Leó R Ólason skrifar
Siglfirðingur á Eskifirði
Siglfirðingur í austurvegi.
Trausti í verslun sinni á Eskifirði
Stundum er mönnum líkt við risaeðlur, og þá er yfirleitt verið að gefa til kynna að þeir séu langt á eftir tímanum og fáist við eitthvað sem flest allir eru löngu hættir svo mikið sem að hugsa um.
Trausti Reykdal Guðvarðsson gæti svo sem smellpassað inn í þá hugmyndafræði, en starfsemin stendur á gömlum merg og bjartsýnin er honum eins konar orkugjafi og hann er einn örfárra sem enn rekur myndbandaleigu nú á tímum streymisveitna. Og það er ekki eins og að hann sé á risastóru markaðssvæði, því hann er staðsettur á Eskifirði þar sem íbúar eru lítið eitt færri en á Siglufirði.
Að vísu er ekki langt í Neskaupstað og Reyðarfjörð sem stækkar vissulega svæðið, en til samanburðar er aðeins ein myndbandaleiga sem virkilega stendur undir nafni á gjörvöllu Reykjavíkursvæðinu.
Trausti Reykdal Guðvarðsson í verslun sinni
ókunnur ljósmyndari
Trausti er Siglfirðingur, fæddur á jóladaginn sjálfan á lýðveldisárinu 1944 og bjó að Túngötu númer 10 til tólf ára aldurs, en fluttist þá til Akureyrar með foreldrum sínum Guðvarði Jónssyni sem margur eldri Siglfirðingurinn kannast við undir nafninu Varði málari, og Kristbjörgu Reykdal Traustadóttur frá Akureyri.
Trausti byrjaði að læra hárskeraiðnina í Reykjavík, en hélt norður og lauk þeirri vegferð hjá stofunni sem kennd var við Bigga og Valda á Akureyri. Ástæða þess að Trausti flutti sig norður var líklega fyrst og fremst sú að húsaleigan syðra var hærri en lærlingslaun hans, og því var ekki um annað að ræða en að finna einhverja praktíska lausn á fjármála hliðinni.
Videoleiga Eskifjarðar. Svona leit þetta út í dag, en sérdeild er fyrir VHS og svo önnur fyrir DVD
ókunnir ljósmyndarar
Trausti er kvæntur Helgu Sólveigu Einarsdóttur sem er Eskfirðingur, en þau fluttu frá Akureyri til Eskifjarðar árið 1970. Ég leit nýlega við hjá Trausta sem nú er orðinn 77 ára og stendur enn vaktina eins og sannur Siglfirðingur.
Að sögn Trausta er alltaf ein og ein VHS spóla að leigjast út þrátt fyrir að yngstu viðskiptavinirnir þekki vart til þessarar tækni.
DVD safnið er engu líkt, enda var og er Vídeóleiga Eskifjarðar ein af allra stærstu leigum á landsbyggðinni.
Ég kynntist honum fyrst árið 1981 þegar við vorum báðir að feta okkar fyrstu skref í videóbransanum. Hann klippti þá, og leigði út videospólur nokkurn vegin jöfnum höndum og á sama tíma á jarðhæðinni að Strandgötu 29a, en íbúð þeirra hjóna er á efri hæðinni í sama húsi og því þægilega stutt að fara í vinnuna. Það kom fyrir að ef ég hringdi í hann til að bera saman bækur okkar í videómálum, að hann bað mig að hinkra aðeins því hann væri einmitt staddur í „miðjum haus“ núna.
Málin komust þó í talsvert betri farveg þegar hann byggði við jarðhæð hússins og gat farið að skipuleggja málin betur. Þau hjón unnu þá oft saman ef mikið var bókað í klippingu, þá var Trausti að klippa meðan Helga afgreiddi í hinum endanum á verslunarrýminu þar sem ásamt videóleigunni var rekin blönduð verslun.
Ef minna var bókað klippti hann stundum fyrir hádegi, en flutti sig síðan yfir í videó og verslunarplássið eftir hádegi þar sem hann stóð vaktina til kl. 22.30 dag hvern næstu áratugina og geri aðrir betur. Þannig gekk það fyrir sig og gengi líklega enn ef hann hefði ekki lent í slysi þ. 4. Jan. sl. þegar stærðarinnar payloader bakkaði á hann. Vonandi nær hann sér sem allra fyrst á strik aftur og getur þá tekið til við að handleika skærin á ný
Leó R.
Kynningramyndin efst er af Eskifirði, fengin frá síðu Wikipedia