Árið 1939 - Borgarafundurinn

Borgarafundurinn, skrif Neista og Einherja       Mjöl og Lýsissaga - Allt efni hér

Neisti, 30. ágúst 1939

Almennur borgarafundur var haldinn í Bíó s.l. sunnudag um "Rauðku"-málið. 

Áki Jakobsson setti fundinn og skipaði sem fundarstjóra Gunnlaug Sigurðsson og til vara Aage Schiöth. 

Fundarritarar voru skipaðir þeir Sigurður Gunnlaugsson og Sigurður Björgúlfsson. 

Framsögu hafði forseti bæjarstjórnar, Erlendur Þorsteinsson og skýrði hann vel og greinilega frá gangi málsins frá byrjun til enda. Var ræðu hans tekið með dynjandi lófaklappi. 

Þegar framsögu var lokið, lýsti fundarstjóri tilhögun áframhalds fundarins og röð þeirra, er á mælendaskrá voru. 

Stjórn ríkisverksmiðjanna hafði verð boðið á fundinn, því eins og kunnugt er, hafði hún til umsagnar, hvort gefa skyldi leyfi til endurbyggingar og stækkunar Rauðku. 

Stjórnin varð skipt um málið, og voru þeir Finnur Jónsson og Jón L. Þórðarson með því að leyfið yrði gefið, en þeir Þormóður Eyjólfsson, Sveinn Benediktsson og Þorsteinn M. Jónsson á móti og unnu þeir alir, sem þeir megnuðu, til að eyðileggja framgang þessa máls. 

Á fundinum voru ríkisverksmiðjustjórn ætlaðar40 mínútur, er skiptast skyldu jafnt milli meiri- og minnihluta. 

Þegar lýst hafði verið lengd ræðutíma, ærðust þeir Þormóður og Sveinn og gerðu ítrekaðar tilraunir til að hleypa upp fundi. Heimtuðu þeir jafnan ræðutíma við þá, sem málinu voru fylgjandi, og er þeir fengu það ekki, gengu þeir af fundi - óáreittir, og var þar meira umburðarlyndi sýnt af fundarmönnum, en þeir Þormóður og Sveinn gátu vænst. 

Auk Erlendar Þorsteinssonar töluðu á fundinum þeir: Ole Hertervig, Gunnar Jóhannsson, Finnur Jónsson, Aage Schiöth, Jón Gíslason og Þóroddur Guðmundsson. 

Þá flutti og einnig Erlendur Sigmundsson erindi, er Pétur Á. Brekkan hafði samið, sem kveðju til þeirra Þormóðs og Sveins frá verkamönnum i Rauðku. 

Ræðunum öllum var vel tekið og var auðheyrt, enda vitað áður, að þarna er mál, er á, sem sagt, óskipta hugi allra Siglfirðinga. 

Í fundarlok var svohljóðandi ályktun samþykkt i einu hljóði: 

Almennur borgarafundur haldinn að tilhlutun bæjarstjórnar Siglufjarðar, sunnudaginn 27. ágúst 1930 mótmælir eindregið því, hvernig meirihluti ríkisstjórnarinnar hefur hindrað endurbyggingu og stækkun síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, "Rauðku", þrátt fyrir nauðsynina á afkastaaukningu síldarverksmiðjanna i landinu, og þrátt fyrir það, að bærinn væri búinn að fá tilboð um hagstætt lán, án ríkisábyrgðar. 

Þar sem engar handbærilegar ástæður hafa verið framfærðar fyrir þessu óskiljanlega framferði, krefst fundurinn þess, að ríkisstjórnin taki málið til meðferðar á ný og veiti leyfi til að endurbyggja "Rauðku" með 5.000 mála afköstum á sólarhring og leggi að öðru leyti engan stein í götu málsins. 

Ennfremur skorar fundurinn á stjórn Útvegsbanka Íslands, h.f. að standa við áður gefin loforð um ábyrgð á erlenda láninu til endurbyggingar "Rauðku". 

Þá var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu, eftirfarandi tillaga er flutt var af 24 verkamönnum í Rauðku: 

Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 27. ágúst 1939, skorar á Þormóð Eyjólfsson að leggja niður umboð sitt í bæjarstjórn Siglufjarðar. 

Lítur fundurinn svo á, að hann sé algerlega búinn að fyrirgera rétti sínum sem bæjarfulltrúi með framkomu sinni í Rauðkumálinu og ýmsum fleiri velferðarmálum Siglufjarðar. 

Fundurinn skorar ennfremur á bæjarstjórn að samþykkja samskonar áskorun.

Fundurinn var mjög fjölsóttur og fór hið besta fram og má mjög róma stillingu Siglfirðinga, þó hinsvegar mætti sjá, að margan manninn klæjaði f fingurgómana þegar þeir fjandmenn Rauðkumálsins gengu af fundi. 

--------------------------------------------------------

Einherji, 1. september 1939

Borgarafundurinn.

Það var fyrir nokkru búið að boða það í blöðum kommúnista bæði hér og í Reykjavik, að bæjarstjórn Siglufjarðar ætlaði að "kalla saman" borgarafund út af Rauðkumálinu, og láta meirihluta ríkisverkmiðjustjórnar, "standa fyrir máli sínu" á fundinum.

Á laugardaginn voru auglýsingar, stórar og rauðar, út bornar, og skyldi fundurinn hefjast kl. 3½ næsta dag í Bíóhúsinu.

Hver einstakur meðlimur ríkisverksmiðjustjórnarinnar fékk bréf, hvar honum var hátíðlega boðið að mæta á fundinum.

Eins og gengur og gerist, tókst ekki að byrja stundvíslega. Fólkið var að ryðjast inn, nokkur tími fór í að ákveða og aðgreina hvaða utanbæjarmenn fengju að fara inn og hverjir ekki.

Tókst það þó eftir nokkurt þjark, með þeim árangri, að sjómönnum og útgerðarmönnum var yfirleitt bannaður aðgangur og sömuleiðis skólapiltum, sem vinna í ríkisverksmiðjunum, en Ásgeir Blöndal, starfsmaður kommúnista og sonur Finns Jónssonar voru settir í virðingarsæti, og Jón erindreki var tilnefndur sem fundarritari. Var fundurinn því ekki settur fyrr en kl. 4.

Bæjarstjóri setti fundinn, og skipaði sem fundarstjóra A. Schiöth. Erlendur Þorsteinsson uppbótarþingmaður, tók fyrstur til máts. Kvaðst hann rekja sögu málsins, og las upp fjölda bréfa og skeyta.

Þá las hann upp ýmsar kostnaðarætlanir, og þó ekki nákvæmlega, nema síðasta álit Þórðar Runólfssonar, vélaeftirlitsmanns ríkisins.

Ekki treystir sá er þetta ritar sér til að endursegja ræðu Erlendar, og hefir engan hitt sem man neitt að ráði úr henni, enda virtist mergurinn málsins og það sem stefnt var að, koma fyrst í endalokin, þegar ræðumaður fór að ryðja úr sér persónulegum skömmum yfir atvinnumálaráðherra og Þormóð Eyjólfsson.

Stóð ræða Erlendar yfir, nokkuð á annan klukkutíma. Bað þá Þormóður Eyjólfsson um orðið og krafðist þess,, að meirihluti ríkisverksmiðjustjórnar, sem boðið var á fundinn til þess að "standa fyrir máli sínu" fengi jafnlangan ræðutíma og Rauðkumenn.

Þessu neitaði fundarstjóri og kvað þrjá menn vera á mælendaskrá auk Erlendar en að ræðum þeirra loknum skyldi meirihluti ríkisverksmiðjustjórnar fá að tala í 20 mínútur, og Þormóður ef til vill, eitthvað að auki (fundinum þurfti að vera lokið kl. 7½ vegna bíósýningar), sem bæjarfulltrúi, en síðustu 20 mínútur skyldu Rauðkumenn fá.

Var þessi úrskurður fundarstjóra síðan borinn undir atkvæði og samþykktur. Var þá háreysti og hark svo mikið í fundarsalnum, að ekki munu aðrir en þeir, sem fremstir sátu, hafa heyrt hvað verið var að bera undir atkvæði, en Rauðkumönnum hafði verið þar vandlega raðað, og voru það þeir sem mestan hávaðann gerðu.

En mitt í hávaðanum heyrðist hrópað: "Við skulum henda þeim út." (meirihlutanum).

Fullyrða margir að það hafi verið rödd bæjarstjóra Áka Jakobssonar, mannsins sem undirritaði boðsbréfin til ríkisversmiðjustjórnarmannanna.

Þegar úrskurðurinn hafði verið samþykktur, gekk meirihluti verksmiðjustjórnarinnar af fundinum, en Óli Hertervig bæjarfulltrúi tók til máls.

Ekki fékk hann þó gott hljóð, því þegar meirihlutinn var farinn, komst fundurinn hálfgerða upplausn og gerðist fátt sem í frásögur sé færandi eftir það, því varla getur það til tíðinda talist, þótt fáeinir kommúnistar og hrapaðar íhaldsstjörnur, sem sátu til fundarloka, samþykktu að skora á  þormóð Eyjólfsson að segja af sér fulltrúastörfum í bæjarstjórn, rétt eins og þeir væru að gefa það í skyn, að hann hefði komist í bæjarstjórn á þeirra atkvæðum(!!)

Nú iðrast Rauðkumenn sáran og óska að þeir hefðu aldrei til fundarins stofnað, því hvarvetna finna þeir andúð gegn sér fyrir þá aðferð, að bjóða ríkisverksmiðjustjórnarmeirihlutanum á fund, til þess að hlusta á fjóra menn skamma sig 2-3 tíma, leyfa honum svo af náð, að svara fyrir sig í ca. 20 mínútur og skamma hann svo aftur, það sem eftir var af fundartímanum.

Að maður nú ekki tali um það, að bjóða mönum, að koma á umræðufund, til þess að standa fyrir máli sínu, og tala svo um að kasta þeim út áður en þeir fá orðið.

Á þessum fundi mun ókurteisi og ofbeldi kommúnista hafa náð hámarki sínu, og er þá mikið sagt

Verkamaður.