Sæmundur Jónsson

Sæmundur Jónsson 

Hann var fæddur 11. maí 1915. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 21. september 1999. Foreldrar hans voru Jón Kristjánsson frá Lambanesi í Fljótum, f. 21.4. 1890, d. 26.6. 1969, og Stefanía Guðrún Stefánsdóttir frá Grafargerði í Siglufirði, f. 14.7. 1890, d. 1.5. 1936 af barnsförum. Seinni kona Jóns var Anna Sigmundsdóttir, f. 25.6. 1913, d. 4.9. 1999. Systkini Sæmundar, börn Jóns og Stefaníu, eru Hulda Jónsdóttir, Sigurlaug Jónsdóttir og Björgvin Jónsson, Ægir Jónsson,Gústaf Jónsson,Alda Jónsdóttir  Kristín Jónsdóttir.  Systkini Sæmundar,

börn Jóns og Önnu, eru

Erling Jónsson vélsmiður

Edda Jónsson,

Páll Jónsson.

Hinn 19. júlí 1937 kvæntist Sæmundur

Jónína Guðbjörg Braun, f. 26.3. 1916, d. 17.1. 1994, og eignuðust þau sjö börn.

Þau eru:

1) Stefanía Þórunn Sæmundsdóttir, f. 1937, d. 1998,

maki Gunnar Gunnarsson og eignuðust þau tvær dætur.

2) Jón Örn Sæmundsson smiður, f. 1938, d. 1995, 

maki Þórunni Freyja Þorgeirsdóttir er lést 1977. Þau eignuðust fjögur börn. 

3) Jórunn Gunnhildur Sæmundsdóttir, f. 1943,

maki Jón Ævar Ásgrímsson og eiga þau eina dóttur.

4) Úlfar Helgi Sæmundsson vélsmiður, f. 1945,

í sambúð með Unu G. Einarsdóttur og eiga þau eina dóttur.

5) Anna Kristín Sæmundsdóttir, f. 1948,

maki Ámundi Gunnarsson slökkviliðsstjóri og eiga þau þrjú börn.

6) Sigrún Sæmundsdóttir, f. 1951, d. sama ár.

7) Sigrún Björg Sæmundsdóttir, f. 1957, og á hún þrjár dætur.Sæmundur og Jónína bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði.

Sæmundur byrjaði ungur að standa vaktir við Ljósastöðina á Siglufirði. Starfaði hann þar til 1937 er hann hóf störf hjá Síldarverksmiðju ríkisins, þar sem hann var rafvirki til 1953.

Hann var síðan vélstjóri við hraðfrystihús SR á Siglufirði til ársloka 1962.

Eftir það stundaði hann sjóinn á trillu.

Sæmundur var þekktur völundur á Siglufirði og smíðaði tíu báta, m.a. sjö og tíu tonna trillur sem hann átti sjálfur og gerði út.

Útför Sæmundar fer fram frá Siglufjarðarkirkju

---------------------------------------------------------------

Sæmundur Jónsson Látinn er tengdafaðir minn, Sæmundur Jónsson, á Siglufirði. Hann var á 85. aldursári er hann lést. Mér er bæði ljúft og skylt að minnast hans með nokkrum orðum. Hann ól allan sinn aldur á Siglufirði og lagði gjörva hönd á margt, verklaginn með afbrigðum, vandvirkur, iðjusamur og afkastamikill. Gleðimaður, léttur og ljúfur í lund og kom sér hvarvetna vel. Slík er reynsla mín af okkar kynnum. Hann kom víða við á starfsferli sínum, og er ég ekki viss um hvert starfsheitið var honum næst ­ og kærast, sjómaður, vélstjóri eða smiður, en öll þessi starfsheiti bar hann með miklum sóma. Sótti fisk í greipar Ægis, færði heimilinu björg í bú. Var vélstjóri í landi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og e.t.v. víðar, og síðast en ekki síst, þá var hann smiður, listasmiður, og hafði verkstæði á loftinu á Hólavegi 36, húsinu sem hann byggði og átti lengi, allt þar til Elli karlinn sótti hann og taldi honum betur borgið á Öldrunarheimili Sjúkrahúss Siglufjarðar, Skálarhlíð, þar sem hann átti heimili síðustu árin, ásamt konu sinni.

Á verkstæðinu kenndi margra grasa, margt í bígerð og vinnslu, hlutir svo gerólíkir þó sem fingurgull á hendi ­ og skip á sjó, og allt þar á milli, smíðisgripir hans. Slík var fjölvísi Sæmundar og starfsgeta, og get ég trútt um talað, þar sem verklagni hans blasir hvarvetna við hér á heimili mínu, í skápum og hirslum, að ógleymdu sjálfu skrifborðinu, sem mér þykir vænna um, en ­ en . . .

Sæmundur gekk ungur að eiga unga og glæsilega stúlku, Jónínu Braun, sem látin er fyrir nokkrum árum, og var hjónaband þeirra mjög gott og hamingjusamt. Sæmundur sagði mér alveg einstaklega skemmtilega sögu í þessu sambandi, er hann var að leggja línurnar fyrir framtíðina. Hann var þá línumaður hjá Rafveitunni og ég vona að ég misgeri engum þótt ég láti hennar getið í þessum minningarþönkum mínum.

Ég varð ungur ­ sagði hann ­ bálskotinn í fallegustu stúlkunni í bænum, og það voru fleiri á línunni. En mér datt snjallræði í hug. Ég var línumaður þá, uppi á hverjum staur, og lét mig falla ­ með mikilli varasemi niður ­ beint fyrir framan gluggann hjá henni. Og það þurfti ekki meira, hún varð fyrst á vettvang og síðan höfum við ekki skilið.

Þau áttu barnaláni að fagna, eignuðust hóp myndarlegra barna, eitt lést á unga aldri, öll hin komust til fullorðinsára og starfa. Elsti sonurinn, Jón, er látinn fyrir nokkrum árum og elsta dóttirin, Stefanía Þórunn, eiginkona mín, lést 5. desember 1999, á 63. aldursári eftir langvarandi veikindi. Blessuð sé minning hennar.

Þá er ógetið eins þáttar í fari Sæmundar Jónssonar, en það er tónlistargáfan. Ungur að árum lék hann fyrir dansi í hverju samkomuhúsinu af öðru hér norðanlands, og var oft slegið á léttari strengi, enda með í för slíkir snillingar sem Jónatan Ólafsson, en þeir léku lengi saman fyrir dansi.

Í því sambandi minnist ég einnar frásagnar Sæmundar þar um, er rafmagnið fór af einu  samkomuhúsinu í miðjum klíðum, en við spiluðum áfram eins og ekkert væri, sagði hann. Árið eftir fékk hann skammir,­ lof frá öðrum, fyrir að leika áfram danslögin og leiða unga fólkið út í guðsgræna náttúruna í næturhúminu í nóttlausu náttmyrkrinu. Þá var gaman, sagði Sæmundur og hló sannfærandi.

Sæmundi var létt að leika, lífið brosti við honum, í brjósti hans var vonin að vinna öllum vel, og varð að ósk sinni. Hann var jafnvígur á mörg hljóðfæri, einkum fiðlu og harmonikku.

Ungur að árum byggði hann ­ þau hjón, húsið að Hólavegi 36 á Siglufirði. Þar lifðu þau og störfuðu að hugðarefnum sínum. Að starfsdegi loknum seldu þau húsið, og settust að til rólegheita á Öldrunarheimilinu Skálarhlíð síðustu árin.

Jónína kona hans lést 17.1. 1994, og nú eru þau aftur á ný sameinuð í nýjum heimkynnum í óravíddum eilífðar og algleymis, sem jarðbúum er ekki auðið enn að skilja til fulls. Blessuð sé minning þeirra.

Að leiðarlokum kveð ég tengdaföður minn með kæru þakklæti fyrir allt. Hann var mætur maður, sem mat gildi lífsins og gerði öllum gott. Slíkum mönnum er gott að kynnast ­ og minnast.

Vertu sæll, og ég sendi öllum afkomendum þínum, frænd- og skyldu-, tengda- og venslaliði, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þegar hann varð áttræður 11. maí 1995 sendi ég honum nokkrar stökur með afmæliskveðjunni, og mig langar að ljúka þessum minningum mínum um hinn mæta mann, með þessum sömu stökum.

Sæmund Jónsson, kappann kenni,

kátan, glaðan hverja stund.

Hann er áttrætt öldurmenni,

eitilhress með létta lund.

Ganga hans í gegn um árin,

gæfuspor um langa tíð,

þó að gamals gráni hárin

göngu herði ellin stríð.

Til verka jafnan var hann hagur

vélar ­ smíði ­ hans var fag.

Líf hans allt einn dýrðardagur,

drengur kann á öllu lag.

Björg í bú á sjóinn sótti,

sýndi djörfung, kjark og þor.

Mætti honum aldrei ótti,

allt fram fór sem blíðu vor.

Fiðluboga fimum höndum

fór um strengi, ljúft var lag.

Glæddi hjörtun, græddi sárin,

gleðin ómar sérhvern dag.

Létti mörgum lífsins stundu,

lék á strengi kærleikans.

Ljúfum tónum allir undu,

aldnir muna leikinn hans.

Kær kveðja.

Gunnar Gunnarsson.