Árið 1945 - Rauðka, úrskurður

Úrskurður Félagsmálaráðuneytisins í Rauðkumálinu og ofbeldi bæjarstjóra

Einherji 16. september 1945

 Eins og stóð í síðasta Einherja hefir Félagsmálaráðuneytið í símskeyti tilkynnt bæjarstjóra, að rétt sé, að gamla Rauðkustjórnin starfi áfram uns dómur falli í málinu, en ekki aprílkosna Rauðkustjórnin. 

Með þessu hefir Félagsmálaráðuneytið kveðið upp úrskurð um, að gamla Rauðkustjórnin skuli sitja, en aprílkosna Rauðkustjórnin hætta störfum. 

Samt sem áður situr aprílkosna stjórnin áfram og bæjarstjórinn og bæjarstjórnarmeirihlutinn beita ofbeldi til þess að halda í hana áfram og rísa með því gegn yfirboðara sínum, rísa gegn æðra úrskurðarvaldi, rísa gegn ríkisstjórninni sjálfri.

Málið er nú orðið miklu alvarlegra eðlis en deila milli aðilja innan bæjarins, sem mikill meirihluti bæjarbúa þó skildi fullkomlega, að var þess eðlis, að gamla Rauðkustjórnin átti að sitja. 

Nú rís bæjarstjórinn upp með kommúnista, Þormóð og fylgihnött hans og neitar að hlýða því, er Félagsmálaráðuneytið úrskurðar rétt vera og beitir með neitun sinni ofbeldi og ofríki gegn Félagsmálaráðuneytinu. 

Getur þetta ekki dregið dilk á eftir sér fyrir bæinn? Skyldi tiltrúin til yfirstjórnar bæjarins vaxa við slíkar aðfarir? Sér bæjarstjórinn og sá litli hluti flokks hans, er styður hann í þessu, engin missmíði á þessari framkomu? 

Ekkert var að segja til þess, þótt þessi hluti bæjarstjórnar hefði viljað leggja málið undir dómstólana og Slík framkoma er uppreisn gegn ríkisvaldinu, ofbeldi sýnt ráðuneytinu, óvænleg til hróðurs Siglufirði eða til framdráttar málefnum hans. 

Hvað segja Sjálfstæðismenn um slíka framkomu bæjarstjórans? Hvað segja þeir fáu Framsóknarmenn, sem vildu ekki að Þormóður væri rekinn úr flokknum? 

Hvað segja sumir fylgjendur Þórodds? Hér bætir þrístirnið gráu ofan á svart.