Dyravarðaraunir

Hér áður fyrr var eitt af vandamálum dyravarða í Nýja Bíó, það hve margir reyndu að svindla sig inn.      

Það voru notuð við það allskyns brögð til að villa um fyrir dyraverðinum.

Ein aðferðin var að nota endann sem bíógestir héldu eftir þegar búið var að “rífa af” , fara með þá heim, jafnvel safna miðum sem hent hafði verið á gólfið og setja þá undir saumavélina hennar “mömmu”, án tvinna og gata eins og upphaflegi miðinn var.
Bíða svo þar til myndin var byrjuð og freista þess að dyravörður sæi ekki fölsunina í myrkrinu.-

Stundum tókst þetta, til dæmis ef margir komu á síðustu stundu og svindlarinn slóst í hópinn.
Þá var þetta stundum reynt þegar ös hafði safnast, framan við bíódyrnar, þegar spennandi myndir og eða frumsýning mynda var.  

Enn ein aðferðin til viðbótar var reynd, en það var að leita á gólfinu við dyrnar svo lítið bar á, að endum, (áhrifum) sem verið gæti að dyravörðurinn missti í traffík. Þá var endinn vandlega límdur við “hinn” endann sem viðkomandi hafði keypt á fyrri sýningu eða fundið á gólfinu. Einnig kom fyrir að svindlararnir leituðu í ruslatunnu bíósins eftir endum, og varð stundum vel ágengt.  

En dyraverðir hverju sinni voru fljótir að þekkja þá úr sem stunduðu svindl, og skoðuðu miða viðkomandi vandlega áður en þeir tóku ákvörðun um að hleypa þeim inn.  En alltaf komu nýir árgangar svindlara, svo dyraverðir þurftu sífellt að vera á verði.  

Enn einn vandi dyravarða var að fylgjast með unglingum sem lugu til um aldur til að komast inn á myndir sem bannaðar voru börnum 12, 14 eða 16 ára.  

Oft sköpuðust brosleg atvik í sambandi við það þegar einhverjum hafði tekist að “plata” dyravörðinn. 

Sem dæmi þá kom það fyrir að einstaka eigingjarn og sjálfselskur, sem dyravörðurinn hafði séð við, og séð að viðkomandi var ekki á þeim aldri sem hann þóttist vera, að viðkomandi óheppni átti það til að nefna þá með nafni sem inn höfðu komist án þess að hafa til þess aldur, og upphófst stundum ströng og erfið leit að slíkum krökkum, stundum tókst að hafa upp á þeim, en oft reyndist það ómögulegt, þegar margt var í bíó, fyrr en að hléi kom. (pása og sælgætiskaup)

Þá voru passarnir sem krakkar fengu, frekar ómerkileg plögg (tæknilega séð) og dæmi var um að krakkar fölsuðu þessi skilríki svo vel að ekki sást munur nema að, mjög vandlega væri að gáð, einnig var fæðingardögum breytt, viðkomandi sagðist heita allt annað (var þá með passa bróður síns eða vinar)  osfv. 

Ekki var barnaverndin alltaf á varðbergi, nema þá helst þegar einhver umtöluð mynd var í sýningu, því þá mættu bæði barnaverndarmenn og lögregluþjónar í fleirtölu (þeir fengu frítt í bíó út á embættin). 

Þá var betra fyrir unglingana, að vera ekki að reyna að svindla á aldri ef myndin var bönnuð.


Heimild: Steingrímur