Hafliði Guðmundsson kennari

Hafliði Guðmundsson kennari

Hafliði Guðmundsson kennari Heimili: Aðalgötu 17  Siglufirði 

Fæðingardagur: 14-02-1921 Kirkjugarður: Fossvogskirkjugarður. Dánardagur: 16-05-1981 Jarðsetningardagur: 22-05-1981 -- Aldur: 60 ára 

Virtur og elskaður Siglfirðingur hefur yfirgefið mannheima. Hafliði vinur okkar og frændi var einstæður maður því hann gat ekki eitt heldur gat hann allt. Hann kenndi við Gagnfræðaskólann á Siglufirði í 30 ár, aðallega reikning og eðlisfræði.

Hafliði var góður hljómlistarmaður, ágætur söngmaður og orti snilldarlega þegar hann vildi við hafa, en þá gáfu hefur hann eflaust sótt til afa síns Páls Árdals skálds með meiru. Hafliði var stórteiknari og ágætur málari og eru margar gullfallegar myndir til eftir hann víða á landinu. - Þær eru ekki ófáar ökuferðirnar, sem Hafliði og Þura, eftirlifandi elskuleg eiginkona hans, fóru inn að Hrauni og fram í Fljót til að njóta sameiginlega hins himneska sólarlags, sem gerði svo oft vart við sig í myndum Hafliða og ljósmyndum.

Það þarf ekki að segja Siglfirðingum frá Hafliða og Þuríður Helgadóttir. Það vita allir hversu einlægt og elskufullt samband var á milli þeirra hjóna. 

Hafliði og Þura áttu einn son, 

Guðmundur Hafliðason tannlækni í Reykjavík, en hann hefur svo sannarlega erft hina góðu kosti foreldra sinna.

Makir Auður Yngvadóttir sellóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit íslands.

Síðustu árin var Hafliði mikill áhugamaður um golf og brást ekki, ef veður og heilsa leyfði, að hann færi fram að Hóli til að spila með félögum sínum. Kynni mín af Hafliða eru mjög minnisstæð. Þegar ég gifti mig fyrir 17 árum var ákveðið, að við færum norður á Siglufjörð til að hitta ættingja og vini konunnar. Það var auðvitað Hafliði og fleira gott fólk, sem stóð í fararbroddi við komuna inni í Fljótum, því ekki kom til greina að við keyrðum umkomulaus yfir og í gegn um Siglufjarðarkaupstað á svo merkum tímamótum.

Ekki kom þessi hrókur alls fagnaðar síður á óvart um kvöldið heima hjá tengdaforeldrunum, Hirti Ármannsyni og Sigríði Guðmundsdóttur, að Norðurgötu 1 í gamla Hafliðahúsinu, þegar hann söng hvert kúrekalagið af öðru með fullum texta og auðvitað á ensku. Þetta gaf gamla Hafliðahúsinu heimsborgaralegan blæ og kom manni sannarlega á óvart að hitta mann norður á Siglufirði, sem gat sungið og spilað svo frábærlega kúrekalög frá Ameríku. Kveðjuathöfnin á Siglufirði var sterk og einlæg.

Skólabörnin fjölmenntu við kirkjuna til að votta kennara hinstu samúð og virðingu eftir hin mörgu ár við gagnfræðaskólann á Siglufirði. Litla flugvélin beið á flugvellinum eftir að flytja Hafliða og hans heitt elskuðu fjölskyldu suður til Reykjavíkur. 

Mannfjöldinn stóð dapur eftir með minningarnar einar um góðan dreng. Það var sorgarstund en hátíðleg hér fyrir sunnan við útför Hafliða sem sr. Emil Björnsson mágur hans flutti af svo miklum hlýhug. 

Hafliði var jarðsettur í Fossvogskirkjugarði 22. maí á fögrum stað við voginn, sem óneitanlega minnti á Siglufjörð nema hvað fjöllin vatnaði. 

Við vottum Þuru, Guðmundi og öðrum ástvinum dýpstu samúðar. 

Gísli

Hafliði Guðmundsson 

Ljósmynd: Kristfinnur