Árið 1939 - Hverjir eiga að byggja

Hverjir eiga að byggja síldarverksmiðjur?     Mjöl og Lýsissaga - Allt efni hér

Einherji, 1. september 1939 Grein Þorsteinn M

Hinir svokölluðu "Rauðku-menn" á Siglufirði hafa deilt mjög á þann hluta stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, sem taldi réttara að auka við afkastagetu Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, heldur en að endurbyggja og stækka verksmiðjuna "Rauðku". 

Rauðkumenn hafa í þessu máli einblínt á hagsmuni Siglufjarðar, en stjórn S.R. ber vitanlega fyrst og fremst að taka tillit til hagsmuna útgerðarmanna og sjómanna, fremur en til sérhagsmuna Siglufjarðarkaupstaðar. 

Að vísu höfum við þrímenningarnir í stjórn S.R., sem andvígir höfum verið stækkun Rauðku, álitið, að Siglufjarðarbær myndi ekkert græða á stækkun hennar, samkvæmt áliti því, er við sendum atvinnumálaráðherra um mál þetta, og sem prentað hefir verið í síðasta blaði Einherja. 

Ætla ég því ekki að ræða þá hlið málsins í grein þessari, heldur aðeins þá hlið, sem snýr að útgerðarmönnunum.

Skipta má öllum Síldarverksmiðjum í landinu í þrjá flokka: Einstaklinga- og hlutfélagaverksmiðjur, bæja-og sveitafélagaverksmiðjur og ríkisverksmiðjur. 

Hvorki einstaklingar né bæja- eða sveitafélög hafa halt fjármagn til að byggja Síldarverksmiðjur, nema með stórkostlegri hjálp bankanna, eða jafnvel að öllu leyti með lánsfé frá þeim. 

Þessar verksmiðjur eru því allar að meira eða minna leyti á ábyrgð ríkisins, þar sem ríkið ber ábyrgð á bönkunum. Margar þessara verksmiðja eru mjög illa stæðar og hafa bankarnir orðið að taka að sér yfirumsjón og ábyrgð að öllu leyti á rekstri sumra þeirra. 

Á Seyðisfjarðarverksmiðjunni og Norðfjarðarverksmiðjunni hafa orðið stórkostleg töp og ekki sjáanlegt að þær verksmiðjur geti nokkru sinni borgað nokkurn hluta af stofnkostnaði sínum. 

Þær voru þó báðar byggðar í gróðaskyni fyrir sín bæjarfélög, en þær gróðavonir hafa að öllu leyti brugðist. Húsvíkingar byggðu verksmiðju til bjargar Húsavíkurhafnarsjóði, en þegar verksmiðjan var komin upp, sáu þeir engin tök á að reka hana og S.R. hefir orðið að taka við rekstri hennar. 

Hvernig hefir svo tilkoman verið á rekstri Rauðku, sem hefir verið eign Siglufjarðarbæjar?  Síðastliðið ár tap sem nema tugum þúsunda.

Fáar aðrar Síldarverksmiðjur í landinu, en Síldarverksmiðjur ríkisins, hafa eignast nokkurt fjármagn að mun. 

Ríkisverksmiðjurnar eru búnar að græða og greiða í rekstri sínum um þriðja hluta þess fjár, sem i þær hefur verið lagt, eða um 1½  miljón króna. 

Og höfuðorsökin til þess, að Síldarverksmiðjur ríkisins standa sig hlutfallslega betur en aðrar Síldarverksmiðjur í landinu, er fyrst og fremst því, að þær hafa jafnan haft nægilega mörg veiðiskip. 

Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið dreifðar á þrjá staði í landinu, sem hafa legið alllangt hver frá öðrum, og viðskiptaskip þeirra hafa ekki verið fastbundin til þess að landa á einum vissum stað, t.d. Siglufirði. 

Hafa því jafnan nægilega mörg skip viljað skipta við þær. Þegar hin stóra Raufarhafnarverksmiðja verður fullbyggð, og þar verður 6.500 mála afkastageta á sólarhring, sem vonandi verður þegar á næsta ári, þá mun eftirsókn skipa, að leggja upp síld sína hjá S.R., vaxa að mun.

Að minnsta kosti munu öll hin smærri ófús að leggja upp Síld sína annarstaðar. 

Ég hefi að vísu heyrt marga Rauðkumenn halda því fram, að Útvegsbankinn myndi skuldbinda sína viðskiptamenn, er síldarútgerð reka, til þess, að leggja upp hjá Rauðku, síld af skipum sínum. 

En þótt bankinn gerði slíkt, hversu lengi myndi viðskiptamennirnir gera sig ánægða með þá ráðstöfun?

Þegar síldin liggur aðallega við Melrakkasléttu og Langanes eða jafnvel austur á Vopnafirði, þá myndi viðskiptaskipum Rauðku þykja afstaða sín slæm borin saman við viðskiptaskip S.R., þar sem viðskiptaskip S.R. þyrftu oft og tíðum ekki að sigla með afla sinn nema til Raufarhafnar, en viðskiptaskip Rauðku með sinn afla ævinlega alla leið til Siglufjarðar. 

Annars álít ég, að Síldariðnaður okkar ætti allur að vera undir einum hatti; allar Síldarverksmiðjurnar í landinu, að vera eitt fyrirtæki, en það sé ég ekki framkvæmanlegt með öðru móti en því, að þær séu allar ríkisverksmiðjur, enda sýnist það eðlilegast, þar sem eins og að framan er tekið fram, að þær eru flestar eða allar nú í raun að vera á ábyrgð ríkisins, beint eða óbeint, að meiru eða minna leyti. 

Þetta fyrirkomulag ættu að minnsta kosti sumir af stjórnmálaflokkunum að vera einhuga um, svo framalega sem þeir eru stefnu sinni trúir, og á ég þar við Alþýðuflokkinn og Kommúnistaflokkinn, sem báðir vilja viðtækan ríkisrekstur í mörgum greinum, og sem margoft hafa lýst yfir því, að þeir vilji að allur stórrekstur sé ríkisrekstur. 

Nú er Síldariðnaðurinn mesti stórrekstur hér á landi. Þykir mér því framkoma flokksmanna þessara flokka undarleg hér á Siglufirði, sem berjast gegn því, að sú hugmynd komist í framkvæmd, að ríkisrekstur verði á öllum síldarverksmiðjum í landinu. 

Sumir þeirra, sem ég hefi talað við um mál þetta, hafa sagt sem svo: Við erum með ykkur í stækkun S.R. og föllumst á röksemdir ykkar gegn stækkun Rauðku í þessu efni, ef þið takið þegar allar Síldarverksmiðjur í landinu undir rekstur S.R. 

En vitanlega er það ekki á valdi stjórnar S.R. Það verður að gerast smátt og smátt, og það verður gert smátt og smátt, því að svo mun fara fyrir fleiri Síldarverksmiðjum í landinu en Húsavíkurverksmiðjunni, að þær leita á náðir S.R., þegar þær reka í strand. 

Annað mál er það, að fyrir þá, sem eru mér sammála um það efni, að heppilegast sé að síldarverksmiðjur allar í landinu séu ríkisverksmiðjur, þá 

er sjálfsagt fyrir þá, að beita sér fyrir því, að úr þessu fái engir leyfi til að nýbyggja eða stækka síldarverkmiðjur aðrir en S.R. Með þetta mál verður að fara líkt og þegar bær er skipulagður. Ný hús má ekki byggja, sem brjóta skipulagið, þótt gömlu húsin, sem koma í bág við það, fái að standa fyrst um sinn, eða jafnvel þangað til að þau eru úr sér gengin. 

Hagsmunum útgerðarmanna og sjómanna er áreiðanlega best borgið með því, að allar verksmiðjur landsins sé eitt heildarfyrirtæki. Þá geta skip þeirra lagt upp síld sína í þá verksmiðju, sem næst er veiðistað, meðan þar eru ekki allar þrær fullar, en ekki eins og nú er. Nú verður skip, sem samningsbundið er með veiði sína við Djúpuvik, að sigla með hana þangað, þótt veiðin sé fengin austur við Langanes eða við Austfirði. 

Skip, sem samningsbundið er við verksmiðju á Siglufirði, verður undir öllum kringumstæðum að sigla með veiðina þangað, þótt veiðin sé fengin vestur við Strandir og þótt nægilegt þróarýni sé á Djúpavik eða jafnvel þótt Djúpavíkurverksmiðjan hefði ekkert hráefni fyrirliggjandi. 

Þetta mál virðist mér vera augljóst, en með því fyrirkomulagi sem nú er getur vel svo farið og er ekki svo sjaldan, að til sumra verksmiðja, svo sem til verksmiðju S.R. hér á Siglufirði, berist svo mikil síld að skipin verði að bíða dögum saman eftir afgreiðslu, en annarsstaðar á landinu séu verkmiðjur hráefnislausar. 

Enn vil ég taka  fram til athugunar í þessu máli. Ef allar síldarverksmiðjur í landinu eru sama fyrirtækið, þá ætti rekstur þeirra að verða að einhverju leyti talsvert ódýrari, en hann er nú.

Þorsteinn M. Jónsson.

Þorsteinn M. Jónsson (stjórn SR) Lósmyndari: ókunnur