Snjór á heimaslóð

Skrifað í Október 201 5

Hérna um árið var ég farinn að sakna heimabæjarins ansi mikið og ekki síst hinu undursamlega vetrarríki sem ég minntist með mikilli gleði og söknuði frá æskuárunum þegar hægt var að vera allan daginn úti í snjónum að leika sér. 

En ég skal fúslega viðurkenna að það eru ár og dagar síðan og dreg ég þá heldur úr ef eitthvað er. 

En þar kom að því að spáin var hagstæð, snjó hefði reyndar kyngt niður í nokkra daga og líkur á að þannig yrði það enn um hríð sem dró síður en svo úr eftirvæntingunni. 

Mér hafði nefnilega fundist að árin á undan hafi ég ekki séð neinn almennilegan snjó allt, allt of lengi og því tími kominn á úrlausn þeirra mála. 

Mér hafði lengi fundist ég hafa farið svo mjög á mis við að endurlifa það sem hreiðraði um sig í undirmeðvitundinni allt frá því í barnæskunni allt of lengi. 

Öll leiftrin frá liðinni tíð sem annað slagið gægðust upp á yfirborð hinnar líðandi stundar þegar árin liðu hjá og minntu á það sem einu sinni var. Þegar heilu snjókastalarnir eða jafnvel lítil þorp voru byggð á brekkunni og byggingarefnið var ótakmarkað. 

Einhverra hluta vegna var alltaf meiri snjór í minningunni en síðar varð. Hann kom líka fyrr á haustin og fór ekki aftur fyrr búið var að halda Skarðsmótið um Hvítasunnuna. Það var svo oft ekki fyrr en í júnímánuði sem var farið að huga að því að opna landleiðina um Siglufjarðarskarð, en um það var síðan ekki alltaf fært nema u.þ.b. 4-5 mánuði á ári, - stundum minna. En þess utan var póstbáturinn Drangur aðal samgöngutækið og þjónaði byggðarlaginu. 

Spáin var eins og áður sagði, slæm en hagstæð og eftir væntingum. Vonandi verður lægðin eitthvað á eftir áætlun að þessu sinni og ég næ "fyrir hornið" á veðrinu hugsaði ég. 

Eitthvað á þessa leið var þankagangur minn þegar ég kom upp úr Hvalfjarðargöngunum og horfði yfir Skipaskagann í áttina að Snæfellsnesinu. Jú, það voru vissulega farnir að myndast einhverjir skýjabólstrar þarna, en skyldu þeir vera farnir að ná eitthvað inn á vesturlandið? 

Svo var ekið norður yfir heiðar...