Árið 1948 - Vegavinna SR

Sofandi bæjarstjóri                                            

Mjölnir 18. ágúst 1948.

Stjórn S.R. samþykkti fyrir hálfum mánuði, að leggja til vinnu við lagfæringu á Þormóðsgötu og Norðurgötu.

Bæjarstjóri dregur að byrja á verkinu í nærri hálfan mánuð. - Athugun á atvinnuhorfum í bænum hefur ekki getað byrjað vegna þess, að gögn frá bæjarstjóra hefur vantað. 

Fyrir allöngu var samþykkt í bæjarstjórninni að leita samkomulags við stjórn S.R. um, að verksmiðjurnar tækju þátt í kostnaði við uppbyggingu Þormóðsgötu og lagfæringu á Norðurgötu, með tilliti til þess, að aðalumferðin um þessar götur er frá verksmiðjunum. - Bauðst bærinn til að leggja fram vélar og áhöld til framkvæmdanna, ef verksmiðjurnar legðu til vinnuaflið. 

Þessi málaleitun var síðan tekin fyrir á fundi verksmiðjustjórnar og samþykkt að verða við henni. Gerðist þetta 6. ágúst sl. og var bæjarstjóra tilkynnt það samstundis. 

Nú skyldi margur ætla, að bæjarstjórinn hefði rokið upp til handa og fóta og gripið tækifærið undir eins, úr því að lítið var að gera í verksmiðjunum og látið byrja á verkinu með eins miklum mannafla og hægt var að koma að því og fá í verksmiðjunum. 

En sú varð þó ekki raunin á. Það var ekki fyrr en eftir nærri því hálfan mánuð, eða síðastliðinn mánudag, sem hann loksins rumskaði og lét byrja á verkinu.

 Hver einasti maður, nema e.t.v. bæjarstjórinn, hlýtur að sjá í hendi sér, að heppilegast hefði verið að hefja þetta verk meðan lítið var að gera í verksmiðjunum. 

Ef síld hefði farið að veiðast eitthvað að ráði, svo sem allir vonuðu og vona enn að verði, hefðu verksmiðjurnar tæpast getað séð af einum einasta manni til þessa verks. 

Og ekki er ósennilegt, að verksmiðjurnar verði tregar til að leggja í mikinn kostnað við þetta verk síðar, þegar bræðslutíma er lokið, úr því að bæjarstjóranum er það ekki meira áhugamál en svo, að hann sinnir því ekki á neinn hátt þegar lítið er að gera í verksmiðjunum og vel hægt að sjá af mönnum þaðan. 

Það eru því líkur til, að þessi svefnpurkuháttur bæjarstjórans skaði bæinn um stórfé, e.t.v. tugi þúsundir króna. 

Þá er rétt að geta þess, að athugun sú, sem bæjarstjóra fól allsherjarnefnd á síðasta fundi sinum að láta fara fram á atvinnuástandinu í bænum, og ljúka fyrir 20. þ.m., hefur ekki getað hafist ennþá, vegna þess, að bæjarstjórinn hefur ekki tilbúin nauðsynleg gögn og skýrslur, sem nefndin þarf að hafa til þess að geta unnið þetta verk.

Virðist bæjarstjórinn hafa næsta lítið yfirlit yfir fjárhag bæjarins og hinna ýmsu sjóða hans og fyrirtækja, og fylgjast slælega með framkvæmdum. 

Kveður þá rammt að sofandahættinum, þegar bæjarstjórnin og nefndir hennar geta ekki starfað, vegna þessa, að bæjarstjórinn fylgist svo illa með, að hann getur ekki gefið nauðsynlegustu upplýsingar, sem bær þurfa að styðjast við í starfi sínu.