Leó R Ólason skrifar
Fyrsti ísskápurinn
Fyrsti ísskápurinn.
Árið gæti hafa verið 1961 eða 1962, sumarið var langt gengið því það var komið fram yfir miðjan ágúst. Það var nokkuð liðið á kvöldið og ég var farinn að sofa því úti var tekið að rökkva og litlir strákar eins og ég áttu ekki að vera á fótum svona seint.
Ég fékk samt stundum að hlusta á kvöldsöguna í útvarpinu og ef ég datt ekki út af frá henni, þá var ekki boðið upp á neitt annað en að fara beint í háttinn að henni lokinni. Það var hvort sem er ekki yfir neinu öðru að vaka því enn voru nokkur ár í að sjónvarpið hæfi útsendingar sínar, og enn fleiri ár í að það sæist á Siglufirði og það voru oftast bara symfóníur og jazz í útvarpinu.
Ég var um það bil að fara að svífa vængjum þöndum inn í sjálft draumalandið þar sem allt getur gerst, þegar ég heyri að útihurðin er opnuð og einhverjar raddir sem ég kannaðist ekkert við úr hinu daglega lífi hljómuðu á útitröppunum.
Ég rís upp við dogg og renni mér hljóðlega fram úr gamla dívaninum sem ég var nýbyrjaður að sofa á eftir ég óx upp úr barnarúminu.
Bosch Ísskápur svipaður þeim sem keyptur var á Hverfisgötu 11 >>>>
En það voru sem sagt raddirnar á útipallinum sem vöktu mig og ég sem er að eðlisfari mjög forvitinn lagðist á hnén að hurðinni á herberginu mínu og kíkti fyrst aðeins í gegn um skráargatið. Þarna stóðu afi og amma úti á pallinum fyrir framan útihurðina og töluðu við einhvern mann sem greinilega bar sig ekki allt of vel yfir einhverju. Ég opnaði svolitla rifu á hurðina til að sjá og heyra betur, en síðan í hálfa gátt og teygði álkuna fram og hlustaði af alefli. Þetta dugði skammt því nú hafði umræðan færst niður tröppurnar og út á götuna svo ég sá ekki neitt. Ég ákvað því að stíga alveg fram úr skugganum því forvitnin var orðin öllu öðru yfirsterkari. Ég gekk varlega fram og gægðist út á götuna en þar var vörubíll og á pallinum var stór kassi.
Bílstjórinn og maður sem var með honum voru að tala við hana Steinu og hann Stein sem bjuggu þá í kjallaranum að Hávegi 9.
Fyrir þá Siglfirðinga sem átta sig ekki á hver þessi heiðurshjón voru, þá voru þau meðal annars afi og amma þeirra systra Agnesar og Elínar í bakaríinu, Þrastar Ingólfs, Önnu Hreins og einnig hans Elmars, svo einhverjir afkomendur þeirra séu nefndir.
En ég stóð þarna í dyrunum á Hverfisgötu 11 og fylgdist með því sem gerðist þarna fyrir utan. Ég sá að afi gekk til mannsins sem hafði komið með bílstjóranum og þeir ræddu eitthvað saman en eftir það varð allt miklu léttara og skemmtilegra. Það var eins og einhver spenna hyrfi úr loftinu, menn fóru að gera að gamni sínu og vörubíllinn bakkaði að pallinum fyrir framan húsið hjá okkur. Afi og maðurinn sem kom með bílstjóranum klifruðu upp á vörubílspallinn og stóri kassinn var borinn inn í gang og þaðan inn í stofu. Það var svo daginn eftir að ég skildi betur hvað hafði verið að gerast þarna úti um nóttina og ég fékk þær skýringar sem dugðu mér.
Vörubíll kom með stóran kassa á pallinum og það átti að bera kassann upp eftir til þeirra Steins og Steinu.
Í kassanum var ísskápur sem þau höfðu pantað hjá rafmagnsverksstæðinu og versluninni Raflýsingu sem þá var til húsa á horni Aðalgötu og Vetrarbrautar.
Þar sem hið pantaða kælitæki var svo ekki afhent á umsömdum tíma, keyptu þau hjónin annan ísskáp af öðrum söluaðila og afskrifuðu þetta mál.
Þegar svo hinn pantaði skápur kom loksins langt á eftir áætlun, átti að aka honum strax til væntanlegra eigenda sinna, en þá var á vissan hátt kominn köttur í ból Bjarnar og engin þörf fyrir hann lengur á þeim stað.
Það stefndi þess vegna í svolítil vandræði þarna á götunni því fólk fjárfesti nú ekki í svona lúxus daglega. Það var þá að afi spurði ömmu hvort þau ættu ekki bara að skella sér á hann þennan og leysa þetta vandræðaástand sem væri að skapast þarna við dyrnar.
Hún þurfti ekki að hugsa sig mjög lengi um og skápurinn var síðan borinn í hús þarna um nóttina. Hann var af gerðinni “Bosch” og var líklega um 130 sentímetrar á hæð og með svolitlu frystihólfi og alveg ótrúlega svalur. Daginn eftir komu nokkrir nágrannar að skoða gripinn og fannst flestum mikið til um þetta undratæki.
Amma mínn og afi
Sóley Guðlaugsdóttir og Leó Jónsson smiður
Ljósmyndari ókunnur
Fyrst var hann í stofunni og við umgengust hann eiginlega af svolítilli lotningu. Einhverjum dögum síðar tók afi sér þó sög í hönd og sagaði einn skápinn af neðri hluta eldhúsinnréttingunnar sem var jafngömul húsinu. Þarna var sem sagt fyrsta ísskáp fjölskyldunnar komið fyrir til frambúðar og þarna stóð hann tæpa þrjá áratugi og þjónaði eigendum sínum dyggilega allt þar til seint á níunda áratugnum að slokknaði skyndilega á honum og líftími hans var allur.
Leó R. Ólason.