Viðtal: Karl Eskil

Viðtal Kalla Páls fréttamanns, við sk

(Ég er ekki viss um hverskonar viðtal þetta var sem Kalli tók við mig, skrifað eða flutt ?  Ég fann þetta á gömlum CD diski. sem Kalli sendi mér)

Steingrímur Kristinsson áhugaljósmyndari er einn þeirra sem setur sterkan svip á bæjarlífið á Siglufirði. 

Hann hélt um árabil úti upplýsingavefnum sksiglo.is (Lífið á Sigló) þar sem er að finna í máli og myndum margvíslegar upplýsingar um atvinnu- og mannlífið á Siglufirði síðustu áratugina. Stórframkvæmdirnar hafa sannarlega fengið sitt pláss á sksiglo.is

“Myndirnar sem ég hef tekið í tengslum við jarðgangagerðina skipta þúsundum. Ég hef ekki lagt í að telja þær en ekki er ólíklegt að þær séu um 3-4000, en þetta er nú bara skot út í loftið.
Ég setti nýjar myndir á heimasíðuna á hverjum fimmtudegi og sagði í leiðinni frá stöðunni, hversu marga metra væri búið að grafa og svo framvegis. Bæjarbúar fylgdust greinilega vel með strax frá upphafi og mátu þessa þjónustu mína.
Reyndar ekki bara bæjarbúar, því fólk af öllu landinu hafði samband við mig vegna þessara frétta. 

Karl Eskil Pálsson - Ljósmynd Sigurður Ægisson.

Tölvupóstarnir voru margir og ég reyndi eftir megni að svara þeim öllum. Þetta var í raun mín vinna og um leið áhugamál. Stundum var ekki hægt að svara öllum spurningum, en ég gerði mitt besta.”

Steingrímur myndaði líka þegar verið var að gera Strákagöng, sem vígð voru 1966. Þau göng tengja saman Siglufjörð og Fljótin í Skagafirði.

 “Ætli myndirnar sem ég tók í Strákagöngum séu ekki um tvö hundruð. Filmur voru dýrar í þá daga, en nú er öldin og tæknin önnur.
Þær myndir er hægt að sjá á heimasíðu minni, þannig að þær varðveitast og sýna ágætlega hvernig staðið var að framkvæmdum í þá daga.
Það er skemmtilegt að bera saman myndirnar úr göngunum tveim, tækniframfarir eru greinilega miklar en grunnurinn er auðvitað sá sami. Þetta er í raun eins og svart og hvítt.
Myndirnar úr Héðinsfjarðargöngum verða líka áfram á heimasíðunni, þannig að þessar heimildir mínar varðveitast vonandi.”

Eðli málsins kynntist Steingrímur starfsmönnum Háfells og tékkneska fyrirtækisins Metrostav. Hann ber þeim öllum vel söguna.

“Tékkarnir voru einstakir. Þeir voru nánast alltaf brosandi út að eyrum og hlýlegu faðmlögin voru mörg. Maður gat ekki komist hjá því að verða var við hversu mikil áhersla var lögð á öryggi á öllum stigum. Ég fylgdist með þegar verið var að sprengja. Þá skapast ákveðin hætta og þá fann maður greinilega hversu vel Tékkarnir hugsuðu um mann. Þeir hreinlega röðuðu sér í kringum mig til að vera vissir um að ekkert kæmi nú fyrir gestinn. Þannig var þetta alltaf þegar ég fór inn í göngin til að taka myndir. Þeir snérust í kringum mig og vildu allt fyrir mig gera, þjónustulundin var ósvikin. Ég kynntist nokkrum starfsmönnum Metrostav persónulega, enda gerðu þeir sér far um að kynnast heimafólki. Ætli megi ekki segja að brosið hafi verið þeirra aðalsmerki.”

Steingrímur segir að jarðgöngin komi til með að breyta miklu fyrir íbúa Siglufjarðar.

“ Já þau gera það svo sannarlega. Nú getur maður skroppið yfir í hinn enda bæjarins, Ólafsfjörð, ekki þarf lengur að fara yfir gamlan fjallaveg og jafnvel skemma bílinn í leiðinni. Sameining sveitarfélaganna er af hinu góða að mínu mati en ég er sannfærður um að ekki hefði verið hægt að sameina nema tengja þau almennilega saman. Göngin gera það. Það hefur löngum verið sagt að rígur væri á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en vonandi tekst að hrista íbúana vel saman á næstu árum þannig að allir geti í sátt og samlyndi unnið að heill Fjallabyggðar.

Þegar göngin verða tekin í notkun hefst nýr kafli í sameiningunni. Tilkoma þeirra þýðir auðvitað líka að nú verður hægðarleikur að fara í lágvöruverslanir og nálgast ýmsa sjálfsagða þjónustu sem ekki er til staðar hér.
Atvinnulega séð opnast líka  ýmsir möguleikar, bæði fyrir hinn almenna launamann og fyrirtækin í bænum. Bættar samgöngur hljóta alltaf að vera til góðs og þessi jarðgöng verða það örugglega fyrir okkur íbúa Fjallabyggðar.
Ég bendi líka á að til dæmis íbúar Ólafsfjarðar geta nú með auðveldum hætti sótt ýmsa þjónustu á sjúkrahúsinu hér á Siglufirði. Ekki má gleyma nýja menntaskólanum í Ólafsfirði. Það er dýrt að senda börn um langan veg í skóla, kostnaðurinn hefur jafnvel komið í veg fyrir slíkt nám.
Nú er staðan allt önnur, krakkarnir geta verið í foreldrahúsum áfram. Þetta gríðarlega stórt atriði fyrir okkur hér á Tröllaskaga.”

Steingrímur segist ekki kvíða verkefnaskorti, þrátt fyrir að þessum kafla í lífinu hjá sér sé nú lokið.

“Nei, því fer fjarri, það er enginn skortur á myndefni. Ég er núna að mynda fugla og held úti sérstakri heimasíðu; „Fuglar á Siglufirði“, það er tengill á síðuna mína á sksiglo.is. Viðfangsefnið er kannski gjörólíkt en grunnurinn er þó hinn sami.
Góð mynd segir meira en þúsund orð. Hvort um sé að ræða menn að bora jarðgöng eða kríu að huga að ungunum sínum.

Það voru forréttindi að fá að fylgjast með þessum stórframkvæmdum og fyrir það er ég þakklátur. 

Ætli ég geti ekki sagt að nú sé að hefjast nýr og spennandi kafli hjá áhugaljósmyndaranum.“

Karl Eskil Pálsson