Sigfús Steingrímsson

mbl.is - 14. maí 2005

Sigfús Magnús Steingrímsson fæddist á Siglufirði hinn 24. september 1942. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut hinn 2. maí síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Ester Sigurðardóttir, f. 15.9. 1912, d. 7.5. 1999, og Steingrímur Magnússon, f. 3.10. 1918, d. 7.6. 1987.
Systkini Sigfúsar eru
Ólöf, f. 10.10. 1945,
Sólveig, f. 17.8. 1948, og
Sigurður, f. 20.10. 1951.

Hinn 31. desember 1965 kvæntist Sigfús Sædísi Eiríksdóttur frá Húsavík, f. 1.6. 1944. Foreldrar hennar voru Eiríkur Friðbjarnarson, f. 13.3. 1904, d. 28.11. 1970, og Anna Kristbjörg Frímannsdóttir, f. 30.4. 1912, d. 22.10. 1985. Sigfús og Sædís bjuggu öll sín hjúskaparár á Siglufirði og eignuðust þau þrjú börn.
Þau eru:
1) Steingrímur, f. 24.10. 1966, maki Kolbrún Jónsdóttir. Börn þeirra eru Eva Dögg, Brynjar Daði, Anna María og Steingrímur Magnús. 

2) Ester, f. 23.3. 1969, maki Jón Jónsson. Börn þeirra eru Dagrún Ósk, Arnór, Sigfús Snævar og Jón Valur. 

3) Eiríkur, f. 29.9. 1973, maki Margrét Kristinsdóttir. Börn þeirra eru Sædís og Arna Lind.

Sigfús starfaði lengst af sinni starfsævi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, en einnig hjá Þormóði ramma hf., rækjuvinnslunni Pólar hf. o.fl. Sigfús gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Siglufjarðarkaupstað, m.a. í umboði Alþýðuflokksins, auk þess að vera heilbrigðisfulltrúi og í kjörstjórn til margra ára. Sigfús var einnig virkur í félagsstörfum og stóð þar hæst Bridgefélag Siglufjarðar.

Útför Sigfúsar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir,
og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Ástar- og saknaðarkveðja.

Eiginkona.
---------------------------------------------------

Elsku pabbi, það er erfitt að skrifa þessi orð til að kveðja þig. Það eru margar minningarnar, en erfitt að koma þeim á blað. Þú kenndir okkur svo margt sem við búum að og ótal minningar frá því við vorum lítil koma upp í hugann.

Þegar við krakkarnir vöknuðum á aðfangadagsmorgun var pabbi alltaf búinn að vera langt fram á nótt að skreyta húsið, þú varst alltaf svo mikið jólabarn. Jólahúsin sem þú smíðaðir fyrir okkur börnin þín eru ómetanleg.

Ég man svo vel eftir stoltinu og gleðinni þegar þú hélst í fyrsta skipti á litlu stelpunni minni, fyrsta barnabarninu. Þið mamma voruð svo ánægð með öll barnabörnin ykkar, þú hefur alltaf verið svo mikið fyrir börn, þeirra missir er mikill. Þú varst mikill spilamaður alla tíð, bridge var spilað á hverju mánudagskvöldi í mörg ár og bikararnir eru í tugatali.

Í fyrrasumar komuð þið mamma, bræður mínir og þeirra konur og börn á Kirkjuból til okkar til að halda upp á 60 ára afmæli hennar mömmu. Það voru góðir dagar. Veikindi þín hafa verið mikil síðustu sex árin, þú stóðst þig vel og komst langt á jákvæðninni, hörkunni og lífsviljanum, en að lokum var það ekki nóg og þú varðst að láta undan. Mamma hefur staðið eins og klettur þér við hlið þessi ár, farið með þér allar ferðirnar til Reykjavíkur þegar þú þurftir að fara til læknis. Það verður skrítið að koma á Sigló þegar þú ert ekki þar. Við biðjum Guð að styrkja mömmu.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
(Hallgr. Pét.)

Þín dóttir, Ester og fjölskylda.
----------------------------------------------------------------

Í dag er komið að kveðjustund, elsku tengdapabbi. Það eru svo margar og góðar minningar sem koma upp í hugann á þessari stundu, t.d. þegar ég hitti þig og Sædísi fyrst en það var um áramótin 97-98. Þar strax mætti mér þessi mikla hlýja sem einkenndi ykkur og heimili ykkar. Ég var svo heppin að fá að búa hjá ykkur í nokkra mánuði og voru það ófáar kvöldstundirnar sem setið var í stofunni eða við eldhúsborðið og spjallað saman fram á nótt. Eftir að við Eiki fluttum suður vorum við svo heppin að hafa aukaherbergi til að leyfa ykkur Sædísi að gista og eru það afar dýrmætar stundir þrátt fyrir að þær væru þér oft erfiðar vegna veikinda þinna. Í þessi tæp sex ár sem þú barðist við veikindin heyrði ég þig aldrei tala á neikvæðum nótum, heldur var það dugnaðurinn, jákvæðnin og bjartsýnin sem skein af þér og var þetta svo sannarlega þitt einkenni. Það voru nú ófáar ferðirnar sem þú og hún Sædís litla dóttir okkar löbbuðuð í tröppunum í Lundarbrekkunni til að æfa þig, því þótt ekki hafi verið góð æfingaaðstaða fyrir hendi þá notaðir þú bara það sem til var hverju sinni og má þar nefna alla göngutúrana á ganginum á spítalanum heima á Sigló. Því miður fékk hún Arna Lind okkar ekki að kynnast afa sínum nema í rétt rúmt ár en við verðum dugleg að segja henni frá þér, en ef hún sér mynd af afa réttir hún upp höndina og er þá að gera æfingarnar eins og afi gerði alltaf.

Elsku Fúsi, ég vil líka þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem ég og fjölskyldan mín höfum átt með ykkur Sædísi hérna heima á Sigló en það hefur verið stór hluti af okkar lífi að komast norður til ykkar í heimsókn. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir, Margrét Kristinsdóttir.
------------------------------------

Elsku afi, þegar við kveðjum þig núna koma margar góðar minningar upp í hugann. Við munum þegar þú varst enn frískur og varst að vinna og lyftir okkur upp í lyftarann til þín og leyfðir okkur að stýra. Við vorum vön að vera hjá ykkur ömmu á Sigló eftir skólann á vorin og fram yfir 17. júní, þú gafst okkur alltaf kleinuhringi þegar við komum í heimsókn til ykkar því okkur finnst þeir svo góðir. Við fórum í berjamó og tíndum helling af berjum, þér fannst bláber með miklum rjóma svo góð.

Svo smíðaðir þú handa okkur falleg leikföng eins og barbíhús, dúkkurúm, dýrahús, fuglahús og kassabíl. Það þótti okkur svo vænt um. Þegar Arnór fór á fyrsta fótboltamótið í Borgarnesi fóru afi og amma með okkur og við vorum í sumarbústað, það var skemmtilegt. Í fyrrasumar fórstu með okkur út á gamla flugvöll og leyfðir okkur að stýra bílnum þínum eins og þú leyfðir mömmu þegar hún var krakki.

Eftir að afi varð veikur fórum við oft á spítalann til að heimsækja hann, svo fórum við með honum til að þjálfa sig uppi á sjúkrahúsi. Við söknum þín svo sárt, þú varst alltaf svo góður við okkur. Við elskum þig. Við sjáum þig á hverju kvöldi, þú ert skærasta stjarnan á himninum. Biddu Guð að passa ömmu.

Dagrún Ósk, Arnór, Sigfús Snævar og Jón Valur.
---------------------------------------------------

Elsku afi, við elskum þig og söknum þín. Takk fyrir að vera besti afi í heimi. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman bæði þegar við komum í heimsókn til þín á Siglufjörð og þú til okkar í Reykjavík. Þú varst alltaf svo góður og skemmtilegur við okkur. Okkur langar að hafa þig hjá okkur, en við vitum að þér líður vel núna hjá Guði.

Elsku bestu afi, þú lifir alltaf í hjarta okkar. Við hugsum alltaf um þig þegar við förum með bænirnar á kvöldin með pabba og mömmu.
Við vitum að þú ert fallegasti engillinn á himninum og Guð passar þig.

Steingrímur Magnús,
-----------------------------------------------------

Anna María, Brynjar og Eva.

Elsku afi, núna ertu hjá Guði og orðinn fallegur engill. Ég sakna þín mikið en núna get ég farið út í glugga og talað við þig og séð afa tunglið. Ég man hvað það var alltaf gaman að koma til ykkar ömmu á Sigló. Þá fékk ég alltaf ís hjá þér, þú áttir alltaf til ís í frystikistunni. Ég man þegar þið pabbi voruð að laga húsið og ég fékk að fara upp í lyftarann hjá þér. Það var líka svo gaman þegar ég fékk að sulla með garðslönguna í garðinum. Það var líka gaman þegar þið amma komuð og gistuð hjá okkur í Lundarbrekkunni.

Afi ég skal vera dugleg að segja henni Örnu Lind systur minni frá þér af því að hún er svo lítil og man ekki eftir þér. Ég skal líka vera dugleg að safna kröftum og senda þér eins og ég gerði alltaf þegar þú varst veikur.

Þín afastelpa, Sædís.
-----------------------------------------------------

Elsku stóri bróðir minn.
Mér veitist fremur erfitt að koma orðum á blað, mig skortir skilning á tilgangi hins mikla skapara. Þótt ljóst væri að hverju stefndi er erfitt að trúa því að þú skulir ekki vera hér lengur.
Þú varst mín fyrirmynd, alltaf svo hlýr og kær.
Ég vil þakka þér, Sigfús minn, fyrir að hafa átt þig sem bróður, ég á eftir að sakna þess mikið að sjá þig ekki eða heyra.
Þú stóðst þig eins og hetja í öllum þínum hremmingum, ég er svo stolt af þér.
Það var unun að sjá hversu mikil ást og hlýja var milli þín og Sædísar, ég sá takmarkalausa umhyggju ykkar hvort fyrir öðru, ég sá vonir vakna og slokkna, en best og lengst ætla ég að muna öll góðu árin með þér, elsku bróðir.
Síðustu vikurnar reyndi mikið á alla fjölskylduna, en, Sigfús minn, þú kvaddir með reisn.

Þetta erindi var svo sterkt í huga mínum síðustu stundirnar hjá þér:

Krjúpum hljóð við hvílu þína,
klökk við heyrum dauðans óm.
Vekur rödd hans söknuð sáran,
svíður undan slíkum róm.
Þegar byrstur kallar: Komdu,
kveðja verður börn og mann
þarf að hlýða miklum mætti
miskunn enga sýnir hann.

(Höf. ók.)

Ég kveð þig, elsku stóri bróðir minn, og bið góðan Guð að vera með Sædísi og allri fjölskyldunni, styrkja hana og vernda um ókomna tíma.

Þín systir Sólveig.
----------------------------------------------------------------

Frændi minn og vinur, Sigfús M. Steingrímsson, lést langt um aldur fram eftir að hafa átt í hetjulegri baráttu við illvígan sjúkdóm síðastliðin ár.

Hann var einn af þessum fágætu ,,karakterum", sem allt vildi fyrir aðra gera, án þess að ætlast til nokkurs í staðinn.

Hann var mér mikill og góður félagi á okkar bernskuárum á Siglufirði, en þangað fór ég allar götur frá eins árs aldri og fram á unglingsárin á hverju sumri. Eftir það varð minna um samskipti, en þó gat ég heimsótt hann nokkrum sinnum undir það síðasta og undraðist ég í hvert skipti æðruleysi hans yfir sínum hlut.

Það var margt brallað saman á þessum unglingsárum okkar, og lít ég svo á að hann hafi verið mér eins og bróðir, og gætti mín vel, en hann var þremur árum eldri en ég.

Ekki vorum við háir í loftinu þegar við vorum komnir í vinnu á síldarplaninu hjá Stjána á Kambi, en Guðrún kona hans var systir mæðra okkar Fúsa. Vorum við m.a. í því að færa söltunarstúlkunum ,,hringi" til upphækkunar á síldartunnurnar, og urðum við að vera snöggir til, því annars fengum við það óþvegið frá þessum annars ágætu ,,stúlkum".

Þegar færi gafst á var fótbolti stundaður af kappi, sem og að fara á bryggjurnar með færi og veiddum við oft vel og var aflinn síðan lagður inn og vorum við mjög stoltir yfir þeim aflahlut sem fyrir aflann fékkst.

Það væri efni í heila bók, ef allt yrði tíundað sem við tókum okkur fyrir hendur á þessum árum og því ekki pláss fyrir slíkt hér.

Þessi ár voru mér ógleymanleg og lærdómsrík og á ég Fúsa mikið að þakka og reyndi af veikum mætti að launa honum það sem hann gerði fyrir mig á Siglufirði, þegar hann og félagi hans, Raggi, komu á vertíð í Eyjum og gistu í kjallaranum á Heiðarveginum.

Fúsi var einstaklega hjartahlýr og einlægur maður. Mikið hefur reynt á Sædísi eiginkonu hans, en hún hefur staðið sem klettur við hlið hans í hans erfiðu veikindum. Við Katla sendum þér og börnum þínum, þeim Steingrími, Eiríki, Ester og fjölskyldum þeirra, okkar innilegustu samúðarkveðjur, sem og systkinum Fúsa.

Með Guðs blessun. Óskar Einarsson.
--------------------------------------------------------------------

Að leiðarlokum kveð ég þig, Sigfús minn. Þú lagðir aftur augun og laukst þínu veikindastríði með þvílíkri reisn, að mér féllust hendur. Hvaðan þú fékkst allan þennan styrk? Veikindastríð þitt hafði staðið í sex ár og oft staðið tæpt. Alltaf stóðst þú upp og barðist, þinn tími var ekki kominn og þú ætlaðir að sigra, þó að leiðarlokum hafir þú vitað í hvað stefndi.

Sigfús minn, þú varst í alla staði vel gerður og með frábært skap. Þú varst okkar ættarhöfðingi á Siglufirði, vel að þér í bæjarmálum, fastur fyrir í pólitík og mikill bridsspilari. Ef einhver vogaði sér að hallmæla Siglufirði, fórstu í þvílíka varnarstöðu, þarna væri besta fólkið, besta veðrið og best að búa, sem sagt sannur Siglfirðingur.

Tvisvar sinnum í þínu veikindastríði ætluðuð þið Sædís að bregða undir ykkur betri fætinum og fara til sólarlanda. Í seinni ferðinni hafðir þú í huga að heimsækja vin þinn á Benidorm, en í báðum tilvikum endaði ferðalagið á sjúkrahúsi. Þessum tíðindum tókst þú með eindæmum stakri ró og yfirvegun.

Þú varst í alla staði frábær afi. Það var sem afabörnin væru þér alltaf mjög ofarlega í huga, enda voru þau sem límd við þig, og þar sem þú varst handlaginn með meiru, smíðaðir þú handa þeim frábært eintak af kassabíl, þar sem hugsað var fyrir öllu, handbremsa, speglar, númeraplata, alveg með öll smáatriði á hreinu. Í slæmum vetrarveðrum, og þegar þú hafðir heilsu til, dundaðir þú þér einnig við að smíða jólahús. Þau eru nú til minnis um þig á heimilum barna þinna og munu þau lýsa skært á jólum komandi ára.

Þá áttir þú, ásamt Sigurði bróður þínum, frumkvæði að kaupum á ljósakrossinum er lýsir upp kirkjugarðinn á Siglufirði. Hann er gjöf frá ykkur systkinunum til minningar um foreldra ykkar, þau Steingrím Magnússon og Ester Sigurðardóttur. Ljós krossins mun um ókomna framtíð, verma hjörtu okkar og lýsa minninguna um þig líka, Sigfús.

Í huga mínum ertu frábær vinur og mikil hetja. Þú skilur eftir þig stórt gap, bæði hjá fjölskyldum og vinum. Það var alltaf notalegt að koma í heimsókn til ykkar Sædísar á Fossveginum, fá að setjast í besta stólinn, stólinn þinn, og horfa með þér á fótboltaleik í sjónvarpinu.

Þær voru orðnar ansi margar, ferðirnar sem ég fór á spítalann að heimsækja þig, Sigfús. Þér tókst einhvern veginn alltaf að gera þessar ferðir notalegar. Þó þú vissir hvert stefndi, þá hvorki kvartaðir þú né kveinaðir, lifðir alltaf í voninni, svo jákvæður um að allir væru að vinna í þínum málum og gera sitt besta.

Elsku Sædís og fjölskylda, ég votta ykkur alla mína samúð. Að Sigfúsi er mikill missir, og erum við öll einum fátækari. Höldum áfram að standa saman eins og við gerðum við sjúkrabeð Sigfúsar.

Jónas Jónsson.

Okkur langar í örfáum orðum að minnast Fúsa vinar okkar. Kynni okkar hófust fyrir mörgum áratugum og þá oftast við bridge-spilaborðið. Hann var góður bridgefélagi og í hópi bestu spilara í Bridgefélagi Siglufjarðar. Þeir voru heppnir sem fengju að njóta þess að hafa Fúsa sem makker því geðbetri mann við spilaborðið var vart hægt að finna og naut Björk þess í mörgum keppnum. Við minnumst ekki þess að hann hafi nokkru sinni skammast yfir óförum makkers síns við spilaborðið en að sjálfsögðu bent á það sem betur mátti fara á þann hátt að eftir var tekið.

Barátta Fúsa við langvarandi sjúkdóma undanfarin ár var erfið og hefur örugglega reynt mikið á sálarþrek hans. Þrátt fyrir það var hann ávallt glaðlegur og jákvæður þegar fundum okkar bar saman og trúði því að hann næði bata á ný. Hann var mikill jafnaðarmaður og hafði miklar skoðanir á stjórnmálum þessa lands en bar þó fulla virðingu fyrir skoðunum annarra.

Fúsi var handleiksmaður mikill og hafði gaman af að búa til hina ýmsu hluti fyrir börn sín og barnabörn. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hvernig fjölskylda hans hefur staðið við bakið á honum í þessum langvarandi veikindum. Æðruleysi og umhyggjusemi þeirra bar vitni um að fjölskylduböndin voru sterk

Þó sorgin sé mikil erum við líka þakklát fyrir að þrautum Fúsa hér skuli vera lokið. Við fáum seint skilið hversu mikið hægt er að leggja á mann í þessu lífi, en einhver hlýtur tilgangurinn að vera.

Við biðjum góðan Guð að varðveita Sædísi, börnin, tengdabörnin og barnabörnin og gefa þeim styrk í sorg þeirra og vitum að minningin um mætan fjölskylduföður mun ylja þeim um ókomin ár.

Hvíldu í friði, kæri vinur. Björk og Jón.
---------------------------------------------------------------------

Kæri skólabróðir og vinur. Það er sárt til þess að vita að þú sért farinn frá okkur, þú varst svo duglegur og bjartsýnn á lífið. Þú varst svo ákveðinn í að láta þér batna en varðst að lokum að láta undan þessum illvíga sjúkdómi eftir tæplega sex ára baráttu. Allan þennan tíma stóð Sædís sem klettur við hlið þér. Margs er að minnast. Fyrst skólaáranna á Siglufirði, þá skildu leiðir í nokkur ár en þegar við vorum orðnir fullorðnir voru kynnin endurnýjuð aftur með fermingarmóti á Siglufirði. Þá tókst með okkur góð vinátta sem hefur staðið síðan. Einnig er hægt að minnast á vel heppnuð fermingarmót sem voru hvert öðru betra. Þó held ég að upp úr standi sumarfríið sem við fórum saman til Danmerkur. Það var alveg ógleymanleg ferð, margt skoðað og prófað. Ferðin tókst vel og var öll hin skemmtilegasta.

Þó lengra hafi verið á milli okkar síðustu þrjú árin þá höfum við alltaf verið í góðu sambandi og oftast nær hittumst við þegar þið voruð fyrir sunnan og við vorum heima.

Góður maður er genginn, ég veit að hann uppsker nú eins og hann sáði.

Ég og fjölskylda mín vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

Drýpur sorg á dáins vinar mann,
drottinn huggaðu alla er syrgja hann.
Börnin ung sem brennheit fella tár,
besti faðir, græddu þeirra sár.
Þú ert einn sem leggur líkn með þraut
á lífsins örðugustu þyrnibraut.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Jóhann Þorsteinsson.
---------------------------------------------------------------------------------

Nú vantar fjórða manninn! Fúsi var félagi í Bridgefélagi Siglufjarðar í rúm 40 ár. Alltaf mætti hann á alla spilafundi sem hann hafði tök á og var í raun einn af hornsteinum félagsstarfsins, en það var einmitt um það leyti sem hann hefði annars mætt á spilakvöld að Fúsi kvaddi þennan heim sl. mánudag. Þetta mánudagskvöld var einmitt verið að keppa um bikar milli norður- og suðurbæjar, sem Fúsi hafði til varðveislu sl. ár, þar sem hann var fyrirliði þess liðs sem vann bikarinn fyrir ári. Hann var góður spilari og það sem meira var að hann var góður félagi. Hans verður sárt saknað. Fjölskyldu Sigfúsar vottum við okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Sigfúsar Steingrímssonar.

Félagar í Bridgefélagi Siglufjarðar.