Álfhóll

trolli.is 27. Nóvember 2020  Jón Ólafur Björgvinsson

ÁLFHÓLLINN OKKAR
OG ÁLF- HYRNA HANS 

Þessi merkilegi Álfhóll við minni Hólsár (Fjarðará) hefur oft verið í huga mínum í gegnum árinn. Mest í formi barnalegra minninga sem dularfullt og skemmtilegt leiksvæði.
Leikir í kringum gömlu nótabátana á Langeyrinni færðust stundum yfir í þennan hól og síðan kannski í mýrafláka austan við flugvöllinn.

Það er samt skrítið að þegar ég nú á fullorðinsárum fer að grúska í sögum um þennan merkilega Álfhól að uppgötva að máttur hans var svo mikill að hann hafi alla tíð átt heimsins fallegasta fjall líka.

Því Hólshyrnan heitir víst „Álfhyrnan“ í rauninni!

Þessa samantekt mína má alls ekki túlka sem einhverskonar fræðigrein. Því þessi skrif hafa miklu meira skapast upp úr áhuga mínum á örnefnum með sögum sem eru til út um allt í okkar umhverfi. Með tímanum gleymir fólk oft sögunni og staðarnafnið verður þá bara ORÐ eða svo skapast nýjar sögur af nýrri kynslóð sem túlkar staðarnafnið á þann máta sem passar þeirra tíma og rúmi.

ÁLFHÓLL við Alþýðuhúsið og tröll á spjalli í bakgrunninum. 

Sögur um álfa sem búa í steinum og hólum eru sterkar meðal fólks og sú hefð að hreyfa ekki við slíkum fyrirbærum.
Þannig gerðist það að til varð álfhóll í garðinum við jarðvegsvinnu Bergmyndanna. Hóllinn er hlaðin töframætti og er ákaflega fagur á að líta. Á honum vaxa ýmsar viltar jurtir sem bærast um í vindi og lifa sem sjálfstætt lífríki. Meiningin var að setja skúlptúrkind á beit efst á hólinn en eftir því sem tíminn vinnur með hólnum verður hann magnaðri einn og sér.”

Í mínum barnahuga vildi ég hafa þetta þannig að Álfhóll væri grafhaugur Þormóðs Ramma landnámsmanns Siglufjarðar og ég var meira en mikið til í að grafa í hólinn og finna þarna gull og gersemar. Það var greinilegt að einhverjir aðrir höfðu hugsað það sama og grafið góða holu efst í Álfhól. Það var gaman að leika sér þarna í holunni í stríðsleikjum og þykjast t.d. vera að skjóta niður flugvélar Nasista sem voru að reyna að yfirtaka flugvöllinn okkar sem var frekar nýr og flottur á þessum tíma.

En sagan segir því miður eitthvað annað eins og fram kemur á heimasíðu Fjallabyggðar þar sem fjallað er um ýmsar skemmtilegar gönguleiðir í firðinum fagra:

 Fyrsti áningarstaður er Álfhóll(1) á Hólsárbakka við flugstöðina.

Við hólinn eru bundin forn álög.
Mynd frá kortasjá Fjallabyggðar.

Álfur útvegsbóndi í Saurbæ, skammt frá, hafði ungur stundað víking og efnast mjög. Hafði hann mælt svo fyrir er hann fann dauðann nálgast að hann yrði heygður í hólnum með skipi og helstu dýrgripum og að engum skyldi gagnast að rjúfa hauginn meðan jaxlar hans væru ófúnir.

Sagan segir að ungir menn hafi gert tilraunir til að grafa í Álfhól og ná þaðan djásnum Álfs, en utanaðkomandi atburðir stöðvuðu verk þeirra, t.d. þegar kirkjan á Hvanneyri stóð í ljósum logum og þeir hlupu til aðstoðar. Þegar til kom reyndist kirkjubruninn sjónhverfing.

Á Álfhóli er útsýnisskífa með helstu örnefnum í fjallahring Siglufjarðar. Skamt austar, eða um 250 m, eru tóftir Saurbæjar sem fór í eyði á fyrrihluta 20. aldar.

Ætli jaxlar hans séu fúnir núna?    Hvenær má ég grafa eftir gulli þarna ?

En það er eins gott að fara varlega því það eru greinilega álög á þessum hól og það virðist sem að þau séu í fullu gildi ennþá.

Því, í grein í Morgunblaðinu frá 7 ágúst 1988 segir:

Siglufjörður: Álögin á Álfhóli

„ÁLFHÓLL heitir hóll vestan flugvallarins á Siglufirði. Sú saga er til um þennan hól, að þar sé heygður ásamt gull kistli sínum Álfur bóndi sem búið hafi í Saurbæ og hvíli þau álög á hólnum að sé grafið í hann, fari eitthvað úrskeiðis í Siglufirði. 22. júlí var grafið fyrir útsýnisskífu á hólnum og síðan telja sumir að álögin hafi hrinið, þar sem ýmsar framkvæmdir hafi gengið illa í bænum og fleira gengið á afturfótunum.

Að sögn Matthíasar Jóhannssonar, fréttaritara Morgunblaðsins á Siglufirði, urðu gífurlegir vatnavextir á Siglufirði einum eða tveimur dögum eftir að útsýnisskífan var sett upp og hafi þau valdið spjöllum. Þá hafi ekkert veiðst, og gatnaframkvæmdir í bænum gengið frámunalega illa.

Búið var að undirbúa fimm götur í bænum undir malbik. Aðeins tókst að malbika eina vegna þess að malbikunarvélin bilaði skyndilega. Að sögn starfsmanna Loftorku, sem leggja malbikið, virðist vélin hálfónýt.

” Hér trúa margir því að álög séu á Álfhóli og sagt er að fyrir allmörgum árum hafi menn grafið í hólinn, en séð bæinn þá standa í ljósum logum,” sagði Matthías.“ 

Vetrarmynd af Álfhól.
Ljósmynd: Hannes P Baldvinsson. Snókur.is. / Saurbær PDF

Verslunin Álfhóll

Svo má ekki gleyma að Karl Eskil Pálsson og Guðmundur Davíðsson stofnuðu tísku og raftækjavöru verslunina Álfhól.

Ég var að vinna þar um tíma og það var mjög svo skemmtileg og fjölbreytt vinna 

Mynd sem tekin var í auglýsingu fyrir tískuverslunina Álfhól Siglufirði.
Þarna eru sumir með meira og dekkra hár en í dag” Halldór Þormar, Biggi Inga, Kalli Páls, Nonni Björgvins, Mundína og Dóra Ljósmynd: Róbert Guðfinnsson.
Karl Eskil Pálsson eigandi fyrir miðju og Birgir Ingimarsson “auglýsingastjóri” og starfsfólk Álfhóls.
Mynd lánuð frá Facebook síður Birgis 2012. 

Efri röð: Jón Björgvinsson, Adolf Árnason, Aðalheiður Eysteinsdóttir, Úlfar Guðlaugsson,  Erla Helga Guðfinnsdóttir, Björn Sveinsson og Guðrún Reynisdóttir.
Neðri röð: Margrét Steingrímsdóttir, Birgitta Guðlaugsdóttir og Guðmundur Pálsson. 

Dans og tískusýningar hópur sem verslunin Álfhóll gerði út á sínum tíma:
Ljósmynd lánuð frá Facebook síðu Erlu h. Guðsfinns 2009. Ljósmyndari óþekktur en ég tel það ekki ólíklegt að það sé bróðir hennar Róbert sem tók þessa skemmtilegu mynd.

Uppruni álfa og huldufólks.

Það er ekki það að ég trúi bókstaflega á þjóðsögur og aðrar sögur tengdum álagablettum og öðru furðulegu sem til er í náttúru Íslands en það er mér hugleikið að manneskjan hefur ætíð haft þörf fyrir að útskýra það óútskýranlega.
Á Íslandi er greinilegt að þessar sögur hafa skapað virðingu fyrir náttúrunni og öllu sem í henni býr.
Lífið var ekki alltaf dans á rósum og kristin trú gaf okkur ekki alltaf ásættanlegar útskýringar með „vegir og vilji guðs eru órannsakanlegir.

Það er einnig athyglisvert að þegar kemur að trú á álfa og huldufólk sem breytast í gegnum aldirnar að þá er þar tenging við freistingar og loforð um gull og græna skóga og það var örugglega lokkandi oft á tíðum að hreinlega láta sig hverfa úr þessum harða óréttláta fátæktar heimi og yfir í aðra dularfulla betri tilvist.

Ungur maður stekkur á eftir álfkonu niður í hyldýpisgjá.

Icelandic Legends : Collected by Jón Arnason : Translated by George E. J. Powell and Eiríkur Magnússon, Richard Bentley, London, 1864. This illustration facing page 88. Digitized version from Google Books.

Sagt er að víkingarnir sem komu til Íslands á sínum tíma tóku með sér álfa og tröllatrú og írsku þrælarnir þeirra höfðu með sér sögur um allskyns huldufólk. 

Þetta rann síðan saman og stundum er erfitt að skilja hvort er hvað….
Allskyns verur og sögur geta birst okkur á ólíklegum tíma og stöðum, sumar með kristilegu innihaldi og aðrar koma meira úr heiðni.

Ein sagan segir að álfar og huldufólk séu „skítugu börnin hennar Evu sem hún faldi fyrri guði en guð sá við þessum feluleik og sagði: „Það sem manneskjan felur fyrir guði mun guð fela fyrir manneskjum.“

Önnur saga segir að þetta séu fallnir englar sem um alla eilífð eru dæmdir til að lifa mitt á milli himnaríkis og helvítis.

Sú þriðja og sú allra besta að mínu mati er að álfar og huldufólk séu falin börn Adams og Lilith

Lilith (1887) av John Collier i Atkinson Art Gallery , Merseyside, England Lilith.

En þessi Lilith er þjóðsagnakennd persóna úr sköpunarsögunni og sögð vera fyrsta eiginkona Adams en hún var til aðskilnaðar frá Evu sem var sköpuð úr rifbeini Adams gerð úr sama leir sem Adam sjálfur var skapaður úr. Hún var það sjálfstæð að hún neitaði að hlýðnast duttlungum Adams í Eden garðinum góða og yfirgaf allt, tók með sér börnin og fór í nýtt samband með fallna erkienglinum Samael.

Ekkert að þessu þarf svo sem að vera satt, enda er það ekki megin ætlun þjóðsagna að segja okkur einhvern sannleika lífsins en þær segja okkur samt ýmislegt um hugmyndir og lífsskilyrði annarra úr öðrum tíma.

Nú hef ég dregið þig lesandi góður inní sögur um frægan hól sem á heilt fjall og þaðan inní sköpunarsögu heimsins en það er svo sem ekkert skrítið því Siglufjörður er og hefur alltaf verið nafli alheimsins.

Álfhyrna og nágrenni.
Ljósmynd: Hannes P Baldvinsson. Snókur.is.

En ég vona að þér finnist þessi sögulok ekki vera of vísindaleg og leiðinleg en sannleikurinn um þennan Álfhóll kemur augljóst fram á hinni einstaklega fræðandi og skemmtilegu örnefnasíðu snókur.is.

En þar segir:

„Vestan við Kílinn yst á láglendinu, austan ár, er hóll einn stakur nefndur Álfhóll (16) hefir því fastlega verið trúað hér að haugur væri, sem fleiri hólar í þessum byggðum og reynt að rífa hann; er það furðanleg fáfræði því melhóll er þetta 40 metrar að þvermáli, að vísu gróinn en all hár og grýttur.
Í ánni vestan við hann nefndist Álfhólshylur (17) er hann nú lítill orðinn og ofar færður. Skammt suður frá Saurbæ gnæfir endi fjalls þess er skilur Siglufjarðardal og Ráeyrardal, hár og brattur nefnist ysti tindur fjallsins Álfhyrna (18) og niður hana að norðan Álfhyrnuröðull.“

Höfundur:   Jón Ólafur Björgvinsson


Forsíðu ljósmyndir:  Hannes P Baldvinsson, myndir birtar með leyfi frá snókur.is.

Heimildir koma úr ýmsum áttum og það er bent á þær í slóðum í sögunni.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.