Blanda

Sýruflutningar t/s Lønn

Í upphafi er Haförninn, sem áður hét Lønn og var í eigu Norðmanna, var skipið mikið notað til flutninga á allskyns sýrum víða um heim, og báru bæði leiðslur skipsins og tankar þess greinilega merki vegna tæringar sem smátt og smátt uppgötvuðust af okkur sem unnum við lagnirnar og sjálfa tankana. Mikil tæring var víða sjáanleg niðri í tönkunum, auk þess sem sumar lagnir niðri í tönkum, raunar einnig uppi á dekki fóru að smita olíu og jafnvel áberandi leka við þrýsting.

Mér var falið að finna ráð við einfaldri viðgerð á rörum, án þess að nota rafsuðu sem var auðvitað banvænt vegna þess eldsneytis sem við vorum að flytja, jafnvel tómir tankar voru hættulegri en fullir hvað eld eða neista sætti. Sem dæmi þá var okkur stranglega uppálagt að vera ekki í vinnu úti á dekki eða niðri í tönkum á skóm sem gera mætti ráð fyrir að sólar væru negldir, (negldir leðurskósólar voru algengir á þessum tímum) ekki nota vasahnífa, lyklakippur eða málmhluti, og eða vera með eldspýtur eða kveikjara í vösum, þeir sem reyktu voru sérstaklega áminntir um slíkt.

Ég leitaði í vörulista frá fyrirtæki sem þjónustaði olíuskip. Þar fann ég sérstakt áhald til að strekkja utan um rör sem leki hafði komið á. En á milli stálborða sem verkfærið notaði, var komið fyrir olíuþolinni gúmmíbót sem útilokaði lekann. Þetta verkfæri var lengi notað um borð með góðum árangri og Þær voru orðnar margar slíkar bæturnar um borð, þann tíma sem ég var þar. Þetta verkfæri var eitt af nokkrum sem skilið var eftir hjá S.R. á Siglufirði, þegar skipið var selt árið 1971 

Nærri því stórslys

Eins og ég minntist á hér áðan, voru strangar reglur sem í gildi við olíuflutningana, og gættum við hvors annars í þeim efnum.
En allir erum við mannlegir og ekki óskeikulir.
Jafnvel vinur minn Guðmundur Arason 1. stýrimaður/skipstjóri, sem orðlagður er fyrir reglusemi á öllu sem hann og skipið snertir, varð nærri því eitt sinn, er við vorum að losa bensín að taka óbeinan þátt í því að sprengja Haförninn í loft upp.

Við vorum á Themsá í London, það var steikjandi hiti úti og logn. Verið var að dæla bensíni í land. Ég var á vakt uppi í brú og hafði útsýn yfir dekkið. Þar var dælumaður á ferðinni, Guðmundur Ara var við einn tankinn, lúgan yfir mannopinu var opin og Guðmundur að fylgjast með, en tankurinn var við það að tæmast.

Þaðan sem ég var, sá ég greinilega í sólskininu, hitauppstreymið sem steig upp úr tanknum. Ég sé að Guðmundur kallar og veifar til bátsmannsins Ægis Björns sem kominn var upp á landganginn ásamt fleirum á leið sinni í smá frí upp í borgina.

Guðmundur átti erindi við Ægir og höfðu þeir greinilega mikið að segja báðir tveir, þó ég hafi ekki heyrt orðaskipti. 


Í miðri umræðunni tekur Ægir upp sígarettu og stingur upp í sig. Mér varð um og ó, og kallaði hástöfum til þeirra, en þeir voru svo uppteknir í sínum viðræðum að þeir veittu kalli mínu ekki athygli. Það var ekki fyrr en félagar Ægis sem biðu eftir honum á bryggjunni, öskruðu á þá að þeir litu upp á sama augnabliki og Ægir tók upp kveikjara sinn. 

Báðir á sama tíma, Ægir og Guðmundur áttuðu sig á tilburðum Ægis svo ekkert varð úr því að Ægir kveikti á kveikjaranum sem betur fór.


Það sannar að ekki þarf mikið út af bera svo athyglin minnki.
(svipað og þegar ökumaður bifreiðar er að tala í síma eða skoðar á sama tím og henn er að aka)


Minnsti neisti hefði kveikt í uppstreyminu frá tanknum, með hörmulegum afleiðingum. 

Umræðuefni þeirra félaga hafði verið einfalt: Það var verkefni næsta dags sem þeir voru að skipuleggja og rökræða, en Guðmundur gerði ráð fyrir að vera í koju að lokinni vakt er vinna hæfist daginn eftir og var að ræða við Ægi sem sá um framkvæmd slíkra verkefna sem bátsmaður.

Rússland og...........  

Eins og annarsstaðar er getið hér á síðunum, þá hefi ég ávalt verið mjög sjóveikur, vart sá dagur liðið úti á sjó, að sjóveikin hafi ekki angrað mig, þó mismikið hafi verið. Þó komu tímabil án skýringa, að veikin hvarf og kom síðan aftur !


Seinnihluta ársins 1968 og fram að janúarlokum 1969, hafði Haförninn verið frekar mikið á lygnum sjó. Siglt var talsvert um á Eystrasalti, á milli hafna í Svíþjóð, Rússlandi, Danmörk og Austur Þýskalandi.

 

Í fyrsta sinn er ég kom til Rússlands, Ventspils (Latvia, þá undir valdahæl Ráðstjórnarríkjanna)  var hálfgerð spenna mér innanbrjósts. 

Ég hafði heyrt og lesið um og trúað, hvernig kerfið þarna í Ráðstjórnarríkjunum virkaði.
Nú var að koma tækifærið til að kynnast því að eigin raun.

Við áttum von á mikilli skriffirsku þegar til hafnar kæmi, leit og fleiru.

Það var þó minna en við höfðum búist við. Þó margt nokkuð frábrugðið því sem tíðkast hafði varðandi Haförninn, fram að þessu í öðrum löndum.

Mikil áhersla var lögð á það að við gerðum grein fyrir öllum þeim gjaldeyri sem skipverjar hefðu í fórum sínum. Hann þurfti að telja að tollvörðunum viðstöddum, sem svo skráðu upphæðir hvers gjaldeyris fyrir sig. Meira að segja þurftum við að  einnig að nálgast smápeningana.

Okkur var sagt, að við gætum átt von á að einhverjir yrðu óvænt valdir úr til að endurskoða gjaldeyriseign okkar þegar við yfirgæfum höfnina.

Ekkert var leitað í skipinu. En skipið var vel upplýst frá ljósum hafnarinnar. Þá var settur lítill varðskúr við landganginn, þar sem tveir hermenn vopnaðir vélbyssum voru. Þeir gættu þess að ekkert ólöglegt væri farið með í land.

Og einnig var fylgjast með okkur þegar við komum til baka, þeir sem fengu landgönguleyfi. Ég var einn af þeim sem fékk landgönguleyfi, en það fengu ekki allir. Ástæðuna má um kenna ófullnægjandi vinnubrögðum bæjarfógeta skrifstofunnar á Siglufirði. Gleymst hafði þar að stimpla með fógeta stimplinum yfir ljósmynd á þrem pössum sem þar höfðu verið gerðir. 

Rússinn var formfastur, og engar undantekningar. Þeir sem fengu landgönguleyfi, urðu að skilja passa sína eftir í vörslu tollvarðar, sem leit frekar út fyrir að vera herforingi en tollvörður, vegna heiðursmerkja og borða sem hann bar.
Í staðinn fengum við pappaspjald með einhverjum prentuðum texta á rússnesku, auk þess handskrifuð nöfn okkar skrifuð voru af okkur, vörðunum viðstöddum, og greinilegum stimpli eftirlitsins þar ofan á. 

Allt þetta tollvarða lið var mjög alvörugefið á svip allan tímann sem þeir dvöldu um borð, en mjög kurteisir og þægilegir í viðmóti.

 

Þegar við sem fórum í land fórum niður landganginn, tóku hinir vopnuðu verðir á móti okkur. Þrátt fyrir óbeina ógn frá þeim, þá tóku þeir brosandi á móti okkur. Horfðu lauslega á okkur til skiptis og sögðu eitthvað á rússnesku.
Það eina sem við vorum nokkuð vissir um og skildum, var gert skiljanlegt með handpati. Það var að hvíta slóðin, sem blasti við okkur þar rétt hjá. Um 70-80sm. breið, máluð gangbraut. Þar ættum við að halda okkur. Alls ekki að fara út úr þeirri slóð. Í þá átt væri hliðið að höfninni.

Þessi spotti var um 400-500 metrar, en á leiðinni fórum við framhjá 4 vélbyssu vopnuðum vörðum sem heldu sig meðfram hvítu slóðinni, með nokkru millibili.
Eftir nokkra smákróka komum við að stóru varðskýli. Þar var farið inn í hlýjuna, en napurt var úti.
Brosmildur óvopnaður (?) vörður var innan við afgreiðsluborð, tók brosandi á móti okkur. 

Hann skoðaði passana okkar og stimplaði þá. Annar sat þar innar en veitti okkur ekki athygli. Þegar út var komið, sáum við þar strætisvagn fyrir utan.

Einn af farþegum bílsins stóð við opnar dyr vagnsins, og gaf okkur ábendingu um að flýta okkur.

Við tókum til fótanna, og sá síðasti í hópnum var varla kominn inn í vagninn, þegar hann var kominn af stað.
Þessi vingjarnlegi Rússi, benti okkur á að setja rúblu í sjálfsala sem var inni í vagninum (enginn slíkur var hjá bifreiðastjóranum) Rússinn talaði góða ensku. 


Vagninn mundi stoppa næst við Sjómannaheimili, þar hafði okkur verið bent á að við gætum verslað fyrir gjaldeyrir og einnig skipt þar yfir í rúblur.

Hann sagði okkur að hafa ekki neinar áhyggjur, þó við borguðum ekki fargjaldið. Það væri ekkert eftirlit með því að svikist væri um að setja pening í sjálfsalann. Og Rússar væru almennt hættir að njósna um hvor aðra. Rússinn spurði okkur hvort við hefðum ekki tekið neitt með okkur frá borði til að selja, það væri góður markaður uppi í borginni fyrir ýmsan vestrænan varning.
Tyggigúmmí, tóbak, nælonsokka og vestrænar flíkur og fleira. Við vorum ekki viðbúnir slíku, svo ekki höfðum að við töldum, neitt aflögu.

Þegar vagninn stoppaði, benti hann okkur á sjómannaheimilið. Þetta var stórt og veglegt hús. Þar inni var fjölbreyttur rekstur, ekki ósvipað að mörgu leiti, sjómannaheimilum víða í Evrópu. Bókasafn (sennileg rússneskt ?) Mikið af rússneskum tímaritum voru áberandi í rekkum.
Taflborð, spilaborð, byljarborð ofl. og lítil kaffistofa. Einnig stór verslun, þar sem hægt var að kaupa allt á milli „himins og jarðar,“ kúbanskir vindlar og annarra þjóða tóbak. Ekki þó frá USA.
Þá var áfengisúrvalið í hámarki. Annar varningur virtist ekki höfða til áhuga okkar. Þarna inni virtist okkur einnig vera einhverjir sjómenn frá vesturlöndum og einnig rússar. En þarna var aðeins hægt að nota erlendan gjaldeyrir, ekki rúblur.

Þarna keyptum við nokkrir sjaldgæf vín, (sjaldgæf á Evrópumarkaði) og einhver keypti Kúbuvindla. Athygli okkar var vakin á því að við ættum að geyma kvittanirnar þar til við kæmum um borð, ekki vissum við þá hversvegna. Við skiptum einnig nokkrum sænskum krónum yfir í rúblur, svona til málamynda. En gengismismunur var mikill og óhagstæður, miðað við þær tölur sem voru á gjaldeyriskrám sem við höfðum séð um borð í Haferninum.


Þegar út var komið, fengum okkur tvo leigubíla, við það skiptum við liði ! Við fórum upp í borgina. Þar ráfuðum við  á milli nokkurra sjoppa.
Mikið líf var þarna, og talsverður ágangur ungs fólks sem spurði okkur hvort við ættum ekki tyggigúmmí, tóbak og fleira.
Sumir veifuð framan í okkur upp rúlluðum rúblum, sem minnti á gangsterana í amerískum bíómyndum. Þessi ungmenn, töluðu öll góða ensku, og voru tilbúin til að borga vel fyrir varning. Einhverjir okkar, klæddu sig úr bol og skyrtum og eitthvað fleira var losað um og selt.

Við fórum inn á rúmgóða sjoppu sem minnti mig á salinn í Allanum heima. Þar inni var hvergi að sjá vodkaflöskur á borðum, heldur bjór og rússneskt freyðivín.  Við fengum okkur eina freyðivínsflösku (rússneskt) og glös. Þetta var afbragðsgott freyðivín, sennilega það besta sem ég hefi smakkað.

Fljótlega eftir að við vorum sestir, komu tvö ungmenni að borði okkar og gerðu okkur allskonar tilboð.

Eitt var meðal annars á þá leið, að ef við keyptum nokkrar freyðivínsflöskur, þá gætu þau útvegað aðgang að partý úti í bæ þar sem margt stæði til boða fyrir lítið annað en veigarnar.  Þessum tilboðum afþökkuðum við kurteislega, enda allir giftir eða lofaðir.
Við forvitnuðumst í leiðinni, hvernig stæði á öllum þessum freyðivínsflöskum á borðum.  Við hefðum heyrt frá svo mörgum stöðum að vodka væri þeirra þjóðardrykkur, en sást þó hvergi. Þau brostu, og sögðu það á einhverjum misskilningi byggt. Freyðivín væri að minnsta kosti uppáhald flestra á þeirra heimahögum.

 

Við spurðum þau lauslega um hversvegna allir væru svona ófeimnir við að veifa seðlarúllum og versla úti á götum fyrir allra sjónum. Þau brostu og  sögðu að lífið væri einhvernvegin að breytast. Ekki væri eins strangt eftirlit og áður. Svo væri almenningur farinn að átta sig á að það borgaði sig ekki að fara til lögreglu og klaga, því skriffinnskan sem því fylgdi tæki of langan tíma og viðkomandi fengi enga umbun fyrir.

 

Það var gaman að vera þarna, og víðar. Allstaðar mikið fjör, brosandi fólk og skemmtileg músík hljómaði víða. Við vorum á gangi úti á nokkuð stóru torgi, þegar ég áttaði mig á að ég átti vakt um miðnættið og þurfti að fara að koma mér um borð. Ég kallaði á leigubíl. Ég tók með mér tvo burðarpoka, sem Bósi bað mig að fara með fyrir sig um borð. Smotterí sem hann og annar höfðu keypt hjá Sjómannaheimilinu. Leigubíllinn var fljótur að hafnarhliðinu, og farið kostaði lítið.

 

Þegar ég fór inn í húsið við hliðið, þá var þar aðeins einn starfsmaður, kona nokkuð vel holdi farinn og steinsofandi í stól.

Ég bankaði í borðið þar til hún vaknaði. Hún var vel við skál og ráfaði að borðinu. Eitthvað muldraði hún um leið og hún tók stimpil í hönd.
Ég áttaði mig á að hún þyrfti að stimpla í landgöngupassanna minn og rétti henni. Hún skellti stimplinum á passann og settist í stólinn aftur og veifaði.

 

Ég  hristi höfuðið og fór út, og fylgdi svo hvíta „strikinu“ að landgengnum við Haförninn. Þar voru komnir aðrir menn á vakt, jafnvel vopnaðir og þeir fyrri, sem og þeir á leiðinni við hvíta strikið. Þeir tóku á móti mér með tilgerðarbrosi og sýndu með látbragði, að þeir vildu sjá passa minn. (landgönguleyfið)  Þeir báru saman nöfn okkar sem skráð voru á blað fest á vegg varðskýlisins og merktu við nafn mitt og númer sem þar var.
  

Síðan vildu þeir skoða innihald pokanna sem ég var með. Ég rétti þeim minn poka fyrst. Þeir litu ofan í pokann og svo sögðu þeir eitthvað sem ég ekki skyldi, en giskaði á að þarna væri komin skýringin á því hversvegna áhersla var lögð á, uppi hjá Sjómannaheimilinu að geyma nóturnar.
Ég rétti mína nótu, og þeir báru saman, og Það stemmdi. En það var annað með hina pokana. Þær nótur voru í vasa félaga minna í landi.

 

Það tók mig langan tíma að gera varðmönnunum skiljanlegt með handapati að ég ætti ekki pokana, heldur félagar mínir sem væru enn í landi. Það var ekki fyrr en ég benti á nöfn þeirra á veggnum sem þeir áttuðu sig á málunum. Þeir sýndu mér greinilega með handapati að pokarnir yrðu hjá þeim, þar til félagar mínir kæmu til skips. Þessir varðmenn skildu ekki orð í ensku, frekar en ég rússnesku.

Félagar mínir komu svo til skips tæpum tveim tímum á eftir mér. Þeir dvöldu langan tíma í og við varðskýlið, áður en þeir komust um borð.  En allt gekk þó upp að lokum. Hinir sem höfðu skilið við okkur við sjómannaheimilið, komu svo um borð stuttu síðar.

 

Engin tollskoðun eða eftirlit átti sér stað við brottför daginn eftir, aðeins formsatriði og lóðs kom um borð. Svipaðar aðferðir voru við komu og brottför, voru viðhöfð í önnur skipti sem við komum til Rússlands eftir olíu.

Olíuviðskipti þarna við Eystrasaltsríkin voru að mér fannst all furðuleg, svo langt sem augu og eyru gátu numið.

 

Olía var nokkrum sinnum flutt til Rostock og annarrar austurþýskra hafnar sem ég man ekki hvað heitir. Olíunni var dælt þar í land. Síðan var skipið fyllt aftur af samskonar olíu, sennilega þeirri sömu og við höfðum losað sama daginn. Haferninum var svo siglt til vesturþýskrar hafnar, rétt austan við landamærin. Þar var aðeins lagst við bryggju, og einhverjir flibbagæjar með skjalatöskur komu um borð og fóru fljótt aftur í land.

Haförninn lá svo við bryggjuna í nokkra klukkutíma, og haldið síðan til Vejle í Danmörk. (Skammt frá Legolandi)  þar var olíunni dælt í land.
Svona ferðir urðu nokkrar, til og frá sömu stöðum.


Í Vejle kynntist ég dönskum manni, sem nýlega var kominn á eftirlaun. Hann hafði komið um borð í Haförninn í Vejle í þeim tilgangi að falast eftir íslenskum frímerkjum. Þetta var mjög vinalegur karl, og ég bauð honum inn í herbergi mitt og bauð honum bjór sem hann þáði. Ég átti nokkur frímerki sem ég gaf honum. Hann sagði mér meðal annars að hann hefði unnið í áratugi í lítilli bjórverksmiðju sem var þarna í Vejle, en væri kominn á ellilaun. 

Næst þegar við komum þarna færði hann mér nokkrar bjórflöskur sem framleiddar höfðu verið i áðurnefndri bjórverksmiðju. 

Ég hafði aldrei séð þess tegund fyrr. (né síðar) Bjórinn bragðist svipað og Tuborgbjór.


Í þriðja sinn er við komum þarna, kom karlinn enn. Þá spurði hann mig hikandi. Hvort ég gæti keypt fyrir sig kassa af Johnnie Walker, Scotch Whisky.

Hann hefði tekið eftir því að aldrei hefði verið gerð tollskoðun eða leit um borð hjá okkur, og taldi ekki mikla áhættu í húfi.

Ég var lengi að velta því fyrir mér hvort ég ætti að gera þetta. Það var aðeins steinsnar í tollverslunina frá höfninni í Rostock, og ég vissi að engar hindranir mundu vera á því að sækja kassann og koma honum um borð. Ég ákvað að gera þetta, ekki síst vegna þess að karlinn átti 70 ára afmæli vændum og ætlaði að halda veglega upp á það.

 

Karlinn rétti mér danskar krónur, ríflega fyrir kassanum, sem ég sagði vera allt of mikið. Hann svaraði því til, að þá fengi ég eitthvað fyrir minn snúð. En þetta væri mikið minni peningur, en það sem hann þyrfti að borga fyrir sama magn í Vejle.

Kassann keypti ég. Ég setti trékassann (sérhannaður af Whisky verksmiðjunni) á gólfið inni í afdrepinu sem ég hafði vegna smíðanna sem timburmaður.


Ég var að vinna ásamt Sigga Jóns úti á dekki þegar siglt var inn á Vejle Fjord nokkrum dögum síðar. Við vorum vanir að leggjast beint upp að bryggju, án þess að lóðsinn hefði komið um borð, nema í fyrsta sinnið. En nú var greinilega einhver breyting þar á að þessu sinni.
Stýrimaðurinn í brú kallaði á mig og bað mig að setja út leiðara á bakborðssíðuna. Það var reyndar svona til málamynda, þar sem Haförninn var það lestaður, en var þó merki um hvar báturinn sem var að fara frá bryggjunni ætti að koma upp að skipshliðinni.
Mér brá er ég sá mannskapinn um borð í gamla lóðsbátnum. Þar voru um 10 einkennisklæddir tollverðir.

Ég bað á Sigga að sækja fyrir mig leiðarann, ég þyrfti aðeins frá.  Siggi gekk frá leiðaranum eins og góðum sjómanni sæmir.

Ég kom aftur út á dekk með kassann góða í fanginu, og setti hann rétt mátulega snemma, við hlið polla sem var á dekkinu. Þannig að tollararnir tíu og hafnsögumaður, stigu yfir handriðið, yfir á landfestingapollann og síðan ofan á kassann góða, og niður á dekkið.
Ég meira að segja tók í höndina á nokkrum þeirra til að styðja þá á leiðinni.


Siggi glotti, bæði undrandi og hrifin af þessari áræðni minni, en hann þekkti kassann. Þessir 10 tollverðir skoðuðu svo og leituðu um allt skip af einhverju góssi. Þeir tóku sér langan tíma til þess, en fundu ekkert sem ætla mætti að hafi verið smyglvarningur. Þetta lið hafði komið frá Kaupmannahöfn.


Á meðan var látið reka í á ytri höfninni, en rjómablíða var.
Danski karlinn fyrrnefndi, hafði nær fengið áfall þegar hann sá tollvarðaliðið koma á bryggjuna. Hann hafði miklar áhyggjur á því að ég mundi lenda illa í því vegna bónar hans.
Haförninn lagðist svo að bryggju. Tollverðirnir fóru upp í rútukálf og þeir úr augsýn. Gamli maðurinn beið uppi á bryggju í bíl sínum, þar til ég og félagar höfðum gengið frá endum. Hann kom á móts við mig beint fram undan staðnum þar sem Whisky kassinn var og spurði í öngum sínum hvort tollararnir hefði fundið kassann.


Ég svaraði, já og nei og brosti. Ég benti honum síðan á kassann og sagði, hér er hann. Komdu um borð, ég kem kassanum upp á bryggju á eftir. Ég tók kassann og bar hann á sinn fyrri stað og karlinn kom inn í herbergi mitt og beið á meðan ég þvoði á mér hendurnar. Stuttu síðar fórum við upp á bryggju, og ég setti kassann í skottið á bílnum hans. Það var langt faðmlagið sem ég fékk frá þeim gamla.