Síldarborgin

Síldarborgin víð íshafið

Nýja dagblaðið 11 ágúst 1936

Há fjöll lykja um Siglufjörð á þrjá vegu og torsótt yfir að fara. Eftir því sem bærinn óx, varð Siglfirðingum tilfinnanlegra að vera innibyrgðir við þröngan fjörð. Jafnhliða áhuga fyrir atvinnurekstrinum, síldarbræðslunni og hafnarmannvirkjunum, varð það brennandi áhugamál fyrir bæjarbúa að brjóta skarð í múrinn, að koma akvegi yfir Siglufjarðarskarð ofan í Fljótin og þaðan með Skagafirði austanverðum inn í vegakerfi landsins.

Þá mætti fara í bifreið milli Siglufjarðar og Akureyrar á einum degi um sumartímann. Bernharð Stefánssyni og Einari Árnasyni tókst að koma þessum vegi í þjóðvegatölu árið 1933. En þar með var vandinn ekki leystur. Vegurinn var afar dýr, sennilega ekki minna en 400 þús. kr.

En Siglfirðingar sjá mikil auðæfi fara í gegn um hendur sér og eru ekki hræddir við tölur þó að þær séu nokkuð háar. En Siglfirðingum fór í þessu eins og hermönnum Napóleons áður en hann leiddi þá í fyrsta sinn yfir Alpafjöllin og niður á Pó-sléttuna. Siglfirðingar sáu í anda gras og gróður í Fljótunum. Þegar vegur var kominn yfir fjallið gátu þeir á sumrin brugðið sér á hálfri stundu yfir skarðið frá ys og erfiðleikum annatímans yfir í eina hina. frjósömustu og hlýlegustu byggð á Íslandi. Þar gátu þeir haft tún, garða, sumarhús og angan af grænu grasi.

Og Siglfirðingar sendu eins og vant var leiðtoga Framsóknarmanna í kaupstaðnum til Reykjavíkur til að hrinda vegarmálinu áfram. Á fjárlögum voru 15 þús. kr. En Þormóði Eyjólfssyni tókst að útvega 10 þús. kr. í atvinnubótafé handa bænum og 20 þús. kr. að láni, með góðum kjörum, móti ríkissjóðsstyrknum. En þessu lánsfé fylgdi það skilyrði að því yrði varið til vegar yfir Siglufjarðarskarð. „Vex hugur er vel gengur." Siglfirðingar fundu að hér var um að ræða mál sem þeim kom öllum við.

Og á skömmum tíma var búið að safna gjafaloforðum um vinnu 4500 dagsverkum frá Siglfirðingum til að brjóta skarð í fjallamúrinn, sem skilur þá frá öðrum byggðum. Vegurinn liggur nú frá kaupstaðnum inn dalinn og þaðan í vesturátt upp fjallshlíðina. Í vor var hann kominn meira en hálfa leið upp í skarðið og í sumar er búist við að miklu verði bætt við. En fyrsta átákið var djarfmannlegt.

Á einu sumri var unnið fyrir nálega 80 þúsund kr. Fáir hafa sýnt meiri áhuga og meiri fórnfýsi við að brjóta niður gömlu skilveggina milli byggða og héraða. Héðan af er fullséð að eftir nokkur missiri verður komin akvegur yfir Siglufjarðarskarð. Þá mun straumur bifvagna streyma dag og nótt víða að meðfram Skagafirði austanverðum og yfir fjallaskarðið norður í síldarbæinn mikla, sem vill ekki láta sér nægja með að vera mikil gullnáma, heldur vill líka vera mikill menningarbær.

J. J.