Árið 1932 - Vinnudeilur

Frá Verksmiðjudeilunni.                  

Frétt í Siglfirðing,  9. júlí 1932  - Nýtt tilboð er komið frá stjórn Síldarverksmiðjunnar sem gengur nokkuð lengra en fyrra tilboð hennar. Er þar farið fram á að sunnudagshelgin verði stytt í 24 klukkustundir með 2 kr. kaupi. Að öðru leyti haldist kauptaxtinn óbreyttur. 

Verkamenn þeir sem í verksmiðjunni vinna samþykktu að ganga að þessu til­boði og í gærkveldi var haldinn fjölmennur fundur í Bíó sem samþykkti með 160 gegn 60 að ganga að þessu tilboði, með því skilyrði að Sveini Ben. yrði vikið úr stjórninni. 

Fundurinn í Bíó var mjög fjölmennur og leiddu þeir þar saman hesta sína hægfara jafnaðarmenn og Kommúnistar. Mönnum er nú farið að verða ljós tilgangur Kommún­ista um að gera alt sem hægt er til þess að verksmiðjan yrði stöðvuð. Enda var þeim bent á það á fund­inum, að tilgangur þeirra væri sá eini að koma hér á neyð, því þá mund þeim ganga betur að æsa upp fólkið. 

Tillögur þeirra í málinu hefðu allt af verið hinar fáránlegustu og gerðu það eitt að spilla fyrir heppilegu samkomulagi. Eins og t.d. tillaga Aðalbjörns skrautgripasala um það að loka bæjarfógetaskrifstofunni, landsímastöðinni og pósthúsinu. 

Kommúnistar deildu aftur hart á þá hægfarnari fyrir gífuryrði þeirra og fyrri samþykktir, bæði á borgarafundinum fræga (!!!) og Verkamannafélagsfundum. 

Varð Jóhann Guðmundsson aðallega fyrir barðinu á þeim, og fékk að sögn, slæma útreið Þarna mælti einnig á fundinum Finnur Jónsson, fulltrúi Alþýðusambandsins á Vesturlandi, og formaður bráðabyrðarstjórnar verksmiðjunnar, Þormóður Eyjólfsson. 

Finnur lagði gott eitt til málanna og benti mönnum á hinar slæmu horfur á allri afurðasölu. "Pínulítill kommúnisti" (Lúther Einarsson) hafði það eftir Kristjáni Dýrfjörð (!!) að mjöl væri hækkað um ½ pund sterling tonnið. Finnur og  Þormóður bentu á að slíkt mundi vera hin mesta fjarstæða, þar sem útlit með síldarafurðir færi alltaf versnandi. 

Annars var framkoma Þormóðs Eyjólfssonar mjög óheppileg. Hann gat ekki stillt sig um að blanda meðstjórnanda sínum, Sveini Benediktssyni á mjög svo óviðeigandi hátt inn í ræðu sinni. Var það gert i þeim eina tilgangi:að reyna að upphefja sig á kostnað Sveins Benediktssonar. Er slíkt ekki rétt gagnvart samverkamanni sínum fjarstöddum. 

Kommúnistar una hag sínum illa, en allir gætnari menn munu óska þess af heilum hug að fullar sættir komist á í þessu alvarlega og afleið­ingaríka máli. Vonandi strandar málið héðan af ekki á aukaatriðum, sem eru óskyld sjálfri kaupdeilunni. 

 ----------------------

Frétt í Siglfirðing, 16. júlí 1932 

Verksmiðjudeilan, Sætt. 

Deilan um rekstur ríkisverksmiðjunnar er nú loks á enda kljáð, og var byrjað að vinna þar á miðvikudaginn og tekið á móti fyrstu síldinni þar um kvöldið.

Deilunni lauk með þeim úrslitum, að verkamenn styttu sunnudagshelgina um 12 stundir (úr 36, niður í 24) og lækkuðu jafnframt sunnudagskaupið, þessar 24 stundir úr 3 kr. niður í 2 kr. - 

Hefði þetta verið sæmra fyrr gert, eða helst að hinn ósanngjarnlega hái taxti hefi aldrei verið settur, því það er verka. mönnum sjálfum ljóst, að hann hefir gert þeim óleik einn; rýrt atvinnu þeirra að miklum mun og verið smánarblettur á bæ vorum. 

Verkamannafélagið gerði það að skilyrði í samningunum um þetta, að Sveinn Benediktsson færi úr stjórn ríkisverksmiðjanna - Hverjum augum sem annars er litið á kaup­deiluna, þá verður það ekki varið, að sú krafa er vanhugsuð, ósanngjörn og heimskuleg.

Það er verkamönnum ljóst, ekki síður en öðrum, að Sveinn hefir verið langatkvæðamesti maðurinn í stjórn verksmiðjunnar og látið sér mjög annt um, að afkoma fyrirtækisins yrði góð, en undir góðri afkomu hvers fyrirtækis er það vitanlega komið, hvort það getur starfað, veitt atvinnu og goldið hátt kaup. - Verkamenn, eða sá hluti þeirra sem að þessu stóð, hafa því þarna hefnst á sjálfum sér. 

Sveinn Benediktsson hefir frá því fyrsta sýnt það, að hann lét sér annt um fyrirtæki þetta, hann skildi manna best hverja þýðingu góð afkoma þess hafði fyrir þjóðina og fyrir útgerðina sérstaklega, og hann kostaði kapps um að vinna, skyldu sína af þeim ástæðum, en ekki vegna launanna, enda kæmi slíkt illa heim við ummæli blaða Alþýðuflokksins, sem telja Svein hafa 30-50 þúsund króna árstekjur. 

Væru því launin við ríkisverksmiðjuna honum fremur lítilvæg. Það var áður fyrr ekki talið þakklætisvert, að maður rækti skyldu sína, en það er vissulega nú, því það er fremur sjaldgæft nú á tímum, að menn meti meir skylduna en aðköst manna og sýna eigin hagsmuni, en þetta hefir Sveinn sýnt, bæði með starfi sínu í stjórn verksmiðjunnar, en ekki hvað síst með því, að draga sig nú til baka frá því, af fúsum og frjálsum vilja, þegar hann hafði fengið framgengt þeim kröfum sem hann taldi nauðsynlegar fyrir verksmiðjuna, ef lausnarbeiðni sín gæti frekar stutt að því, að fyrirtækinu yrði borgið. 

Hér fara á eftir bréf þau sem fóru á milli Sveins og stjórnarráðs­ins um þetta, og sýna þau ljóslega það traust, sem stjórnin fyrr og síðar ber til Sveins í þessum málum og að ekkert annað en hagur verksmiðjunnar og það hve annt Sveini er um fyrirtækið, fær hann til þess að leggja niður umboð sitt. - Stjórnin hefði það aldrei af honum tekið. - 

Að öðru leyti skýra bréfin sig sjálf og mál það sem þau fjalla um, og sýna glögglega að það er Sveinn sem stendur með pálmann í höndunum. 

En fordæmi það sem Sveinn hefir hér gefið, ætti að verða stjórn verksmiðjunnar og starfsfólki holl hvöt til að rækja skyldur sínar, hver í sínum verkahring, jafnvel og hann, en á það hefir mörgum þótt skorta á undangengnum árum. 

------------------------------------------------------------

Reykjavík 11. júlí 1932.

Hæstvirtur ráðherra. 

Eins og yður er kunnugt, hefir Verkamannafélag Siglufjarðar gert það að skilyrði fyrir samningum um kaupgjald verkamanna við vinnu hjá Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, að ég víki úr stjórn verksmiðjunnar. Ég tel nú að vísu, að krafa þessi sé með öllu óréttmæt. 

Hinsvegar heft ég, eins og yður er kunnugt, frá öndverðu lagt áherslu á það eitt, að verksmiðjan verði rekin svo, að möguleiki sé fyrir, að allir aðilar beri eitthvað úr býtum og með því nú að verkamenn í landi hafa að mestu aðhyllst þá kauplækkun er ég hefi talið nauðsynlega, þá hefi ég ákvarðað að segja lausu starfi mínu í stjórn verksmiðjunnar og geri það hér með. 

Virðingarfyllst

Sveinn Benediktsson (sign.) 

Til atvinnumálaráðherra.

---------------------------------------------------

 Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið.

Reykjavik, 12. júlí 1932. 

Í tilefni af bréfi yðar, herra framkvæmdarstjóri. dags. f gær, um lausn yðar úr stjórn Síldarverksmiðjustjórn ríkisins á Siglufirði, vill ráðuneytið taka þetta fram. Þegar valið var í stjórn Síldar verksmiðjunnar í síðastliðnum mánuði, var af hálfu ráðuneytisins lögð rík áhersla á, að þér tækjuð sæti í henni og er traustið á yður, til að leysa af hendi starfið, óbreytt. 

Að sjálfsögðu er ekki hægt að sætta sig við, að aðrir ráði hverjir eiga sæti i verksmiðjustjórninni en ríkisstjórnin, því að hún ber ábyrgð gagnvart ríkinu á afkomu verksmiðjunnar og verður því að hafa óbundnar hendur um þá menn, sem hún treystir best til að gegna starfinu.

Ráðuneytið óskar því, að málið verði athugað betur áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Magnús Guðmundsson (sign)

Vigfús Einarsson (sign) 

Til framkvæmdastjóra

Sveins Benediktssonar, Reykjavík. 

-----------------------------------------------------------

Reykjavik, 12. júlí 1932.

Hæstvirtur ráðherra. 

Ég hefi móttekið bréf yðar dagsett í dag.

Eins og ég sagði í bréfi mínu til yðar í gær, hefir Verkamannafélag Siglufjarðar nú gengið i aðalatriðum að kauplækkun þeirri, sem verksmiðjustjórn fór fram á og er deil­an að því leyti leyst. En hinsvegar hefir nokkrum lýðsnápum tekist að æsa verkalýðinn á Siglufirði svo gegn mér, í tilefni af hvarfi Guðmundar Skarphéðinssonar, að ég er sannfærður um, að skjót lausn fæst ekki á deilunni, nema ég segi mig úr stjórninni. Skjót lausn málsins er hinsvegar bráðnauðsynleg. 

 Til þess að svo megi verða, hefi ég sagt mig úr verksmiðjustjórninni. Lausn­arbeiðnin er byggð á því sama og ég sagði í bréfi mínu, dagsettu 31. maí, til ráðuneytisins, þar sem ég lagði til, að verksmiðjan yrði rekin í sumar, til þess, ef mögulegt væri, að hinir mörgu, er lífsuppaldi hafa af síldarútveginum, missi ekki þann stuðning, sem verksmiðjan veitir þessum atvinnuvegi.

Held ég því fast við fyrri ákvörðun mína. 

Virðingarfyllst

Sveinn Benediktsson (sign).

Til atvinnumálaráðherra.