Árið 1943 - Kyndaraverkfallið

Kyndaraverkfallið 

Neisti, 28. ágúst 1943

Blaðinu hafa borist nokkrar greinar varðandi deilu kyndaranna við ríkisverksmiðjurnar og verkstöðvun, sem þar varð í því sambandi.

Rúmsins vegna er ekki hægt að birta allar þessar greinar, en úr þeim helstu birtast hér megin atriðin.  

Hverjir áttu frumsökina að deilunni?

Um það verður ekki deilt, að frumorsök þessarar deilu á framkvæmdastjóri verksmiðjanna, Jón Gunnarsson og enginn annar.

Hann skipaði svo fyrir, að kyndurum, skyldi greitt kaup, sem var miklu lægra en samningur Þróttar sagði til um.

þegar um þetta var kvartað við hann, vildi hann engu um breyta og jafnvel ekki tala við kyndarana. Ef að hann hefði strax í upphafi greitt þessum mönnum samkvæmt gildandi samningum, hefði, aldrei til neinnar deilu komið.

Er það furðulegt, að stjórn verksmiðjanna skyldi ekki kynna sér þetta atriði, áður en hún lagði út í vafasamar skýringar á samningi Þróttar.

Að vísu er verksmiðjustjórninni nokkur vorkunn, þar sem trúnaðarmaður Þróttar, Þóroddur Guðmundsson, tilkynnir henni bæði bréflega og munlega, að ekki séu samningar til um yfirvinnukaup kyndaranna, sem vitanlega var líka fráleitt.

Það er ekki víst, að til verkstöðvunar hefði komið, ef Þóroddur hefði, í umboði kyndaranna, krafist þeirrar sömu leiðréttingar, sem þeir fóru fram á við framkvæmdastjórann og starfsmenn hans.Sök framkvæmdastjórans er síst minni þar fyrir. Honum bar að skýra verksmiðjustjórninni frá þeim óánægju, sem orðin var meðal kyndaranna, og sem stafaði að miklu leyti af fruntaskap hans og stórmennsku.

Það er alkunna, að framkvæmdastjórinn kýs helst, að umgangast verkamenn verksmiðjanna eins og auðugir plantekrueigendur í Bandaríkjunum umgengust hina þeldökku vinnumenn á bómullarekrunum fyrir daga Abrahams Lincolns.

Slík framkoma er ekki til þess fallin að auka samhug og hlýjan hug verkamanna til fyrirtækisins, heldur getur hún orðið til þess að valda deilum út af mestu smámunum, deilum, sem valdið geta landsmönnum öllum óbætanlegu tjóni.

Verkamenn eiga heimtingu á því, að þeim sé sýnd full virðing í allri umgengni. en ekki látið eins og þeir séu ekki til, séu bara loft, eða jafnvel flæmdir frá störfum sínum, eins og komið hefur fyrir hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. 

Stjórn ríkisverksmiðjanna skýrir rangt frá í greinargerð sinni.

Stjórn ríkisverksmiðjanna hefur gefið út greinargerá um málið, sem birt hefur verið í sunnanblöðunum.

Það vekur enn hina mestu furðu, að rangt er skýrt frá atriðum sem máli skipta í þessari greinargerð. Það er alrangt, að kyndurum hafi verið greidd 10% ofan á sunnudagavinnu. Þeir fengu hana greidda eftir sama taxta og venjulegir daglaunamenn.

Verksmiðjustjórn hefur hér trassað að leita sér réttra upplýsinga, því að varla er unnt að ímynda sér, að þetta sé vísritandi ranghermt.

Framkvæmdastjórinn ber hér sem fyrr höfuðsök, því að hann átti að vita þetta. Þá kemur það heldur ekki fram, hvað á undan var gengið, og reynt að koma sökinni á hendur kyndurunum, sem vissulega í upphafi gerðu ekki annað en að leita réttar síns.

Þrákelkni að leiðrétta það brot, sem, á þeim var framið og fyrirlitning, sem þeim var sýnd við hóflegum umkvörtunum þeirra áttu sina meginþátt í því hvernig fór. Það er hægt á ýmsan hátt með stirfni, stórbokkaskap, mikilmennsku og skorti á umgengnissiðmenningu að framkalla ýmsar aðgerðir, sem annars hefðu ekki átt sér stað.

Það atriði hefði verkmiðjustjórnin átt að kynna sér. Sveini Benediktssyni hefði a.m.k. átt að vera þetta ljóst, eftir þá lýsingu, sem fyrir liggur prentuð frá hans hendi á skapferli framkvæmdastjórans.

Er þetta sjónarmið verkamannsins?

Mjölnir 11. ágúst birtir umsögn þriggja sunnanblaða um kyndaraverkfallið. Telur hann, að í þessum blöðum komi fram sjónarmið atvinnurekandans og verkamannsins.

Ummæli Þjóðviljans um málið eru m.a. þessi:

"Stjórn síldarverksmiðjanna stöðvar allar síldveiðar á Siglufirði til að þrýsta niður kaupi nokkurra kyndara."(Leturbreyting hér).

Hvað segir stjórn Þróttar um þetta? Lætur hún það viðgangast án þess að hreyfa legg eða lið, að atvinnurekendur hefji verkbann til þess að þrýsta niður kaupi félagsmanna?

Getur það verið að stjórn, trúnaðarmannaráð, og yfirleitt allir þeir, sem fremst standa í félagsskap verkamanna hér á staðnum, séu sammála um það að telja verkstöðvun, sem gerð er af atvinnurekanda til þess að þrýsta niður kaupi, sér óviðkomandi?

Svarið við öllum þessum spurningum verður vitanlega neitandi. Þróttur mundi að sjálfsögðu beita öllu sínu afli til þess að stöðva slíka árás.

Þessi ummæli Þjóðviljans eru hreinasta fjarstæða og hafa ekki við neitt að styðjast. Verkamönnum er áreiðanlega enginn greiði gerður með því, að skýra jafn rangt frá staðreyndum og hér er gert, og það er óvirðing við verkamenn, að telja lygina og fjarstæðurnar þeirra sjónarmið.

------------------------------------------------------