Sunnudagspistlar

trolli.is 3. febrúar 2019 - Jón Ólafur Björgvinsson 

Sunnudagspistill:
Brakki eða braggi ?
Og annað net-nöldur!

Ég ætla bara hreinlega að byrja á því að gera „Skák og Mát“ á alla netnöldrara sem hafa haldið því fram að orðið Brakki sé hvorki alvöru Íslenska eða Siglfirska og vilja meina að ég sé bara að bulla þegar ég nota þetta orð í mörgum af mínum síldarsögugreinum eins og þessari:

SÍLDARSAGA FRÁ 1943: SILFUR HAFSINS Í KLONEDYKE NORÐURSINS

Þessi Sunnudagspistill inniheldur eftirfarandi kafla:

Brakki eða Braggi ?

Orða-minjasöfn !

Frá Wikipedia: Mállýskur.

Nokkur skemmtileg dæmi um mállýsku í aflöngu landi.

Nöldur um net nöldur og eigin hugsanir um hlutverk Landsbyggða og Bæjarfréttamiðla ?

Skemmtilegheit og…..Dásamlegar ljósmyndir sem segja okkur sögur ÁN ORÐA.

Dæmi 1: rangtúlkun, útúrsnúningur……. og nöldur

Dæmi 2: Réttritun og málfræðikennsla…….og nöldur

Dæmi 3: Djöfulsins dónaskapur……. og NÖLDUR


Brakki eða Braggi ?

Máli mínu til stuðnings sæki ég upplýsingar frá heimasíðu Síldarminjasafns Íslands og vísa í orðalista með útskýringum sem þar er að finna.

Orð úr máli síldarfólks.

Á þessum lista sem og öðrum sem eru þarna er hægt að finna heilan helling af orðum sem eru horfin eða við það að hverfa úr daglegu tali, einfaldlega vegna þess að við höfum engin not fyrir þau lengur.

(Brakki, brakke á norsku. Brakkar, síldarbrakkar, voru upphaflega einföld, stór hús með sumaríbúðum fyrir síldarverkunarfólk: Brakkanafnið hélst þótt húsnæðið væri notað til íbúðar allt árið.

Orðið braggi um hermannaskála er eflaust af sömu rót og brakki og notað um „bráðbirgðahús“, annaðhvort komið úr dönsku eða ummyndað sökum linmælis.

Upphaflega bráðabirgðaskýli, svefnskáli, t.d. skýli sem hermenn komu upp úr tiltækum efnum.

Barak, barakke, baracca, barraco og fleiri lík orð finnast í erlendum málum, upphaflega af barro = leir. (Benedikt Sigurðsson. Orð úr máli síldarfólks).

 Brakkaorðið var einvörðungu notað á Siglufirði fram yfir 1940 en um og eftir 1960 lifði það einungis á vörum gamla fólksins.“Ég man hvað okkur þótti það einkennilegt og óþægilegt þegar aðkomufólkið fór að nota braggaorð á stríðsárunum,“ sagði Karólína (Eyþórsdóttir?) d. 2012.) (ÖK)

Orðaminjasöfn !

Eru þau til á Íslandi ? Ó Já….og það eru t.d. til mörg í litlu Fjallabyggð. Fyrir utan alveg frábært Bókasafn (sem er í rauninni er miklu miklu meira en bara safn af bókum) höfum við  Síldarminjasafnið og það varðveitir greinilega orð.
 

Þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar megum við alls ekki gleyma og meira að segja Ljósmyndasögusafnið Saga Fotografica sem er fullt af tækjum og tólum sem tilheyra “Analog” ljósmyndun með tilheyrandi orðum sem engin notar lengur er orðasafn líka.
En skemmtilegast af mínu mati er Ljóðasetur Íslands sem gæti allt eins heitið ORÐAMINJASAFN ÍSLANDS. Þar er orðum raðað saman á allan mögulegan máta og frjálslega farið með málfræði og réttritunarreglur. Guði sé lof!

Notkun og fjölbreytileikinn í notkun orða er eins og veðrið á Íslandi, sem sagt breytilegt og við verðum að geta viðurkennt að það er einmitt það sem er skemmtilegt og að öll þessi afbrigði á notkun orða, málhreimum o.fl. tilheyrir Íslenska tungumálinu.

Ég hef alla ævi haft gaman af orðum og þeirri sögu þau oft geyma og sérstaklega á orðum sem bara eru notuð á ákveðnum svæðum og einnig á muninum á hvernig orð eru borin fram, hvernig þau hljóma og hverskonar áherslur eru notaðar.

Dæmi um skemmtilega staðbundna mállýsku er fólk sem notar orðin “YFRUM” fjörð og fyrir “HANDAN” við fjörð og þá er augljóst að fólk úr fjörðum notar þessi orð og að fólk úr landshlutum sem ekki hafa firði skilur kannski ekki hvað þú meinar.

Þegar ég var ungur þá fannst mér gaman að fara YFRUM á kajak og leika mér í rústum Evanger verksmiðjunnar fyrir HANDAN 

Innlegg greinarhöfundar í Facebook-grúppu sem heitir: SKEMMTILEG Íslensk orð sem stundum er allt annað en skemmtileg þegar Skúli Fúli og vinir hans segja sitt og leggja sig fram við að MISSKILJA GRÍN. En ég get náttúrulega kennt sjálfum mér um þegar ég ögra fólki með svona DJÓKI…. hehe.

Mér finnst líka gaman að hreinlega gera grín af þessum málfræði öfgum.

Mjólk á Norðlensku ætti maður að kannski bara að fá að skrifa Mjóóllk, en það má ekki fyrir „rétttrúnaðarmönnum“ og öðrum sjálfútnefndum og réttritunar lögreglumönnum Íslenskrar tungu.

Ég sé fyrir mér framtíð þar sem að við verðum bráðlega að endurskrifa alla mannkynssöguna eins og gert var í Sovétríkjunum svo við særum nú ekki réttlætistilfinningu og blygðunarsemi, „ég veit allt sem er best fyrir ykkur hin“ manna heimsins.

En meira um réttritunar nöldur og fl. kemur seinna……og þið fáið að sjá 3 st. skjáskot sem dæmi í lokin.  (sem er bara dropi í hafið, ég er hvorki duglegur við að svara eða safna þessu kjaftæði.)

Undirritaður er fæddur og uppalin á Siglufirði sem var verulega einangraður fjörður, en í dag höfum við sameinast fólkinu og vinum okkar í Ólafsfirði sem var ennþá meira einangraður fjörður.

Í dag heitum við Fjallabyggð og þegar ég skrepp í gegnum Héðinsfjarðargöngin úr „vesturbænum“ og keyrir í 15 mínútur yfir í „austurbæinn“ og fyrir slysni þá fæ ég „PÚNKTERÍNGU“ á „bílnum mínum“ við brúnna í Ólafsfirði og fæ hjálp hjá manni sem er fæddur þarna þá tek ég eftir því að við Fjallabyggðarbúarnir segjum þetta orð á mjög svo ólíkan hátt.

Og mér finnst það dásamlegt, þetta kemur líklega úr þeirri staðreynd að þessir firðir eiga sér svo ólíka sögu þar sem áhrif innfluttra orða og málhreims var miklu miklu stærri í síldarsögu firðinum Sigló.

Margir Ólafsfirðingar og Dalvíkurbúar tala rosalega harða Norðlensku og fyrir mér er þetta fallegasta Íslenska Íslands.


Frá Wikipedia: Mállýskur.

 „Aðalgrein: Íslenskar mállýskur

Ísland er talið nær mállýskulaust land og skiptist ekki greinilega upp í mállýskusvæði.[1]
Ýmis svæðisbundin afbrigði mynduðust í málinu, þrátt fyrir hinar litlu breytingar, en deildar meiningar eru um hvort sá munur geti kallast mállýskumunur.

Hingað til hefur yfirleitt verið einblínt á framburðarmun þó einnig hafi einhver munur verið á orðanotkun. Málvöndunarmenn á fyrri hluta tuttugustu aldar gengu hart fram í að útrýma flámæli, einkum vegna þess að það var talið geta raskað samræmi milli talmáls og ritmáls. Skólarnir voru meðal annars notaðir í þeim tilgangi.

Mállýskumunur hefur dofnað talsvert á Íslandi á tuttugustu öld og sumar framburðar mállýskurnar eru nánast horfnar úr málinu.

Helstu íslensku framburðarmállýskurnar eru skaftfellskur einhljóðaframburður, vestfirskur einhljóðaframburður, harðmæli og raddaður framburður, ngl-framburður, bð- og gð-framburður, hv-framburður og rn- og rl-framburður.“

Nokkur skemmtileg dæmi um mállýsku í aflöngu landi.

Eins og kannski flestir lesendur hér á trölli.is vita þá hefur greinarhöfundur búið síðustu 30 árin í Svíþjóð og það land er svo aflangt að fólkið lengst í suður getur átt í vandræðum með að skilja samlanda sína sem búa lengst upp í norðurlandi.

Robert Gustafsson testar dialekter.– stutt myndband með frægum sænskum grínista þar sem hann tekur nokkur dæmi um hvernig fólk talar í þessu aflanga landi. (smella á mynd eða tengil)

Hér er óendanleg flóra af málhreimum og viðurkenndum minnihluta tungumálum, eins og t.d. Samíska, Tornedals-finnska og Rómani. En hér áður fyrr gekk ríkið hart fram í að eyða menningu og tungu þessara hópa og jafnvel reyna að sjósetja einhverskonar „Ríkissænsku“ til þess að sameina fólkið.

Þetta hefur fengið hræðilegar afleiðingar þar sem mikið af ungu fólki er kennt að skammast sín fyrir málhreim og uppruna sinn.

Og þessi asnalega “ríkissænska” er í rauninni bara töluð í sjónvarps og útvarps sendingum.

Mállýska og málhreimur sem gat sagt hvaðan þú varst þegar þú fluttir í stærri bæi og borgir var ekki æskilegur og þótti ekki fín sænska. Þetta er náttúrulega ömurlegt en guði sé lof er nú mikil vakning í gangi um að varðveita tungumál, mállýsku og málhreim.

Eldri sonur minn Pétur Friðrik er „þrí – tyngdur“ hann talar góða Íslensku, fráfæra sænsku og sænskt táknmál. Hann hefur lengst af búið í Gautaborg og talar Göteborgska sem er talin skemmtilegasti málhreimur Svíþjóðar en nú býr hann með sinni fjölskyldu í Örebro en þar búa um 5.000 heyrnalausir og heyrnarskertir einstaklingar og Pétur bendir á að það sé verulegur munur á hvernig maður talar táknmál og hvaða tákn maður notar hér í Örebro en það sem hann hefur alist upp við í Gautaborg.

Sem sagt mállýska í táknmáli líka.

Við Pétur og yngri bróðir hans Göteborgaren og leikarinn Sölvi Þór hlæjum oft og mikið af samanburði á fordómum um hvernig fólk talar og hvernig maður leikur sér í orðaleikjum og grínast með málhreim og framburð.

Stokkhólmararnir segja að það sé fiskifýla af öllum Gautaborgurum og að það rignir á ská hér og svo segjum við Gautaborgar stanslaust lélega orðaleikja brandara (5 aura brandara) en “Stockholmarna” skilja ekki að það fyndna snýst einmitt um að bæði gera grín af tvíræðri merkingu orða og sínum eigin framburði. Ef þú segir þetta á venjulegri sænsku þá er þetta ekkert fyndið……..

Um Örebrobúa er sagt að þeir búi í „NÖLDURBELTINU“ þeir hljóma svo leiðinlega og eins og þeir séu síkvartandi og nöldrandi.

Sjálfur geri ég grín af mínum Íslenska uppruna á minn Gautaborgska máta og spyr Svíana hvort þeir viti af hverju Íslendingum líði svo vel í Gautaborg. Nei…auðvitað vita þeir það ekki….. Ég svara: jú okkur líður eins og við séum heima, það er nefnilega fiskifýla af okkur líka.

Nöldur um net nöldur og eigin hugsanir um hlutverk Landsbyggða og Bæjarfréttamiðla ?

Mér finnst ekkert sérstaklega gaman af því að svara nöldri með meira nöldri um nöldur frá t.d. „les-lötum um að greinar mínar séu of langar……íslenskan og málfræðin er léleg o.fl, o.fl…. og ekki orð um skoðanir á innihaldinu og meira að segja rangtúlkunum á ljósmyndunum sem fylgja oft með mínum greinum og sumir hika ekki við að stela þeim líka og birta eins og þeir eigi þær sjálfir. Þar fyrir utan koma skot á mann líka munnlega af bæjarlínunni sem kannski var betri þegar hún lokuð og allt sem var rætt um þar var “opinbert leyndarmál.” Eða ?

Já…. Sumir virðast leggja sig alla fram við að meðvitað misskilja og rangtúlka allt og þeir bara verða að koma því á framfæri líka. Það vill svo merkilega til að á sænsku er svona fólk kallað: Internet TROLL. (Net-Tröll)

Passar vel við titill síðustu áldeilugreinar minnar með tröllasögu, en hún heitir: Á BÆJARLÍNUNNI: BAULAÐU NÚ BÚKOLLA MÍN….

Það virðist vera orðin hefð fyrir því að fólk les bara fyrirsagnir greina og að kíkja bara snöggt á forsíðumynd án þess að kynna sér innihaldið og síðan eldsnöggt tjá sig með því að klikka á einhvern af þessu skrítnu körlum hér undir.
Þetta getur verið stórhættulegt, því margir hafa nú verið plataðir upp úr skónum þegar þeir „óvart“ deila greinum með óæskilegu innihaldi

En þetta Íslenska villupúka prógramm sem ég er með í Macanum mínu er nú reyndar algjör hörmung……….ég verð að viðurkenna það og skapar oft fleiri stafsetningarvillur en ég næ að slá inn sjálfur. Hmmm

Þetta neikvæðis nöldur getur oft verið alveg ótrúlega lágkúrulegt og mannskemmandi, vekur upp hugsanir eins og „til hvers að vera eyða frítíma mínum í skrifa og birta einhverja steypu sem ég fæ ekki einu sinni borgað fyrir….það les þetta hvort sem er enginn …..nenni ekki að standa í þessu kjaftæði……hætti þessu bara….ég og mín skrif passa kannski bara hreinlega ekki inní þennan allt á að vera STUTT og RÉTT Facebook heim. Ææi veit ekki…..hvað ég á að segja.

Hér um daginn leið mér kannski ekki ólík honum Tóta (Þórarinn Hannesson) sem leggur allan sinn frítíma í að skemmta og gleðja aðra og svo rekur hann Ljóðasetur Íslands í Fjallabyggð líka, þegar hann vaknaði upp við Kaldar kveðjur frá Fjallabyggð með niðurskurði á styrk til safnsins sem fyrir honum er kannski einhverskonar smá viðurkenning á því sem hann gerir í sjálfboðavinnu hafi einhverja meiningu fyrir bæjarfélagið. En skrif hans sem birtust hér á trölli.is ýttu af stað ádeilu greinum frá mér sjálfum og fleirum hér um styrkjaveitingar, menningamál og lýðræðisvandræði.

Getur það verið að margir á Íslandi og í Fjallabyggð séu orðnir svo (OF) vanir við á fá að njóta sjálfboðavinnu annarra ókeypis, að þeir taka því sem sjálfsagðri þjónustu ?

Ég spyr ? Hvað gerir þú í þínum frístundum ? Og er það eitthvað sem gleður og gagnast öðrum ?

Það sem kemur úr mínum frístundum berst ókeypis til Íslands í formi greina og ljósmynda og það er öllum frjálst að velja að skoða og lesa…..eða EKKI:

Nei mínar greinar eru ekki “tilkynningar um viðburði” eða „í fréttum er þetta helst í stuttu máli….. og ég mun aldrei skrifa stuttar greinar eftir pöntunum og aldrei hef ég skrifað greinar sem segja fólki hvað því á að finnast rétt eða rangt eða hvernig það á að hugsa. Treysti því fullkomlega að fólk skapi sér sínar eigin skoðanir.

Svo er eitthvað skrítið samt við að mínar greinar hverfa fljótt í þessu stanslausa tilkynningar og “stuttar fréttir” flæði og eru síðan hvergi sjáanlegar nema þar sem þær en lifa lengst í Mest lesið. Er ekki alveg að ná þessu ???

Ég er oftast bara að skrifa um nauða ómerkileg málefni eins og síldarsögur, skrítnar götur bæjarins og birta myndir sem ég finn hér úti í Svíþjóð, segja sögur um okkur sjálf sem er okkur hulin í öðru tungumáli. Senda þetta heim í fjörðinn fagra til þess að deyfa heimþrá og “ju vist,” einstaka sinnum skrifa ég um vandamál sem mér finnst vert að vekja athygli á og kannski spyrja:
ER HÆGT AÐ SJÁ ÞETTA SVONA LÍKA ?

En einhvernveginn hefur aukin lesning gefið aukningu á neikvæðum „ábendingum“ athugasemdum og hreinum dónaskap sem berst til mín og gert að ég finn allt í einu fyrir hræðslu og fer að vanda mig ógurlega, leggja miklu meiri tíma í þessi einföldu greinar mínar og þýðingar en ég hef í rauninni. Er ekki lengur frjáls í mínum orðasmíðum….þetta er bara allt í einu ekki gaman lengur.

Því ég er ekki blaðamaður eða sagnfræðingur eða….nei, ég er bara venjulegur bæjarstarfsmaður sem vinnur hjá stjórnsýsludeild bæjarfélagsins Ale kommun.

En sem dæmi um eitthvað sem ég er stoltur yfir, þá er það að hafa þýtt heila kafla úr sænskri bók frá 1953 en þar er að finna að mínu mati eina af þeim allra bestu lýsingum  sem ég hef nokkur tíman lesið um líf fólks á Íslandi og stærsti kaflinn er um síldina og Siglufjörð.
Glöggt er gest augað !
Þetta tók allan minn frítíma í 6 vikur en ég sé sko alls ekki eftir því, en margir kvörtuðu yfir því að þetta væri of langt.

Halló, það stendur skýrt og skorinort að þetta sé heill kafli úr BÓK. Og svo er þetta ókeypis líka.

Af hverju á allt sem birtist á netinu að vera stutt ? Hver fann upp á þeirri reglugerð ?

En alnetið passar nefnilega mjög vel til einmitt birtingar á svona týndum menningarfjársjóðum fyrir “amatör” þýðendur eins og mig.
Þetta mun líklega aldrei koma út í bókarformi. Eða hvað ?

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI! 1 HLUTI

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI 2 HLUTI

En þegar ég var sem mest miður mín og hafði sótt mér huggunar hjá vinkonu, þá sendi hún mér þetta skjáskot 30 janúar.



30 janúar 2019. Þrjár efstu greinarnar eru LANGAR
(ein myndasyrpa reyndar)  greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson.

 Lesandi góður: Ég er hvorki að biðja um huggun eða hrós.

En. Já…ég hafði alveg gleymt að kíkja á þennan MEST lesið lista á trölli.is síðustu 30 daga þegar ég tapaði sjálfum mér og sjálfstraustinu í þessu neikvæðis hjali. 

Það sat í mér einhvern veginn….þrátt fyrir fullt af jákvæðum viðbrögðum og það er það sem er vandamálið með netnöldrið og þessa neikvæðni er að við venjulegar MANNESKJUR sleppum þessu inn, getur ekki varið okkur og skiljum ekki ástæðuna fyrir þessu nöldri og illkvittniorðum og okkur finnst ekki að við eigum þetta skilið.

En ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir ýmsu þegar ég sagði já við þau tröllahjónin Gunnar Smára Helgason og Kristínu Sigurjónsdóttur í fyrra vor við beiðni þeirra að skrifa og birta ýmislegt hér í nýjum frétta og frásagnar miðli með lesendum á Norðurlandi og auðvitað vill maður taka þátt og gera allt sem hægt er að hjálpa til að fá í gang þarfan landsbyggðamiðil. 

En að það væri t.d. eitthvað allt annað en það að skrifa og birta sögur og fl. í litla dauða bæjarmiðlinum Sigló.is skildi ég ekki þá og ekki núna heldur.

En það er líka ástæða fyrir að mest lesið listinn lítur svona út og það snýst um að LES- og myndasyrpugreinar lifa lengur en viðburðar tilkynningar og stuttar fréttir dagsins, þær eru meira svona eins og gömlu helgarblöðin sem maður fleygði ekki í ruslið eftir hálfan lestur.

Svo er eitthvað skrítið samt við að mínar greinar hverfa fljótt í þessu stanslausa tilkynningar og „stuttar fréttir“ flæði og eru síðan hvergi sjáanlegar nema þar sem þær en lifa lengst í Mest lesið. Ég er ekki alveg að ná þessu ???

Ég get sjálfum mér kennt um, ég gerði mér ekki grein fyrir að trölli.is myndi vaxa svona hratt og að lesendur eru miklu miklu fleiri og að fólk myndi deila greinum mínum hingað og þangað. Sjálfur deili ég kannski bara í 1-2 grúppur.

Frétti í dag, 1 febrúar 2019, að frá því að trölli.is byrjaði 1 maí í fyrra séu samanlagðar flettingar orðnar 474.791.

Mér finnst ég ekki hafa neitt vald lengur yfir mínum skrifuðu ORÐUM, eða hverjir munu lesa, hver túlkar, hvar og hvernig.

Og ég HOBBÝ skrifarinn og áhugaljósmyndarinn er ekki lengur viss um að ég vilji taka þátt í þessu….ég ætla að taka laaaanga pásu og hugsa málið vel og vandlega.

Þarf að hugsa mitt ráð….um hvort ég vilji óvart verða þessi villibráð sem allir mega skjóta á.
Spyrja sjálfan mig spurninga eins og t.d. Snýst þetta virkilega um hvernig og um hvað ég skrifa ?

Eða snýst þetta um þessa leiðinda hlið á netinu þar sem sumir meina að hér gilda engar reglur og mannasiðir o.fl. o.fl. ?

Ég ætti kannski bara að spyrja Róbert Guðfinnsson eiganda siglo.is hvort ég megi ekki bara eiga þann gamla og litla, dauða bæjarmiðil sem engin sinnir lengur og hafa hann bara sem “prívat” blogg og síldarsögusíðu. hmm…..

Ég segi þetta þrátt fyrir að vera ekki þekktur fyrir að vera hörundssár eða feimin og að margir segi við mig:
Nonni Björgvins! Það vantar eitthvað í þig stundum og…… þú kannt ekki að skammast þín!
En ég nenni ekki að svara því einu sinni enn og tel mig vera búinn að útskýra ástæðuna fyrir því hér í laaangri greinaseríu:

sjá: GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti
“En sannleikurinn um skömmina er að hún lak út um eyrað á mér þegar ég datt enn einu sinni í gegnum bryggjurnar fyrir löngu löngu síðan, lenti á steini og rotaðist smástund, einhversstaðar fyrir neðan Ísfirðingabrakkan, enda kunna Ísfirðingar ekki að búa til bryggjur eins og við Siglfirðingar.”

En áður en ég tek langa pásu þá vill ég miklu frekar tala um og sýna ykkur ýmislegt af því jákvæða og skemmtilega sem berst til mín gegnum félagsmiða og um það sem greinar mínar vekja af hugsunum og minningum hjá lesendum á öllum aldri 


Skemmtilegheit og…..

Dásamlegar ljósmyndir sem segja okkur sögur ÁN ORÐA.

Hörkuduglegar alvöru vinnandi (vin)-KONUR í síldinni á Sigló. Tunnufjöll í bakgrunninum.

Í Facebook grúppunni Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir. er alltaf skemmtilegur tónn í öllum og um daginn var verið spjalla um hitt og þetta í greininni minni og Brakki eða Braggi líka og svo komu allt í einu þessar tvær ljósmyndir inn í umræðuna frá Helgu Ottósdóttur og með fylgdu þessi orð:
„Hér má sjá nokkrar blómarósir af Ísfirðingaplaninu, frá því laust fyrir 1940.
Kristín Kristjánsdóttir (mamma) er fremst á fyrri myndinni, en til vinstri á þeirri síðari. 😊“

Svona vel meðfarnar áhugamanna ljósmyndir elskar áhugaljósmynda nörda sálin í mér, þær eru dásamlegar og segja svo mikið á einhvern undarlegan hátt.

Takk Helga fyrir að leyfa mér að birta þær hér.

Síldarstúlkur í fjallgöngu í tunnufjalli. Það sést á myndinni hvað þeim þykir vænt um hverja aðra.

Hugsið ykkur! Þessi mynd er frá 1927. Tveir ungir Svíar frá Smögen, Gunnar 19 ára og Lars-Erik 17 ára fara í þriggja mánaðar ævintýraferðalag á síldveiðar á Norðurhjara veraldar.

Hægt er að sjá meira um Smögen hér: Ferðasaga: Siglfirsk síldarsaga í Smögen og Kungshamn. 25 myndir

Texti frá Gísla Helgasynir sem hefur gefið leyfi til birtingar á þessari ljósmynd:
Sjómenn af síldarbát frá Sandgerði. Myndin, sem er tekin á Siglufirði, kemur úr dánarbúi afa míns, Ármanns Guðjónssonar (1910-2013).
Hann sjálfur situr fyrir aftan hvítklædda gaurinn. Því miður veit ég ekki hver tók myndina, en Ármann sagði mér frá því að hann hafi átt myndavél í félagi við annan skipsfélaga sinn. Ljósmyndari: óþekktur.

 

Þetta er að mínu mati ein sú allra flottasta Síldarsöguminningarmynd sem ég hef nokkur tíman séð.

Ég sé 1000 sögur þarna og þessi mynd er sko alls ekkert slys eða heppni, greinilega góður áhugaljósmyndari sem tók hana. Þessi mynd er alveg makalaust sögulegt „Móment“   Takk Gísli Helgason fyrir að leyfa birtingu hér.

Dæmi 1: rangtúlkun, útúrsnúningur……. og nöldur

Einkennileg rangtúlkun ljósmynda á Facebook, man ekki í hvaða grúppu.

Úr grúppunni Gamlar ljósmyndir fékk ég þessi skemmtilegu skilaboð frá Hönnu Brynhildi Jónsdóttur:
“Pabbi minn Jón L Þórðarson með hattinn. Átti Pólstjörnuna.
Gaman að þessu.”

En í einhverri annarri grúppu (man ekki hvaða) skapaðist langur þráður sem þið getið séð stutt brot af í skjáskotinu hér fyrir ofan og svo varð úr þessu heilmikið rifrildi um hver hafi nú migið mest í kaldan sjó o.fl. Ótrúlegt!

Undir forsíðumynd greinarinnar hafði ég skrifað: „Síldarstúlkur í fullum herklæðum tilbúnar í slaginn, fínklæddir spjátrungar standa með hendur í vösum og dáðst að þeim.“

Veit ekki hvort það var sá texti eða af hverju maðurinn sér akkúrat þetta í myndinni þegar það er reyndar staðreynd að í fyrsta og eina skiptið sem konur hafa fengið betur borgað en karlar í allri „mannkynssögu“ Íslands var einmitt í síldinni á Sigló. „Spjátungarnir „ fínklæddu voru kannski bara í fríi…hver veit.

Svo varð líka einhvers staðar (líklega í Skemmtileg Íslensk orð) hörð umræða um orðið SPJÁTUNGUR og voru sumir mest í að benda á fólk með nafni sem væru ekta spjátungar í dag. Það sjatnaði aðeins í þeim þegar góðhjörtuð KONA benti á að við værum að skemmta okkur með því að tala um ORÐ.

Dæmi 2: Réttritun og málfræðikennsla…….og nöldur

En stundum getur maður ekki bara stillt sig……..verð að svara fyrir mig, get ekki látið þessa ands… nethatara og neikvæðu reglugerða hunda, eyðileggja það góða sem kemur úr nútíma samskipta-tækni………..

Skjáskot frá trölli.is

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þennan karl sem er að reyna að kenna Sænskum Siglfirðingi réttritun. Ég fer miklu frekar á “Sumarnámskeið” hjá Palla Helga gamla góða íslensku kennaranum mínum en að taka til mín ábendingar frá þessum gaur.

Nei, ég ætla segja ykkur aðeins frá honum Steingrími sem er alltaf svo jákvæður…..þessi maður er sko ekki hver sem er.
Hann stofnaði nefnilega bæjarfréttamiðilinn sksiglo.is sem var einn af elstu fréttavefum Íslands (Lífið á Sigló) og svo stofnaði hann líka Ljósmyndasafn Siglufjarðar og þar er nú að finna um 300.000 ljósmyndir en það sem þið kannski ekki vitið er að Steingrímur hefur alla ævi þurft að berjast í gegnum lífið með sína LES og Skrifblindu en svo stofnar hann af öllum FRÉTTAMIÐIL.

Geri aðrir betur.

Persónulega finnst mér að Steingrímur ætti skilið að fá Fálkaorðuna fyrir það ótrúlega óeigingjarna starf að eyða svo miklum hluta af sinni ævi og frítíma í að varðveita og safna saman ljósmyndaheimildum sem snerta okkur öll svo djúpt í dag og svo mun það verða að eilífu. AMEN.

Eftir að Steingrímur kom Ljósmyndasafninu áfram í hendurnar á góðu fólki hefur hann haldið áfram að taka myndir af öllu mögulegu í okkar fallega firði.

Hér getið þið skoðað meira en 100.000 myndir til viðbótar á myndasíðu Steingríms: http://www.sk21.is/

Þú getur hitt Steingrím í Saga Fotografica, hann er bæði safngripur og safnvörður þar og svo kann hann líka fullt af gömlum ljósmyndaorðum.


Dæmi 3: Djöfulsins dónaskapur……. og NÖLDUR

Að lokum það sem er mest mannskemmandi og ömurlegt.
Fólk sem tjáir sig um það sem það hefur greinilega EKKI LESIÐ.

Og þessi kemur bara upp um sig TVISVAR, en hann bara verður samt að fá að tjá sig um það sem hann hefur greinilega
EKKI LESIÐ!

Það sem er svo einkennandi í þessu net-nöldri er að þeir sem eru mest í þessu að þeir heita ALLIR Skúli og eru Fúla-synir meðan að það eru ALLTAF dætur Íslands sem sjá eitthvað jákvætt í öllu og þær tjá sig oft um það og taka líka að sér að kenna öðrum MANNASIÐI eins og amma mín elskulega, hún AMMA Nunna….sem skammaði mig alltof sjaldan.

Eins og svo oft þegar ég sit og skrifa á Íslensku þá hlusta ég mikið á þau systkinin Ellý og Vilhjálm. Og hér kemur “Kveðjulag” til ykkar allra sem hafa nennt að lesa alla leið hingað:  OG Co…af plötunni Hana nú frá 1977.

Það byrjar svona:

Ef ég kynni að skrifa eins og …………

P.S. gerðu mér greiða, hlustaðu vel og vandlega á TEXTANN, þetta virðist vera gamalt vandamál, öðrum skrifandi “vandræðaskáldum” hefur greinilega liðið svona eins og mér……….

AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON

Lifið heil & Bestu kveðjur,  Nonni Björgvins

Texti og ljósmyndir:   Jón Ólafur Björgvinsson

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá eigendum.