Árið 1942 - Sleifaralag !

Sleifarlagið á stjórn Síldarverksmiðja ríkisins
er óþolandi á stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 

Neisti, 13. ágúst 1942

Verksmiðjuþankar.

Ennþá endurtekur sagan sig frá fyrri árum hér á Siglufirði. Margir tugir skipa liggja 2-8 daga - bíða með fullfermi - eða bíða eftir að fá að fara út og veiða meiri síld. 

Þetta skeður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins (hér eftir skammstafað S.R.), sem sagt er að hafi um 70 skip samningsbundin. Mörg skip, sem áður stunduðu síldveiðar á sumrum, stunda nú annan veiðiskap, eða eru í þjónustu erlendu herjanna við flutninga o.s.frv. 

Það vantaði ekki, að þegar Rauðkumálið var drepið, þá var lofað stækkun á S.R. og löndunartækjum o.fl. Það er rétt, að nokkur stækkun hefir komið, en langtum minni en lofað var og þó að leitað sé með logandi ljósi, sjást ekki ennþá löndunartækin hjá S.R. á Siglufirði.  

En þessar stækkanir eru furðu smáar, nema á Raufarhöfn, og þannig framkvæmdar, að menn standa undrandi yfir hvernig hægt hefir verið að gera svona litið um leið og lofað var miklu, og hvernig var farið að gera ekki neitt af sumu, sem lofað var, eins og t.d.: engin sjálfvirk löndunartæki ennþá á .Siglufirði hjá S.R. 

Ekki vill sá er þetta ritar lofa, framtak stjórnar S.R. með krabbana svonefndu og skal ekki frekar um þá rætt hér. Ekki hefir stjórn S. R. heldur dottið í hug að taka af hina illræmdu keyrslu með síldina, þar sem hver maður, sem vinnur að uppskipun síldar í þrær S.R., þarf að ganga samtals marga tugi kílómetra með kerruna í einni löndun. 

Ekki þyrfti nema færiband með litlum tilkostnaði til að flytja síldina upp í þrærnar, framan af bryggjuenda. Einhverja ofurlitla framtakssemi þyrfti til þess. En hún, hefir ekki verið fyrir hendi ennþá. 

Fyrir nokkrum árum var samþykkt af stjórn S.R., að koma hér upp sjálfvirkum löndunartækjum. Nú er komið árið 1942, ekki sést bóla á einum einasta hlut til þessara tækja. Og þrátt fyrir stórar fyrirsagnir í Morgunblaðinu í fyrra um sjálfvirk löndunartæki, sem koma skyldu fyrir þessa síldarvertíð, hefir enginn séð þau ennþá. 

En nú er gott að skjóta sér á bak við flutningsörðugleika og afgreiðsluvandræði í U.S.A. En var ekki annars Ríkisútvarpið látið birta frétt s.l. vetur, um að öll þessi innkaup, sem fyrirhugð hefðu verið, væru þegar gerð og allt í þessu fína lagi fyrir þá næstu síldarvertíð? 

Árangurinn hafa Siglfirðingar ekki séð ennþá. 

Þetta væri nú allt gott og blessað, ef full afköst væri hjá þeim verksmiðjum, sem mala nú í Ríkinu. Sagt er, að full afköst S.R. á Siglufirði muni vera uni 12 þúsund mál á sólarhring. Það mun þó vera langt frá, að þessi afköst séu fyrir hendi nú í sumar. 

Síldin hefir verið óvenju feit og gengur illa í gegn um pressurnar. Allar aðrar síldarverksmiðjur en S.R. pöntuðu efni, sem blandað er saman við síldina í vinnslunni, til þess að hún pressist betur og fljótar. 

Hefir þetta gefist svo vel, að flestar aðrar verksmiðjur telja sig ekki geta verið án þess. Og með því að nota það, hafa þær haldið  sem næst því alltaf fullum afköstum, 

En af einhverjum óskiljanlegum ástæð vildu S.R. ekki panta þetta efni, svo að afköstin hafa orðið minni en ella, og má eflaust gera ráð fyrir að hér hafi verið stórlega misráðið.

En heyrst hefir, að framkvæmdastjórinn hafi fengið það bókað í fundargerðabók S.R., að efni þetta setti stein í pressurnar og þess vegna ekki ádeilusök á hann að hafa eigi pantað það, og meirihluti stjórnarinnar, lagt blessun sína yfir. 

Þá er það á almanna vitorði hér, að stopp hafa orðið æði mörg í verksmiðjunum í sumar og ekki rækilega athugað, að allt sé í því lagi, sem vera bar, þegar vinnsla hófst. 

Þá má harðlega ádeila forráðamenn S.R, að tilraunum þeim um kælingu síldar, sem gerðar hafa verið, skuli eigi hafa verið haldið áfram. Tilraunir þessar voru gerðar í framkvæmdastjóratíð Gísla Halldórssonar, ennfremur reynt að kæla síld 1940 hjá útgerðarmönnunum Ingvari Vilhjálmssyni og Friðrik Guðjónssyni og loks sama sumar kældi Rauðka síld í einni eða tveimur þróm. 

Allar þessar tilraunir bentu í þá átt, að hér skyldi eigi láta staðar numið, heldur gera hér um frekara, og bar S.R. að hafa hér frumkvæði. 

Og þótt hér sé eigi um að ræða neina allsherjarlausn á þessu vandræðaástandi, þá er hér um að ræða nokkra úrbót. Fyrir slíkan sjálfbirgingshátt, að vilja eigi halda þessu áfram, þó að Gísli Halldórsson byrjaði á þessum tilraunum, á meiri hluti stjórnar S.R. skilið fullkomið vantraust og réttmætar ádeilur. 

Sagt er, að þegar stjórn S.R. réði Jón Gunnarsson að verksmiðjunum í annað sinn, hafi hún veitt honum allmikið meira vald en áður, t.d. mun hann hafa einræðisvald um altar mannaráðningar í verksmiðjurnar. Árangur er sýnilegur nú þegar, þar sem margir vanir menn eru farnir frá verksmiðjunum til annarra starfa. 

Sagt er að á Raufarhöfn vinni nú alltof margir óvanir menn í verksmiðjunni þar. Er enginn vafi á, að þetta truflar rekstur verksmiðjanna. 

Þá er það athyglisvert mjög, að bestu aflaskipin mörg hafa nú farið frá verksmiðjunum og leggja nú upp annarstaðar. Væri hér verkefni fyrir stjórn S.R. að rannsaka hversvegna þau fara. 

Árið 1940 voru tekin upp svonefnd veiðibönn og endurtekin nú í sumar tvisvar sinnum í S.R. síðara skiptið virðist hafa verið framin hróplegt ranghæti á sumum skipum með veiðibanninu, þannig að þegar nokkur eru búin að bíða í 4 daga eftir að fá "frípassa", en sum rétt laus, þá er öllum tilkynnt að bannið sé afnumið og ekki löngu eftir losun síðasta skips varð að stöðva rekstur S.R.P. vegna síldarleysis í þróm verksmiðjunnar. Og á sama degi og einum til tveim dögum áður sáust skip hér úti í firðinum vera að moka síld í sjóinn. 

Hvað er hér að gerast? Vill ekki stjórnin athuga þetta eitthvað nánar? Veiðibann kann að hafa verið nauðsynlegt, en í þetta skiptið alltof langt í 4 daga, enda skapaði það misrétti mikið milli skipa. 

Þessar ádeilur hér að framan eru eigi fram settar til þess að vega að S.R., og eigi heldur eiga allir stjórnarmenn S.R. óskilið mál.

Þeir sem skipað hafa sér í meiri hluta í verksmiðjustjórninni, geta ekki skotið sér undan þeirri réttmætu gagnrýni, sem hér hefir fram komið. En þetta, sem hér er fram sett, er - býst ég við - aðeins lítið brot þeirrar almennu gagnrýni, er stjórn á þessum fyrirtækjum verður almennt fyrir í daglegu tali og þá eigi síst hjá þeim, er best finna hvar skórinn kreppir að - sjómönnum og útgerðarmönnum, þeim er við verksmiðjurnar skipta. 

Ég er alveg viss um, að krafa margra, ef ekki allflestra útgerðarmanna og sjómanna, sé sú nú að þeir, sem stjórnað hafa þessum fyrirtækjum undanfarið, verði látnir hætta, og hæfari menn látnir mynda þar meirihluta. 

Og ég fyrir mitt leyti tel, að ef horfið verður að því ráði að byggja 30 þúsund mála aukningu, sem er alveg fortakslaust sjálfsagt, þá er það vanhugsað, ef núverandi meirihluti stjórnar S.R. á að fara með þau mál. 

Þeir, sem þessum málum eru kunnugir, vita, að í minnihluta verksmiðjustjórnar er Finnur Jónsson og oft líka Jón Þórðarson. 

Enda hafa sameiginlegar tillögur þeirra oft verið hundsaðar eða felldar, samanber eins og t.d. þegar þeir vildu leyfa Rauðku að stækka. 

Það verður því að skrifa vanrækslunnar, fyrirhyggjuleysi um ýmsa hluti og mistökin, algjörlega á bak þess virkilega meirihluta í stjórn S.R., sem er formaður Þ.E., meðstjórnandi Sveinn Ben. og Þorsteinn Jónsson, og ekki má heldur gleyma framkvæmdastjóranum Jóni Gunnarsyni.

Síldarverksmiðjur ríkisins eru byggðar upp af bjartsýnum, vitrum mönnum, sem sáu að hér var lífsnauðsynjamál á ferðinni. Þær voru byggðar upp í andstöðu við íhald þess tíma - og um það geta menn lesið í Alþingistíðindunum.- Þær, verksmiðjurnar, eru hugsjónir þeirra mætu manna Jóns heitins Baldvinssonar og Magnúsar heitins Kristjánssonar. 

Og allir þeir, sem bera hag þessara fyrirtækja fyrir brjósti, þeim er raun, sár raun að rekstri þeirra nú, og vona að hér megi miklu um bæta, og það verður að gerast. 

Ég veit að sá, sem þetta ritar, er ekki einn með þessa skoðun, að úrbótar þurfi. Ef einhver er í vafa, þá skal honum vísað til útgerðarmannanna, sem eiga skipin, sem leggja upp síld í S.R., eða til fiskimannanna, sem færa aflann að landi. 

Fá þeirra umsögn, þeirra skoðanir, og vita hvort þær staðfesta ekki allt, sem hér er að framan sagt.

Útgerðarmaður.

Um, leið og "Neisti" birtir ofanskráða grein er honum barst, vill hann hér með bjóða stjórn eða framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins rúm til andsvara