teljandi skemdir.

Á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði láu flestir mótorbátar á höfnum í veðrinu því vertíð var þar eigi lokið, en þá sakaði ekki. Þeir liggja fyrir tveim festum og hafa góð legufæri enda eru flestir bátar þar óvátryggðir.

Á Norðfirði lá í veðrinu norskur seglkúttari, sá sami og kom hingað til Eyjafjarðar með timbur til Antons Jónssonar, og hafði tekið í farm um 50 skpd. af smáfiski. Þegar veðrið var sem harðast misti skipið annað akkerið með festi og rak þá með einu akkeri upp undir fjöru og festist þar. Á því reki braut skipið borð á mótorbát Sigfúsar kaupmanns Sveinssonar. 

Á mánudagskvöldið fóru allir menn úr skipinu í land, mun hafa þótt ótryggilegt að hafast við í því um nóttina, því engu mátti muna að skipið tæki niðri ef það ræki nær landi, og legufæri þótt ótrygg. Það þótti sjógörpum Norðfirðinga lítilmannlegt að yfirgefa skipið og töldu það vonarpening þar sem það lá mannlaust í hvassviðri fyrir einu akkeri upp við brimfjöru. 

Mönnuðu þeir því tvo mótorbáta og tóku skipið og lögðu því á góðan stað á höfninni við tvö akkeri (lánuðu því sjálfir annað). Á meðan þetta gerðist var skipstjóri í landi. Skipið afhendu þeir skipstjóra um morguninn en kröfðust að fá að minsta kosti 1/7 af verði skips og farms fyrir handarvikið. Réttarpróf var haldið á Seyðisfirði út af þessu máli og mun að líkindum afgert í Noregi.

-------------------------------------------------------------

Norðri - 19. nóvember 1912 

7. árgangur 1912, 36. tölublað, Blaðsíða 137

Réttritunarruglið.

Það kalla eg að óþörfu, að fara nú að grauta í þeim rithætti hjá okkur, sem búinn er að ná festu í málinu svo, að í þau þrjátíu ár, síðan Valdemar gaf út ritreglur sínar, eru allar okkar bækur og blöð skifaðar með sömu — eða að mestu leyti sömu réttritun. Því eg tel það ekki þó einstakir menn, svo sem B, Ólsen, hafi stöku stafi í orðum öðruvísi en alment tíðkast. 

En nú hefir landlæknirinn látið til sín heyra, og hrópar hástöfum á gerbreyting, bæði á stafsetning og framburði. Þar er eg hræddur um að rætist »að seinni villan verði argari þeirri fyrri«; þeirri fyrri, meina eg er »Guðbrenzkan« og »Konráðskan« voru á dögum. »Guðbrenzkan« vann eins og við vitum og hefir nú unnið hefð í málinu, því »Fjölnir« féll á því að rita eftir framburði, sem reyndist ómögulegt. 

Landlæknirinn fárast mjög yfir því, hvað málið okkar er breytt og ljótt frá því sem það var á 12. öld. En skyldi nú breytingin vera svo mikl? Það get eg sagt honum, að þó við fáum 9 — 10 ára gömlu barni, sem er vel læst, Njálu, Grettissögu eða annað, þá skal barnið skilja það vel og lesa með ánægju. Og er það sönnun þess, að málið lifir á tungurótum þjóðarinnar. 

Og um framburð orðanna er það að segja, að þó menn af suður- norður- austur- og vesturlandi mætist og tali saman, þá heyrðist þar enginn munur á. En það er ekki í öðrum löndum, á jafnstóru svæði, sem Ísland er. Hvorttveggja er því vel viðunandi og réttritunin á góðum rökum bygð, því Guðbr. Vigfússon var enginn fáfræðingur í þeirri grein. Þó einstaka orð, uppfyndinga og atburða, sem við verðum að hafa hugtök um, haldist, þá raskast málið sjálft ekkert fyrir það.

T. d. þó við hefðum haldið orðinu »Telegraph« — eins og allar mentaðar þjóðir gera — þá hefði málið engan skaða beðið við það. Síra Páll í Gaulverjabæ sagði um háskólastofnunina hjá okkur: »Erum við ekki nógu »ísóleraðir« (afskektir) frá heiminum, þó við ekki hjálpuðum til þess.« Eins er með það, að fara nú að grafa upp fornaldarframburð og grauta í þeirri réttritun, sem haldist hefir í mörg ár—

Það held eg yrði sannkallað rifrildi, því sitt sýndist hverjum í málskipunarfræðinni, svo sem um »tvöfaldan samhljóðanda!« Það virðist vera nóg til af öðru, sem meiri er þörf á að ræða um og rita um, en að fara að brjóta upp á þessu.

St. D.

INNSKOT sk – Beint og óbeint tengt þessum færslum mínum, þar sem ég reyni eftir bestu getu að halda þátíma stafsetningum, það er eins og ritað er í viðkomandi frumritum, með „z“ “ jeg“ og orðatiltæki sem í dag (2018) þekkjast varla eða alls ekki.

-------------------------------------------------------

Gjallarhorn - 1912 

7. árgangur 1912, 10. tölublað, Blaðsíða 38

Þormóður Eyjólfsson bókhaldari á Siglufirði, er hefir legið hér á sjúkrahúsinu nær hálft ár, fór heim til sín með »Mjölni« og var á góðum batavegi. —

Steingrímur læknir (ath; sk, síðar læknir á Siglufirði ?) gerði á honum mikinn og hættulegan skurð sem hepnaðist vel, svo hann vonar að Þormóður verði jafngóður og albata.

------------------------------------------------------

Norðurland - 1. mars 1913 

13. árgangur 1913, 6. tölublað, Blaðsíða 24

--------------------------------------------------------------------------

Templar - 1913 

26. Árgangur 1913, 5. Tölublað, Blaðsíða 17

Þjóðar-smán.

Br. Edv. Wavrinsky, Alþjóða-Æðsti Templar, hefir sent hingað úrklippu úr sænsku blaði. Er það kafli úr bók, sem Albert nokkur Engström er að gefa út um ferð sína hér á landi árið 1911. Hann kveðst hafa komið á Siglufjörð og segir um það meðal annars: »Við sáum gamlan læknir slettast hingað og þangað augafullan og gamli sýslumaðurinn (héraðshöfðinginn) var líka fullur«. Síðar í greininni kveðst hann hafa talað við Norðmann einn um ástandið hér á landi og spyr hann meðal annars: »Nú, hvað segið þér um prestana og áfengið? — 

Er það ekki eins og í Danmörku t. d., að prestinum þyki bæði gott að fá sér neðan í því og »einn snúning« svona i mestu makindum? — Hum! Presturinn í X t. d. drekkur, en dansar ekki; prestsfrúin drekkur ekki, en dansar vel. Og þetta er markverð lýsing á framferði prestanna í bæjunum og fjölmennari stöðum«. Það er sýnilegt, að ofanskráð lýsing er ekki tilefnislaus. Það er hart, þjóðarinnar vegna, sérslaklega, að til eru þeir embættismenn, sem láta sjá sig ölvaða á almannafæri, og ekki er það nema eðlilegt, að útlendir menn, sem ferðast hér, til þess að kynna sér land og þjóð, veiti þessu eftirtekt og þá má búast við, að slíkar og þessari líkar, miður skemtilegar lýsingar á ástandi embættismannanna hér á landi komi í útlendum blöðum og ferðalýsingum. 

Allir vita, hve sanngjarnt það er, að dæma þjóðina og siðferðisþrótt hennar eftir þessum einstöku dæmum; en þetta verður hún að þola bótalaust vegna mannanna, sem hún hefir kostað til menta og borið á höndum sér i tugir ára og vænst þess að þeir yrðu sómi hennar og vörn, en eru svo sér og henni til skammar og skapraunar. Þeir, sem mest hafa talað hér um skrælingjamarkið, sem þjóðin fái vegna aðflutningsbannsins, ættu að athuga þetta. Það mun þá sýnilegt, hverir geri þjóðinni meiri skömm í augum erlendra þjóða, bindindismennirnir, bannmennirnir eða þeir, sem vilja halda dauðahaldi í áfengið og þannig auka tölu þeirra, sem eru henni til minkunar. Það verður ekki erfitt að finna hvaðan skrælingamarkið stafar.

--------------------------------------------------------------

Norðurland - 5. apríl 1913 

13. árgangur 1913, 12. tölublað, Blaðsíða 45

Stúlkubarn á fermingaraldri, fanst druknuð í flæðarmáli f Siglufirði um páskaleytið og vita menn ekki með hverjum atburðum dauði hennar hefir orðið.

--------------------------------------------------------------

Vísir - 6. apríl 1913 

Árgangur 1913, 575. tölublað, Blaðsíða 1

Drukknun.

Unglingsstúlka á Siglufirði fanst þar í fjörunni laugardagsmorguninn fyrir páska og var drukknuð.

Miklar sögur ganga um að þetta hafi að nokkru orðið af manna.völdum. Stúlkan var um fermingaraldur.

---------------------------------------------------------------

Ísafold - 30. apríl 1913 

40. árgangur 1913, 34. tölublað, Blaðsíða 134

 Frá íslenzku sjáifsmorði á Siglufirði berma dönsk blöð snemma í apríl. segja, að kona ein á Siglufirði hafi fengið telpukrakka til að stela kvenstígvélum, en er þjófnaðurinn komst upp, hafi telpunni orðið það um, að hún drekti sér páskadagsmorgun.

----------------------------------------------------------------

Norðurland - 25. október 1913 

13. árgangur 1913, 44. tölublað, Blaðsíða 162

Frá Siglfirðingum.

14. okt. 1913. Það er eftirtektarvert, hvað sjaldan sjást í blöðunum fréttir af Siglufirði. Kemur það sjálfsagt til af því, að við Siglfirðingar erum pennalatir, því héðan mætti margt segja, þar sem stór fyrirtæki eru með höndum höfð árlega, bæði af einstökum mönnum og sveitarfjelaginu.

Raflýsingin

Nú bíða menn með óþreyju eftir rafljósunum, síðan á því verki var byrjað, ekki síður en eftir vatninu góða. Því miður gengur seinna með ljósin en vænta mátti; kemur það til af því, að pantanir margar til rafveitunnar komu ekki á réttum tíma, og hefir það tafið verkið ákaflega.

25 ára afmæli

Þann 8.. þ. m. var séra Bjarna Þorsteinssyni á Hvanneyri og konu hans, frú Sigríði Lárusdóttur (amtmanns Blöndals) og börnum þeirra, haldið samsæti af sóknarbörnum hans hér á Siglufirði. Þann dag sté hann hér á land fyrir 25 árum síðan, sem prestur til Hvanneyrarprestakalls og hefir dvalið hér síðan. Var þeim hjónum færður að gjöf kaffiborðbúnaður úr silfri ásamt skrautrituðu ávarpi, í viðurkenningar og þakklætisskini fyrir 25 ára prestþjónustu og hans mikla og margbrotna starf í þarfir Siglufjarðar.

Las Guðmundur Hallgrímsson héraðslæknir upp ávarpið og afhenti gjöfina í nafni samsætisins. — Séra Bjarni þakkaði með ræðu þá samúð og það vinarþel, sem sér og honum væri sýnt með þessu. Jafnframt talaði hann fyrir minni Siglufjarðar að fornu og nýju. Samsætinu var slitið kl. 3 um nóttina, og hafði það farið mjög vel fram að öllu.

---------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 5. nóvember 1913 

1. árg., 1913-14, 4. tölublað, Blaðsíða 17

 Á Siglufirði dóu 2 konur í nótt, köfnuðu af kolsýru, sem kom frá ofni.

---------------------------------------------------------------

Vísir - 6. nóvember 1913 

Árgangur 1913, 792. tölublað, Blaðsíða 1

Köfnun af kolalofti.

Siglufirði í dag. í smáhýsi utarlega á Eyrinni hjer hafa búið gömul hjón ásamt stúlku. Sváfu kvennmennirnir saman uppi á lofti en bóndi svaf niðri. Kvöld eitt nýlega kemur bóndi heim, voru konur þá sofnaðar. Hann bar vosklæði og Ijet þau upp á loft því þar var ylur í eldstó. -

Um morguninn fór hann á fætur kl. 6½, sótti þá föt sín og varð ekki var annars en kvenfólkið svæfi; heyrðist eins og hrotur lítilsháttar í hinni yngri. Er bóndi hafði verið um hríð við vinnu fann hann til höfuðverkjar og hjelt heim og lagði sig upp. Honum tók nú að lengja eftir að stúlkurnar kæmuniður og fór upp til þeirra.

Var þá eldri konan örend, en snörlaði í hinni og lá hún i spýu mikilli. Læknir var þegar sóttur. Yngri stúlkan lifði daglangt, en meðvitnndarlaus. Undir andlátið fóru að koma fram á henni hinir einkennilegu blárauðu blettir, er fylgja eitrun af kolaeitri. Eldri konan var krufin og staðfestist þar þessi grunur um dauðaorsökina.

------------------------------------------------------------

Austri - 8. nóvember 1913 

23. árgangur 1913, 45. tölublað, Blaðsíða 160

2 konur dóu nýskeð í svefni á Siglufirði, var ønnur þeirra aðeins með litla lífsmarki, er að var komið um morguninn. Talið að kolasvæla hafi orðið þeim að bana. Ønnur konan var eiginkona Þorsteins nokkurs, áður bónda að Reykjahóli í Sléttuhlíð, og var hann nýlega fluttur til Siglufjarðar og átti þar hús. Hin var vinnukona þeirra hjóna. —Símafregn—

------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 20. desember 1913   Barnaskólinn

1. árg., 1913-14, 49. tölublað, Blaðsíða 229

Siglufirði i gœr. Hér var byrjað á því í vor að reisa skólahús, mikið og vandað. Það var vígt í gær með mikilli viðhöfn.

Í öllu húsinu er raflýsing, vatnsveita og ýms önnur nýtizkuþægindi, sem nú er farið að nota í slíkum húsum.

-------------------------------------------------------------

Mjölnir - 1913     Akureyri 23. desember.

1. árgangur 1913-1914, 4. tölublað, Blaðsíða 11

Á Siglufirði var 18 þ. m. vígt mjög veglegt barnaskólahús úr steinsteypu, er þeir Siglfirðingar hafa haft í smíðum síðan í vor. Fyrir byggingu þess hefir staðið Sigtryggur Jónsson timburmeistari hjer í bænum. —

Mun hús þetta vera eitt hið fullkomnasta í sinni röð hjer á landi. Sama kvöldið var í fyrsta sinn kveikt á hinum nýju rafljósum á Siglufirði og er oss sagt, að „Siglfirðingar sjeu síðan í sjöunda himni, baðaðir í glóbirtu allan sólarhringinn.

-------------------------------------------------------------

Skírnir - 1914    1. Janúar 1914

88. árgangur 1914, Megintexti, Blaðsíða 109

 31. des. sl. brann á Siglufirði hús, sem í var símastöð og póstafgreiðsla kaupstaðarins.

-------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 28. desember 1913 

1. árg., 1913-14, 55. tölublað, Blaðsíða 271

Siglufirði 27. des.

Ofsarok geysaði hér í gær og yfir næstu héruð. Símar slitnuðu og símastólpar brotnuðu. Hafís er hér enginn, enn sem komið. er, og hefir ekki sézt hér í grend

-------------------------------------------------------

Ársrit Verkfræðingafjelags Íslands - 1914 1. janúar

1. Árgangur 1912-1913, 1. Tölublað, Blaðsíða 28

Árið 1913 var gjörð rafveita á Siglufirði. Aflið er tekið úr Hvanneyrará, vestanverðu fjarðarins, hjer um bil 700 m frá aðalkaupstaðnum á »Eyrinni«. Fallhæðin er 120 m. Pípurnar eru 175 m/m víðar stálpípur, heilvalsaðar, þ. e. samskeytalausar; öll lengd þeirra er hjer um bil 340 metrar og eru þær grafnar i jörðu. 

Aflvakinn er 40 hesta peltontúrbína, sem þó um stutta stund getur látið í tje 50 hesta afl. Automatiskur gangstillir heldur snúningshraðanum jöfnum, en hann er 1250 á mínútunni. Auk þess er þrýstingsstillir í pípunum, til þess að koma í veg fyrir að þrýstingurinn geti skyndilega vaxið mjög og valdið skemdum. Ásar túrbínunnar og rafmagnsvjelarinnar eru tengdir saman með leðurbandlengslum. Orka rafmagnsvjelarinnar er 26 kílówatt en spennan 2 X 230 volt. Rafmagnstaugarnar eru lagðar á trjestaurum og eru allar úr óeinangruðum koparþræði.

Kaupstaðurinn Ijet byggja rafveituna á eigin kostnað og var Jón Ísleifsson verkfræðingur ráðanautur kaupstaðarins, en P. Smith símaverkfræðingur útvegaði vjelarnar ásamt öllu efni til raftauganna og annaðist uppsetningu á þessu. Guðni Þorláksson í Reykjavík tók að sjer að gjöra stífluna, stöðvar húsið og pípulagninguna. Rafveitan kostaði hjer um bil 25000 krónur.

-------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 4. janúar 1914 

1. árg., 1913-14, 61. tölublað, Blaðsíða 295

Siglufirði..

Stúlka hverfur. Fyrir nokkrum dögum hvarf hér stúlka, frænka Björns Sigfússonar á Kornsá. Margar sögur ganga hér um hvarf liennar. Hefir verið leitað að henni dauðaleit bæði á sjó og landi, en hefir eigi enn fundist.

--------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 11. febrúar 1914 

1. árg., 1913-14, 99. tölublað, Blaðsíða 472

Siglufirði......

Rafmagnsstöð var reist hér i haust og tóku þá margir rafmagn inn i hús sín til ljósa. En galli þykir hér á gjöf Njarðar, því þegar logað hefir á rafmagninu 3 klukkustundir þá deyr á því aftur og verða menn þá að sitja í myrkrinu hálfa klukkustund.

Er því um kent að vatnsþróin sé ekki held, og hefir þó verið reynt að gera við hana, en það hefir til þessa orðið árangurslaust. Þykir mönnum hér, sem von er, lítil híbýlabót að rafmagninu meðan þessu fer fram.

----------------------------------------------------------------

Vantar blað og dagsetningu: 1913-1914 ?

Hettusóttarhræðsla. Mjög eru menn hræddir hjer nyðra við hettusóttina og er svo 111ils.il varkárni manna á Siglufirði, að ekki hefur tekist enn að afgreiða e/s Kong Helge þar. Hefur hann nú legið þar marga daga. Hætt einnig við töfum fyrir skipið hjer af sömu ástæðu.

----------------------------------------------------------------

Vísir - 9. mars 1914 

Árgangur 1914, 928. tölublað, Blaðsíða 4

Akureyrarbrjef

Akureyri, 23. febr. 1914. »Langbesta blaðið, sem nú kemur út hjer á landi, er »Vísir«. Það er líka eina blaðið, sem nokkuð líkist útlendum blöðum. Palladómarnir um þingmenn eru andlega hressandi. »Vísir« ættu allir að lesa. Austanpóstur hefur fengið voðafærð. Var kominn í Ljósavatn í morgun.

Þegar hann lagði austur, var hann 6 tíma af Akureyri og upp á Vaðlaheiðarbrún, sem annars er 2 tíma ferð. — Hafði flutning á 7 hestum. Snjór er kominn afskaplegur og illviðrin eru látlaus. Hjer á Akureyrargötum er mokað látlaust, en hefst ekki undan. Sagt er, að sum hús sjeu að fara í kaf á Siglufirði. Búist er við að Sigurjón póstur muni fá ókleyft yfir Öxnadalsheiði.

----------------------------------------------------------- 

Mjölnir - 1914    3. mars

1. árgangur 1913-1914, 13. tölublað, Blaðsíða 47

Álitamál.

Vatnsleiðslunefnd Akureyrarbæjar hefir samið við Guðmund Bíldal á Siglufirði um gröft á vatnsleiðsluskurði ofan frá lindum þeim, er vatnið skal tekið úr, og ofan þangað sem bæjarvatnsleiðslan skiftist við Barðsgil. Skurður þessi er nálægt hálft sjötta þúsund metrar að lengd og nær fimm fetum á dýpt. Bíldal skal hafa lokið greftri skurðarins 15. júlí n. k. og á að annast ofanímokstur er búið er að leggja pípumar og reyna. Einnig skal hann sprengja klappir, er á leiðinni verða, alt að 20 metrum og halda skurðinum hreinum meðan hann stendur opinn. 

Fyrir þetta fær hann 90 aura fyrir hvern meter, helminginn borgaðan jafnótt og verkið er unnið og hinn helminginn að verkinu loknu. Einnig setur Bíldal 1ooo króna tryggingu fyrir því að samningar verði ekki rofnir af hans hálfu. Samningur þessi er glæsilegur frá bæjarins hlið, fljótt á litið, enda langt fyrir neðan áætlun verkfræðings, en álitamál getur það orðið að alt sje með því fengið, að fá einhvern mann til að taka að sjer verkið fyrir Iága borgun, Setjum svo að áætlun verkfræðings hafi verið gerð út í loftið, sem reyndar engin ástæða er til til að ætla, þá hafa fleiri menn athugað mál þetta og enginn treyst sjer til að taka að sjer þetta verk, nema fyrir töluvert hærri borgun.

 Og án þess að vantreysta Guðm. Bfldal um skör fram, liggur ekki fjærri að ætla, að þrátt fyrir hina miklu reynslu og þekkingu, er vatnsleiðslunefndin fræddi bæjarstjórn um að hann væri gæddur, þá beri ekki að treysta áætlun hans fram yfir alt annað. Og ekki er það hættulaust að sleppa verkinu við einn mann, gegn sama og engri tryggingu, því 1000 krónur er engin trygging, ef illa fer. Slík trygging væri nokkurs Virði ef ábyrgð eins eða fleiri manna fylgdi, er trygði það, að verkinu yrði haldið áfram í forföllum Bíldals, því fyrir getur það komið, að dauðlegir menn verði veikir um lengri eða skemmri tíma. En eru nokkur rök fyrir því, að »akkorð« sje of lágt,og maðurinn sem tekur það geti ekki staðið við það?« munu menn spyrja.

Þessari spurningu má óhikað svara játandi, og ber margt til þess. Fyrsta sönnun þess, að svo sje, er áætlun landsverkfræðingsins, sem er helmingi hærri en akkorðið. Sje hægt að framkvæma verkið fyrir það gjald, er Bíldal hefir gengið inn á, er þar með sagt, að áætlun verkfræðingsins sje endemisfjarstæða, vægast sagt. Önnur ástæðan er sú, að hægt er að sýna það með tölum, að ekki er hægt að framkvæma verkið fyrir hið umsamda gjald, nema einhver taþi. 

Tapi bærinn ekki, tapar Bíldal eða þeir, sem vinna verkið. Þetta er ekki bægt að skýra, nema í löngu máli, og verður það því ekki gert hjer, en öll sönnunargögn eru fyrir hendi, ef á þarf að halda. Þriðja ástæðan er samningur Bíldals við vatnsleiðslunefndina. Þar er tekið fram, að helmingur verksins skuli eigi borgaður fyr en því er lokið. Þar af leiðir, að líkindi eru til að honum gangi erfitt að fá verkafólk. Menn munu ófúsir að vinna fyrir lægsta kaup og fá aðeins helminginn útborgaðan vikulega. Þetta atriði eitt út af fyrir sig, getur hæglega valdið því, að verkinu verði ekki lokið í tæka tíð ef er þá illa farið. 

Einnig er full útlit fyrir það, að vatn hefti að mun skurðgröftinn, Geysimikill snjór hefir fallið í vetur og hljóta því mýrar þær, er skurðurinn liggur yfir, að verða rennvotar langt fram á sumar. Má þessvegna gera ráð fyrir því, að vatn hefti verkið að mun, ásamt því, að óþrifalegt og erfitt verður að inna það af hendi. Þetta alt og margt fleira var athugað þegar tilboð þau voru samin, er vatnsleiðslunefndinni bárust hjeðan úr bænum, Þess vegna nálguðust þau meira áætlun landsverkfræðings en tilboð Bíldals. 

Og eftir orðum eins bæjarfulltrúans (B. L.) að dæma, eru bæði landsverkfræðingur og þeir, sem tilboðin sendu hjeðan úr bæ, ekki miklir hyggindamenn, því honum fjellu þannig orð á bæjarstjórnarfundi í dag, að Bíldal væri viss að stórgræða  á »akkorðinu«. Og ef bærinn á ekki að tapa, sem vatnsleiðslunefndin hefir sjálfsagt þóst sjá fyrir, og Bíldal »stórgræðir«; hverir eiga þá að tapa.

Svarið virðist liggja beint fyrir. Þeir, sem síst mega við því; — verkamennirnir. En ef þeir skyldu nú ekki vilja tapa, verkamennirnir, sem jeg sje enga ástæðu fyrir þá að gera, þá virðist svo vera málið þurfi ekki að vera lengur álitamál.

Þá hlýtur tapið að lenda á bænum. Vatnsleiðslunefndin átti að krefjast helmingi hærri peningatryggingar, ásamt ábyrgð þriggja til fjögurra manna á því að verkið yrði framkvæmt á ákveðnum tíma. Eftir því sem »akkorðið« er lægra, eftir því er meiri hætta á að út af kunni að bera með efndirnar, án þess að nokkur sje vændur um góðan vilja til að standa við gefin loforð.

17/3 1914. Halldór Friðjónsson frá Sandi.

-------------------------

Jafnvel þó vjer sjeum engan veginn samdóma höfundinum um efni greinar þessarar, höfum vjer þó eigi talið rjett að kæfa alveg opinberar umræður um þetta mál með því að synja um rúm fyrir greinina.

Að sjálfsögðu er þeim, er hlut eiga að máli, Vatnsleiðslunefndinni og hr. Guðmund Bíldal, heimilt rúm til andsvara.

Ritstjóri

---------------------------------------------------------

Mjölnir - 1914 

1. árgangur 1913-1914, 10. tölublað, Blaðsíða 33

Barnaveikin gengur á Siglufirði. Hettusóttin gengur á Sauðárkrók og á Hólum í Hjaltadal.

Slys á Siglufirði. Snjódyngja rotar mann. í gærkvöldi fjell snjódyngja af húsþaki á Siglufirði ofan á mann að nafni Ingimar Jónsson, vinnumann hjá O. Tynæs, rotaðist hann þegar og laskaðist eitthvað að öðru leiti.

Læknir kom þegar til og var maðurinn þá enn með lífi, en tvísýna er talin á að honum batni.

Kvæntur er hann og á eitt barn. (Símfrjett.)

----------------------------------------------------------------------------- 

Norðurland - 14. mars 1914 

14. árgangur 1914, 11. tölublað, Blaðsíða 36

Á Siglufirði féll snjór ofan af húsþaki niður yfir mann er stóð við húshliðina.

Hann meiddist innvortis og rotaðist, en raknaði þó fljótt við aftur.

-----------------------------------------------------------------------------

Vísir - 15. mars 1914 

Árgangur 1914, 934. tölublað, Blaðsíða 1

Maður rotast.

Í gær fjell snjódyngja ofan af húsþaki á Siglufirði og varð maður undir henni og rotaðist. Hann hjet Ingimar Jónsson, miðaldra maður, og dó hann í nótt.

-----------------------------------------------------------

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 18. mars 1914 

28. árgangur 1914, 17.-18. Tölublað, Blaðsíða 65

Maður rotast.

Launardaarínn 14. marz þ. á. vildi svo slysalega til á Siglufirði, að maður varð undir klaka og snjókynatrum, er féllu af húsþaki. Maðurinn beið þegar bana, — talið, að hann hafi á augabragði rotast. — Getur þó og hafa kafnað, þ. e. þótt á höfðinu hafi og skaddast. Nafn mannsins var: Ingimar Jónsson.

-----------------------------------------------------------

Fleiri útgáfur, frásögn má finna frá þessu slysi, sem hér ofar er lýst; mjög mis-vísvitandi.

----------------------------------------------------------

Mjölnir - 1914   23. mars

1. árgangur 1913-1914, 12. tölublað, Blaðsíða 44

Siglufjörður

Vatnsleiðslan má nú heita vel á veg komin eða allur undirbúningur undir hana. Eins og getið var í síðasta blaði, tók bæjarstjórnin tilboði Guðmundar Bíldals verkstjóra á Siglufirði, um skurðgröft, ofan frá lindunum niður á brekkubrún, fyrir 90 aura meterinn, en landsverkfræðingur hafði áætlað 2 kr fyrir meterinn. Er auðsætt að þar hafa sparast fleiri þúsund krónur frá áætluninni. Þá hefir vatnsleiðslunefndin og fengið tilboð um efni til vatnsleiðslunnar, sem bæjarstjórnin hefir fallist á og sem voru um 8000 kr. ódýrari en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Bergenska gufuskipafjelagið hefir tekið að sjer flutning á öllu efni, og sparast einnig fje við það, því áætlunin miðaði við taxta Sameinaða fjelagsins. Yfirleitt sýnist vatnsleiðslunefndin hafa verið mjög heppin í ráðstöfunum sínum í þessu máli, enda sýnt af sjer óvenjumikinn dugnað. Mega bæjarbúar vera henni þakklátir fyrir það.

-----------------------------------------------------------

Norðurland - 2. maí 1914 

14. árgangur 1914, 18. tölublað, Blaðsíða 65     Næst

Ekki álitamál.

 Halldór Friðjónsson hefir í 13. tölubl. »Mjölnis« fundið sig knúðan til að þeysa fram á ritvöllinn með vandlæting til vatnsleiðslunefndar Akureyrar, fyrir að hafa tekið tilboði mínu um gröft og ofaní- mokstur í aðalleiðsluna og er ekkert álitamál eftir hans kenningu að vatnsleiðslunefndin hefir gert stórt glappaskot að taka mitt tilboð fram yfir H. Friðjónssonar, vegna þess að hann er búfræðingur að mig minnir!!, að ekki mun hætt við lasleika hans og líklega ekki dauða, að tryggingin hefir víst verið í miljónum en ekki í þúsundum hjá H. F., að þá hefðu vesalings verkamennirnir ekki tapað, eins og H. F. gerir ráð fyrir að þeir tapi hjá mér.

Röksemdaleiðsla Halldórs um tapið á verkinu er nokkuð torskilin og miður góðgjörn í minn garð. Eftir henni hlýtur einhver að tapa: »bærinn,« eg eða verkafólkið Þetta hefði hann átt að bíða með þar til hann hefði fengið betri grundvöll að byggja á, því ímyndun ein og getsakir, eru ekkert haldgóður grundvöllur.Og það get eg sagt H. F. að ætlun mín er að borga. full daglaun þeim er vinna, án þess að hræðast nokkuð þetta upphugsaða tap hans.

Eg hefi oft haft yfir verkum að segja, bæði í »akkorðum« og öðru, og ekki »snuðað« eða stolið af verkamönnum mínum kaupi þeirra hingað til. Einkennilegt er það um H. F., sem bítur sig fastan í áætlun verkfræðings, eins og steinbítur í steininn, að honum skyldi koma til hugar að fara svo langt niður fyrir hana sem hann gerði. Hann varð nefnilega fyrsti maðurinn til að gera áætlunina að þessu »endemi«, sem hann svo nefnir.

Annars þarf eg ekki að svara þessu ritsmíði H. F. meira, því allir sjá af hvaða rót það er runnið. Það kemur svipuð einlægni og velvild fram í því gagnvart mér, eins og hann sýndi á fundi verkamanna á Akureyri, þegar hann var kosinn í nefnd til að gera tilboð í vatnsveitugröftina fyrir verkamannafélagið. Þá hefðu víst flestir gagnvart s í n u  e i g i n félagi sagt hvaða boð þeir væru búnir a ð g e r a, og þá um leið boðið félaginu að ganga inn í það boð, eða þá leitt félagsbræðrum sínum fyrir sjónir, að þýðingarlaust væri fyrir þá að fara að gera tilboð langt fyrir ofan sitt tilboð, eins og búfræðingurinn l é t s é r s æ m a að gera fyrir hönd Verkamannafélagsins.

Hvaðan hefir búfræðingurinn þá vizku að ekki megi moka ofan yfir rörin fyr en búið sé að reyna þau með vatnsþunga?— Það er misskilningur; það eru æðarnar norður og suður um bæinn, frá aðalleiðslunni á brekkunni, sem reyndar verða áður en fylt verður ofan á þær.

Siglufirði 12. apríl 1914. Guðm. Bíldal.

--------------------------

Aths.

Eg hafði gert herra G. B. kost á að svara grein þeirri sem »Mjölnir« flutti í hans garð nýlega, en fékk ekki þetta svar hans í hendur fyr en í dag, þegar eg er á förum héðan, til þess að leita mér lækninga, og langvaraandi heilsuleysi hefir neytt mig til að hættu blaðamensku  um sinn.—

Ritstj. »NL.« hefir því góðfúslega lofað mér. að birta svar hr. G. B. í blaði sínu, svo hann verði ekki órétti beittur af mér sem blaðamanni.

Akureyri 26. apríl 1914. Guðmundur Guðlaugsson

--------------------------------------------------------------------------- 

Norðri - 14. maí 1914 

9. árgangur 1914-1915, 13. tölublað, Blaðsíða 48

Slysfarir.

Skot hljóp óvörum úr byssu hjá manni í Tungu á Tjörnesi. Skotið lenti í manninum og varð honum að bana.

Mótorbáturinn Skarphéðinn frá Oddeyri ætlaði, til selveiða fram á Grímseyjarsund. Fyrir utan Ólafsfjörð lenti mótoristinn Jón Bárðason af Siglufirði með fótinn í vélinni, skemdist fóturinn svo, að maðurinn missir eina eða tvær tær.

----------------------------------------------------

Norðurland - 23. maí 1914 

14. árgangur 1914, 22. tölublað, Blaðsíða 75

Vélarbát einhvern hinn stærsta og vandaðasta á Norðurlandi, hefir Helgi Hafliðason kaupmaður á Siglufirði látið gera í vetur og ætlar hann til hákarlaveiða á vetrum en til þorsk- og síldveiða á sumrum. Báturinn er allur úr eik, 45 feta langur í kjöl, tvímastraður og hefir svefnrúm fyrir 12 menn.

Að öllu er hann vel útbúinn og þykir reynast mjög vel í sjó að leggja. Báturinn heitir »Hafliði.«

------------------------------------------------------

Norðurland - 23. maí 1914 

14. árgangur 1914, 22. tölublað, Blaðsíða 76

Akureyrarfréttir !

Sigurður Fanndal er síðustu árin hefir verið verzlunarstjóri Gránufélagsins í Haganesvík flutti hingað til bæjarins ásamt konu og börnum, með »Ingolf« og ætlar að reka hér greiðasölu og gistihús. Hefir hann tekið á leigu húseign Boga Daníelssonar, ásamt hesthúsi og útihúsum í því augnamiði.

Guðm. Bíldal frá Siglufirði er kominn til bæjarins og byrjaður að undirbúa vatnsveituskurðgröftinn. Hann kveðst »hvergi smeikur hjörs í þrá, þótt illa ári og kærir sig kollóttan um allar hrakspár en tekur ótrauður til starfa.

----------------------------------------------------------

Norðri - 11. júlí 1914 

9. árgangur 1914-1915, 20. tölublað, Blaðsíða 71

Mótorbátur Bjarna Einarssonar, sem hann lauk við að smíða í vor og setti í 12 hesta vél, er nú stöðugt á flutningsferðum milli Akureyrar Siglufjarðar, Dalvíkur og Hríseyjar báturinn þykir reynast vel og hafa góðan gang.

----------------------------------------------------------

Vestri - 15. ágúst 1914 

13. árgangur 1914, 34. tölublað, Blaðsíða 133

Góð kaup. E/s »Urania«, skipið sem brann á Siglufirði í sumar var selt á uppboði nýskeð. Keypti það Helgi kaupmaður Hafliðason á Siglufirði fyrir 4000 kr. Um 120 skpd. af fiski voru í skipinu, og er mælt að fiskurinn hafi verið lítið skemdur.

Síldveiðin á Siglufirði." Á Siglufirði höfðu aflast 94,114 tn. af síld síðastl. þriðjudag. Á sama tíma í fyrra höfðu fengist um 80 þús. tn. í símtali i gær er þar sagður feikna afli síðustu dagana, svo veiðin er talin miklum mun meiri en á sama tíma í fyrra.

------------------------------------------------------

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 31. ágúst 1914 

28. árgangur 1914, 43.-44. tölublað, Blaðsíða 156

 Stranduppboð.

Á stranduppboði, er haldið var að Siglufirði 13. ágúst þ. á., var seldur skrokkur skipsins „Uranía". er brann þar á höfninni, eins og getið hefur áður verið í blaði voru: en síðar var sökkt, eða geymt þar á Leirunni.

Norskt kafara-félag, er „Borgen" heitir, varð hæðstbjóðandi, — bauð alls 4600 kr.

-------------------------------------------------------

Fréttablaðið - 4. september 1914 

1. árgangur 1914, 9. tölublað, Blaðsíða 18

Þjófnaðarmál hefir lögreglustjórinn á Siglufirði (Júl. Havsteen) haft til rannsóknar undanfarna daga og hefir unglingspiltur þar i kauptúninu játað d sig þrjá stuldi.

-------------------------------------------------------------------------------